Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Aðventa í Freyjulundi

4711_adalheidur_adventa.jpg

Sigrún Guðmundsdóttir sýnir í Populus tremula

sigr_c3_ban-gudmundsd_c3_b3ttir-web.jpg

Laugardaginn 26. nóvember kl. 14.00 opnar Sigrún Guðmundsdóttir sýninguna Ókyrrð í Populus tremula.

Sigrún útskrifaðist úr myndlist frá Aki Enschede í Hollandi vorið 2008 og er búsett og starfar í Rotterdam. Hún dvelur í gestavinnustofu Gilfélagsins í nóvember og desember.

Sýn­ingin samanstendur af innsetningum þar sem innblástur er meðal annars sóttur í íslenska þjóð­sögu þar sem kaldhæðnislegur söguheimurinn endurspeglar oft á tíðum raunveruleikann.
www.sigrungudmundsdottir.com

Einnig opið sunnudaginn 27. nóvember kl. 14.00-17.00.
Aðeins þessi eina helgi.

Aðventa í Freyjulundi

4611_adalheidur.jpg

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Jón Laxdal og Arnar Ómarsson opna vinnustofur sínar og heimili í Freyjulundi, 601 Akureyri.

 Opið:

Aðventuhelgar kl. 14:00 - 17:00

Á Þorláksmessu kl. 16:00 - 22:00

Allar nánari upplýsingar gefur Aðalheiður í síma 865 5091 www.freyjulundur.is


Anna Gunnarsdóttir opnar sýninguna "Breytingar" í Mjólkurbúðinni

img_0003.jpg

Anna Gunnarsdóttir opnar sýninguna Breytingar í Mjólkurbúðinni í Listagili á Akureyri laugardaginn 26. nóv kl. 14.    

Þar sýnir hún veggskúlptúra úr silki og ull, unnin með japanskri sibori tækni. Í verkum sínum fjallar Anna um breytingar með tilvísun í bæði náttúruna og lífið sjálft.
 
Anna Gunnarsdóttir hefur starfað í textíllistinni um 25 ár og hefur tekið þátt í fjölda sýninga um allan heim og er orðin þekkt fyrir ullarskúlptúra sína um víða veröld. Nú í sumar tók hún þátt í samsýningunni Skulpture by the Sea í Danmörku. Sú sýning á uppruna sinn í Ástralíuog hefur anna tvisvar áður verið valin til þátttöku í Ástralíu á vegum sama verkefnis árið 2007 og einnig árið 2008.  Enn aftur hefur verk eftir Önnu verið valið á sýninguna Sculpture by the Sea 2012 í Ástralíu.
 
Anna tók nýverið þátt í Cheongju International Craft Biennale 2011 – í Suður Kóreu. Anna sendi ullarskúpptúr sinn Glowing sea-shell sem er þæfður ullarskúlptúr, bróderaður og formaður með djúpalónsperlum og lýsingu. Verkið hennar Glowing Sea-shell vann fyrsta sæti í sínum flokki - Fiber category-.
Í þeirri samkeppni voru valin verk þátttakenda frá 24 þjóðum, 177 listamenn og samtals 187 verk sem kepptu til verðlauna í 5 flokkum. 
 
Sýning Önnu Gunnarsdóttur ,,Breytingar“ stendur til 11. desember og eru allir velkomnir.
 
Mjólkurbúðin
Listagili Kaupvangsstræti
Akureyri
Opið Lau-sun kl.14-17 og eftir samkomulagi
Dagrún Matthíasdóttir s.8957173


Point d´ébullition - Suðupunktur: Opnun sýningar útskriftarnema VMA

auglysing-lokaverkweb-1.jpg

Opnun sýningar útskriftarnema listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri
verður í Ketilhúsinu föstudagskvöldið 25. nóv. frá kl 20 - 22
Sýningin er aðeins opin þessa helgi, laugardag og sunnudag frá 14 - 17.
Á sýningunni eru fjölbreytt verk nemenda af hönnunar og textíl- og myndlistarkjörsviði.


Listasjóður Dungal auglýsir eftir umsóknum um styrki

Auglysing-i-A4-2011

Árið 1992 stofnaði Gunnar B. Dungal þáverandi eigandi Pennans hf. Listasjóð Pennans.

Sjóðurinn var stofnaður til minningar um foreldra hans, Margréti og Baldvin P. Dungal.

Sjóðnum er einkum ætlað að styrkja unga myndlistamenn sem eru að feta sín fyrstu skref á myndlistarbrautinni og einnig að eignast verk eftir þá.
Við sölu Pennans árið 2005 ákvað Gunnar að halda áfram starfsemi sjóðsins og var nafninu því breytt og heitir hann núna Listasjóður Dungal.

Safn verka fyrri styrkþega eru því í eigu Listasjóðs Dungal.

Umsóknarfrestur er til 3. desember 2011 og hér eru eyðublöð og nánari upplýsingar.


Málþing um framtíðarhorfur í Listagilinu

 

images_1119400

Um áramótin verða þáttaskil í sögu Listagilsins á Akureyri þegar ný menningarmiðstöð á sviði sjónlista tekur til starfa. Ákveðið hefur verið að sameina Listasafnið á Akureyri og Menningarmiðstöðina í Grófargili, sem m.a. hefur haft umsjón með Ketilhúsi og Deiglunni, í eina stofnun sem fengið hefur nafnið Sjónlistamiðstöðin. Framvegis verður vísað til Listasafnsins eða Ketilhúss í Sjónlistamiðstöðinni eftir því hvar viðburðirnir eiga sér stað og mun miðstöðin heyra undir Akureyrarbæ.  

 
Af þessu tilefni verður efnt til málþings um stöðu og framtíðarhorfur í Listagilinu sem fram fer í Ketilhúsi laugardaginn 19. nóvember og hefst það kl. 12. Reykvíski myndistarmaðurinn og heimspekingurinn dr. Hlynur Helgason mun í byrjun fjalla um hvernig sýningarhald Listasafnsins kemur honum fyrir sjónir, sérstöðu þess og áhrif í víðara samhengi safnaflórunnar og velta fyrir sér hvernig málin gætu þróast með tilkomu Sjónlistamiðstöðvarinnar. Að því loknu hefjast almennar umræður. Ekki verður um nein önnur framsöguerindi að ræða heldur boðið upp í hringborðsumræður til að hvetja sem flesta að láta í sér heyra. Fundarstjóri verður Hulda Sif Hermannsdóttir, verkefnastjóri Akureyrarstofu.
 
Nú er í gangi á Listasafninu á Akureyri sýning um sýningarnar sem haldnar hafa verið á árabilinu 1999-2011. Þar er litið yfir farinn veg á viðburðaríkum áratug 21. aldar til að draga upp heildstæða mynd af starfseminni á umræddu tímabili. Þessi upprifjun samanstendur af plakötum, upplýsingum um sýningarnar, marvíslegum viðbrögðum við þeim úr fjölmiðlum og útgefnu efni safnsins, en alls eru (sjálfstæðar) sýningar orðnar 95 talsins. Þá gefst gestum kostur á að eignast ókeypis margar bækur og sýningarskrár frá liðinni tíð meðan birgðir endast. Þessi sýning stendur út mánuðinn, eða til sunnudagsins 4. desember. Aðgangur í Listasafnið á Akureyri er ókeypis eins og verið hefur frá haustinu 2008.
 
 
Listasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17.
Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson forstöðumaður í síma 899-3386, netfang: hannes@art.is

Snorri Ásmundsson opnar sýninguna 549 26 777777 131166 4199 í Flóru á Akureyri

snorri.jpg

Snorri Ásmundsson
549 26 777777 131166 4199
19. nóvember 2011 - 7. janúar 2012
Flóra, Listagilinu á Akureyri, Kaupvangsstræti 23, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is

https://www.facebook.com/flora.akureyri

Laugardaginn 19. nóvember kl. 14 á opnar Snorri Ásmundsson myndlistarsýningu sem hann nefnir "549 26 777777 131166 4199" í Flóru í Listagilinu á Akureyri.

Sýningin saman stendur af teikningum og setningum. Þar á meðal facebook statusum og quotum listamannsins.

Snorri Ásmundsson er listamaður sem hóf listamannaferil sinn einmitt Listagilinu á Akureyri og árið 1997 rak hann gallerí í Kaupvangstræti 23 í Gilinu, nákvæmlega í því rými sem hann sýnir nú í. Galleríið nefndist International gallery of Snorri Asmundsson og voru þar nokkrar mjög athygglisverðar sýningar og má þá nefna ævintýri listakattarins Loka. Snorri hefur síðan oft leitast við að hafa bein áhrif á samfélagið með opinberum uppákomum. Hann hefur fengist við að skoða viðbrögð umhverfisins, þ.e. viðbrögð fólks við því þegar viðurkenndum gildum er snúið á hvolf og þegar, annars valdalaus, einstaklingur tekur sér vald sem alla jafna er úthlutað eftir fyrirfram gefnum reglum. Hvernig svo sem fólk bregst við þessum uppátækjum listamannsins þá er hann fyrst og fremst að ögra samfélaginu og gildum þess. Hann leitar á mið sem kalla á snörp viðbrögð og kannar um leið mörk náungans og væntanlega sín eigin.

Snorri er einn af stofnendum Kling og bang gallerís og leikhúss listamanna.

Hann hefur undanfarin ár truflað tilveru fólks með umfangsmiklum og eftirtektarverðum gjörningum sínum sem hafa oftar en ekki beinst að helstu feimnismálum almennings eins og pólitík, kynlífi og trúmálum.
Borgarstjórnarframboð, forsetaframboð, tilnefningar til heiðursborgara og sala aflátsbréfa svo dæmi séu tekin. Bókin Beauty Swift Generation Revolution kom út árið 2009 og þá bók kallar hann opinberunarbókina. Snorri er búsettur núna í Antwerpen í Belgíu en verður viðstaddur opnunina í Flóru. Hann veitir nánari upplýsingar í síma 692 9526.

Sýning Snorra stendur til laugardagsins 7. janúar 2012.

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Listrænn ráðunautur og kaffibarþjónn staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður. Áður hafa Arna Vals og Þórarinn Blöndal sett upp sýningar í Flóru.


ÆVINTÝRAHEIMUR JONNU í BOXINU

avint_dag.jpg

Innsetning Jonnu í Boxi, sal myndlistarfélagsins í Gilinu á Akureyri
Opnun laugardaginn 12. nóv. kl. 14:00 – 17:00, allir velkomnir.
Sýningin stendur til 20. nóv. 2011.
Opið: lau. – sun. frá kl.14:00 – 17:00 þri. – fös. frá kl. 14:00 – 16:00.


Tilkynning um ósóttar höfundagreiðslur til Myndstefs

image_1120626.jpg

 

Vakin er athygli myndhöfunda á því að í vörslu Myndstefs eru greiðslur sem ekki hefur reynst unnt að koma til viðkomandi höfunda. Á heimasíðu samtakanna: www.myndstef.is er listi yfir þessa höfunda. Því er beint til hlutaðeigandi myndhöfunda eða erfingja þeirra að þeir hafi samband við skrifstofu Myndstefs sem fyrst og eigi síðar en 5. desember n.k.

 

Stjórn Myndstefs


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband