Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Rætur

Screen Shot 2012-05-30 at 9.09.14 PMKetilhúsið 2. júní KL. 15:00

14 ungir listamenn sem eiga rætur sínar að rekja til Akureyrar opna samsýningu. Þið munið öll deyja. The end of art or? Höldum ró okkar en engu að síður köstum við varnöglum út um allt, sérstaklega í ykkur sýningargestir sælir. Oft eru listilegir varnaglar mjög nauðsynlegir, það vitum við galgoparnir frá Akureyri sem smökkuðum okkar fyrsta landasopa á Ráðhústorginu, misstum meydóma og sveindóma í Hlíðarfjalli og tókum okkar fyrsta smók af jónum í kirkjutröppunum og lentum svo í allsherjar ryskingum (ég held y) í Skátagilinu. Fyrir okkur er Akureyri heim. Á lifandi hátt er heim þó svo margt, bæði gott og slæmtu. Hvað sem þú heitir, hver sem þú ert, hvort þú ert miss fucking with you, prestur, íþróttabjálfi, sæt og klár vörubílstjóri eða ráðanautur þá er okkur öllum hollt að líta í kringum okkur. Taka inn lífið, listina og öll þau heimsins undur sem verða leyst úr læðngi hér í dag og fram eftir sumri. Við erum ung og erum á barmi mestu vitundarvakningar og ævintýra sem mannkynið hefur orðið vitni að. Þér er boðið með. Velkomin, njóttu og lifðu. Innri vitund er það eina sem er eilíft, þar sem hinn raunverulegi sannleikur leynist. Vitundarstig okkar fer rísandi burt frá áreitinu og við hættum að vera þrælar hugans. Við förum að lifa í hjartanu, hjartað verður megin hugsunarafl okkar. Leiðandi orka alheimsvitundarinnar stendur okkur til boða og er rétti tíminn til þess að taka á móti henni. En við þurfum engan til að segja okkur þessa hluti, þetta er einfalt, eins einfalt og að kasta tómat í dauðan fugl. En stundum þarf maður einhvern til að benda sér á það. Við viljum með list, ást og pönki að við sameinumst í því sem er. Lifum á líðandi stundu og tökum nokkur dansspor upp úr þurru, purrum í hálsakotið á manninum eða konunni sem stendur okkur næst.

Texti: G. Viktoría Jóhanns- Hjördísardóttir Blöndal

Listakonur/menn eru: Auður Ómarsdóttir, Ari Marteinsson, Arnar Ómarsson, Georg Óskar Giannakoudakis, Guðrún Þórsdóttir, G. Viktoría J.H. Blöndal, Hekla Björt, Katrín Erna, Lily Erla, Máni Sigurðsson, Rakel Sölvadóttir, Sara Björg, Vala Höskuldsdóttir, Victor Ocares


Nýkjörin stjórn Myndlistarfélgsins á Akureyri.

img_0584.jpg

Aðalfundur Myndlistarfélagsins á Akureyri var haldinn 24.maí síðastliðinn. Félagsmenn áttu mjög góðan fund í hefðbundnu sniði Aðalfundar og var fjölmennt á fundinum. Guðrún Harpa Örvarsdóttir formaður félagsins fór yfir þau helstu atriði sem bæði stjórnin og félagsmenn hafa tekið sér fyrir hendur frá síðasta Aðalfundi. Eins fór hún yfir þau verkefni sem bíða þess að félagið taki sér fyrir hendur og það er óhætt að segja að ný stjórn hafi skemmtileg verk að vinna og sú gamla hafi áunnist margt á þessum tíma. Margir buðu sig fram í stjórn félagsins og þurfti að kasta hlutkesti á ákveðnum tímapunkti til að skera úr um hverjir kæmust í stjórnina. Mikil gleði ríkti og jákvætt andrúmsloft sveif yfir áhugasömum listamönnum í Listagilinu þetta kvöld. Ný stjórn félagsins er nú skipuð þeim Guðrúnu Hörpu, Helga Vilbergi, Lárusi H. List, Ingu Björk og Helgu Sigríði. Varamenn eru Stefán Boulter og Telma Brimdís Nýr félgaslegur skoðunarmaður og endurskoðandi var kosinn til eins árs og er Hallmundur Kristinsson ásamt varamanni henni Ástu Báru.


Safnasafnið með 10 nýjar sýningar

IMG_2662

Laugardaginn 19. maí kl. 14.00 verða opnaðar 10 nýjar sýningar í Safnasafninu á Svalbarðsströnd, í tengslum við Alþjóðlega safnadaginn, og fjalla þær annars vegar um fjarlægð og nálægð, hins vegar um  aðstæður í afmörkuðu rými og tengsl við náttúruna

Aðalsýning Safnasafnsins í ár er á fyrstu hæð safnsins á harðviðarstyttum og teikningum Pálma Kristins Arngrímssonar skrúðgarðyrkjumeistara í Reykjavík, sem nú koma í fyrsta skipti fyrir almenningssjónir. Þar er líka kynning á málverkum eftir Eggert Magnússon sem ekki hafa verið sýnd áður, höggmyndum eftir Örn Þorsteinsson, styttum eftir Ragnar Bjarnason og gripum nemenda í Leikskólanum Álfaborg og Valsárskóla á Svalbarðsströnd. Á hæðinni er einnig litlar innsetningar Nini Tang, Birtu Guðjónsdóttur, Guðrúnu Veru Hjartardóttur, Jóns Laxdals og Eddu Guðmundsdóttur, og skúlptúrar af ýmsum stærðum eftir Ólaf Lárusson, Daníel Þorkel Magnússon, Kelly Parr, Ólöfu Nordal, Önnu Líndal, Bjarka Bragason, Ástu Ólafsdóttur, Kristínu Reynisdóttur og Hannes Lárusson

Á efri hæð eru sýnd málverk eftir Huldu Vilhjálmsdóttir, myndir með blandaðri tækni eftir Áslaugu Leifsdóttur, málverk og skúlptúrar eftir Ómar Stefánsson, og pappírsmyndir eftir Rúnu Þorkelsdóttur, Jan Voss og Henriette van Egten. Þar eru einnig sýnishorn úr slæðusafni Hildar Maríu Pedersen og bátar eftir marga höfunda, búnir til eftir máli, ljósmynd, minni og hugkvæmni

Sýningarstjórar eru Níels Hafstein, Harpa Björnsdóttir, Magnús Pálsson og Rúna Þorkelsdóttir

Á opnuninni verða léttar veitingar í boði sveitarstjórnar, frambornar af Kvenfélagi Svalbarðsstrandar

Í Safnasafninu eru 10 sýningarrými, bókastofa, veitingasalur, stórt anddyri og 67 m2 íbúð sem er leigð ferðafólki og fleirum eftir aðstæðum. Safnið er opið daglega frá kl. 10.00 til 17.00. Upplýsingar eru á  www.safnasafnið.is og fyrirspurnum svarað í síma 4614066 og safngeymsla@simnet.is


Valérie Boyce með opið hús í gestavinnustofu Gilfélagsins

valerie-boyce-1810-2.jpg

Franska listakonan Valérie Boyce er gestur maímánaðar

í gestavinnustofu Gilfélagsins.

 

Valerie býður gestum og gangandi í heimsókn á vinnustofuna í Kaupvangsstræti 23 (gengið inn að vestanverður),  laugardag 19. júní og sunnudag 20. júni kl. 14:00-17:00.

 

Listakonan dvaldi í Listamiðstöðinni Straumi í Hafnarfirði árið 1999. Hún hefur ferðast um landið og sótt innblástur víða í íslenskri náttúru. Myndirnar sem Valerie sýnir eru flestar af íslensku landslagi en einnig sýnir hún nokkrar húsa- og hafnarmyndir m.a. frá Dalvík.

Valerie Boyce er frá Verville í Frakklandi. Hún stundaði nám við Ecole nationale Supérieure des Beaux Arts de Paris og School of Visual Arts í New York.

 


Sigríður Huld opnar sýningu í Sal Myndlistarfélagsins

attachment_1153130.png

Verið velkomin á sýningu.

19. maí næstkomandi kl 14:00 mun ég, Sigríður Huld, opna sýninguna TEIKNING.

Sýningin fjallar um teikninguna og þær furðuverur...Skrípi, sem eiga heima í höfðinu á mér og hafa birst í formi teikningar. Sumar þeirra veit ég ekki hvaðan koma, aðrar eiga rætur sínar að rekja til tilfinninga minna og samfélagsins okkar. Þær sýna hálfgerðan martraðar heim og gætu vakið óhug hjá börnum og viðkæmum sálum.
Í okkur flestum býr eitt eða tvö Skrípi en spurningin er hvort þau sleppi út og fái að leika lausum hala allt í kringum okkur?
Er það óhætt?

Meðan á sýningu stendur mun ég teikna myndir sem verða til sölu á lágum prísum. Allt til styrktar listnámi í Svíþjóð sem ég stefni á næsta haust. Skrípin mín verða líka til sölu, spurning hvort einhver þorir að taka eins og eitt með sér heim...

Hlakka til að sjá ykkur sem flest!!! Þann 19. maí verður opið fram eftir kvöldi.
Til að svala þorstanum verður á staðnum ískalt sænkst íste í boði Bakgarðs Tante Grethe.

Sýningin verður opin helgarnar 19.-20. maí, 26.-27. maí og 2.-3. júní.

https://www.facebook.com/events/302506016491023


Opnun í Listasafninu á Akureyri -SYNTAGMA-

hudflurahals.jpg

Laugardaginn 19. maí kl. 15 verður sýningin SYNTAGMA opnuð í Listasafninu á Akureyri á vegum Sjónlistamiðstöðvarinnar, hinnar nýju samtímalegu menningarstofnunar Akureyrarbæjar sem tók til starfa um síðustu áramót og er því stofnunin sem slík aðeins tæplega fimm mánaða gömul. Sýningin á sér langan og flókinn aðdraganda sem hófst með einu símtali þegar sjónlistastjóri sjálfur hafði sambandi við safnstjóra Listasafns Reykjavíkur og óskaði eftir því að fá að sýna einn umdeildasta listamann heims í dag, Spánverjann Santiago Sierra. En sýning listamannsins lá þá einmitt á teikniborði safnstjórans, en sú nöturlega sýning sem boðið var upp á í Listasafni Reykjavíkur nú í ársbyrjun er eflaust mörgum í fersku minni.
 
Fjótlega rann það upp fyrir sjónlistastjóra að full ástæða væri til að tengja alþjóðlegan en afar misvísandi „boðskap“ Santiago Sierra inn í íslenskan veruleika og upphófust þá miklar bollaleggingar. Til að gera langa sögu stutta var niðurstaða hans sú, að réttast væri að fá til samstarfs við sig þrjá býsna ólíka myndlistarmenn, sem eiga það þó sameiginlegt að teljast mjög pólitískt þenkjandi. Hér eru þrjár kynslóðir leiddar til öndvegis í mið- og austursal Listasafnsins á Akureyri, en þær eru; aldursforsetinn Hildur Hákonardóttir, Ósk Vilhjálmsdóttir, fulltrúi gósentíma eftirstríðsáranna, og Steinnun Gunnlaugsdóttir, ein af hinum ungu og fífldjörfu valkyrjum okkar Nýja Íslands. Þess má geta að Steinunn er einn nímenninganna í dómsmáli ríkissaksóknara sem síðar var sýknuð af flestum ákæruliðum. Steinunn kallar sig stundum Súrkúlu Aragrúadóttur, kannski til að gefa til kynna að hún er að einhverju leyti afrakstur afbakaðs undaneldis —„súrsuð agúrka aragrúa karlmanna“— en þetta er vitaskuld bara ágiskun.
 
Einn erfiðasti leikurinn í huga sjónlistastjóra var að festa ekki sýninguna niður í neinar fyrirframgefnar formúlur, heldur halda öllum möguleikunum stöðugt opnum og lifandi fram á síðustu stundu. Í því skyni dró hann sig algjörlega í hlé eftir að hafa tengt þessa sýnendur saman, svo þeir gætu ráðið sínum ráðum, bæði sameiginlega og hver í sínu horni, því samskipti þeirra fóru mestmegnis fram í gegnum tölvupósta þar sem Hildur býr í Ölfusi, Ósk í Reykjavík og Steinunn var á flandri milli Spánar og Grikklands. Sjónlistastjóri flækti málin enn frekar með því að leita á náðir „fræðilegra karlamanna“, sem skyldu hafa það hlutverk með höndum að hlusta á hvað fram færi á milli Hildar, Óskar og Steinunnar til að túlka skoðanir þeirra og sköpunarferli, án þess þó að blanda sér á nokkurn persónulegan eða fræðilegan hátt inn í þeirra mál, Síst af öllu vandamál. Við og við setti sjónlistastjóri sig aftur inn í málin þegar dofna tók yfir samskiptunum hjá listamönnunum. Sem dæmi má nefna, að upp komu á milli 20 og 30 tillögur að titli sýningarinnar, sem að endingu hlaut heitið Syntagma. Sýningin dregur nafn sitt af grísku stjórnarskránni sem heitir eftir þingtorginu í miðborg Aþenu þar sem mesta ólgan hefur átt sér stað í landinu. Þar framdi 77 ára gamall karlmaður sjálfsmorð vegna örbyrgðar ekki alls fyrir löngu.
 
Þessar þrjár listagyðjur, Ósk, Steinunn og Hildur, fóru að lokum sínar eigin leiðir, enda þótt sú elsta og reyndasta, Hildur, hafi eitt sinn spurt að því í tölvupósti hver eiginlegur faðir sýningarinnar væri. Svaraði sjónlistastjóri því til að hann vissi það ekki svo gjörla og neitaði faðerninu nema lögð yrðu fram haldbær rök í málinu — ekki dygði minna til en (andlegt) DNA próf. Það er því enn á huldu hver sýningarstjórinn er og kallast hann því „Enginn Sko Sérstakur“. Framlag þessara þriggja kvenna er ægifagurt og sameiginlega mynda þær ótrúlega djúpan og magnaðan seið. Þetta er þeirra sýning, ekki sýningarstjórans, ekki karlmannsins sem skrifaði sýningarskrána og ekki heldur einkasýning Santiago Sierra. Hann er gestur á þessari sýningu og er því öllum verkum hans, sem handvalin voru inn á sýninguna, haldið vandlega einangruðum í vestursal Listasafnsins. Þannig er Sierra slitinn úr samhengi við verk hinna listamannanna á sýningunni sem vísa í hann, eða vísa ekki í hann, hér og þar með sínum hætti eins og þeim þóknast.
 
Höfundur textans í sýningarskránni, sem birtur verður aðeins sem vefskrá á heimasíðu Sjónlistamiðstövarinnar, er Magnús Sveinn Helgason (f. 1974), sem að lokum axlaði einn þá ábyrgð að sigla milli skers og báru í umfjöllun sinni um konurnar þrjár og Sierra. Í BA ritgerð Magnúsar fjallaði hann um peningastefnu á Íslandi á kreppuárunum, MA ritgerð hans var um Bændaflokkinn íslenska og Doktorsritgerðin var um upphaf neyslusamfélags í Svíþjóð og sænsku samvinnuhreyfinguna frá ofanverðri nítjándu öld til 1939. Magnús hefur á undanförnum árum kennt hin ýmsu námskeið í sögu á háskólastigi og þess fyrir utan skrifað um sögu fjármagnsmarkaða og kauphalla. Magnús var starfsmaður Rannsóknarnefndar Alþingis og er höfundur fimmta viðauka við skýrslu nefndarinnar.

Til að draga saman inntak sýningarinnar, mætti segja að hún varpi fram verufræðilegum og þekkingarfræðilegum spurningum á borð við mörk merkingar og merkingarleysis, samspilið milli samhengis og kerfis, reglu og óreiðu. Hún spyr einnig aðkallandi spurninga um þessa gjá, eða öllu heldur tómarúm, milli ólíkra þekkingarsviða; á milli vísinda og lista, kapítalisma og viðtekinna viðskiptahátta, náttúrunnar og innsta eðli mannsins og krefst svara við því hver ráði eiginlega yfir óskráðum siðareglum samfélagsins eftir að kirkjan glataði að mestu því áhrifavaldi á vesturlöndum. Síðast en ekki síst knýr sýningin fast á dyr allra skapandi myndlistarmanna: Hvað gerir listamann að listamanni, hver hefur fært þeim það vald að þeir geti kallað sig myndlistarmenn og sýnt á listasöfnum, þegið styrki og gert tilkall til þess að opinberir aðilar kaupi af þeim listaverk? Hvert er innsta eðli listamannsins og hvernig er það frábrugðið eðli annarra manna? Sýningin er afar upplýsandi um ýmislegt sem tengist leyndardómum listarinnar og það á mjög áþreifanlegan hátt. Eða skyldi allt efni vera ekkert annað en innantóm hugmynd? Hún fær okkur vonandi til að hugleiða hvert hlutverk listarinnar er, sem lifandi og mótandi spegils á lífsviðhorf og hegðun jafnt karla sem kvenna í garð hvers annars. Og þar með ytra útlit samfélagsins í heild, sjálfsímynd þjóðarinnar — sjálfa þjóðarsálina — sem hoppar og skoppar eftir þessum samtvinnaða tilfinningalega og vitsmunalega hjartslætti.
 
En þá kann einhver að spyrja: Hvað með hið margumtalaða plastmál, sem margfrægt er orðið? Því er til að svara, að málið er í vinnslu. Málið hefur undið mjög upp á sig og allur málrekstur þess vegna orðinn ansi margslunginn. Sjónlistastjóri verður samt ekki með neinar óþarfa málalengingar. Hann mun taka fast á málum og svara öllum þeim sem efast hafa um málið, með beinum eða óbeinum hætti, er fram líða stundir.
 
Veggspjald Syntagma sýningarinnar hefur að geyma ljósmynd af dularfulla tvöfalda plastmálinu með varalitafari forsetisráðherra Íslands, sem fellur eins og flís við rass inn í það stóra samhengi sem sýningin er. Hvort þetta er „alvöru listaverk“ eða ekki mun tíminn (sem er mjög afstæður) leiða í ljós. Áður en langt um líður fæst kannski ennþá betra svar við því hvort um er að ræða „bruðl á almannafé“ og/eða einhverja „stæla“ við myndlistarmenn. Í því sambandi má þess geta, að markaðsfróðir menn með vit á nútímalegum auglýsingaaðferðum telja að plástmálið hafi skilað sem jafngildir allt að 35 milljóna króna kynningarátaki á hinni nýju Sjónlistamiðstöð. Það verður að teljast harla góð ávöxtun á 105 þúsund krónum, sem runnu allar til langveikra barna (þótt mörgum sé greinilega alveg sama um það). Til samanburðar, þá kostar heilsíðu auglýsing á bls. 3 í Morgunblaðinu 486.360 krónur.
 
Aðrir hafa spurt, hvort verið sé að gera lítið úr forsætisráðherra af því að hún er ekki aðeins kona heldur líka lesbía og þar af leiðandi hlýtur sjónlistastjóra að vera sérstaklega í nöp við samkynhneigt fólk, ekki bara konur. Slíkar ásakanir afhjúpa einungis afbakaðan hugsunarhátt og sorglega þröngsýni viðkomandi aðila, sem hefðu gott af því að skreppa úr torfkofa hugarfarsins og fá sér dálítið frískt loft. Sjónlistastjóri hefur að sjálfsögðu sínar eigin persónulegu kynhvatir eins og allir aðrir, sem eru auðvitað hans einkamál, en hann hefur ekkert upp á samkynhneigt fólk að klaga, þvert á móti er hann alveg einstaklega „líbó karlmaður”, enda stóð hann fyrir sýningunni Losti 2000 (árið 2000) þar sem margir af þekktustu samtímalistamönnum þjóðarinnar, konur og karlar, viðruðu kynhvötina — alla skömmina eins og hún lagði sig.
 
Sjónlistastjóri er aftur á móti eitt stórt spurningarmerki þegar kemur að áhuga SUS á plastmálinu, á því að Samband Ungra Sjálfstæðismanna í Valhöll væri svo stórhrifið af málinu að þaðvildi kaupa það á helmingi hærra verði en það var selt á í upphafi. Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, fann málinu aftur á móti allt til foráttu, eins og sjá mátti í innsendri grein á síðum Morgunblaðsins aðeins nokkrum vikum síðar. Formlegt tilboð SUS, sem taldi að plastmálið hefði mikið menningarlegt gildi, var þó afdráttarlaust hafnað af sjónlistastjóra. En hvað er eiginlega í gangi, tilheyrir þetta fólk ekki sama Sjálfstæðisflokknum? Aftur á móti virtust Ungir jafnaðarmenn taka gleði sína á ný þegar sjónlistastjóri hafnaði tilboði SUS og héldu þeir listsýningu á öllum þeim málum sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur klárað og kölluðu gjörninginn „Mál málanna.“ Var sjónlistastjóri formlega beðinn um að veita blessun sína á þau mál sem ríkisstjórnin hefur sjálf lagt blessun sína yfir og varðveita öll hennar afgreiddu mál í sjálfri Sjónlistamiðstöðinni. Þessari málaumleitan var einnig hafnað af sjónlistastjóra, sem virti þó listrænan ásetning samfylkingarfólks mikils og gaf þeim rós í hnappagatið þegar hann sá marga af helstu þingmönnum flokksins varalita sig og dreipa á vatni úr hvítum plastmálum. Þessir þingmenn hafa þó alltént húmorinn í lagi og er það góðs viti.
 
Plastmálið skelfilega (og undursamlega) verður aðeins til sýnis í tvo daga í fyrrverandi kæliklefa vestursalar Listasafnsins á Akureyri og vandlega aðgreint frá framlagi hins listafólksins (Listasafnið var upprunalega reist sem mjólkursamlag KEA árið 1939). Hægt verður að skoða tvöfalda plastmálið í allri sinni dýrð á opnunardaginn kl. 15-18 og aftur sunnudaginn 20. maí kl. 13-17. Þetta verður í eina skiptið sem plastmálið verður ókeypis til sýnis á Akureyri og er öll myndataka stranglega bönnuð.
Þessu máli er langt frá því að vera lokið. Það er ekki dautt, heldur sprelllifandi.
 
Hægt verður að kaupa einstök plaköt af tvöfalda plastmálinu í tengslum við Syntagma, sem prentuð verða að hámarki í 333 tölusettum og „árituðum“ eintökum. Lítur sjónlistastjóri svo á að um fjölföldun sé að ræða á orgínal listaverkinu með varalitafari forsætisráðherrans og efast ekki eitt andartak um að þetta sé bæði höggheld og afskaplega eiguleg fjárfesting.
 
Þessu máli er langt frá því að vera lokið. Það er ekki dautt, heldur sprelllifandi
 
Á opnunum Listasafnsins hefur lengi verið til siðs að veita áfenga drykki eins og hjá öllum öðrum alvöru listasöfnum. En nú bregður út af vananum og verður gestum að þessu sinni boðið upp á tært vatn úr hreinni og ískaldri fjallalind og það í nákvæmlega eins plastmáli og forsætisráðherrans, nema hvað þau verða einföld en ekki tvöföld. Hvort fólk líti svo á að það sé að drekka úr „kópíum“ af plastmáli Jóhönnu eða kjósi að túlka það alfarið sem sitt einkamál, verður hver og einn að gera upp við sig.
 
Um níu mánuðum, fjölda funda og hundruðum tölvupósta síðar blasir árangurinn við: Gríðarlega snúin og umhugsunarverð sýning sem mikið er í lagt og sem ekki verður afgreidd með neinum einföldum hætti. Sýningin stendur til 8. júlí og er opin kl. 13-17 miðvikudaga til sunnudaga.
 
Hildur Hákonardóttir er fædd árið 1938 í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1968 og stundaði framhaldsnám við Edinburgh College of Art frá 1968-69. Hildur var meðlimur í SÚM hópnum og skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans á árunum 1975-78. Auk þess að stunda list sína og taka virkan þátt í kvennabaráttunni, hefur hún unnið ýmis stjórnunarstörf og m.a. sem stjórnarformaður ullarvinnslunnar Þingborgar. Auk teikninga hefur Hildur mikið unnið listsköpun sína í textíl.

Ósk Vilhjálmsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1986 og stundaði framhaldsnám við Hochschule der Künste í Berlín á árunum 1988-1994. Ósk hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum, bæði hér heima og erlendis. Hún hefur verið virk í baráttu fyrir umhverfismálum, meðal annars gegn Kárahnjúkavirkjun, en hún er einn stofnenda Framtíðarlandsins. Verk Óskar, sem oft eru á mörkum innsetningar og málverksins, fjalla mörg hver um hnattvæðinguna og náttúruna, samspil manns og náttúru, neysluhyggju og kapítalisma.

Steinunn Gunnlausdóttir er fædd árið 1983 í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Listaháskólanum árið 2008. Steinunn hefur á síðustu árum unnið fjölda verka með blandaðri tækni, innsetningar og gjörninga, bæði ein og í ýmsum listahópum og tvíeykjum. Verk Steinunnar einkennast af flugbeittum skotum á stofnanir og gildi samfélagsins, náttúruspjöll og eyðileggingu kapítalismans og stórfyrirtækjanna sem vinna á þeim forsendum, ekki síður en hræsni og skinhelgi okkar (smá)borgaralega samfélags. Steinunn hefur verið virk í starfi hinnar róttæku umhverfisverndarhreyfingar Saving Iceland, en hún er einn hinna svokölluðu nímenninga úr búsáhaldabyltingunni sem að ofan er getið.

Santiago Sierra er fæddur árið 1966 í Madríd. Sierra, sem hefur mikið starfað á Spáni og í Mexíkó, er einn af framsæknustu og umdeildustu myndlistarmönnum Spánar. Í verkum sínum tekst Sierra á við spurningar um ójöfnuð og réttlæti í hinu kapítalíska þjóðskipulagi, samskipti „suðursins“ og „norðursins“, eðli listarinnar og hvaðan siðgæðið er sprottið. Sierra hefur haldið ótal einkasýningar á undanförnum árum, auk þess að taka þátt í fjölda samsýninga. Sierra hefur meðal annars verið fulltrúi Spánar á Feneyjartvíæringnum og hefur hann verið sýndur í mörgum af helstu listasöfnum og nútímalistagalleríum heims. Sierra kom til Íslands í janúar og framkvæmdi hann gjörninga í fjóra daga víðsvegar um Reykjavík í tengslum við heimsreisu á verkinu “NO Global Tour”. Skildi hann eftir sig skúlptúr fyrir framan Alþingishúsið, „Minnismerki um borgaralega óhlýðni“, sem er stór bergmoli klofinn í herðar niður eftir endilöngu af massífum keilulaga stálfleyg.


Aðalfundur Myndlistarfélagsins 24. maí kl. 20.00

mynd_logo_1036390


Stjórn Myndlistarfélagsins boðar til aðalfundar sunnudaginn 24. maí næstkomandi klukkan 20:00 í sal félagsins að Kaupvangstræti 10.

Dagskrá fundarins:

1.  Skýrsla stjórnar.

2.  Reikningar.

3.  Stjórnarkosning.

4.  Kosning félagslegs skoðunarmanns og endurskoðanda til eins árs.

5.  Lagabreytingar.

6.  Ákvörðun félagsgjalda.

7.  Önnur mál


Hvetjum alla til að mæta og taka þátt í framtíðarmótun félagsins.

Stjórnin.


Vorsýning Myndlistaskólans á Akureyri opnar á fimmtudag

image-3_1152646.jpg

VORSÝNING 2012

Hin árlega Vorsýning Myndlistaskólans á Akureyri verður opnuð fimmtudaginn 17. maí í húsnæði skólans Kaupvangsstræti 16. Sýnd verða verk nemenda fornámsdeildar, listhönnunar- og fagurlistadeildar auk . Þar gefur að líta sýnishorn af því helsta sem nemendur í frjálsri myndlist og grafískri hönnun hafa verið að fást við á þessu skólaári.

Alls stunduðu fimmtíu og átta nemendur nám í dagdeildum skólans og af þeim munu tuttugu og sex brautskrást frá skólanum að þessu sinni.

Einnig verða sýnd verk eftir nemendur sem voru á barnanámskeiðum á vorönn.

Allir eru hjartanlega velkomnir í Myndlistaskólann á Akureyri sýningardagana.
Opnunartími kl. 13 til 17 og lýkur sýningunn sunnudaginn 20. maí.

 
www.myndak.is
www.facebook.com/myndak

VORSÝNING 2012
Myndlistaskólinn á Akureyri.
Opin dagana 17. - 20. maí kl. 13 - 17
Sýningarstaður: Kaupvangsstræti 16


Dagrún Matthíasdóttir sýnir í Noregi

attachment_1152200.jpg

Dagrún Matthíasdóttir, Gunn Nordheim Morstøl og Helen Molin 0pna 12 maí í Galleri Milda á eyjunni Aukra í Noregi laugardaginn 12. maí kl. 14. Einnig opna listakonurnar í Walstad gård í Isfjorden daginn eftir kl. 18.
 
Listakonurnar Dagrún Matthíasdóttir frá Íslandi, Gunn Morstöl frá Noregi
og Helen Molin frá Svíþjóð hittust á samsýningu í Eyjafirði, Staðfugl-Farfugl
árið 2008 og ákváðu þá að hittast og sýna saman opnuðu sýninguna „Delicious“ í Cælum Gallery í
Chelsea á Manhattan í New York í september 2011 og í dag í Noregi með 2 sýningar.


Myndir barna í Deiglunni

deiglan

Myndgerð barna hefur verið myndlistamönnum endalaus uppspretta tjáningar og gleði.  Allt frá því að miklir listamenn á borð við Miro og Picasso notfærðu sér þessa tæru og óbeisluðu tjáningu í verkum sínum.
 
Börn úr leikskólunum Naustaskóla og Kiðagili sýna verk sín í Deiglunni í Listagili. Sýningin er afar fjölbreytt. Sýndar eru sviðsmyndir tengdar árshátíðinni okkar sem helguð var afmæli Akureyrarbæjar, við verðum með myndverk sem unnin eru á margvíslega vegu bæði í myndmenntasmiðjum og úr þemavinnu og dansmyndbönd sem búin voru til í danssmiðjunum í vetur.

Laugardaginn 12. maí kl. 13:00

Sýningin stendur frá 12. maí til 10. júní í Deiglunni í Listagili og er að tilefni afmælis Akureyrarbæjar.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband