Færsluflokkur: Spil og leikir

Heimildarmyndin STEYPA sýnd í Flóru

fb_steypa.jpg unnar_steypa.png


Heimildarmyndin STEYPA eftir þau Markús Andrésson og Ragnheiði Gestsdóttur verður sýnd í Flóru fimmtudagskvöldið 11. október 2012 kl. 20
Heimildamyndin STEYPA er mynd um íslenska samtímamyndlist. Í myndinni er fylgst með sjö listamönnum um tveggja ára skeið. Þeir eru að koma undir sig fótunum heima og erlendis og tengjast hvor öðrum á ýmsan hátt. Steypa gefur innsýn í vinnuferli og viðhorf þessarar kynslóðar, sýnir hvernig hugmyndir fæðast og eru útfærðar í listaverk.

Myndin er sýnd í tilefni sýningar Unnars Arnar Auðarsonar í Flóru sem nefnist "Brotabrot úr afrekssögu óeirðar á Íslandi: Fyrsti hluti / Fragments From the Deeds of Unrest in Iceland: Part One". Ásamt Unnari fjallar STEYPA um Ásmund Ásmundsson og Katrínu Sigurðardóttur en þau sýna einmitt um þessar mundir í Listasafninu á Akureyri enda tilnefnd til Sjónlistaverðlaunanna 2012. Auk þeirra þriggja er fjallað um Gjörningaklúbbinn, Margréti H. Blöndal, Huginn Þór Arason og Gabríelu Friðriskdóttur í STEYPU.

Ásmundur hellir Pepsí í Fanta-flöskur og spyr sig „Hvað er list?“ Hann stingur upp á að það sé það sem listamaður geri. Með það til hliðsjónar er áhersla heimildamyndarinnar á það ferli sem listamennirnir ganga í gegnum áður en verk þeirra verða að veruleika. Gabríela hendir í deig og smellir á andlitið á sér, Margrét heillast af hulsum og pakkningum í Mosfellsbæ, Huginn klippir af sér hárið og lætur búa til hárkollu, Unnar stelur afleggjurum á elliheimili, Gjörningaklúbburinn endurskapar stjörnuhiminn Van Goghs úr lakkrísafgöngum, Katrín smíðar lítið hús til þess eins að henda því fram af stærra húsi. Hvað liggur að baki? Á þetta erindi við okkur hin?

STEYPA kom upphaflega út árið 2007 þegar hún ferðaðist á milli kvikmyndahátíða víða um heim, en hún var tekin á árunum 2003-06.

Myndin er með íslensku tali og enskum texta og tekur um klukkutíma í sýningu en á eftir verða umræður um myndina og um íslenska samtímalist.

STEYPA  er sýnd í Flóru í samvinnu við Kvikmyndaklúbbinn KvikYndi og Lofi Productions sem framleiðir myndina. Það er ókeypis aðgangur.

http://vimeo.com/33758581


Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri


Óskað eftir þátttakendum í Gjörningahátíð á Hjalteyri

perform_007.jpg

Laugardaginn 10. júlí næstkomandi ætlar Verksmiðjan á Hjalteyri að efna til Gjörningahátíðar.

Þetta er í annað sinn sem það er gert og tókst fyrsta skiptið með ágætum.


 Verksmiðjan er listamannarekið rými í gömlu Síldarverksmiðjunni á Hjalteyri www.verksmidjan.blogspot.com



Ekki eru peningar í spilinu, en Verksmiðjan auglýsir viðburðinn og aðstoðar þátttakendur með gistingu.





Auglýst er hér með eftir þátttakendum í Gjörningahátíðinni.



Upplýsingar og skráning hjá  Aðalheiði S. Eysteinsdóttur í síma 865-5091 eða adalheidur@freyjulundur.is



Ódauðlegt verk um samhengi hlutanna í Verksmiðjunni á Hjalteyri

leikhus.jpg

Verksmiðjan á Hjalteyri

Ódauðlegt verk um samhengi hlutanna

Eftir Steinunni Knútsdóttur

Áhugaleikhús atvinnumanna

Sunnudaginn 26. júlí 2009 kl. 22:00
www.verksmidjan.blogspot.com

Sunnudaginn 26. júlí flytur Áhugaleikhús atvinnumanna sjónleikinn ,,Ódauðlegt verk um samhengi hlutanna"  eftir Steinunni Knútsdóttur

Sýningin hefst kl. 22.00 og er verkið um það bil klukkustund í flutningi.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

(Sjónleikurinn) Ódauðlegt verk um samhengi hlutanna
Eftir Steinunni Knútsdóttur
Verkið er hluti af fimmverka röð ódauðlegra leikverka um hegðun og eðli mannsins og er annað í röðinni. Verkin eru rannsókn á áráttuhegðun mannkyns og ófullkomleika. Þau feta sig inn í augnablikið þar sem maðurinn stendur berskjaldaður frammi fyrir guði og viðurkennir vanmátt sinn. Verkin leita að sársaukanum sem býr djúpt inní sálu mannsins og leitast við að skilja hann. Fyrsta verkið í kvintólógíunni var Ódauðlegt verk um stjórn og stjórnleysi og var sýnt við góðan orðstír í Klink og Bank listasamsteypunni vorið 2005 en þriðja verkið er í smíðum og verður frumsýnt í september á LOKAL, alþjóðlegri leiklistahátíð í Reykjavík í september.

Áhugaleikhús atvinnumanna er hópur áhugafólks um frelsi til óháðrar listsköpunar í leiklist. Áhugaleikhús atvinnumanna hefur áhuga á leiklist sem talar til sinna áhorfenda án þess að verða meðvirk. Áhugleikhús atvinnumanna lítur á leiksýningar sínar sem vettvang til að velta áleitnum spurningum fyrir sér þó ekki sé langt í kímni og kæruleysi. Engir peningar renna í gegnum Áhugaleikhús atvinnumanna og er ókeypis er inn á leiksýningar leikhússins.

Höfundur og leikstjóri verksins er Steinunn Knútsdóttir um útlit sér Ilmur Stefánsdóttir en leikarar sýningarinnar eru:

Aðalbjörg Árnadóttir
Árni Pétur Guðjónsson
Hera Eiríksdóttir
Jórunn Sigurðardóttir
Lára Sveinsdóttir
Magnús Guðmundsson
Ólöf Ingólfsdóttir/Steinunn Knútsdóttir
Sveinn Ólafur Gunnarsson


Nánari upplýsingar veitir Steinunn Knútsdóttir í síma 6624805 steinunn_knutsdottir@hotmail.com

Menningarráð Eyþings, Norðurorka og Ásprent styrkja Verksmiðjuna á Hjalteyri.
Að auki styrkir Slippurinn á Akureyri þessa sýningu.


Sirkusinn Shoeboxtour í Verksmiðjunni á Hjalteyri

shoeboxtour.jpg
Verksmiðjan á Hjalteyri kynnir sýningarhópinn Shoeboxtour sem samanstendur af heimsþekktum sirkuslistamönnum, þau eru á ferð um landið og sýna ljóðrænan spennandi sirkus. Leikið er undir af raftækjum, unnið með form og ætla þau að spinna af fingrum fram á Hjalteyri. Með þeim í för eru einnig sirkuslistamenn frá Finnlandi sem að ætla  að taka þátt í þessum spuna og frá Reykjavík koma tveir alíslenskir töframenn.
Sýningin verður laugardaginn 13. júní og hefst kl. 21:00, enginn aðgangseyrir.

Í Verksmiðjunni stendur nú yfir sýningin "Hertar sultarólar"
http://www.verksmidjan.blogspot.com

Gilfélagið kynnir með stolti Listasmiðjur barna 2009

Við erum sérstaklega glöð og ánægð með undirtektir sem Listasmiðjur okkar
hafa fengið þetta árið.
Krepputal og annað slíkt látum við sem vind um eyru þjóta og bjóðum það
besta sem völ er á.

Fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á svæðinu hafa tekið höndum saman og
gert okkur kleift að bjóða börnum og unglingum að ferðast með okkur um
tíma og rúm og heimsækja framandi heima.

Námskeiðið byrjar næsta mánudag, 8.júní og spannar 11 virka daga og fá
krakkarnir, brauð drykki, ávexti og grænmeti alla daga - enginn þarf að
koma með nesti.

Til að koma til móts við þá foreldra sem ekki hafa miklar
ráðstöfunartekjur þá eru ýmsar leiðir opnar og enginn þarf að sitja heima
sökum fjármagnsskorts.

Sveitarfélög bjóða niðurgreiðslu fyrir sín börn og velferðarsjóður kemur
einnig að og niðurgreiðir fyrir þá sem það þurfa.

Ef þið hafið áhuga á að vita meira þá eru hér fylgiskjöl og nánari lýsingu
 má sjá á heimasíðu Gilfélagsins www.listagil.is

Fyrir hönd Gilfélagsins.

Með þakklæti og kærri kveðju,
Vigdís Arna
gsm: 8643054



dagmey_2007.jpg

FERÐALAG UM FRAMANDI HEIMA


Viltu ferðast um framandi heima, kíkja í Lífheim, Bjargheim, Söguheim,
Fornheim, Goðheim, Lesheim, Minjaheim, Umheim, Sköpunarheim og
Reynsluheim.


Gilfélagið og samstarfsfélagar munu ferðast með börn á aldrinum 8 - 12 ára
 í spennandi fræðslu og skemmtiferð sem lýkur með sýningu á Jónsmessuhátíð
í Kjarnaskógi 23. júní.

Ferðalagið hefst í Lífheimi á Hjalteyri þar sem land verður numið.  Þaðan
verður síðan siglt, ekið eða gengið í ýmsa framandi heima s.s. Fornheim,
Bjargheim, Söguheim, Lesheim, Minjaheim, Goðheim og Umheim. Fjöldi
fræðimanna mun taka á móti ferðalöngunum og sjá til þess að allt fari fram
eftir kúnstarinnar reglum.

Á ferðalaginu verða fornar sögur skoðaðar, matarsögur smakkaðar og nýjar
sögur skapaðar. Áhersla lögð á landnám og pælt í því hvað felst í
landnámi.
Hvenær nemum við land og hvernig flyst menning milli heima?

Ferðalaginu lýkur með uppsetningu sýninganna Reynsluheimur og Sköpunarheimur.
Sýningarnar verða endurteknar á Akureyrarvöku með viðkomu í Vökuheimi.
Þá verður Listagilið numið af nýbúum og bæjarbúum boðið í veislu.

Jónsmessunámskeiðið hefst mánudaginn 8.júní og stendur til þriðjudags
23.júní.
Ferðalagið hefst hvern dag klukkan 10:00 og komið verður til baka í Núheim
kl.16:00
Vökunámskeiðið hefst fimmtudaginn 27.ágúst og lýkur laugardaginn 29.ágúst.


Verðið er varla frá þessum heimi -  25.000 krónur  og 15% systkinaafsláttur.
Innifalið í því eru 11 virkir dagar með kennslu, matur, hressingu,
sigling, rútuferðir og efni.
Að auki er þátttakendum boðið að taka þátt í endursköpun Reynsluheims og
nýju landnámi undir nafninu Vökuheimur á Akureyrarvöku.

Fyrir 13-16 ára  unglinga er sérstakur hópur sem sér um að skrásetja og
miðla. Fjölmiðlateymið Alheimur -  Aðeins er pláss fyrir 6 og verð er
15.000.-

ATH - við tökum á móti Tómstundaávísun Akureyrar

Skráning og frekari upplýsingar eru á vefsíðu Gilfélagsins, www.listagil.is
en einnig í síma 8643054 hjá Vigdísi og 4612609, einnig hjá Maríu í síma
4627000 og með tölvupósti á gilfelag@listagil.is.


Kristján Ingimarsson sýnir CREATURE hjá Leikfélagi Akureyrar og í Kassanum í Þjóðleikhúsinu

image_835231.jpgimage-1_835232.jpg

CREATURE - gestaleikur

eftir Kristján Ingimarsson
     

Creature er nýtt verk eftir leikhúslistamanninn Kristján Ingimarsson, sem þekktur er fyrir að feta ótroðnar slóðir og nota líkamann á óvæntan og sérstæðan hátt í sýningum sínum. Sýningin var frumflutt í Husets Teater í Kaupmannahöfn en verður sýndur hjá Leikfélagi Akureyrar  1. og 2. maí og í Kassanum í Þjóðleikhúsinu 14, 15, 16 og 17. maí.
 
Creature er stórhættulegur og bráðfyndinn leikhúskonsert um sköpunarþörf manneskjunnar og þörf hennar fyrir að setja sjálfa sig á svið. Þetta er án efa persónulegasta sýning Kristjáns til þessa, þar sem hann kannar ýmis landamæri með aðferðum spunans og kemur okkur stöðugt á óvart.

Kristján stendur á sviðinu ásamt finnska leikaranum Henrik Levlin en þeir íklæðast búningum eftir tískuhönnuðinn Anja Vang Kragh - en búningar þeir eru stór partur af upplifuninni. Það gera áhorfendurnir einnig en þeir eru eindregið hvattir til þess að taka með sér myndavélar á sýninguna, smella af og skrásetja þannig sýninguna með sínum hætti.



Brot úr umjöllun fjölmiðla í Danmörku:

"Creature er leiksýning sem maður lætur ekki framhjá sér fara. Hún er fyndin, yndisleg, ljóðræn, leikandi og ótrúleg. Creature er ein af þeim sýningum í ár sem hefur upp á eitthvað nýtt að bjóða. Góða Skemmtun."

"Kristján Ingimarsson gefur allt í botn í sinni unaðslega geggjuðu umbreytingasýningu. Með óðsmannsæði sem enginn annar leikari eða dansari ér á landi getur leikið eftir." Politiken

 
"Kolklikkaður og yndislegur líkamsgaldramaður. Frábærar jafnvægiskúnstir, topp tæmað." Berlingske Tidende


Höfundur og Leikstjóri  Kristján Ingimarsson

Leikarar Kristján Ingimarsson og Henrik Levlin  Höfundur Tónlistar Pétur Eyvindsson

Búningahönnuður  Anja Vang Kragh  Leikmyndahönnuður  Kristian Knudsen

Lýsing  Mads Vegas


JORIS RADEMAKER sýnir í Populus tremula

JORIS RADEMAKER í Populus tremula 14.-15. mars

MYNDLISTARSÝNING OG BÓK

Laugardaginn 14. mars kl. 14:00 mun Joris Rademaker opna myndlistarsýningu í Populus Tremula á Akureyri. Sýnd verða ný spaghettí/sprey-verk á pappír.

Jafnframt gefur Populus tremula út bókina SAM-SPIL með hugleiðingum Jorisar um samspil orðs og línuteikningar.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 15. mars frá 14:00-17:00

Aðeins þessi eina helgi.

Populus vill einnig minna á að áður útgefnar bækur menningarsmiðjunnar eru til sölu í rýminu þegar opið er.


Nýtt verk á VeggVerki og opnunarveisla í GalleríBOXi

VeggVerk
Strandgötu 17

STYRKUR
24.01 - 07.03.2009

Níu manna hópur úr listhönnunardeild Myndlistarskólans á Akureyri
sýnir veggverkið Styrkur. Verkið er þrívíddarverk með skírskotun í
tölvuleikinn vinsæla Super Mario Bros.

Sveppurinn í tölvuleiknum, sem verkið byggist á,  gefur einmitt
leikendum aukinn styrk, og þaðan er nafn verksins runnið.

Markmiðið með verkinu er að skapa eitthvað myndrænt og táknrænt sem
jafnframt á skírskotun í nútímann. Með verkinu viljum við líka gefa
þeim sem þess njóta aukinn styrk á þessum erfiðu tímum sem nú eru
uppi.

Opnunarpartý í tilefni af sýningu verksins verður haldið í Gallerí
Boxi, Kaupvangsstræti 10, laugardaginn 24. janúar kl. 20.00. Allir
VELKOMNIR.


Hópurinn:

Aldís María Valdimarsdóttir
Ásta Rut Björnsdóttir
Berglind H Helgadóttir
Dagrún Íris Sigmundsdóttir
Guðrún Huld Gunnarsdóttir
Helgi Vilberg Helgason
Karen Lind Árnadóttir
Sindri Smárason
Unnur Jónsdóttir

www.veggverk.org
Verkefnastjóri: Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Sími: 6630545


Listasmiðja á Öldu í Eyjafjarðarsveit

Brettafuglar og Ruslaskarfar
Fer ruslið okkar beint á haugana eða er hægt að gefa því nýtt hlutverk?
Þann 28. júní n.k. verður haldin listasmiðja á Öldu í Eyjafjarðarsveit frá klukkan 10 til 14.
Þátttaka er öllum frjáls en börn á aldrinum 5-15 ára eiga að vera í fylgd foreldra.
Unnir verða “fuglaskúlptúrar” úr vörubrettum og fundnum hlutum  (oft álitið rusl). Fuglarnir verða
skreyttir eftir höfði hvers og eins með fundnum hlutum sem þátttakendur koma sjálfir með.
Afraksturinn gæti verið garðskraut með persónulegu ívafi eða verið til sýnis á svæði fyrir alþýðulist
sem búið er að opna á Hrafnagili.
Smiðjustjóri er George Hollanders. Verð er kr. 4.500,- og innifalið í því eru verkfæri, bretti, málning
og annað sem þarf til að koma verkunum saman. Skráning fyrir 27 júní í síma 892 6804.
Fundnir hlutir geta t.d. verið umbúða- eða gjafapappír, korkur, tappar, járnrusl, dósir, smádót og
annað sem fólk langar til að nota sem skraut.
Athygli er vakin á því að það er búið að opna svæði fyrir “Alþýðulist” rétt hjá Leikskólanum
Krummakoti en þar gefst almenningi kostur á að koma fyrir “fuglaverkum” í tengslum við sýninguna.
Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband í síma 892 6804.


Anna Richardsdóttir með gjörning hjá Norðurorku

90e28e219a513e71

Verið velkomin á alheimshreingjörning og myndlistarsýningu, Laugardagskvöldið 12. apríl kl. 20:30

Anna Richardsdóttir flytur gjörning í samvinnu við: Kristján Edelstein, Wolfgang Sahr, Þorbjörgu Halldórsdóttur, Brynhildi Kristinsdóttur og Jónu Hlíf Halldórsdóttur. Gjörningurinn verður fluttur í bílageymslu við Norðurorku, Rangárvöllum. Keyrt inn um járnhliðið.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband