Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Aðalheiður Valgeirsdóttir með listamannaspjall í Mjólkurbúðinni

 


a_alhei_ur_valgeirsdo_769_ttir.jpg Myndlistakonan Aðalheiður Valgeirsdóttir býður í listamannaspjall, laugardaginn 29. sept. kl.15 í Mjólkurbúðinni Listagilinu á Akureyri í tengslum við sýningu Aðalheiðar Jarðsamband.

Sýning Aðalheiðar Jarðsamband opnaði 15. september og er nú komið að sýningarlokum hennar í Mjólkurbúðinni. Sýningin er opin laugardag og sunnudag kl. 14-17 og eru allir velkomnir.

Um sýninguna:

Málverkin vann Aðalheiður á  vinnustofu sinni í Biskupstungum. Í nálægð við náttúruna og síbreytilega ásýnd hennar allan ársins hring vakna upp spurningar um tengsl manns og náttúru.  Maður og jörð eru samofin og mynda þannig jarðsamband sem miðlar verkinu. Maðurinn sem áhorfandi og hluti af heild er upphafspunktur upplifunar sem hverfist um hann.

Verkin eru unnin í framhaldi af sýningu sem Aðalheiður hélt í sal Íslenskrar grafíkur í Reykjavík síðastliðið vor og nefndist Leitin að óskasteininum. Þar var  hugmyndin um óskasteininn tilefni til samtals við náttúruna. Samkvæmt gamalli þjóðtrú hafði óskasteinninn töframátt og gat uppfyllt óskir manna og þrár. Enn er leitað að óskasteininum um leið og nánasta umhverfi er skoðað. Aðalheiður leitar eftir litum formum og efniskennd í moldinni, gróðrinum og steinunum. Þannig verða málverkin til vegna beinna hughrifa frá umhverfinu í sveitinni þar sem jörðin og allt umhverfið kallar á athygli svo úr verða birtingarmyndir samtals manns og máttúru.

 

Aðalheiður Valgeirsdóttir lauk námi frá Myndlista-og handíðaskóla Íslands 1978 og BA prófi í listfræði frá Háskóla Íslands 2011. Stundar nú MA nám í listfræði við Háskóla Íslands. Aðalheiður hefur haldið fjölda sýninga hér á landi og erlendis. Hún er félagi í Sambandi íslenskra myndlistamanna og félaginu Íslensk grafík.

 

Nánari upplýsingar um sýninguna

 

Aðalheiður Valgeirsdóttir s. 6981184 og 5621303

ava@mmedia.is


Overdose & Underdose í Sal Myndlistarfélagsins

523712_10151040506916394_1072184364_n.jpg
 
Salur Myndlistarfélagsins laugardaginn 6. október kl. 14-17
 
GÓMS er samstarf Georgs Óskars & Margeirs Dire S.
"Tveir mjög ólíkir myndlistarmenn sem hafa sömu hugmynd um hvað góð myndlist sé og hvernig hana skal skapa. Við málum ofan í hvorn
 annann þangað til fullkomið jafnvægi skapast og verkið er eins og eftir einn furðulegann einstakling"

Titillinn Overdose & Underdose fjallar um ferli verkana í gerð, stundum er "Overdose" á ákvöðnum svæðum sem þarf að róa niður og stundum er "underdose" sem þarf að hlaða. Hvert verk gengur í gegn um þetta ferli aftur og aftur þar til ákveðið jafnvægi hefur myndast með öfgum í allar áttir.
Overdose & Underdose fjallar á sama tíma um hvernig áhorfandinn meðtekur verkin og gefur rými fyrir þær blendnu tilfinningar sem hann kann að upplifa frá verkinu.

Þessi sýning er frammhald af samstarfi þeirra GÓMS félaga sem hófst í sameiginlegri vinnuaðstöðu "Stúdíó Tímavél" frá árinu 2007-2008. Þeir héldu nokkrar sýningar með afrakstrinum sem fékk eintómt lof áhorfenda. Nú mætast þeir aftur á striganum í myndrænni orgíu sem ætti ekki að skilja neinn eftir ófullnægðan.
 

http://www.facebook.com/events/150904025050679

 


Baniprosonno með listasmiðjur fyrir börn

listasmidjur-2012.jpg

Baniprosonno (1932) teiknar, málar og gerir skúlptúra og „hluti“. Hann hefur haldið meira en 100 einkasýningar á verkum sínum víða um og heim, m.a. í Kalkútta, Nýju Delhi, Mumbai, Kathmandu, París, London, Berlín, Amsterdam, Oslo, Stokkhólmi og Reykjavík.

Meðal stofnana sem hafa boðið honum að sýna má nefna Commonwealth Institute, London - Kulturhuset, Stokkhólmi - Sonjahenie Art abo Centre, Noregi - Nordjyllands Kunst Museum, Álaborg, Danmörku - Kulturamt, Kiel - A.O.F.A., Kalkútta - Jahangir Art Gallery, Mumbai – Listamenn Gallerí, Reykjavik og Listasafn Árnesinga í Hveragerdi þar sem hann hélt nýlega stóra sýningu undir heitinu Ævintýraheimur Baniprosonno þar sem allt var gert úr pappír og ánafnaði hann listasafninu alla sýninguna.

Baniprosonno er einnig þekktur fyrir ævintýralega listasmiðjur sínar með börnum víða um heim. Hann hefur yndi af skapandi eldamennsku og hefur lagt drög að kokkabók með heitinu Að elda án kokkabókar. Hann skrifar líka ævintýri og bullrímur fyrir börn á öllum aldri og hafa nokkrar slíkar bækur verið gefnar út.

Baniprosonno býr ásamt eiginkonu sinni Putul í indversku borginni Shimla sem er í 2500 metra hæð í Himalaya fjöllunum.

Í ágúst sl. hélt Baniprosonno upp á áttræðisafmælið sitt á Íslandi sem er æskudraumalandið hans.


Menningardagskrá í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

althy_769_uhu_769_si.jpg

Föstudaginn 21. sept. kl. 20.00 verður menningardagskrá í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Henriette van Egten opnar sýningu í Kompunni, sem er lítið sýningarrými í miðju Alþýðuhúsinu. Myndirnar sem Henriette sýnir eru unnar á Hjalteyri undanfarinn mánuð og bera með sér ævintýrablæ eins og listakonunni er tamt. Litskrúðugar myndir unnar með blandaðri tækni.
Henrietta er Hollensk og ein af þremur eigendum bókverkabúðarinnar Boekie Woekie í Amsterdam. Hún hefur búið hluta úr ári á Hjalteyri síðastliðin 30 ár og sett upp sýningar á Íslandi í gegnum tíðina, nú síðast í Safnasafninu á Svalbarðsströnd.

 Í tilefni sýningarinnar mun Jón Laxdal Halldórsson flytja kvæðadagskrá sem saman stendur af þýddum kvæðum Íslenskra öndvegisskálda ásamt fáeinum frumortum ljóðum.

Einnig mun Jan Voss lesa hina ljóðrænu ferðasögu sína Square One sem út kom 2008.  Jan Voss er Þýskur listamaður, einn af þremur eigendum Boekie Woekie í Amsterdam. Hann hefur líka búið hluta úr ári á Hjalteyri undanfarin 30 ár og sýnt á Íslandi og lesið úr verkum sínum í gegnum tíðina, síðast í Safnasafninu á Svalbarðsströnd.

Alþýðuhúsið á Siglufirði fékk nýtt hlutverk 19. júlí í sumar þegar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir opnaði húsið eftir gagngerar endurbætur. Nú hýsir það vinnustofu Aðalheiðar og fyrirhugað er að setja upp menningarviðburði á mánaðar fresti sem allmenningur hefur aðgang að. 

 Allar nánari upplýsingar veitir Aðalheiður í síma 865-5091 eða á www.freyjulundur.is

3712_althiduhusid.jpg


Opið hús í Gestavinnustofu Gilfélagsins

jens.jpg

Opin vinnustofa

Jens Reichert

 

Laugardaginn 22. september kl 14:00 - 21:00

 

Gestavinnustofan

Kaupvangsstraeti 23

Akureyri

 

Listamaður septembermánaðar í gestavinnustofu Gilfélagsins í Listagilinu er þýski myndlistarmaðurinn Jens Reichert.

Þetta er í þriðja sinn sem Jens heimsækir Ísland. Hann kom til Akureyrar frá Seyðisfirði þ.s. hann dvaldi í gestavinnustofu Skaftfells í einn mánuð.

Aðaláhersla Jens hefur verið á skúlptúra en auk þess vinnur hann einnig með listmálun, innsetningar, hljjóðverk, ljósmyndun og lýsingu.

Hann mun sýna verk sem hann hefur unnið að á undanförnum vikum og hljóðverkið: Trying to teach Icelandic while living in Germany, sem er verk um tengsl fólks við móðurmálið og um misræmi á milli hljóðs og merkingar tungumálsins.

Nánari upplýsingar: www.reichert-jens.de

 

Open Studio

Jens Reichert

 

Saturday the 22nd of September at 14:00 - 21:00

 

Gestavinnustofan

Kaupvangsstraeti 23

Akureyri

 

Jens Reichert (*1967) is a visual artist from Freiburg, Germany.

 

He has been in residence at the guest studio for September. It`s the third time he is visiting Iceland and before coming to Akureyri he stayed for one month as an artist in residence at Skaftfell Center for Visual Art in Seydisfjördur.

 

The base of his work is sculpture. Furthermore he also works in the fields of painting, installation, acoustics, photography and light.

He will show some works which he made during the last weeks and the audio work Trying to teach Icelandic while living in Germany. It`s a work about people`s relation to their mother tongue and about the discrepancy between sound and meaning of language.

 

more information: www.reichert-jens.de

 


Sjónlistaverðlaunin 2012 afhent

sjonlist.png

Í gærkvöldi afhenti Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sjónlistaverðlaunin 2012 við hátíðlega athöfn í Hofi á Akureyri. Tilnefndir listamenn að þessu sinni voru Ásmundur Ásmundsson fyrir sýninguna Hola í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi sem haldin var árið 2009, Katrín Sigurðardóttir fyrir sýninguna Katrin Sigurdardottir at the Met sem haldin var á Metropolitan safninu í New York, 2010-2011 og Ragnar Kjartansson fyrir sýningarnar The End, sem var framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2009, Bliss á Performa-hátíðinni í New York, 2011 og Song í Carnegie safninu í Pittsburgh árið 2011.
 
Einnig var Heiðurslistamaður Sjónlistar útnefndur og viðurkennning, Spíran, veitt ungum og upprennandi listamanni. Líkt og við fyrri verðlaunaafhendingar voru allar tilnefningar í höndum faglegrar og óháðar nefndar skipuð þremur forsvarsmönnum fyrir hönd félagasamtaka og stofnana. Ragnar Kjartansson hlaut Sjónlistarorðuna 2012, en Hildur Hákonardóttir var kjörin Heiðurslistamaður fyrir ævilangt framlag til íslenskrar myndlistar og Janette Castioni var útnefnd Spíran 2012. Hér fyrir neðan má lesa greinargerð dómnefndarinnar um þá listamenn til tilnefndir voru til Íslensku sjónlistaverðlaunanna í ár.

Sýning á verkum ofangreindra listamanna verður opnuð í Listasafninu á Akureyri laugardaginn 15. september kl. 15.
 
---------------------------------------------
 
 
Greinagerð dómnefndar fyrir Íslensku sjónlistaverðlaunin 2012
 
Það eru afar jákvæð tíðindi fyrir íslenskt myndlistarlíf að Íslensku sjónlistaverðlaunin skuli vera endurreist eftir fjögurra ára dvala. Starfi og verkefnum myndlistarmanna er nauðsynlegt að hampa og segja má að Sjónlistaverðlaunin hafi verið mikilvægur þáttur í því umhverfi þar sem litið er yfir farinn veg hvers árs fyrir sig.
Líkt og við fyrri verðlaunaafhendingar liggur að baki óháð nefnd skipuð þremur forsvarsmönnum fyrir hönd félagasamtaka og stofnana, Listaháskóla Íslands, Sambands íslenskra myndlistarmanna og Listfræðafélags Íslands. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að kalla eftir tillögum í viðhorfskönnun sem send var út á félaga Sambands íslenskra myndlistarmanna, Nýlistasafnsins, Listfræðafélags Íslands og Listaháskóla Íslands. Dómnefnd tók tillit til þess viðhorfs sem birtist meðal þátttakenda án þess að könnunin hafi haft mótandi áhrif á niðurstöðu nefndarinnar.
Starf dómnefndar fyrir Íslensku sjónlistaverðlaunin í ár var  sérstaklega vandasamt því ólíkt fyrri verðlaunum var, við val á tilnefndum listamönnum, í þetta sinn litið til baka á sýningarsögu íslenskra myndlistarmanna síðastliðin fjögur ár. Við þá rannsóknarvinnu og skoðanaskipti sem fram fóru á fundum nefndarinnar kom skýrt í ljós hve metnaðarfullt og fjölbreytt sýningarhald íslenskra listamanna er, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi. Afstaða var tekin til fjölda merkra sýninga sem staðið hafa yfir á tímabilinu. Eftir krefjandi en jafnframt gefandi umræðu meðal nefndarmanna var vel ígrunduð niðurstaða dómnefndar einróma með tilliti til þeirra margþættu forsenda sem liggja að baki valinu.
 
Dómnefndin tilnefnir eftirfarandi þrjá íslenska listamenn til Íslensku sjónlistaverðlaunanna árið 2012. Þau eru: Ásmundur Ásmundsson fyrir sýninguna Hola í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi sem haldin var árið 2009, Katrín Sigurðardóttir fyrir sýninguna Katrin Sigurdardottir at the Met sem haldin var á Metropolitan safninu í New York, 2010-2011 og Ragnar Kjartansson fyrir sýningarnar The End, framlagi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2009; Bliss á Performa-hátíðinni í New York, 2011; og Song í Carnegie safninu í Pittsburgh árið 2011. Tekin var afstaða til þeirrar staðreyndar að tveir af þremur tilnefndum listamönnum í ár hafi áður verið tilnefndir til Sjónlistarverðlaunanna (Katrín Sigurðardóttir árið 2006 og Ragnar Kjartansson árið 2008). Telur dómnefnd mikilvægt að líta ekki framhjá markverðum sýningum og verkefnum listamanna sökum þess að þeir hafi áður hlotið viðurkenningu fyrir fyrri verk, enda ekki lagðar slíkar forsendur í vali dómnefndar hverju sinni.
Ásmundur Ásmundsson (f. 1971) er vel kunnur fyrir afdráttarlausa gagnrýni á samfélagið í verkum sínum. Hann hefur lagt skýrar línur með myndlistinni sem stendur sem hnífbeitt rödd til gagnrýnnar umræðu eða öllu heldur róttæks niðurrifs, þar sem jafnan eldfim málefni eru lögð til endurskoðunnar. Sýningin Hola þótti að mati dómnefndar draga þarfa mynd af því umhverfi sem íslenskt samfélag stóð andspænis árið 2009 en sýningin tilheyrði sýningarröð sem kallaði eftir því að tengja myndlistina út fyrir stofnunina. Margra tonna steypuklumpur mótaður úr holu sem ungir grunnskólanemendur grófu upp er táknrænn fyrir þá gildru sem lífshættir íslenskt samfélags hefur lagt fyrir komandi kynslóðir. Verk Ásmundar eru þó ávallt margræð þar sem fagurfræði og efnistök ávarpa einnig hugmyndafræðilegar og listsögulegar hefðir og samhengi. Í einfaldleika sínum er steypuklumpur Ásmundar einnig tilraun til afbyggingar á hugmyndafræði módernismans. Í hrárri steinsteypunni er að finna tvöfeldni sem grefur undan sjálfhverfri áherslu á listmiðilinn með því beina samtali sem listamaðurinn krefur áhorfandann til að horfast í augu við.
Sýning Katrínar Sigurðardóttur  (f. 1967), Katrin Sigurdardottir at the Met vann í samræðu við safneign Metropolitan safnsins og samanstóð af tveim innsetningum sem báru yfirskriftina Boiseries. Katrín er þekkt fyrir endurgerð og túlkun á stöðum bæði raunverulegum og ímynduðum, en innsetningarnar voru endurgerðir í fullri stærð á tveimur frönskum herbergjum frá 18. öld sem varðveittar eru í safninu. Einu frá Hôtel de Crillon (1777-80) á Place de la Concorde í París og öðru frá Hôtel de Cabris (ca. 1774) frá Grasse í Provence. Alhvítt yfirbragð innsetninganna gefur þessum stöðum fágað og hlutlaust yfirbragð og rýnir þar um leið í sögulegan bakrunn hins upprunalega staðar sem flysjaður hefur verið af stoðum sínum og yfirfærður út fyrir samhengi sitt. Það er hin hugmyndfræðilegi undirtónn verksins sem felur því merkingu sína. Margslungin samsetning um stað og upplifun er höfuðeinkenni verka Katrínar en með innsetningunum má sjá djúpa heimspekilega samræðu kallast á við þau grunnþemu.
Ragnar Kjartansson (f. 1976) hefur nýtt sér sjónarspil og bakland leikhússins sem samtvinnast við efnistök gjörningalistarinnar. Gjarnan fær hann að láni efnivið úr safni klassískra verka, hvort sem um er að ræða bókmenntir, leikhúsverk eða jafnvel staðlaðar ímyndir hins rómantíska listamanns. Á undanförnum árum hefur hann fengist við svokallaða þolgæðisgjörninga sem tilheyrðu The End, sex mánaða gjörningi á Feneyjartvíæringnum árið 2009, Bliss sem var tólf klukkustunda óperuflutningur sem fluttur var á Performa-hátíðinni í New York og Song sem var þriggja vikna gjörningur fluttur af frænkum listamannsins á Carnegie safninu í Pittsburgh árið 2011. Með þessum verkefnum hefur Ragnar sýnt fram á að hafa náð fullu valdi á viðfangi sínu. Það er á mörkum þrautseigju og uppgjafar sem virkni eða ‘pathos’ verka hans verður sýnilegt í samspili andstæðra tilfinninga sem spretta fram meðal áhorfandans.
Það er áhugavert að sjá að landfræðileg mörk þurfa ekki að hafa áhrif á störf listamanna í myndlist samtímans. Katrín Sigurðardóttir kann að starfa að mestu frá New York í Bandaríkjunum en hefur ávallt lagt upp úr því að halda sterkum tengslum við íslenskt myndlistarlíf með reglulegum sýningum og kennslu á Íslandi samfara störfum sínum á alþjóðlegum vettvangi. Ásmundur og Ragnar hafa aftur á móti starfað að mestu frá Íslandi og með því móti haft mótandi áhrif á íslenskt myndlistarumhverfi. Ásmundur hefur með verkum sínum og skrifum sérstaklega beint sjónum að íslensku samfélagi í beinum samræðum við pólitískt og menningarlegt ástand hverju sinni. En báðir listamenn hafa einnig teygt starfsemi sína út fyrir landsteinanna, eins og birtist með skýrum hætti í störfum Ragnars síðustu ár. Á þessu má sjá að gróskan í íslensku myndlistarlífi elur af sér framúrskarandi listamenn sem hafa vægi í alþjóðlegu samhengi listarinnar.
 
 
Líkt og fyrri ár er einnig veitt heiðursorða fyrir einstakt æviframlag til myndlistar á Íslandi. Í ár er það Hildur Hákonardóttir sem hlýtur heiðursorðu Íslensku sjónlistaverðlaunanna. Afstaða dómnefndar er bundin við þann virka þátt sem Hildur átti í myndlistarumhverfinu á Íslandi sem hefur haft mótandi áhrif á þær kynslóðir sem á eftir komu og það umhverfi sem við þeim blasir allt til dagsins í dag.
Hildur er fædd í Reykjavík árið 1938. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1968 og stundaði framhaldsnám við Edinburgh College of Art frá 1968-69. Hún var meðlimur í SÚM hópnum og tók virkan þátt í kvennabaráttunni og þeim miklu þjóðfélagshræringum sem áttu sér stað á árunum eftir stúdentabyltinguna árið 1968. Í list sinni lagði Hildur einkum fyrir sig myndvefnað sem hafði sterkar skírskotanir til atburða eða ástands í samtímanum.
Auk listsköpunar sinnti hún margskonar störfum tengdum myndlist. Meðal annars kenndi hún við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1969 -1982 og var síðar skólastjóri hans frá 1975-1978 og stofnaði þá hina umdeildu Nýlistadeild og einnig málaradeild. Hún var forstöðumaður Byggða- og listasafns Árnessýslu 1982-1992 og síðar Listasafns Árnesinga til ársins 1996. Þó að ekki hafi mikið farið fyrir störfum Hildar í myndlist undanfarin ár hefur innkoma hennar t.a.m. með yfirlitssýningu í Listasafni ASÍ á síðasta ári og samsýningu í Sjónlistarmiðstöðinni á Akureyri fyrr á árinu, undirstrikað mikilvægi hennar í íslensku myndlistarumhverfi.
 
Nýr flokkur hefur verið tekinn upp til að heiðra, utan heiðurslistamanns , listamann af yngri kynslóð íslenskra listamanna, undir heitinu Spíran. Jeannette Castioni er kjörin Spíra Íslensku Sjónlistarverðlaunanna árið 2012. Hugmyndin um spíru í myndlist er afstæð og á Jeannette fremur ungan myndlistaraldur að baki sér þrátt fyrir að ferill hennar tengist störfum í myndlist til lengri tíma. Jeannette er fædd árið 1968 í Verona á Ítalíu og býr og starfar bæði þar og í Reykjavík. Hún nam forvörslu við The School of Conservations and Restoration í Flórens, Ítalíu (1990-93) og síðar málaralist við Academy of Arts, Bologna, Ítalíu (1998-2002). Hún útskrifaðist með BA- gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2006 ásamt framhaldsnámi í kennslufræðum, 2007. Árið 2008 lauk hún einnig námi í ítölskum bókmenntum og heimsspeki við University of Literature and Philosophy á Ítalíu. Verk Jeannette búa yfir ákveðinni dýpt þar sem hún nýtir sinn klassíska bakgrunn til rökræðna við samtímann sem gjarnan tengjast menningarlegum eða félagslegum efa. Hún hefur með fyrri verkum fundið sinn persónulega stíl og skýran listrænan vettvang og á að baki sér sýningarferil sem vert er að taka eftir.
 
Dómnefnd Íslensku sjónlistaverðlaunanna árið 2012 er bæði ánægja og heiður að tilkynna tilnefningar til verðlaunanna og er sannfærð um að valið hafi markast af bestu vitund og samvisku.
 
Fyrir hönd dómnefndar,
Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, formaður.
 
 
DÓMNEFND
 
Hildur Bjarnadóttir, myndlistarmaður
Fyrir hönd Listaháskóla Íslands
 
Hlynur Hallsson, myndlistarmaður
Fyrir hönd Sambands íslenskra myndlistarmanna
 
Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, listfræðingur
Fyrir hönd Listfræðafélags Íslands


Lárus H List sýnir í Sal Myndlistafélagsins

mar_lhl_sept_2012.jpg

Lárus H List
Myndlistasýninginn MAR
15/9-30/9 Kl 14 í Sal Myndlistafélagsins Listagilinu Akureyri
Sýningin „Mar“ Umfjöllunarefni sýningarinnar er hafið, strandlengjan og
lífið sem tengist því.Myndefnið núna er bátar og bryggjur, fiskur og
veiðar, fiskislátrun og blóð. Þarna er myndlistarmaðurinn með pælingar um
strandmenningu og sjávarlífið og mannlífið við hafnirnar. Myndlist Lárusar
H List er tengd oftast manni og náttúru. Skil á milli gamla tímans og þess
nýja þar sem skilinn fara í gegnum ævintýraheima manna og huldufólks.
Heimur hugmynda sem er óskýr dulur en þó kristalskýrar línur og litir sem
mætti kalla naumhyggju, en er þó vitni um sterkan stíl Lárusar sem vefur
myndformið á sinn hátt út frá hvítum fletinum.

-Magic- is the art of producing a desired effect or result through the use
of incantation or various other techniques that presumably assure human
control of supernatural agencies or the forces of nature. Art Magic by
Larus H List has been practiced in many experiencing and influencing the
world somewhat akin to those offered by nature, though it is sometimes
regarded as more focused Magic of Alfs or Hiden pepole.


Lárus H List lærði myndlist á Listasafninu á Akureyri í sex ár eða frá
1994-2000 undir stjórn og handleiðslu Haraldar Inga Haraldssonar
Listfræðings og fyrrum forstöðumans Listasafnsins og Hannesar Sigurssonar
Listfræðings og núverandi forstöðumans safnsins. Lárus H List sýndi
myndlistarstarfsemi safnsins mikinn áhuga og gerði sér far um að kynna sér
vel þær sýningar sem á boðstólum voru hverju sinni. Á safninu komst Lárus
H List einnig í persónuleg kynni við marga myndlistamenn, bæði innlenda og
erlenda sem höfðu mótandi áhrif á listferil hans sjálfs.
Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri.


Ásmundur Ásmundsson les upp í Flóru

kaeru_vinir.jpg

Ásmundur Ásmundsson les upp í Flóru
14. september 2012, kl. 17.00
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri


Myndlistarmaðurinn Ásmundur Ásmundsson mun lesa upp úr bók sinni “Kæru vinir / Dear friends” föstudaginn 14. september kl. 17.

Ásmundur er einn þriggja myndlistarmanna sem tilnefndur er til Sjónlistaverðlaunanna 2012. Árið 2011 kom út bókin “Kæru vinir / Dear friends” hjá Útúrdúr og hún inniheldur fjörbreyttar tækifærisræður sem Ásmundur hefur flutt við hin ýmsu tilefni. Ásmundur hefur gefið út nokkrar bækur og skrifað greinar í blöð og tímarit.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir og upplesturinn stendur frá kl. 17-17:30 eða þar um bil.


Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.


Aðalheiður Valgeirsdóttir sýnir í Mjólkurbúðinni í Listagilinu

i_safe.gif

Laugardaginn 15. september 2011 verður opnuð sýning á málverkum Aðalheiðar Valgeirsdóttur í Mjólkurbúðinni, Listagilinu á Akureyri. Sýningin ber yfirskriftina Jarðsamband sem vísar til tengsla mannsins við náttúruna.

Málverkin vann Aðalheiður á  vinnustofu sinni í Biskupstungum. Í nálægð við náttúruna og síbreytilega ásýnd hennar allan ársins hring vakna upp spurningar um tengsl manns og náttúru.  Maður og jörð eru samofin og mynda þannig jarðsamband sem miðlar verkinu. Maðurinn sem áhorfandi og hluti af heild er upphafspunktur upplifunar sem hverfist um hann.

Verkin eru unnin í framhaldi af sýningu sem Aðalheiður hélt í sal Íslenskrar grafíkur í Reykjavík síðastliðið vor og nefndist Leitin að óskasteininum. Þar var  hugmyndin um óskasteininn tilefni til samtals við náttúruna. Samkvæmt gamalli þjóðtrú hafði óskasteinninn töframátt og gat uppfyllt óskir manna og þrár. Enn er leitað að óskasteininum um leið og nánasta umhverfi er skoðað. Aðalheiður leitar eftir litum formum og efniskennd í moldinni, gróðrinum og steinunum. Þannig verða málverkin til vegna beinna hughrifa frá umhverfinu í sveitinni þar sem jörðin og allt umhverfið kallar á athygli svo úr verða birtingarmyndir samtals manns og máttúru.

Aðalheiður Valgeirsdóttir lauk námi frá Myndlista-og handíðaskóla Íslands 1978 og BA prófi í listfræði frá Háskóla Íslands 2011. Stundar nú MA nám í listfræði við Háskóla Íslands. Aðalheiður hefur haldið fjölda sýninga hér á landi og erlendis. Hún er félagi í Sambandi íslenskra myndlistamanna og félaginu Íslensk grafík.


Unnar Örn opnar sýningu í Flóru

unnar.jpg

Unnar Örn
Brotabrot úr afrekssögu óeirðar á Íslandi: Fyrsti hluti
Fragments From the Deeds of Unrest in Iceland: Part One
15. september - 20. október 2012
Opnun laugardaginn 15. september kl. 14
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri

Laugardaginn 15. september kl. 14 opnar Unnar Örn J. Auðarson myndlistarsýningu sem nefnist „Brotabrot úr afrekssögu óeirðar á Íslandi: Fyrsti hluti” í Flóru í Hafnarstræti 90 á Akureyri.

Á sýningunni í Flóru beinir Unnar Örn sjónum sínum að geymd upplýsinga tengdum viðspyrnu almennings og hvernig átök í sögu þjóðar er eytt úr sameiginlegu minni af ríkjandi valdhöfum.

Unnar Örn J. Auðarson stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og framhaldsnám við Listaakademíuna í Malmö. Unnar Örn vinnur í ólíka miðla en verk hans eru yfirleitt hlutar úr stærri innsetningum þar sem hann vinnur á gagnrýninn hátt með umhverfi sitt, samfélagið og hlutverk listamannnsins innan þess. Unnar hélt sýna fyrstu einkasýningu í verslunarmiðstöðinni Kringlunni sem hluti af Gallerí Gúlp árið 1996 og síðan þá hefur hann tekið þátt í yfir 50 einka- og samsýningum hérlendis og erlendis.

Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru mánudaga til föstudaga kl. 12-18 og laugardaga kl. 12-16 og stendur til laugardagsins 20. október 2012.

Heimasíða Unnars Arnar: http://unnarorn.net
Nánari upplýsingar veitir Unnar í síma 699 5621.


Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband