Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

TENGJA - myndverk eftir Hrefnu Harðardóttur í Uglunni

187856_234190683370137_119680927_n.jpg

Myndverkið TENGJA er ljósmyndaverk af 12 flottum og virkum konum sem allar eru búsettar við Eyjafjörð. Myndirnar eru svart-hvítar og rammaðar inn með efnisvafningum sem tengjast litatilveru viðkomandi konu.
Konurnar völdu sér hlut sem tengist henni á einhvern hátt og fylgir þeirra útskýring á tengingunni. Myndirnar voru teknar sumarið 2010. Hægt er að kaupa bók með verkunum á sýningunni. Allir velkomnir.
Uglan café er rétt innan við þjóðveg eitt, og er rauða húsið sem stendur við gamla Vaðlaheiðarveginn Fnjóskadalsmegin.

31. ágúst - 9. september 2012. 

Hrefna stundaði nám á myndlistarbraut MA og útskrifaðist frá Leirlistardeild MHÍ eftir nám árin 1992-1995 og kennaranám B.Ed. frá LHÍ árið 2007. Hún hefur sótt mörg námskeið í grafík, ljósmyndun og leirlist í Frakklandi, Ítalíu, Ungverjalandi og Englandi og haldið einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum víða um land og erlendis. 
Hún er félagi í Sambandi Íslenskra Myndlistarmanna, Myndlistarfélaginu og Leirlistarfélagi Íslands. 
Hrefna starfar á eigin verkstæði í Listagilinu Akureyri. sími 862-5640, tölvupostur hrefnah@simnet.is,  www.simnet.is/hrefnah

 


Inga Björk sýnir á bókasafni Háskólans á Akureyri

draumeindir_160

Sýning Ingu Bjarkar Harðardóttur Draumeindir opnar á bókasafni Háskólans á Akureyri, sunnudaginn 2. september kl. 13.00. Sýning Ingu Bjarkar er opin mánudaga, miðvikudaga og föstudaga frá kl. 8.00 – 16.00, þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 8.00 – 18.00 og stendur til 28. september. Allir eru velkomnir.

Innblástur sinn sækir Inga Björk vanalega í íslenska náttúru og umhverfi en nú kveðjur við annan tón. Inga Björk tekst á við abstrakt í olíumálverkum þar sem listakonan leitar inn á við og er efniviður  sýningarinnar tilfinningar. Barátta hamingju og gleði við depurð og angist flæðir um myndflötinn. Í tengslum við sýninguna setur listakonan fram ljóð móður sinnar, Önnu Maríu, í rýmið og endurspegla þau flæði tilfinninganna og kallast þau á við málverkin í túlkun og lit.

Inga Björk Harðardóttir er menntuð sem myndlistarmaður, gullsmiður og kennari auk þess að vera móðir þriggja barna og fjögurra stjúpsona.

Draumeindir er sjötta einkasýning Ingu Bjarkar.


Joris Rademaker sýnir í Populus tremula

Joris-Populus-1.9.12-web

Laugardaginn 1. september kl. 14.00 mun Joris Rademaker opna myndlistar-sýninguna Framhald í Populus Tremula. Joris sýnir að þessu sinni ný kartöflumálverk. Titill sýningarinnar vísar í að þetta er sú síðasta af röð þriggja sýninga í sumar.

Sýningin er opin frá kl. 14-22 á laugardaginn 1. september og frá kl. 14-17 sunnudaginn 2. september.

Aðeins þessi eina helgi.


Síðustu fjögur árin eða frá haustinu 2008 hefur Joris málað með kartöfluna sem helsta innblástur. Hann hefur notað kartöfluformin sem mót eða einhverskonar “legokubba” til að byggja málverkin. Eiginlega eru þetta lágmyndir á ómálaðan striga þar sem hvíti liturinn dregur formin fram og svarti liturinn hverfur inn í bakgrunninn. Með því að raða kartöflunum alltaf á mismunandi hátt, engar tvær kartöflur eru heldur nákvæmlega eins, verða til einhverskonar “ hreyfimyndir” í rými málverksins. Í þessari seríu er Joris að tefla saman andstæðum, annars vegar geometrisk form (svörtum ferhyrningi Malevich) og  hins vegar kartöflunni sem náttúrulegu formi.

joris.jpg


Kjötkveðjuhátíð í Listagilinu

fjolpostur_sidebar.jpg

Smiðshöggið á glæsilega sumardagskrá Sjónlistamiðstöðvarinnar verður rekið á afmælisvökunni um næstu helgi þegar Kjötkveðjuhátíð Sjónlistamiðstöðvarinnar gengur í garð, en hún hefst á elektrónískum tónleikum; Exodus 2012, sem hefjast kl. 20.45 föstudaginn 31. ágúst og endar með dýrindis veislu í Listagilinu daginn eftir, sem stendur frá kl. 15-18. Þetta eru stærstu teknótónleikar sem haldnir hafa verið á Akureyri og verða þeir í umsjón Reyk Veek; grúppu sem varð til í kjölfar hrunsins og vildi leggja sitt af mörkum til að græða og byggja upp þjóðarsálina. Tónleikarnir höfða ekki síður til augna en eyrna því mikið ljósasjó verður í gangi og er fólk hvatt til þess að dilla sér og sleppa fram af sér beislinu. Sett verður upp lítið danssvið á miðri götunni fyrir þá sem þora að stíga á stokk til að sýna hvað í þeim býr. Marmiðið með tónleikunum er að kveikja hlýhug, samhygð og von í brjóstum allra sem byggja móður jörð og senda sterka og jákvæða strauma út í óravíddir alheimsins. Hægt verður fylgjast með tónleikunum í beinni útsendingu á netinu með því að fara inn á slóðina: facebook.com/sjonlist

Daginn eftir stendur Sjónlistamiðstöðin í samvinnu við Klúbb matreiðslumeistara á Norðurlandi og fjölda handverks- og myndlistarfólks fyrir skemmtilegri uppákomu í Listagilinu sem fengið hefur heitið „List með lyst“. Listamenn kynna sköpunarverk sín, bæjarins færustu kokkar munu bjóða gestum og gangandi að bragða á öllum kúnstarinnar réttum úr íslensku hráefni og fjörugir dansarar verða á ferð upp og niður gilið. Listafólk og listakokkar leiða þannig hesta sína saman undir merkjum fögnuðar og samvista í góðra vina hópi og ilmandi matarlykt svífur yfir vötnum. Þarna verður gleðin við völd þar sem seiðandi danssveifla, sala á listaverkum og gómsætir matarbitar mynda sannkallaða hátíðarstemningu með sjónrænum tilþrifum. Jesú og lærisveinarnir sitja við háborð og láta fara vel um sig, enda höfðu þeir félagar ekkert í líkingu við þessa meistarakokka til að stjana við hér áður fyrr. Þetta verður því ekki síðasta kvöldmáltíðin heldur sú fyrstu – slík verður upplifun bragðlaukanna.
          
Fyrir þá sem ekki hafa fengið nægju sína ber að nefna að sunnudaginn 2. september kl. 13-15 verður gestum og gangandi boðið að bragða á réttum frá 20 löndum, frá London til Jemen, í Listasafninu á Akureyri þar sem núna fer fram sýningin Lókal-Glóbal. Í dag búa á Akureyri innflytjendur frá 57 þjóðríkjum sem sýnir og sannar hversu ríkt þetta litla samfélag okkar lengst norður í ballarhafi er á heimsvísu.


Opin vinnustofa í Listagilinu

dsc04235.jpg

Listamaður ágústmánaðar í gestavinnustofu Gilfélagsins er Þóra Karlsdóttir. Hún verður með opna vinnustofu laugardaginn 25. ágúst kl. 14:00-18:00.

Þóra sýnir nýleg verk sem unnin eru með ljósmyndum sem faðir hennar Karl Hjaltason tók.

Þóra er fædd og uppalin á Akureyri en fluttist á brott fyrir 30 árum síðan. Hún hefur búið víða erlendis síðastliðin tuttugu ár. Þóra býr nú í Lúxemburg þar sem hún er með vinnustofu í gamalli lestarstöð ásamt fleiri listamönnum.  Þóra stundar myndlistanám í Evrópsku listaakademíunni í Trier og mun útskrifast næsta vor.  Hún hefur áður sýnt verk sín í Lúxemburg, Þýskalandi og Austurríki.

www.karlsdottir.com

 


Sýningarlok í Verksmiðjunni á Hjalteyri um helgina

collab_verksmidjan.jpg

COLLABORATION_5
SAMSTARF_5

ANTON BOSNJAK / BEATE ENGL / LEONIE FELLE / SANDRA FILIC /
MAXIMILIAN GEUTER / ELIAS HASSOS / ALEXANDER STEIG / THOMAS THIEDE


Verksmiðjan á Hjalteyri / 04.08. - 26.08.2012 / Neðst á Hjalteyri við Eyjafjörð / 601 Akureyri  http://www.verksmidjan.blogspot.com
Opið laugardaga og sunnudaga kl. 14-17

Sýningunni COLLABORATION_5 / SAMSTARF_5 í Verksmiðjunni lýkur nú um helgina.

Sýningin hefur fengið afar lofsamlega dóma og til að mynda skrifar Þóroddur Bjarnason í gagnrýni í Fréttablaðinu: “Styrkur sýningarinnar liggur í samtímis notkun tveggja mjög ólíkra sýningarrýma og góðu hlutfalli af áhugaverðum verkum, þar sem hversdagsleg viðfangsefni eru sett fram á látlausan hátt.”

Verkefnið COLLABORATION_ (SAMSTARF_) www.collaboration-project.de var sett saman árið 2008 af listamönnum frá München í Þýskalandi undir stjórn Thomasar Thiede. Það byggir á því að kynna listamenn frá München á alþjóðlegum vettvangi og koma á samstarfi við aðra listamenn víðsvegar um heim. Sýningarnar COLLABORATION_5 / SAMSTARF_5 voru settar upp í GalleríBOXi / Sal Myndlistarfélagsins og í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Á þessum sýningum gefur að líta verk sem sérstaklega eru gerð fyrir þessa ólíku sýningarstaði með aðstoð íslenskra listamanna. Samstarf og samvinna eru mikilvægir þættir í vinnu listamannanna.

Sýningarstjórar: Hlynur Hallsson, Beate Engl, Thomas Thiede og Alexander Steig

Sýningunni í GalleríBOXi / Sal Myndlistarfélagsins lauk um síðustu helgi en sýningunni í Verksmiðjunni á Hjalteyri lýkur sunnudaginn 26. ágúst og er opið laugardag og sunnudag kl. 14-17.

Sýningin er styrkt af Sendiráði Þýskalands í Reykjavík, Menningarráði Eyþings, Stiftung Federkiel, Landeshauptstadt München Kulturreferat, Hörgárbyggð, Ásprent og Procar.


Verksmiðjan á Hjalteyri
Neðst á Hjalteyri við Eyjafjörð
http://www.verksmidjan.blogspot.com
https://www.facebook.com/pages/Verksmi%C3%B0jan-%C3%A1-Hjalteyri/92671772828

Arsborealis - Mannlíf og menning Norðurslóða í Ketilhúsinu

ares_vefbordi.jpg

Opnun í Ketilhúsi
miðvikudaginn 29. ágúst kl. 15.
Arsborealis – Mannlíf og menning Norðurslóða
Þann 29. ágúst kl. 15. mun sýningin Arsborealis – Mannlíf og menning Norðurslóða opna í Sjónlistamiðstöðinni – Ketilhúsi og er sýningin liður í hátíðahöldum vegna 150 ára afmælis Akureyrarbæjar. Á sýningunni eru munir og efni frá Grænlandi, Íslandi, Færeyjum, Noregi og Norðvesturhéruðum Kanada.
 
Megintilgangur Arsborealis sýningarinnar er að kynna sögu, menningu og list  þess fólks sem býr á Norðurslóðum og mannlíf sem lengst af var einangrað og í stöðugri baráttu við óblíð náttúruöfl. Sýndir verða þjóðbúningar landanna, handverk sem byggir á þjóðlegri hefð og kvikmyndir frá síðustu öld sem sýna vel þær ótrúlegu breytingar sem orðið hafa á þjóðum Norðurslóða en flestar hafa þær breyst úr veiðimannasamfélögum í nútíma, tæknivædd samfélög. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna sýninguna fyrir börnum og unglingum því til að varðveita menningu Norðurslóða er mikilvægt að kynna hana fyrir æskunni sem þar býr.
 
Frá Grænlandi kemur kajaksmiðurinn Johnson Maligiaq Padilla en hann lærði veiðar og kajaksmíðar af afa sínum og er einn fárra sem enn kunna að smíða kajaka með fornri aðferð Inúíta. Maligiaq mun smíða kajak á fyrstu tveimur vikum sýningarinnar, útskýra hvernig þeir eru byggðir og bera saman hinar ýmsu gerðir kajaka á Norðurslóðum en um það efni er hann sérfróður. Einnig verða sýndir grænlenskir skutlar, felubúnaður sem notaður var við veiðar úti á ísnum, útskurður úr sápusteini, horni og beini og klæði frá Uummannaq múmíunum sem eru frá 15. öld en fundust árið 1972.
 
Íslendingar leggja m.a. til fatnað úr ull sem gerður er með sömu aðferðum og notaðar voru fyrir 300 árum. Þetta er klæðnaður konu og barns sem er eins og hann tíðkaðist hjá efnameira fólki á 18. öld. Þá verða einnig sýnd leikföng úr dýrabeinum og skeljum eins og þau tíðkuðust fyrr á öldum og jólatré úr viði en jólatré þeirrar gerðar voru smíðuð víðsvegar um Norðurslóðir og þau síðan skreytt með lyngi og mosa.
 
Framlag Færeyja tengist grindadrápi en fyrir því er löng hefð í eyjunum og fastar reglur um hvernig á að fara með þessi hlunningi byggðanna og skiptingu kjötsins. Öll löndin leggja til þjóðbúninga, flíkur og muni sem eru úr hráefnum sem eru einkennandi fyrir landsvæðin og byggja á þjóðlegri hefð. Þá verða sýndar ljósmyndir Ragnars Axelssonar sem teknar eru á Norðurslóðum og ferðaþjónusta á Norðurslóðum verður kynnt á sýningunni.
 
Björn G. Björnsson hannaði sýninguna, Aðalsteinn Ingólfsson var listrænn ráðunautur en verkefnisstjóri er Reynir Adólfsson. Sjónlistamiðstöðin er opin alla daga vikunnar nema mánudaga og þriðjudaga frá 13 til 17 og aðgangur er ókeypis í boði Akureyrarbæjar en sýningunni lýkur 7. nóvember. Sýningin Arsborealis  – Mannlíf og menning Norðurslóða nýtur stuðnings frá Norræna menningarsjóðnum og NATA, ferðamálasamstarfi Íslands, Færeyja og Grænlands.

Sýningin stendur til 7. okt.


Sköpun bernskunnar opnar í Sal Myndlistarfélagsins

una-small.jpg

Í Sal Myndlistarfélagsins verður opnuð sýningin "Sköpun bernskunnar" laugardaginn 25. ágúst kl. 14-17. þetta er samstarfsverkefni á milli Myndlistarfélagsins, Myndlistarskólans og Leikfangasafnsins  sem er í eigu Guðbjargar Ringsted og staðsett er í Friðbjarnarhúsi. Á sýningunni verða sýnd leikföng úr safninu, myndverk sem börn hafa unnið á myndlistarnámskeiðum hjá Rannveigu Helgadóttur í Myndlistarskólanum auk þess sýna Hlynur Hallsson, Hallmundur Kristinsson og Stefán Boulter verk sem öll tengjast æskunni á einn eða annan hátt. Þeir eru allir í Myndlistarfélaginu.

Laugardaginn 8. september verður dagskrá með fjórum fyrirlestrum tengdum sýningunni og sköpun barna.

Sýningin er opin til 9. september og er hún opin um helgar frá kl. 14-17 nema helgina 1. og 2. september þá er hún opin frá kl. 14-22 vegna 150 ára afmælishátíðar Akureyrar. Eyþing styrkti þetta verkefni. Sýningarstjóri er Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.


Uppskeruhátíð ræktunar og myndlistar sunnudaginn 26. ágúst

img_9979.jpg

Uppskeruhátíð ræktunar og myndlistar

Frá því 23. júní hefur verið myndlistarsýning við matjurtargarða bæjabúa á Krókeyri og í gömlu gróðrarstöðinni þar. Þar koma saman myndlistarmenn, listnemar og leikmenn. Sýnendur eru:

Arna G. Valsdóttir
Hlynur Hallsson og Krístín Þóra Kjartansdóttir (sameiginlegt verk)
Joris Rademaker
Guðrún Pálína Guðmundsdóttir
Ívar Hollanders og Victor Hollanders (sameiginlegt verk)
Sigrún Á. Héðinsdóttir
Þórarinn Blöndal

Þetta er í annað sinn sem þetta verkefni er haldið og eru allir sömu myndlistarmenn og síðast auk nýrra þátttakenda. Verkefnið var valið fyrir Íslands hönd á norrænu menningarhátíðina Nord Match í Helsinki haustið 2011. Verkefnið miðar að því að tengja saman list, ræktun matvæla og fræðslu.

img_7348.jpg

Viðburður með fræðslu og smökkun grænmetis verður sunnudaginn 26. ágúst kl. 15-17
við gömlu gróðrarstöðina á Krókeyri


Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, myndlistarmaður.
Talar um verkefnið, tildrög þess og um listaverkin sem þar eru.

Listnemarnir Victor og Ívar Hollanders fremja listgjörning í tengslum við myndverk sem þeir eiga á sýningunni.

Sigfríður Inga Karlsdóttir, ljósmóðir og áhugamanneskja um ræktun.
Talar um garðyrkju í víðara samhengi.

Kristín Kolbeinsdóttir, kennari og eigandi Silva-hráfæði Syðra-Laugalandi efra.
Talar um ræktun og möguelika á  að lifa af henni.

Jóhann Thorarensen, garðyrkjufræðingur hjá Akureyrarbæ.
Talar um hvað sameinar myndlist og matjurtir og um uppskeruna sem gestum er boðið að smakka.

Verkefnið er styrkt af Eyþingi og Afmælisnefnd Akureyrar vegna 150 ára afmælis bæjarins.
Verkefnisstjórar eru Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, myndlistarmaður  og Jóhann Thorarensen garðyrkjufræðingur hjá Akureyrarbæ.

img_9970.jpg


Jóna Hlíf Halldórsdóttir opnar sýningu í Flóru

jonahlifflora.jpg

Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Info
25. ágúst - 11. september 2012
Opnun laugardaginn 25. ágúst kl. 14
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri

Laugardaginn 25. ágúst kl. 14 opnar Jóna Hlíf Halldórsdóttir myndlistarsýningu sem nefnist „Info” í nýju húsnæði Flóru í Hafnarstræti 90 á Akureyri.

Verkið sem Jóna Hlíf sýnir í Flóru er textaverk rammað inn í gömul auglýsingaskilti sem fylgdu húsinu Hafnarstræti 90 þegar Frúin í Hamborg keypti húsið á sínum tíma.
Sýningarnar í Flóru verða hluti af verslunar og vinnustofurýminu og blandast því saman við það sem fyrir er á staðnum.

Jóna Hlíf Halldórsdóttir er fædd í Reykjavík 1978 og hún býr og starfar þar. Hún stundaði nám við Myndlistarskólann á Akureyri á árunum 2002-2004. Hún útskrifaðist með MFA gráðu frá Glasgow School of Art 2007.

Verk Jónu Hlífar Halldórsdóttur hafa verið sýnd nokkuð víða, Kuckei+Kuckei í Berlín (2011), Listasafn Así (2010), Listasafn Reykjavíkur (2008), Listasafnið á Akureyri (2007), Kunstvlaai í Amsterdam(2006), í Tramway, Glasgow (2007, útskriftarsýning) og A Cabine do Amador í Lissabon (2007). Verk hennar eru um þessar mundir til sýnis í Listasafni Reykjavíkur, Listasafninu á Akureyri og í Gallerí Þoku og framundan er sýning í Kling og Bang.

Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru mánudaga til föstudaga kl. 12-18 og laugardaga kl. 12-16 og stendur til þriðjudagsins 11. september 2012.
Heimasíða Jónu Hlífar: www.jonahlif.com
Nánari upplýsingar veitir Jóna Hlíf í síma 663 0545.

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.

julia_jona.jpg


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband