Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Listumfjöllun um sýninguna Rembrandt and Degas - Portrait of the Artist as a Young Man

f_exhibition1.jpg

Listumfjöllun - gagnrýni
Pálína Guðmundsdóttir skrifar.

Rembrandt and Degas - Portrait of the Artist as a Young Man. Sýningin var sett upp í Rijksmuseum í Amsterdam í október 2011. Þaðan fór hún til Clark Art Institute í Williamstown í Massachsetts (13. nóvember 2011 - 5. febrúar 2012)  og þaðan til Metropolitan Museum of Art í New York (23. febrúar - 20. mai 2012) Portrait of the Artist as a Young Man.

Sýningin sýnir myndverk tveggja ungra listamanna og sjálfsmyndir þeirra. Þeir eru báðir rúmlega tvítugir. Sýnd eru 22 verk, ellefu eftir hvorn þeirra. Málverk, grafík og teikningar þeirra beggja voru smekklega hengdar upp í fallegum nýuppgerðum sal safnsins í Amsterdam. Safnið hafði lengi verið lokað þar sem verið var að endurgera það og því tilhlökkunarefni að koma þangað aftur. Myndunum var öllum blandað saman svo maður sá ýmist málverk eftir Rembrandt eða Degas innanum pappírsverk þeirra beggja.


Rembrandt van Rijn lifði 1606 - 1669 í Hollandi en Edgar Degas 1834 - 1917 í Frakklandi það var því nokkuð óvænt að sjá þá þarna á samsýningu. Degas gafst upp á náminu í École des Beaux-Arts í París og fór í þriggja ára sjálfsnám til Ítalíu. Þar féll hann gjörsamlega fyrir verkum Rembrants eftir að hafa kynnst þeim í mýflugumynd og byrjaði að kopíera teikningar hans og ætingar af miklum áhuga og nákvæmni. Þetta hafði djúpstæð áhrif á hann sem listamann þó einhverjir hafi bennt á að andlitsmyndirnar hans minni meira á verk eftir Raphael heldur en Rembrandt þar sem hann var fyrirmyndin í teikningu í Frakklandi. Stúdía Degas á notkun ljóss og skugga,  brotnum línum og að fanga  stemmingu eins og í teikningum Rembrandts sýnir sterk áhrif og jákvæða þróun á verk hans jafnvel síðar þegar hann fór út á braut Impressionismans.

f_exhibition2.jpg

Rembrandt bjó fyrst í hinum fræga háskólabæ Leiden þar sem hann fæddist og flutti svo til Amsterdam og var þar til dauðadags. Hann naut gríðarlegrar velgengni framan af og varð auðugur en síðan færðust dökkir skuggar yfir líf hans og hann dó frátækur og óhamingjusamur. Sjálfsmyndir hans þykja í hæsta gæðaflokki evrópskarar listar og er ásamt verkum van Goghs mikilvægustu gersemar Hollands og draga milljónir ferðamanna til landsins ár hvert. Fyrir utan einstaka notkun á ljósi og skuggum og tæknilega fullkomnun þá er styrkur og töfrar sjálfsmynda hans lýsingin á mannlegum tilfinningum. Hann sýnir allan skala mannlegra tilfinninga, allt frá galvöskum unglingi sem vill sigra heiminn og síðar hrokafullum myndlistarmanni sem gleymir sér í lystisemdunum og firrist við vegna velgengninnar. Síðar sorgmæddan mann sem hefur misst sína ástkæru eiginkonu Saskíu og son sinn Titus. Að lokum er það dapurt og fátækt gamalmenni sem bíður svangur dauða síns. Rembrandt var átrúnaðargoð margra samtíma listamanna Degas vegna þess hve óhefðbundinn hann var og utan við þá list sem merkilegust þótti á þeim tíma. Rembrandt fór alltaf sínar eigin leiðir bæði í efnisvali og tækni og var það ein af ástæðum þess hve vinsæll hann varð sem fyrirmynd síðar. Degas og margir af samferðamönnum hans þoldu illa hefðina og vildu finna nýjan tjáningamiðil sem lýsti augnablikinu með stemmingu þess og birtu þá stundina. Hann hreyfst af ballettmeyjum og fór þá inn á ókönnuð mið í viðfangsefni, eins og Rembrandt sjálfur gerði þegar hann málaði eigin andlit og sálarlíf þess.

Sýningin, var falleg og áhugaverð og sýndi hvernig áhrifa Rembrandts gætir í list annars listamanns tæpum tvöhundruð árum seinna. Og hve ferskur, sterkur og mikilfenglegur Rembrandt er enn í dag, rúmlega fjögur hundruð árum eftir fæðingu hans. Hún dregur líka fram gæði Degas sem andlitsmyndamálara en það er ekki beinlínis það sem hann er þekktur fyrir. Þetta er sýning sem ég hefði viljað sjá oftar og geta setið og velt fyrir mér en í staðinn sá maður hana í tölverðum mannfjölda og þrengslum eins og venja er á Rijksmuseum í Amsterdam.

Ég hvet alla þá sem tök hafa á að sjá sýninguna í New York og áhuga hafa á þessum listamönnum að gera það. Ég hef mikinn áhuga á nútímalist en með jöfnu millibili verð ég að skoða gömlu meistarana og finnst það að jafnaði vera eins og að fá ferskt loft og næringu eftir innilokun og loftleysi. Þess vegna eru þeir sígildir í orðsins fyllstu merkingu.
Gallar sýningarinnar var fyrir utan smægðina að í framhaldinu langaði mig að sjá stóra sýningu með andlitsmyndum Rembrandts eingöngu annars vegar og hins vegar aðra jafn stóra með ballettmyndum og styttum Degas. Kannski var það ekki galli heldur bara kostur.
 
Þessi blanda af verkum Rembrandts og Degas að frumkvæði Rijksmuseum gekk upp en oft er þreytandi þegar verið er að sulla saman alla vega list, listamönnum og listformum á sýningum. Sá ég átakanlega mislukkað dæmi um það í Koninlijk Museum voor Schone Kunsten í Antwerpen i fyrra sumar, þegar einhver mér óþekkt gömul stjarna í borginni fékk að bregða á leik og troða eigin myndum í alla salina innan um fasta safneignina. Mér finnst oftast ekkert trompa einkasýningar í þeim efnum, jafn vel þó ég hafi séð margar frábærar samsýningar. Í einkasýningum finnst mér oft list viðkomandi listamanna njóta sín best, alla vega þeirra sígildu.

Myndirnar eru fengnar af vef Clark Art Institute

Myndbandið er fengið af vef Rijksmuseum


Snorri Ásmundsson með gjörning og listamannsspjall í Flóru

snorri_1127544.jpg


Snorri Ásmundsson
- gjörningur og listamannsspjall í Flóru
fimmtudaginn 29. desember 2011, klukkan 20-22

Undanfarnar vikur hafa listunnendur fengið að njóta sýningar Snorra Ásmundssonar í Flóru, sem ber heitið 549 26 777777 131166 4199. Sýningin saman stendur af teikningum og setningum, þar á meðal facebook statusum og quotum listamannsins. Fimmtudaginn 29. desember nk. verður boðið upp á gjörning og spjall með Snorra í Flóru þar sem hann ræðir opinskátt um verkið og aðra list sína.
Snorri Ásmundsson er listamaður sem hóf listamannaferil sinn einmitt Listagilinu á Akureyri og árið 1997 rak hann gallerí í Kaupvangstræti 23 í Gilinu, nákvæmlega í því rými sem hann sýnir nú í. Galleríið nefndist International gallery of Snorri Asmundsson og voru þar nokkrar mjög athyglisverðar sýningar og má þá nefna ævintýri listakattarins Loka. Snorri hefur síðan oft leitast við að hafa bein áhrif á samfélagið með opinberum uppákomum. Hann hefur fengist við að skoða viðbrögð umhverfisins, þ.e. viðbrögð fólks við því þegar viðurkenndum gildum er snúið á hvolf og þegar, annars valdalaus, einstaklingur tekur sér vald sem alla jafna er úthlutað eftir fyrirfram gefnum reglum. Hvernig svo sem fólk bregst við þessum uppátækjum listamannsins þá er hann fyrst og fremst að ögra samfélaginu og gildum þess. Hann leitar á mið sem kalla á snörp viðbrögð og kannar um leið mörk náungans og væntanlega sín eigin.

Snorri er einn af stofnendum Kling og bang gallerís og Leikhúss listamanna. Hann hefur undanfarin ár truflað tilveru fólks með umfangsmiklum og eftirtektarverðum gjörningum sínum sem hafa oftar en ekki beinst að helstu feimnismálum almennings eins og pólitík, kynlífi og trúmálum. Borgarstjórnarframboð, forsetaframboð, tilnefningar til heiðursborgara og sala aflátsbréfa svo dæmi séu tekin. Bókin Beauty Swift Generation Revolution kom út árið 2009 og þá bók kallar hann opinberunarbókina. Þess ber að geta að aflátsbréf Snorra eru til sölu í Flóru.
Nánari upplýsingar um viðburðinn veitir Kristín í síma 6610168.

Flóra, Listagilinu á Akureyri, Kaupvangsstræti 23, 600 Akureyri
http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri


Listamannaspjall í Flóru í Listagilinu á Akureyri

sigrun3

Þriðjudaginn 13. desember kl. 20 mun Myndlistarfélagið, Gestavinnustofan og Flóra standa fyrir listamannaspjalli sem öllum er opið. Sigrún Guðmundsdóttir sem er starfandi listamaður í Rotterdam mun fjalla um list sína og þróun hennar. Sigrún hefur dvalið í gestavinnustofunni í nóvember og desember og hélt sýninguna "Ókyrrð" í Populus Tremula í lok nóvember. Hægt er að lesa nánar um Sigrúnu og umfjöllun um sýninguna hér.

Boðið verður upp á léttar veitingar og vonast er til að sjá sem flesta.


Umfjöllun um Sinfóníu Málarans

akureyri-18-tbl.jpg

AKUREYRI VIKUBLAÐ:

HAUKUR ÁGÚSTSSON SKRIFAR UM TÓNLIST.

SINFÓNÍA MÁLARANS.


Vinnustofa í Japan laus til umsóknar

02

Stay, Make & Present in the heart of Tokyo - 3331 Open Residence

http://residence.3331.jp/en/

Application Deadline: 30th December 2011

 

3331 Arts Chiyoda is a vibrant arts centre which brings together creative practitioners of all arts fields, along with people of all backgrounds and interests, in an open environment filled with creative energy, where multiple events and exhibitions are taking place on a daily basis. Here artists can connect immediately to a stimulating cross section of the Tokyo art and design scene and engage closely with its local contexts.

The residence facilities include accommodation, studio and small gallery space allowing resident artists to stay, make and present in the heart of Tokyo.

 

We currently have availability for May, June, October, November and December 2012. The deadline for applications is 30th December 2011. Please refer to the residence home page for full information http://residence.3331.jp/en/

For all enquiries please contact Satoko Takahashi residence@3331.jp +81 3-6803-2441

 

*Please note this is a self-supporting residence in which participating artists must secure their own funds towards the cost of the residence facilities as well as their own travel, production and living expenses. 3331 does not provide any grants.

====================================================================

Image – residence artist Moe Satt’s performance in Akihabara

 

● ● ●   ● ● ●   ● ● ●   ●

3331 Arts Chiyoda

 

Emma Ota

International Coordinator

MAIL:info@en.3331.jp

 

〒101-0021

Tokyo Chiyoda-ku Sotokanda 6-11-14 JAPAN

TEL: 03-6803-2441 FAX:03-6803-2442

http://www.3331.jp

 


Bergþór Morthens og Stefán Boulter sýna í Gallerí Rauðku

bodskortraudkafinal.jpg

Bergþór Morthens og Stefán Boulter opna sýninguna “SÓLSTÖÐUR” í Gallerí Rauðku á Siglufirði.

Sýningin opnar laugardaginn 10. desember kl. 16:00.

Allir hjartanlega velkomnir.

Sýningunni lýkur sunnudaginn 1. janúar 2012.


Listumfjöllun um sýningu Sigrúnar Guðmundsdóttur

img_6741.jpg

Listumfjöllun - gagnrýni    
Akureyri. 5. desember 2011. Pálína Guðmundsdóttir skrifar.


Sigrún Guðmundsdóttir, sýningin Ókyrrð, 26 og 27. nóvember 2011, í Populus Tremula, Listagilinu á Akureyri. Sigrún dvelur í gestavinnustofunni í Listagilinu í nóvember og desember.

Sigrún er Reykvíkingur og  fædd 1980. Hún nam myndlist í AKI listaakademíunni í Enschede í Hollandi á árunum 2004-2008. Á þeim námstíma fór hún 2007 í skiptinám til Boston og nam bæði myndlist og tónlist. Sigrún er starfandi myndlistarmaður í Rotterdam í Hollandi en þar spilar hún einnig í hljómsveit. Hún skrifar líka og notar texta í list sinni og áður dansaði hún. Listsköpun hennar hefur því ýmsa snertifleti sem á einn eða annan hátt eru sýnilegir í myndverkum hennar. Hún var ár í tveimur mismunandi lýðháskólum í Danmörku og þróaði þar margvísleg listform áður en hún  flutti sig suður og hóf nám í AKI.
Hún vakti strax athygli á lokaprófinu og í framhaldi af því buðust henni sýningar víðsvegar um Holland. Hún var líka tilnefnd til tvennra verðlauna. Síðustu þrjú árin hefur hún verið á hollenskum listamannalaunum sem hefur gert henni mögulegt að þróa listina og fagleg vinnubrögð enn frekar.

 Myndverk hennar eru samfélagsgagnrýnin og sérhver hluti  þeirra partur af stærri heild. Á heimasíðu Sigrúnar, www.sigrun.eu eru textar á ensku og hollensku um list hennar, ljósmyndir, video og performansa (gjörninga) sem gefur góða innsýn í myndverk hennar  og listræna þróun. Neyslusamfélagið, sjálfsmyndin, stress og fornir tímar, er uppistaðan í hugmyndafræði hennar. Einnig lyfjaiðnaðurinn og hve ginkeypt og gangnrýnislaus við erum fyrir honum, í örvæntingu okkar og von um bata og betri heilsu. Græðgi, klámvæðing og efnishyggja skjóta upp kollinum í myndverkunum og sýnir hún hina spaugilegu hlið þess. Hún notar ýmis ólík efni eins og súkkulaði, matvöru, lyfjaumbúðir og textílefni ásamt ljósmyndum og vídeói.

 Sýning Sigrúnar í Populus Tremula samanstendur af mismunandi hlutum sem saman mynda góða ljóðræna heild. Sýningin er sérstaklega gerð fyrir rýmið og hentar því mjög vel. Lykilverk sýningarinnar eru syndapokarnir á gólfinu en þjóðsagan sem liggur til grunna sýningarinnar er af syndugum presti og slunginni kerlingu. Saga sem Sigrún rakst á á Amtbókasafninu einn daginn.
 Eitt myndverkið er ljósmyndasería af gluggaröðum háhýsa í Rotterdam og pilluumbúðir inn á milli. Hugsun alkemistanna “svo inni svo úti, svo uppi svo niðri” skýtur upp í kollinn á manni þegar maður skoðar verkið. Hugsunin læðist að manni hvort umhverfið geri manninn veikan eða innri veikindi skapi einsleitt og staðlað umhverfi. Háhýsin í Rotterdam eru víðs fjarri gömlu niðurnýddu íslensku sveitabýli sem sést á einni myndinni á heimasíðunni, og hefur verið viðfangsefni hennar áður.
Á sýningunni Ókyrrð eru fyrrnefndar myndir, lítill skúlptúr af spilaborg byggðri úr greiðslukortum, teikningar úr gömlum ævintýrum á trébúta, og svo umfangsmesta verkið sem er í raun einhverskonar innsetning. Það er með mörgum svörtum taupokum úttroðnum af syndum fólks á pappírsmiðum, liggjandi á gólfinu með tilheyrandi textaverkum á tveimur veggjum. Annar textinn er lítil teikning og leiðbeiningar í Facebookleikja stíl þar sem á að  ýta á “like” og þú gætir verið dregin út sem sá heppni sem fær einhverskonar syndaaflausn. Í nútímanum  og neyslusamfélaginu erum við alltaf annaðhvort rosalega heppin eða óheppin, við ýmist græðum eða töpum í takt við fjármálaspilaborgina. Flestir hlutir eru gerðir að einhverskonar leikjum í hámarki yfirborðsmennskunnar, þar sem fáir eru svo útvaldir til að græða eitthvað. Allt er svo rosalega gaman og léttvægt. Hinn textinn er gömul þjóðsaga um syndugan prest enda tilheyrir stærsti pokinn honum.  Þetta leiðir snarlega hugann til stjórnenda fjármálafyrirtækja sem áttu að gæta fjármála landsmanna með góðu fordæmi, einnig minnist maður alls sem tengt er biskupsmálinu. Á tré teikningunum sjáum við meðal annarra keisarann í sínum nýju fötum enda fjármálablekkingar hluti neyslusamfélagsins. Á annarri mynd er einhver búinn að hengja sig upp í tré, einhver sem hefur tapað miklu kannski bæði fé og eða ærunni eða þá er mjög syndugur. Gleði og sorgir fólks, lævísi og svik tjáir Sigrún í þessum gömlu ævintýrafígúrum sem við þekkjum flest úr uppvextinum og eru samofin því samfélagi sem við erum vaxin úr, hinn vestræni heimur. Áhorfandanum gefst tækifæri til að skrifa upp syndir sínar og stinga í pokann og taka þátt í leiknum, með von um syndaaflausn. Þarna kallast margir þættir og hugmyndir á og auðvelt væri að klúðra því í of miklum frásögnum eða smáatriðum en Sigrún leysir þetta lista vel og af einstöku næmi, hún veit  nákvæmlega hvar hver hlutur á að vera og í hvaða hlutföllum. Hún hefur sem fyrr segir  dansað og því þroskað rýmistilfinninguna og þróað hreyfingar sínar og hve langt líkaminn nær að teygja sig áður en jafnvægið raskast. Hún er líka tónlistakona og fannst mér hvorutveggja komst til skila í sýningunni. Hún var lifandi eins og á hreyfingu og með góðan hrynjanda. Sýningin var eins og samofið tónfall þess forna og því nútímalega og firrta. Hvert framhaldið verður í heiminum fer náttúrlega eftir siðferði okkar og syndum.

sigrun2.jpg

Þó sýningin hafi verið einstök upplifun margra þátta þá gæti maður vel hugsað sér hluta hennar tekna út og unnið frekar með þá í nýju samhengi. Sigrún hefur einstaka efnistilfinningu og saumar syndapokana úr efnispjötlu sem einhver hafði skilið eftir í vinnustofunni, og gerir það af sömu nákvæmni eins og um saum á alvöru presthempu væri að ræða. Hver tala, hvert spor allt úthugsað og framkvæmt af stökustu nákvæmni og yfirvegun. Þarna fékk efnisbúturinn nýtt og virðulegt hlutverk  alveg eins og tómt pilluspjaldið.

Sýningin hafði vissa glaðværð, léttleika og fegurð yfir sér þrátt fyrir þungan boðskap og skerandi ádeilu. Ádeilan var ekki bara á umhverfið, þá sem ráða, bankamenn, kirkjunnar herra og alla hina, heldur ekki síður á okkur sjálf og hvaða syndir við berum með okkur. Það er vísað til ábyrgðar einstaklingsins ekki síður en þeirra sem prenta og gefa út greiðslukortin, það erum við sem notum þau og eyðum. Þarna er eins og skollinn bíti í skottið á sjálfum sér.
Svörtu tauskúlptúrarnir á gólfinu voru einir og sér efniviður heillar sýningar en þó hugsanlega heldur hefðbundið form. Styrkur listakonunnar er einmitt allir þessir hæfileikar hennar og margþættu skilaboð sem hún setur fram í mismunandi efnum og efnivið. Sem áður segir þá  skrifar hún tölvert, dansar, spilar músík og vinnur myndlist í mismunandi efni og öll jafn vel, það væri því auðveld leið til að færast of mikið í fang og missa fókusinn, en henni tekst að halda utan um þetta allt og er það þessi samþættig sem er aðal styrkurinn og eitthvað sérstakt út yfir það sem margir aðrir listamenn gera. Það er fjölhæfnin á mörgum sviðum sem fremst skilur hana frá öðrum.

sigrun3.jpg

Sex manns tjáðu sig um sýninguna eftir á, þrír karla og þrjár konur. Tveir Hollendingar, tveir  Íslendingar og tveir  hollenskir Íslendingar. Viðmælendurnir voru á aldrinum 19 - 83 ára.
Viðmælandi 1: Skemmtileg sýning. Hafði gaman af henni, sálnapokarnir tóku sig vel út á gólfinu.
Viðmælandi 2: Fyrst fannst mér sýningin sundurlaus en þegar ég las textann sem fylgdi þá fannst mér allt passa vel saman. Flott sýning.
Viðmælandi 3: Sýningin kom mér skemmtilega á óvart. Ljósmyndirnar frá húsunum í Rotterdam voru flottar og kallast svo skemmtilega á við gólfverkið og syndirnar.
Viðmælandi 4: Sumt var flott og svolítið fyndið t.d. gluggarnir í Rotterdam og syndapokarnir  
Viðmælandi 5: Rosalega flott sýning og áhugaverðar pælingar með að þeir sem eiga að vera syndlausir eru þeir sem syndga mest. Einnig hvernig hún vann sýninguna inn í rýmið t.d. hvernig pilluspjaldið endurspeglaði rýmið formlega séð. Góð heild.
Viðmælandi 6: Mjög góð sýning, skemmtilegt hvernig hún nær að tvinna saman sínum íslenska bakgrunni við hollenskt samfélag.

Styrkur listakonunnar eru þessi margþættu skilaboð og samþætting mismunandi efna og sjónarhorna í heilstæða ljóðræna mynd. Beitt samfélagsgagnrýni og skop.

Pálína Guðmundsdóttir


Bækur og bókverk í Flóru

jonahlif.jpg

jólaBÓKAflóra

fimmtudaginn 8. desember 2011

í Flóru, Listagilinu á Akureyri

Allan fimmtudaginn þann 8. desember n.k. verður Flóra með opið fyrir gesti og gangandi að kíkja á jólaBÓKAflóru, en á boðstólnum verða bæði nýútkomnar og sérvaldar eldri bækur. Í tengslum við jólaBÓKAflóruna verða Hjálmar Stefán Brynjólfsson og Jóna Hlíf Halldórsdóttir með kynningu á þremur bókverkum sem þau hafa verið að vinna að, en bókakynningin er unnin í tengslum við sýninguna “Nú á ég hvergi heima” sem þau Hjálmar og Jóna opna nk. laugardag í Populus Tremula. Tvö bókverkanna sem þau verða með í Flóru koma nú út í takmörkuðu upplagi en það þriðja verður eingöngu til sýnis í bili, en það er enn í vinnslu.

Fyrri tvö bókverkin hafa þau Hjálmar og Jóna unnið í sameiningu. Um er að ræða annars vegar texta sem Hjálmar bjó til fyrir Jónu undir áhrifum frá verkinu “Byltingin var gagnslaus” og inniheldur 20 athugasemdir við þann verktitil. Seinna bókverkið inniheldur orð sem hafa verið skorin í lituð blöð, sem er tækni sem Jóna hefur verið að nota í ýmis verk. Orðin eru nokkur vel valin lýsingarorð og titill verksins er “Geggjað brjálað sjúklegt æði”. Í raun er þetta byggt á enn eldra verki sem þau unnu saman árið 2005 fyrst, en hafa alltaf verið að bíða að koma frá sér með einhverjum hætti.
Síðasta verkið sem ekki kemur út núna, en verður til sýnis, er bók með einu ljóði sem heitir “Myrkur eða 7 skuggar og Chopin”. Þar hefur Jóna verið að vinna myndskreytingar við textabrot og nálgunin verið sú að reyna að búa til sl. myndljóð eða finna leið til að gera myndljóð.

Bókakynningin Hjálmars og Jónu hefst klukkan 20.

Bækurnar verða svo til sýnis í Flóru um helgina sem hér segir:

föstudag 10-18, laugardag og sunnudag 14-17.



Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðarstaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Listrænn ráðunautur og kaffibarþjónn staðarins er Hlynur Hallsson myndlistamaður. Áhersla staðarins er á nýtingu, endurnýtingu, verkmenningu og sköpun. Sýningarrýmið í Flóru á sér merkilega forsögu því þar rak Snorri Ásmundsson International Gallery of Snorri Ásmundsson með góðum árangri í lok síðustu aldar. Svo skemmtilega vill til að Snorri sýnir einmitt í viðburðarrými Flóru þessar vikurnar og verður sýning hans auðvitað opin gestum og gangandi á jólaBÓKAflórunni.

Sjá meira um Flóru á
http://floraflora.is
http://www.facebook.com/flora.akureyri

Nánari upplýsingar veitir Kristín Þóra Kjartansdóttir í síma 6610168



NÚ Á ÉG HVERGI HEIMA og JÓLABAZAR HELGA OG BEATE í Populus Tremula

hjalmar-og-jona-hlif.jpg

NÚ Á ÉG HVERGI HEIMA og JÓLABAZAR HELGA OG BEATE

Laugardaginn 10. desember kl. 14.00 opna Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Hjálmar Stefán Brynjólfsson sýninguna Nú á ég hvergi heima í Populus tremula.

Síðasta sýning í þríleik um bókmenningu. Tileinkuð Norðurlandi, íslensku sveitinni og farvegi tímans.

Hinn árlegi JÓLABAZAR Helga og Beate hefst þessa sömu helgi.

Einnig opið sunnudaginn 11. desember kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.


Sýningarlok í Listasafninu á Akureyri

images_1119400


Núna um helgina er að renna upp síðasta sýningarhelgi yfirlitssýningar á sýningum Listasafnsins á Akureyri á árabilinu 1999-2011. Sýningunni lýkur sunnudaginn 4. desember kl. 17

Um áramótin verða þáttaskil í sögu Listagilsins á Akureyri þegar ný menningarmiðstöð á sviði sjónlista tekur til starfa. Ákveðið hefur verið að sameina Listasafnið á Akureyri og Menningarmiðstöðina í Grófargili, sem m.a. hefur haft umsjón með Ketilhúsi og Deiglunni, í eina stofnun sem fengið hefur nafnið Sjónlistamiðstöðin.

Af þessu tilefni hefur verið litið yfir farinn veg hjá Listasafninu á viðburðaríkum áratug 21. aldar til að draga upp heildstæða mynd af starfseminni á umræddu tímabili. Þessi upprifjun samanstendur af plakötum, upplýsingum um sýningarnar, marvíslegum viðbrögðum við þeim úr fjölmiðlum og útgefnu efni safnsins, en alls eru (sjálfstæðar) sýningar orðnar 95 talsins. Þá gefst gestum kostur á að eignast ókeypis margar bækur og sýningarskrár frá liðinni tíð meðan birgðir endast.


Nánari upplýsingar eru á vef safnsins.
Listasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl 12-17.

Nánari upplýsingar:

Safnfulltrúi: Sóley Björk Stefánsdóttir
s: 844-1555

Forstöðumaður og sýningarstjóri:
Hannes Sigurðsson: s: 899-3386

www.listasafn.akureyri.is

email: art@art.is

Sími: 461-2610


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband