Færsluflokkur: Menning og listir
19.9.2017 | 19:23
Gestavinnustofa Gilfélagsins er laus til útleigu í október
Gestavinnustofa Gilfélagsins er laus til útleigu í október, um er að ræða 16. - 23. október og 23. - 30. október - afhent eftir hádegi á mánudegi og skilað fyrir hádegi á mánudegi. Verð fyrir vikuna er 25.000 kr. Innifalið í verði er möguleiki á að halda viðburð/sýningu í Deiglunni eftir samkomulagi.
Vinnustofan er í Kaupvangsstræti 23, Akureyri, og er fullbúin og hentar ágætlega fyrir einn til tvo listamenn. Nánari upplýsingar um aðstöðuna er á heimasíðu okkar, www.listagil.is
Áhugasamir hafi samband á studio.akureyri@gmail.com
Þriðjudaginn 19. september kl. 17-17.40 heldur mexíkóski ljósmyndarinn Alfredo Esparza Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Contemporary Mexican Photography. Fyrirlesturinn gefur innsýn í mexíkóskar hefðir og menningu sem skapast hafa í tengslum við ljósmyndun bæði listræna- og heimildaljósmyndun. Rætt verður um hin margvíslegu umfjöllunarefni samtíma ljósmyndara. Aðgangur er ókeypis.
Alfredo Esperaza lauk mastergráðu í húmanískum fræðum í Mexíkó 2008 og námi í samtímaljósmyndun 2012. Hann hefur sýnt ljósmyndir sínar víða um heim og vinnur um þessar mundir að list sinni á Íslandi.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Menntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Jessica Tawczynski, Natalia Dydo, Päivi Vaarula og Hugleikur Dagsson.
www.listak.is
11.9.2017 | 19:54
Listasafnið á Akureyri opnar sýningu á Hjalteyri
Laugardaginn 16. september kl. 15 opnar Listasafnið á Akureyri sýningu á vídeóverkum úr safneign í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Verksmiðjan er afar hrátt húsnæði og skapar þar af leiðandi heillandi umgjörð um þessa tegund myndlistar. Vídeóverk hafa ekki verið áberandi í safneign Listasafnsins en á síðustu árum hefur orðið þó nokkur breyting þar á. Sýningin er liður í því að sýna verk úr safneigninni í nýju ljósi og er unnin í samvinnu Listasafnsins og Verksmiðjunnar á Hjalteyri.
Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Arna Valsdóttir, Ine Lamers, Klængur Gunnarsson og Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir. Sýningin stendur til 1. október og verður opin þriðjudaga-sunnudaga kl. 14-17.
11.9.2017 | 15:10
Jón Þór Sigurðsson, margmiðlunarhönnuður, með fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins
Þriðjudaginn 12. september kl. 17-17.40 heldur Jón Þór Sigurðsson, margmiðlunarhönnuður, fyrsta Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins sem að þessu sinni fer fram í stofu M01 í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Aðgangur er ókeypis.
Í fyrirlestrinum mun Jón Þór fjalla um Fab Lab smiðjuna sem var opnuð í VMA í desember 2016. Að smiðjunni standa Nýsköpunarmiðstöð Íslands, VMA, Akureyrarbær og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Fab Lab stendur fyrir Fabrication Laboratory og er alþjóðlegt net stafrænna smiðja með tækjum og tólum. Smiðjan gefur fólki á öllum aldri tækifæri til þess að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Menntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Alfredo Esparza, Natalia Dydo, Päivi Vaarula og Hugleikur Dagsson.
7.9.2017 | 15:43
Fundur fólksins: Er skapandi starf metið að verðleikum?
Listasafnið á Akureyri ásamt Sambandi íslenskra myndlistarmanna tekur þátt í Fundi fólksins í Hofi á Akureyri.
Dagskráin fer fram laugardaginn 9. september kl. 11:00-11:50 á sviðinu í Hamraborg í Hofi.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna, Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu, Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og myndlistarkonan Rúrí verða í pallborði og velta fyrir sér hvort skapandi starf sé metið að verðleikum auk fleiri spurninga um hvernig hægt sé að efla menningu, lýðræði og gangrýna hugsun í samfélaginu.
Átak SÍM, "Við borgum myndlistarmönnum", hefur verið áberandi og einnig umræðan um listkennslu í skólum. Fjármagn sem fer til menningarmála og mikilvægi menningar fyrir samfélagið verður einnig rætt. Öllum er velkomið að leggja orð í belg og taka þátt í umræðunum.
Sama dag, laugardaginn 9. september kl. 15, opna tvær sýningar í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi - Rúrí: Jafnvægi-Úr Jafnvægi og Friðgeir Helgason: Stemning.
Meðfylgjandi mynd er af gjörningnum "Léttvæg tilvistarkreppa" eftir Heiðdísi Hólm á nýafstaðinni A! Gjörningahátíð.
https://www.facebook.com/events/517948458553761
Laugardaginn 9. september kl. 15 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu, Ketilhúsi, annars vegar sýning Rúrí, Jafnvægi-Úr Jafnvægi, og hins vegar sýning Friðgeirs Helgasonar, Stemning.
Á sýningu sinni leggur Rúrí listina á vogarskálar. Vogarskálar vega sögu mannkyns og jarðar, vega tíma, vega vægi mismunandi gilda, til dæmis hagkerfi á móti vistkerfi, eða vægi huglægra gilda. Verkið er innsetning og er samsett úr fjölda eininga.
Rúrí (f. 1951) hefur um árabil safnað skálavogum og vigtum frá ýmsum tímum. Vigtarnar eru margvíslegar að gerð en byggja allar á jafnvægi. Vogir og ýmis önnur mælitæki eins og klukkur, hnattlíkön og landakort eru módel af þeim heimi sem við þekkjum og mynda hluta innsetningarinnar. Hin sterka tilvísun vogarinnar setur spurningarmerki við ójafnvæga afstöðu milli t.d. hagkerfa og vatnsforða jarðar, stríðs og friðar. (Christian Schoen; Fragile Systems, Nordatlantens Brygge, Copenhagen, 2016)
Rúrí hefur starfað að myndlist frá 1974. Verk hennar hafa verið sýnd á fjölmörgum sýningum í Evrópu, Asíu og N-Ameríku og þau má finna í íslenskum og erlendum söfnum auk þess sem útilistaverk eftir hana hafa verið sett upp bæði á Íslandi og erlendis. Rúrí var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2003 þar sem verkið Archive Endangered Waters vakti mikla athygli. Frekari upplýsingar má finna á ruri.is.
Stemning þjóðveganna fönguð
Friðgeir Helgason (f. 1966) flutti ungur til Bandaríkjanna. Hann lagði stund á kvikmyndagerð í Los Angeles City College í Hollywood 2005-2006, þar sem ljósmyndun fangaði huga hans. Hann stundaði ljósmyndanám við sama skóla frá 2006 til 2009 og hefur haldið fjölda ljósmyndasýninga í Bandaríkjunum og á Íslandi.
Ljósmyndirnar á þessari sýningu voru teknar á árunum 2008-2013 þegar ég þvældist um þau svæði sem mér þykir vænst um: annars vegar á Íslandi og hins vegar í Louisiana í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Myndirnar voru allar teknar á Kodakfilmu sem ég prentaði í stækkara upp á gamla mátann. Það jafnast fátt á við að keyra stefnulaust um þjóðvegi með gamla góða Pentaxinn og slatta af filmu í skottinu. Stoppa í vegasjoppum, fá sér í gogginn og spjalla við innfædda. Skynja andrúmsloftið og taka ljósmynd þegar tækifæri gefst. Þessi sýning á að fanga þá stemningu.
Fjölskylduleiðsögn um sýningarnar
Laugardaginn 14. október kl. 11-12 verður Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, með fjölskylduleiðsögn og segir börnum og fullorðnum frá sýningunum. Að lokinni leiðsögn verður gestum boðið að búa til sitt eigið listaverk. Aðgangur er ókeypis en tilkynna þarf um þátttöku á netfangið heida@listak.is.
30.8.2017 | 11:06
A! Gjörningahátíð / A! Performance Festival Akureyri
A! Gjörningahátíð / Performance Festival
Akureyri, Iceland 31.08. - 03.09. 2017
A! Gjörningahátíð er fjögurra daga hátíð sem hefst fimmtudaginn 31. ágúst og lýkur sunnudaginn 3. september. Að hátíðinni standa: Listasafnið á Akureyri, LÓKAL alþjóðleg leiklistarhátíð, Reykjavík Dance Festival, Menningarfélag Akureyrar, Leikfélag Akureyrar og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar. A! er hátíð þar sem myndlistar- og sviðslistafólk fremur gjörninga og setur upp gjörningatengd verk.
A! Gjörningahátíð er nú haldin í þriðja sinn en hátíðin sló strax í gegn þegar hún var haldin í fyrsta skipti í september árið 2015 og sóttu um 1.500 ánægðir gestir hátíðina. Þátttakendur voru vel þekktir gjörningalistamenn, leikarar og ungir, upprennandi listamenn. Vídeólistahátíðin Heim var haldin á Akureyri á sama tíma og off venue viðburðir víðsvegar um bæinn.
Margrét Elísabet Ólafsdóttir listfræðingur sagði í pistli í Víðsjá á Rás 1 um hátíðina meðal annars:
"Dagskrá Gjörningahátíðarinnar A! var því ekki aðeins fjölbreytt heldur í heildina einkar vel heppnuð. Sú ákvörðun að stefna saman eldri listamönnum og upprennandi, gestum og heimamönnum virðist vera góð uppskrift að hátíð sem vonandi verður árlegur viðburður."
Gjörningarnir á A! 2017 munu fara fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, Samkomuhúsinu, Hofi, Verksmiðjunni á Hjalteyri, Kaktus, Rósenborg, Deiglunni, Lystigarðinum og á fleiri stöðum á Akureyri.
Listamennirnir og hóparnir sem taka þátt að þessu sinni eru: Arna Valsdóttir (IS) og Suchan Kinoshita (J/NL), Gabrielle Cerberville (USA), Gjörningaklúbburinn / The Icelandic Love Corporation (IS), Heiðdís Hólm (IS), Hekla Björt Helgadóttir & Svefnleikhúsið - The Sleep Theatre (IS), Katrine Faber (DK), Magnús Logi Kristinsson (IS/SF), Voiceland Gísli Grétarsson (IS/N), Mareike Dobewall (D) og Hymnodia (IS), Ragnheiður Harpa Leifsdóttir (IS), Rúrí (IS), Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir (IS) og Liv-K. Nome (N).
Á sama tíma fer vídeóalistahátíðin Heim fram og þar taka þátt nemendur Suchan Kinoshita úr Listakademíunni í Münster, Þýskalandi: Hui-Chen Yun, Sabine Huzikiewiz, Lejla Aliev, Daniel Bernd Tripp, Mila Petkova Stoytcheva, Fabian Lukas Flinks, René Haustein, Inga Krüger, Georg Mörke, Lisa Katharina Droste, Nadja Janina Rich, Alyssa Saccotelli, Micael Gonçalves Ribeiro, Hagoromo Okamoto, Bastian Buddenbrock, Jana Rippmann, Kai Bomke og Takahiko Kamiyama.
Myndlistarsjóður styrkir A! Gjörningahátíð.
Guðrún Þórsdóttir er verkefnastýra A! Gjörningahátíðar.
https://www.facebook.com/A.performance.festival
25.8.2017 | 09:49
Ljósmyndasýning Siggu Ellu í Listasalnum Braga
Ljósmyndasýning / Sigga Ella / Listasalurinn Bragi
Í Listasalunum Braga, Rósenborg eru tvær sýningar ljósmyndarans Sigríðar Ellu Frímannsdóttur, www.siggaella.com
Sýningarnar sem um ræðir eru:
JÓHANNSSON Portrett af fjórum bræðrum, fæddum á Langanesi á árunum 1948 til 1959. Þrír bræðranna hafa verið sjómenn nær allt sitt líf. Einn þeirra er bóndi.
HEIMA Verk í vinnslu. Ljósmyndir frá Akureyri.
Sigga Ella hefur hlotið viðurkenningar og verðlaun fyrir verk sín og sýnt þau bæði hér heima og erlendis. Hún hefur gefið út tvær bækur, Bloodgroup (2014) og Fyrst og fremst er ég (2016).
Verið velkomin. Listasalurinn Bragi, fjórðu hæð í menningarmiðstöðinni Rósenborg, Skólastíg 2, Akureyri.
Ég er hluti af Akureyrarvöku!
#akureyrarvaka
https://www.facebook.com/events/111613356216972
24.8.2017 | 11:03
Fólkið í bænum sem ég bý í hjá Flugu hugmydahúsi
Fólkið í bænum sem ég bý í er óvenjuleg og spennandi listasýning sem samanstendur af 8 listrænum ör-heimildamyndum. Í hverri mynd verður sjónum beint að einum einstakling í bænum (Akureyri). Einstaklingarnir átta eru 4 konur og 4 karlar, á ólíkum aldri og með ólikan bakgrunn, en sameiginlegi flöturinn er búseta þeirra á Akureyri. Jafnframt verða munir úr þeirra eigu og fleira til sýnis ásamt ljósmyndum eftir Daníel Starrason.
Sýningin opnar föstudagskvöldið 25. Ágúst kl 20:30 á Ráðhústorgi 7 (inn um rauðu dyrnar)
Léttar veitingar í boði, bæði í föstu formi og þessar góðu fljótandi...
Við erum hluti af Akureyrarvöku!
#akureyrarvaka
Verkefnið er styrkt af Eyþingi - Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra
#Eyþing
#Uppbyggingarsjóður
https://www.facebook.com/events/500065267011246
24.8.2017 | 09:27
Else Ploug Isaksen og Iben West sýna í Deiglunni
Verið velkomin á opnun TRANSLATIONS í Deiglunni, Kaupvangsstræti 23, laugardaginn 26. ágúst kl. 14 17 og þiggja léttar veitingar. Sýningin er einnig opin sunnudaginn 27. ágúst kl. 14-17.
Dönsku myndlistarmennirnir Else Ploug Isaksen og Iben West munu sýna verkefnið TRANSLATIONS í Deiglunni. Sýndar verða ljósmyndir og textar.
TRANSLATIONS er verk í vinnslu. Iben og Else eru gestalistamenn Gilfélagsins í ágúst og hafa skipts á ljósmyndum og texta við fjóra íslenska rithöfunda, Hallgrím Helgason, Einar Má Guðmundsson, Kristínu Ómarsdóttur og Sigurbjörgu Þrastardóttur. Samtalið hefur myndast með því að Iben og Elsa senda ljósmyndir frá dvöl þeirra á íslandi og rithöfundarnir svara með texta og öfugt. Skiptin eru eins og hugarflæði, ljóðrænt flæði sem hefur sinn eigin veruleika.
Opnun laugardaginn 26. ágúst kl. 14 á Akureyrarvöku.
Einnig opið 27. ágúst kl. 14-17.
Við erum hluti af Listasumri!
Gilfélagið er styrkt af Akureyrarstofu
///
You are invited to the opening of TRANSLATIONS in Deiglan, Kaupvangsstræti 23, on saturday, august 26th at 2 5pm. Exhibition is also open on sunday 2 5pm.
The two Danish visual artists, Else Ploug Isaksen and Iben West exhibit the project TRANSLATIONS in Deiglan. Photographs and texts will be shown.
TRANSLATIONS is a work in progress. During their stay as Artists in Residency, Iben and Else have exchanged photos and words with four Icelandic writers, Hallgrímur Helgason, Einar Már Guðmundsson, Kristín Ómarsdóttir and Sigurbjörg Þrastardóttir. The dialogue consists of Iben and Else sending photos from their stay in Iceland, and the authors answer with words and vice versa. The exchange is like a stream of thoughts, a poetic flow having its own logic.
https://www.facebook.com/events/224881011370452/