Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Opnar vinnustofur í Flóru, laugardaginn 30. nóvember

flora.jpg

Vegna síendurtekinna fyrirspurna opna listamenn og hönnuðir í Flóru vinnustofur sínar næstkomandi laugardag 30. nóvember kl. 12-16. Fólki gefst þá loksins tækifæri til að ganga um neðri hæðir hússins í Hafnarstræti 90, forvitnast, skoða, spá, spekúlera, ræða málin, fá sér kaffi og meðþví og hitta annað skemmtilegt fólk.

Hér veitist innsýn inn í það sem listamenn og hönnuðir hússins eru að vinna að, betra tóm gefst til að skoða og fólki býðst að kaupa beint af viðkomandi ef þess er óskað. Þau sem verða með opið eru María Dýrfjörð í http://mariacreativestudio.com, Inga Björk í https://www.facebook.com/IngaBjorkMyndlist, Hlynur Hallsson http://hallsson.de, Kristín Þóra Kjartansdóttir, félagsfræði og textíll http://floraflora.is og ef til vill fleiri.

Auk þess er sýning “Blaðsíður” eftir Jón Laxdal Halldórsson opin og hægt að sjá 202 verk eftir hann og á þessari slóð er einnig hægt að sjá 189 verkanna: http://freyjulundur.is/jonlaxdal

Aðgangur er ókeypis, verið öll velkomin.

https://www.facebook.com/events/597313320322758

flóra, hafnarstræti 90, 600 akureyri, 6610168, floraflora.is


Vörur frá kvenhönnuðum og listakonum í Flóru á Dekurdögum

18_flo_769_ra.jpg

Í tengslum við Dömulega dekurdaga á Akureyri leggur Flóra áherslu á vörur frá kvenhönnuðum og listakonum, eins og þessum: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, ásta créative clothes (Ásta Guðmundsdóttir), Eternity by Rannveig Helgadóttir, urtaislandica, Guðríður, Sigrún Guðmundsdóttir, Inga, ASH - Anna Sigríður Hróðmarsdóttir, Wilde10, Hrefna Harðardóttir, Kristín Aðalsteinsdóttir, Helga Sigríður og Hadda, svo einhverjar séu nefndar.
Maria Creative Studio er staðsett í Flóru og verður María Rut Dýrfjörð hönnuður sjálf með sérstaka kynningu á því sem hún er að vinna að. Opið er inn á vinnustofur í Flóru á laugardeginum kl. 12-16.
Flóra hvetur fólk til þess að kaupa vörur frá kvenhönnuðum og listakonum og efla þannig sköpunarkraft kvenna og framleiðslu þeirra. Flóra býður upp á 10% afslátt af vörum frá konum á Dekurdögum.
Föstudaginn 11. október er opið í Flóru kl. 12-18 og laugardaginn 12. október kl. 12-16.


Flóra er verslun, vinnustofur og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu.


flóra / hafnarstræti 90 / 600 akureyri / s. 6610168  
http://floraflora.is  /  https://www.facebook.com/flora.akureyri

https://www.facebook.com/events/1425834240968788


Umsóknarfrestur fyrir Mugg styrki rennur út 1. febrúar

sim-logo

MUGGUR

TENGSLASJÓÐUR FYRIR MYNDLISTARMENN

Muggur er sjóður sem Menningarmálanefnd Reykjavíkur, SÍM og Myndstef stofnuðu árið 2004 og er SÍM umsjónaraðili sjóðsins.

Hlutverk sjóðsins er að styrkja myndlistarmenn til tímabundinnar dvalar erlendis vegna sýningar, vinnustofu eða annars sambærilegs myndlistarverkefnis. Með þeim hætti er sjóðnum ætlað að efla myndlistarstarf í Reykjavík og styrkja ímynd Reykjavíkurborgar sem framsækinnar menningarborgar á heimsvísu. Stofnun sjóðsins er liður í því að gera Reykjavíkurborg að vettvangi alþjóðlegra listastrauma.

Umsóknarfrestir fyrir Mugg 2013 eru eftirfarandi:

1. febrúar 2013 vegna verkefna sem hefjast á tímabilinu 1. mars – 31. águst 2013

1. júlí 2013 vegna verkefna sem hefjast á tímabilinu 1. september – 28. febrúar 2014

Nánari upplýsingar hér


Umsóknarfrestur fyrir KÍM styrki er 01.02

iac_logo_invblue_rgb-300x162

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar styrkir myndlistarmenn til starfa, ferða og sýningahalds erlendis. Sú breyting verður á 2013 að styrkir verða veittir fjórum sinnum í stað sex. Verkefnastyrkir verða veittir tvisvar á ári og ferðastyrkir tvisvar. Verkefnastyrkir eru veittir til framleiðslu verka og sýninga og útgáfu en ferðastyrkir fyrir ferðum, gistingu og/eða uppihaldi á ferðalögum.

 

Tekið verður við umsóknum frá 2. janúar en umsóknarfrestir á árinu 2013 eru eftirfarandi:

 

01.02.2013 – Verkefnastyrkir

01.05.2013 -  Ferðastyrkir

01.07.2013 -  Verkefnastyrkir

01.11.2013 -  Ferðastyrkir

Frekari upplýsingar og umsóknareyðublöð er að finna hér.


KEA auglýsir eftir umsóknum í Menningar- og viðurkenningasjóð

kea-landsk

Menningar- og viðurkenningasjóður KEA auglýsir eftir styrkumsóknum og er umsóknarfrestur til 30. september 2012. Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér nánari útlistun á úthlutunarflokkum og reglugerð sjóðsins á heimasíðu KEA, www.kea.is. Nauðsynlegt er að fylla út umsóknareyðublað sem nálgast má á heimasíðunni eða á skrifstofu KEA, Glerárgötu 36.

Styrkúthlutun tekur til eftirfarandi flokka:

   Til einstaklinga, félaga eða hópa sem vinna að mikilvægum menningarmálum á félagssvæðinu. Um getur verið að ræða málefni á sviði félagsmála, minja, lista og almennt þeirra málefna sem flokkast sem menning í víðtækri merkingu.

   Til þátttökuverkefna á sviði menningarmála. Í þessum flokki er horft til stærri verkefna á sviði menningarmála á félagssvæði KEA.

   Til ungra afreksmanna á sviði mennta, lista og íþrótta eða til viðurkenninga fyrir sérstök afrek s.s. á sviði björgunarmála. Í þessum flokki skulu umsækjendur vera yngri en 25 ára og búsettir á félagssvæði KEA.

   Styrkir til íþróttamála. Markmiðið er að stuðla að því að sem flest börn og unglingar eigi kost á íþróttaiðkun og að íþróttamenn eða lið sem skara fram úr geti stundað markvissar æfingar og sótt mót við sitt hæfi. Einnig falla hér undir verkefni sem eru til þess fallin að stuðla að heilbrigðum lífstíl almennings eða snúa að uppbyggingu á aðstöðu til íþróttaiðkunar.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér reglugerð sjóðsins.

Nauðsynlegt er að fylla út umsóknareyðublöð sem nálgast má á heimasíðunni umsóknareyðublöð  eða á skrifstofunni og skal þeim skilað rafrænt eða á skrifstofu KEA, Glerárgötu 36, á Akureyri fyrir 30. september 2012. 


Nes auglýsir gestavinnustofur fyrir 2 íslenska listamenn - frí dvöl, styrkur vegna efniskostnaðar

skagastrond

KUL

Könnun umhverfisáhrifa á listsköpun

Skagaströnd

1. – 30. september 2012

 

KUL er þverfaglegt verkefni í listsköpun, í umsjón Nes listamiðstöðvar á Skagaströnd, sem haldið verður í september nk.. Verkefnið tengir saman íslenska og erlenda listamenn sem dvelja einn mánuð í listamiðstöðinni og því lýkur með hátíð, þar sem listamennirnir sýna hvernig Skagaströnd og nágrenni hefur áhrif á listsköpun þeirra.

 

KUL verkefnið fjallar um listsköpun og áhrif umhverfisins á hana. Markmið verkefnisins miðar að því að skapa afurð sem hægt er að vinna að á staðnum, afurð sem er hagnýt, afurð sem getur verið þverfagleg og sem örvar huga og hönd. KUL miðar að því að skapa tengsl milli listforma, þar sem við erum til staðar og virk. Verkefnið kannar samræðuna milli staðarins og tilverunnar, hvernig við erum mótuð af innri og ytri aðstæðum og hina síkviku og gagnvirku mótun umhverfis og sjálfsins.

Nes listamiðstöð auglýsir eftir tveimur íslenskum listamönnum, til að dvelja í listamiðstöðinni í september, sem eru tilbúnir til að taka þátt í KUL. Innifalin er frí dvöl í listamiðstöðinni og styrkur vegna efniskostnaðar, gegn framlagi listamannanna til verkefnisins.

Lokahátíð KUL verður á Skagaströnd 29. september, með listkynningum og matarviðburðum, listamannanna, matreiðslumanna á svæðinu og heimamanna.

Einn þáttur í KUL er matreiðsluverkefni sem Henry Fletcher, sérfræðingur í nýtingu vannýttra hráefna, stjórnar. Hann mun safna plöntum og sjávarfangi við strendur Skagastrandar og nágrennis og vinnur síðan með matreiðslumönnum á svæðinu að nýta hráefnin við að skapa nýjar mataruppskriftir og endurbæta gamlar. Þeir matreiðslumenn sem taka þátt í verkefninu eru Gunnar Sveinn Halldórsson í Kántrýbæ á Skagaströnd, Björn Þór Kristjánsson og Shijo Mathew í Pottinum Restaurant á Blönduósi og Jón Daníel Jónsson á Sauðárkróki.

KUL er hugmynd sem Tanja Geis, Henry Fletcher, Jacob Kasper og Andrea Cheatham Kasper áttu frumkvæði að. Verkefnið er í umsjón Melody Woodnutt, framkvæmdastjóra Nes listamiðstöðvar.

Nes listamiðstöð er staðsett á Skagaströnd og í ár dvelja þar yfir 100 listamenn frá fjölmörgum þjóðlöndum. Vaxtarsamningur Norðurlands vestra styrkir KUL verkefnið.

 

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 29. júlí 2012.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni:  http://neslist.is/

Netfang: Melody Woodnutt:  nes@neslist.is

Sími: Melody Woodnutt:  691 5554

Umsóknareyðublað:  http://neslist.is/application/call-for-artists/


Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar auglýsir styrki

dbf12eb1bd4a4d

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar auglýsir styrki til myndlistarmanna, sýningarstjóra og annars fagfólks á sviði myndlistar vegna myndlistaverkefna erlendis.

Verkefnin verða að eiga sér stað á tímabilinu 1. mars 2012 til 1.mars 2013. Umsóknarfrestur er til 1. febrúar 2012.

Athugið að umsóknarfrestur vegna stærri styrkja er 1. febrúar næstkomandi.

Umsóknarfrestur vegna smærri styrkja er á tveggja mánaða fresti:

01.02.2012

01.04.2012

01.06.2012

01.08.2012

01.10.2012

01.12.2012

 

Frekari upplýsingar er hægt að finna hér á vefsíðu Kynningarmiðstöðvarinnar.


Muggur auglýsir eftir umsóknum

sim-logo

Muggur er sjóður sem Menningarmálanefnd Reykjavíkur, Samband íslenskra myndlistarmanna og Myndstef hafa stofnað og hefur Sambandi íslenskra myndlistarmanna verið falið að annast umsýslu hans. Hlutverk sjóðsins er að styrkja myndlistarmenn til tímabundinnar dvalar erlendis vegna sýningar, vinnustofu eða annars sambærilegs myndlistarverkefnis. Með þeim hætti er sjóðnum ætlað að efla myndlistarstarf í Reykjavík og styrkja ímynd Reykjavíkurborgar sem framsækinnar menningarborgar á heimsvísu.

Stofnun sjóðsins er liður í því að gera Reykjavíkurborg að vettvangi alþjóðlegra listastrauma.Við bendum félagsmönnum á að hægt er að sækja um Muggs styrk fyrir gestavinnustofur SÍM í Berlín.

Umsókarfrestur er til 1. febrúar 2011, póststimpill gildir.

 

Auglýst er eftir umsóknum til dvalar erlendis vegna:
myndlistarsýningar
vinnustofudvalar / þátttöku í verkstæði
annars myndlistarverkefnis

Skilyrði er um að verkefnið sé sýnilegt og að það geti að mati sjóðsstjórnar styrkt ímynd Reykjavíkur sem uppsprettu fyrir öflugt og framsækið myndlistarlíf.

 

Þeir sem þegar hafa fengið úthlutað styrk úr dvalarsjóði Muggs annars vegar og ferðasjóði Muggs hins vegar þurfa að skila greinagerð áður en sótt er um aftur.

Hér með er auglýst eftir umsóknum vegna verkefna sem hefjast á tímabilinu 1. apríl – 31. júlí 2012. Umsóknarfrestur rennur út 1. febrúar 2012.

 

Til að geta fengið úthlutun úr dvalarsjóði Muggs þarf umsækjandi að vera fullgildur skuldlaus félagi í SÍM og leggja fram tilskilin gögn er staðfesti boð um þátttöku í myndlistarviðburði eða úthlutun á aðstöðu til vinnu við myndlist. Ekki er veitt fé vegna dvalar í vinnustofum þegar fullir dvalarstyrkir fylgja úthlutun.

Vinsamlega athugið að dvalarstyrkir eru eingöngu veittir til einstaklinga.
Umsóknum skal fylgja ítarleg og greinargóð lýsing á verkefninu, upplýsingar um sýningu, sýningarstað, vinnustofusetur, verkstæði, ráðstefnu eða annað það sem við á hverju sinni. Einnig skal fylgja staðfesting ábyrgðarmanns verkefnisins í því landi sem það fer fram í, þ.e. sýningarstjóra, safnstjóra, galleríeiganda, forstöðumanns vinnustofuseturs, verkstæðis eða annars, allt eftir eðli verkefnisins. Dagsetningar verkefnisins verða að koma fram.

Styrkþegar undirgangast skuldbindingar gagnvart sjóðunum samkvæmt sérstökum samningum sem gerðir verða í kjölfar úthlutunar og kveður m.a. á um að styrkþegum beri að skila stuttri greinargerð um notkun styrksins.

Mikilvægt er að hafa umsóknina vandaða, skýra og hnitmiðaða. Lesa reglur og leiðbeiningar vel.

Umsóknareyðublað, stofnskrá og reglur um úthlutun er að finna á heimasíðu SÍM http://sim.is/sim/muggur/

Nánari upplýsingar um Mugg eru einnig veittar á skrifstofu SÍM, sim@sim.is , s. 551 1346

Umsóknum skal skilað til skrifstofu SÍM fyrir 1. febrúar 2012, póststimpill gildir.


Bækur og bókverk í Flóru

jonahlif.jpg

jólaBÓKAflóra

fimmtudaginn 8. desember 2011

í Flóru, Listagilinu á Akureyri

Allan fimmtudaginn þann 8. desember n.k. verður Flóra með opið fyrir gesti og gangandi að kíkja á jólaBÓKAflóru, en á boðstólnum verða bæði nýútkomnar og sérvaldar eldri bækur. Í tengslum við jólaBÓKAflóruna verða Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Jóna Hlíf Halldórsdóttir með kynningu á þremur bókverkum sem þau hafa verið að vinna að, en bókakynningin er unnin í tengslum við sýninguna “Nú á ég hvergi heima” sem þau Hjálmar og Jóna opna nk. laugardag í Populus Tremula. Tvö bókverkanna sem þau verða með í Flóru koma nú út í takmörkuðu upplagi en það þriðja verður eingöngu til sýnis í bili, en það er enn í vinnslu.

Fyrri tvö bókverkin hafa þau Hjálmar og Jóna unnið í sameiningu. Um er að ræða annars vegar texta sem Hjálmar bjó til fyrir Jónu undir áhrifum frá verkinu “Byltingin var gagnslaus” og inniheldur 20 athugasemdir við þann verktitil. Seinna bókverkið inniheldur orð sem hafa verið skorin í lituð blöð, sem er tækni sem Jóna hefur verið að nota í ýmis verk. Orðin eru nokkur vel valin lýsingarorð og titill verksins er “Geggjað brjálað sjúklegt æði”. Í raun er þetta byggt á enn eldra verki sem þau unnu saman árið 2005 fyrst, en hafa alltaf verið að bíða að koma frá sér með einhverjum hætti.
Síðasta verkið sem ekki kemur út núna, en verður til sýnis, er bók með einu ljóði sem heitir “Myrkur eða 7 skuggar og Chopin”. Þar hefur Jóna verið að vinna myndskreytingar við textabrot og nálgunin verið sú að reyna að búa til sl. myndljóð eða finna leið til að gera myndljóð.

Bókakynningin Hjálmars og Jónu hefst klukkan 20.

Bækurnar verða svo til sýnis í Flóru um helgina sem hér segir:

föstudag 10-18, laugardag og sunnudag 14-17.



Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðarstaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Listrænn ráðunautur og kaffibarþjónn staðarins er Hlynur Hallsson myndlistamaður. Áhersla staðarins er á nýtingu, endurnýtingu, verkmenningu og sköpun. Sýningarrýmið í Flóru á sér merkilega forsögu því þar rak Snorri Ásmundsson International Gallery of Snorri Ásmundsson með góðum árangri í lok síðustu aldar. Svo skemmtilega vill til að Snorri sýnir einmitt í viðburðarrými Flóru þessar vikurnar og verður sýning hans auðvitað opin gestum og gangandi á jólaBÓKAflórunni.

Sjá meira um Flóru á
http://floraflora.is
http://www.facebook.com/flora.akureyri

Nánari upplýsingar veitir Kristín Þóra Kjartansdóttir í síma 6610168



Listasjóður Dungal auglýsir eftir umsóknum um styrki

Auglysing-i-A4-2011

Árið 1992 stofnaði Gunnar B. Dungal þáverandi eigandi Pennans hf. Listasjóð Pennans.

Sjóðurinn var stofnaður til minningar um foreldra hans, Margréti og Baldvin P. Dungal.

Sjóðnum er einkum ætlað að styrkja unga myndlistamenn sem eru að feta sín fyrstu skref á myndlistarbrautinni og einnig að eignast verk eftir þá.
Við sölu Pennans árið 2005 ákvað Gunnar að halda áfram starfsemi sjóðsins og var nafninu því breytt og heitir hann núna Listasjóður Dungal.

Safn verka fyrri styrkþega eru því í eigu Listasjóðs Dungal.

Umsóknarfrestur er til 3. desember 2011 og hér eru eyðublöð og nánari upplýsingar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband