Bloggfærslur mánaðarins, september 2018

Carcasse í Listasafninu á Akureyri

41991256_2025026354185863_5031753469451567104_o

Laugardaginn 22. september kl. 15 verður sýning Gústavs Geirs Bollasonar og Clémentine Roy, Carcasse, opnuð í Listasafninu, Ketilhúsi. Carcasse er klukkustundar löng kvikmynd sem myndlistarmennirnir tveir unnu að í sameiningu á árunum 2012-2017. Myndin er nú sýnd í fyrsta sinn í listasafni á Íslandi, en áður hefur hún verið sýnd í Berlinische Galerie í Berlín í Þýskalandi og á nokkrum kvikmyndahátíðum. 

Um Carcasse skrifar Sjón:

„Þegar hugsað er um fall siðmenninga, liðinna, núverandi og ókominna, er það yfirleitt hrikaleiki hruns þeirra sem birtist okkur í myndverkum og söguljóðum, á tjaldi, lágmynd eða bók. Við sjáum skýjakljúfa nútímans brotna eins og leikfangakastala, hraunöldur gleypa höfuðstaði fortíðar, skipaflota gleymdra heimsvelda þakta hrúðurkörlum og þangi á hafsbotni, yfirgefin virkismusteri á sandblásnum fjallstindum, óvinnandi verkfræðiundur komandi tíma mölvuð af þrautseigum örmum nýrra skóga. Næst dettur okkur í hug fólkið sem var statt í hringiðu eyðileggingarinnar. Þau sem voru á staðnum þegar smæð mannsins varð ljós. 

Carcasse er með merkilegri kvikmyndum sem gerðar hafa verið á Íslandi. Svo listræn og persónuleg meðferð formsins er sjaldgæf og fáir kvikmyndagerðarmenn sem þora að fjalla um jafn stórt viðfangsefni. Myndin gefur því ekki aðeins von um að mannkynið finni sér leið í framtíðinni, hún gefur einnig von um að listformið eigi sér framtíð á landinu sem hún var svo fagurlega sköpuð í.“ 

Sýningin stendur til 4. nóvember og er opin alla daga kl. 10-17 í september en kl. 12-17 í október og nóvember. Aðgangseyrir er 1.500 krónur. Árskort Listasafnsins eru til sölu á 2.500 krónur. 

Framleiðendur: Parkadia, Gústav Geir Bollason og Clémentine Roy.
Handritshöfundar: Gústav Geir Bollason og Clémentine Roy.
Klipping: Ninon Liotet.
Kvikmyndataka: Clémentine Roy og Gústav Geir Bollason.
Hljóð: Gábor Ripli.
Leikmynd og leikmunir: Gústav Geir Bollason.
Hlutverk: Sverrir Möller, Gústav Geir Bollason, Lene Zachariassen, Hjörvar Kristjánsson, Anna Elionora Olsen Rosing, Sigurður Þór Guðmundsson, Hildur Stefánsdóttir, Marinó Sveinsson, Ágúst Marinó Ágústson, Elín Heiða Hlinadóttir, Ragnar Þór Jepsen, Þorvaldur Grétar Hermannsson, Axel Frans Gústavsson.


Lífskraftur, listahópurinn Trönurnar sýna í Deiglunni

40432642_10215586540670377_5583803062163603456_o

Trönurnar bjóða ykkur á sína fyrstu samsýningu í Deiglunni laugardaginn 15. september og sunnudaginn 16. september. Opið báða dagana frá 12:00 —17:00

Aðalbjörg G. Árnadóttir
Árdís Guðborg Aðalsteinsdóttir
Dúa Stefánsdóttir
Eygerður Björg Þorvaldsdóttir
Helga Arnheiður Erlingsdóttir
Hulda Kristjánsdóttir
Lísa Björk Gunnarsdóttir
Margrét Erna Blomsterberg
Þorbjörg Jónasdóttir

Myndlistarhópurinn ber nafnið „Trönurnar“ og samanstendur af konum á breiðu aldursbili. Þegar sálir koma saman og mála skiptir aldur engu máli.  Hópurinn lærði hjá Bryndísi Arnardóttur og Guðmundi Ármanni Sigurjónssyni, fyrst í námsleiðinni „Listasmiðja og málun“ haustönn 2016 og síðan „Fræðsla í formi og lit“ vor og haust 2017, hjá Símey.
Við höfum haldið hópinn síðan við útskrifuðumst og málum saman einu sinni í viku. Því miður sáu sér ekki allir meðlimir hópsins fært að vera með að þessu sinni.

Vonum að þið sjáið ykkur fært að koma og skoða listaverkin okkar sem eru persónulegar hugmyndir um lífskraft.

Nánari upplýsingar veitir Þorbjörg Jónasdóttir í síma 862-3868

https://www.facebook.com/events/2039846266102763


AFTUR í Mjólkurbúðinni - Sal Myndlistarfélagsins

41171229_10155661432177231_1458274330524778496_n

Dagrún Matthíasdóttir opnar Myndlistasýninguna AFTUR í Mjólkurbúðinni - Sal Myndlistarfélagsins í Listagilinu á Akureyri, laugardaginn 8.september kl. 15
Dagrún sýnir olíumálverk sem hún tengir við náttúrufegurðina, snjóinn og bráðnun hans með persónulegri nálgun. Olíumálverkin eru landslagsverk og litanotkun og pensilskrift lagskipt, flæðandi og tilviljanakennd í bland við nákvæmni í myndefninu sjálfu.

Dagrún Matthíasdóttir um sýninguna:
,,Ég velti mikið fyrir mér hvaða titill passar á sýninguna mína í Mjólkurbúðinni. Að hluta til er ég að kveðja þetta fallega rými sem ég hef starfað í en um leið og ég fagna því að Myndlistarfélagið taki við keflinu og fagna líka að öll starfssemin er komin á fullt aftur í húsi Listasafnsins á Akureyri eftir miklar framkvæmdir og endurbætur. Ég set upp málverk sem ég málaði á þessu ári sem ég hef sýnt á Ísafirði og í Danmörku og sýni þau hér aftur núna í Mjólkurbúðinni - Sal Myndlistarfélagsins. Endurtekning og flæði á sér stað í máluninni hjá mér og þó viðfangsefnið sé fremur kalt reyni ég að koma að hlýju í litavali og túlkun. Þegar ég mála landslagið leita ég aftur í fjöllin, fjöllótt landslag með snjó, ís sem bráðnar og um leið og ég hugsa um hvernig má sporna við hnattrænni hlýnun. Ég er ákaflega þakklát því að fá að sýna aftur í Mjólkurbúðinni.

Undanfarin sex ár hefur Dagrún stjórnað sýningarhaldi í Mjólkurbúðinni en nú í haust ákvað hún að flytja sig til og starfa með RÖSK Listhópi í nýrri vinnustofu sem kallast RÝMI. Þar verður listhópurinn með opna vinnustofu vikulega og einnig sýningar og viðburði á gildögum.

Myndlistasýning AFTUR í Mjólkurbúðinni - Sal Myndlistarfélagsins er opin laugardaga og sunnudaga kl. 14-17 og stendur til 16. september og eru allir velkomnir.

 


Til málamynda, ljóðaflutningur í Listasafninu í september

large_16_mynd-1-400x600

Sunnudaginn 9. september kl. 14 verður ljóðalestur í Listasafninu með Sessilíu Ólafsdóttur, Vandræðaskáldi og leik- og tónlistarkonu, undir yfirskriftinni Til málamynda. Sesselía velur sér listaverk í einu af rýmum Listasafnsins og í upplestrinum býr hún til nýja tilfinningu, nýja upplifun og nýtt pláss í huga þeirra sem vilja ljá augu og eyru.  

Flutningurinn er hluti af upplestrarröðinni Til málamyndasem fer fram alla sunnudaga kl. 14 í september. Eyþór Gylfason skipuleggur dagskrána.

Eftirtalin skáld munu velja sér verk og flytja ljóð:

26. ágúst: Eyþór Gylfason, Karólína Rós Ólafsdóttir og Sölvi Halldórsson.
2. september: Vilhjálmur Bragason.
9. september: Sesselía Ólafsdóttir.
16. september: Ragnheiður Harpa Leifsdóttir.
23. september: Eyþór Gylfason.
30. september: Ásgeir H. Ingólfsson.

Upplestraröðin hlaut styrk úr menningarsjóði Akureyrar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband