Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Desembersýning Myndlistaskólans opnuð í Sal Myndlistarfélagsins

image_1182581.png

Desembersýning Myndlistaskólans í Sal Myndlistarfélagsins verður opnuð laugardaginn 1. desember kl. 13:00.

Á sýningunni verða 24 ný listaverk nemenda sérnámsdeilda skólans. Höfundar eru:
Anna Elionora Olsen Rosing, Anna Kristín Arnardóttir, Aron Freyr Heimisson, Ásmundur Jón Jónsson, Björgvin Björgvinsson, Eidís Anna Björnsdóttir, Elísabet Inga Ásgrímsdóttir, Eva Björg Óskarsdóttir, Freyja Reynisdóttir, Harpa Stefánsdóttir, Hekla Björt Helgadóttir, Héðinn Ólafsson, Hrannar Atli Hauksson, Inga María Gunnarsdóttir, Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir, Ívar Freyr Kárason, James Earl Ero Cisneros Tamidles, Jóhann Andri Knappett, Jónína Björg Helgadóttir, Karolína Baldvinsdóttir, Kolbrún Vídalín, Linda Þuríður Helgadóttir, Linn Skaghammar, Margrét Kristín Karlsdóttir, María Rut Dýrfjörð, Óðinn Sigurðsson, Perla Sigurðardóttir, Sandra Kristín Jóhannesdóttir,  Sandra Rebekka Dudziak, Sigríður Björg Haraldsdóttir, Sigrún Birna Sigtryggsdóttir, Sunna Björk Hreiðarsdóttir, Svala Hrönn Sveinsdóttir, Svanhildur Edda Kristjánsdóttir, Vaiva Straukaité og Viktor Helgi Hjartarson

Sýningin verður opin um helgar fram að jólum.


Hafdís Brands opnar leirlistasýninguna Gersemar í Mjólkurbúðinni

083.jpg


Hafdís Brands opnar leirlistasýninguna Gersemar í Mjólkurbúðinni í listagilinu á Akureyri, laugardaginn 1.desember kl. 15.
 
Hafdís Brands um sýninguna:

,,Gersemar leynast á ýmsum stöðum og misjafnt í hugum fólks hvað  gersemar eru.  Í verkum mínum vinn ég með náttúruna og þær gersemar sem fyrirfinnast í mínum huga þar.  Í sýningunni birtast katlar, pollar, pyttir og ker sem geyma mína tjáningu á náttúru og krafti landsins. Þau birtast endurmynduð sem minnisvarðar um náttúruna sem á sífellt undir höggi að sækja. Von mín er að verkin minni okkur á hvernig við komum fram við náttúruna og mikilvægi varðveislu hennar".

 
Hafdís Brands hefur starfað að leirlist í meira en 20 ár. Hún lærði í Myndlistarskóla Reykjavíkur 1986-1990 og fluttist síðar til Skotlands þar sem hún stundaði nám við Robert Gordon University, Aberdeen, 2001-2003 og fór í beinu framhaldi í Glasgow School of Art og lauk þar BA námi 2007 í listhönnun á keramiksviði.


Hafdís bjó í Skotlandi í sjö ár og rak þar eigið verkstæði og gallerí. Í dag býr hún á Íslandi og er bæði félagi í skoska leirlistafélaginu og því íslenska og er það draumur hennar að geta búið og starfað á báðum stöðum. Hafdís vinnur jafnt nytjahluti og skúlptúra í leirinn og brennir verk sín annað hvort í rafmagnsofni við 1160 °c eða notast við sag og raku brennslu útivið þegar veður leyfir.


hafdi_769_s.jpg


Hafdís Brands hefur tekið þátt í hinum ýmsu samsýningum bæði hérlendis og erlendis og hlaut hún 1.verðlaun hjá Milton Art Gallery í Deeside í Skotlandi fyrir listaverk 2002. Ári síðar hlaut hún það verkefni að setja upp mósaíkverk hjá Woodend Barn Art Center í Banchory í Skotlandi.


Sýning Hafdísar Brands, Gersemar í Mjólkurbúðinni stendur til 16.desember og eru allir velkomnir.
Opið 1.-9 desember daglega og verður Hafdís Brands á staðnum kl. 14-17. Síðustu sýningarhelgi 15.-16.desember er opið kl. 14-17


Mjólkurbúðin s. 8957173 Dagrún Matthíasdóttir
Mjólkurbúðin Listagili er á facebook!


Pang Rui Yun og Jonas Rubin opna myndlistarsýningar í Hrísey

 have_you_seen_the_pink_whale_hrisey_exhibition.jpg

 

HEFURÐU SÉÐ BLEIKA HVALINN?

Opnun sýningar í Húsi Hákarla-Jörundar og Sæborg í Hrísey

 

Listamennirnir Yun og Rubin hafa dvalið í Hrísey að undanförnu í vinnustofum listamanna í Gamla grunnskólanum sem er á vegum listahópsins Norðanbál. Listamennirnir hafa síðustu vikur unnið að sköpun sinni með styrk frá hinu 150 ára afmælisbarni Akureyri. Pang Rui Yun frá Singapúr og Jonas Rubin frá Danmörku skoða í verkum sínum samspil manns og náttúru með því að nota þá orku sem býr í umhverfinu. Rýnt er í tengsl mannlegrar tilveru og náttúrunnar með því að blanda saman ýmsum hráefnum og því sem af gengur í daglegu lífi.

Sýningin ber yfirskriftina „Hefurðu séð bleika hvalinn?“ og verður opin föstudaginn 30. nóvember kl. 16-20, og laugardaginn 1. desember og sunnudaginn 2. desember frá kl. 12-16. Sýnt verður í húsi Hákarla Jörundar og Sæborg. Ferjan Sævar siglir sex sinnum á dag milli lands og eyju. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni hrisey.net.

Allir velkomnir!


Tvær ljósmyndasýningar opna í Ketilhúsinu

dagskra_halfsida_ljosmyndasyning_small.jpg
 
Opnun í Ketilhúsi - Sjónlistamiðstöð laugardaginn 2. des kl. 15.

Aðventa á Fjöllum

&

Ferðalangar á Fjöllum

 

Sigurjón Pétursson
Þóra Hrönn Njálsdóttir
 

Sjónlistamiðstöðin býður þér að vera við opnun tveggja ljósmyndasýninga í Ketilhúsinu laugardaginn 1. desember. kl. 15.
 
Á sýningunum eru vetrarmyndir teknar á söguslóðum Aðventu, skáldsögu Gunnars Gunnarssonar. Einnig myndir af þeim nöfnum sem timburþilið í Sæluhúsinu við Jökulsá geymir sem gestabók ferðalanga síðustu 120 árin. 
 
Sigurjón Pétursson býður upp á leiðsögn um sýningarnar sunnudagana 2.  og 16. desember kl. 15.
 
Sýningarnar standa  til 16. desember.

Opið persónulegt rými í Myndlistaskólanum á Akureyri

myndak_-_augly_sing.jpg

Fimmtudaginn 22. nóvember verður opið hús í Myndlistaskólanum á Akureyri frá 15:00 til 19:00. Opnunin er í boði nemenda af 1. 2. og 3. ári við  fagurlistardeild skólans, en undanfarnar þrjár vikur hafa nemarnir unnið undir leiðsögn listamannsins Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Meginmarkmið áfangans var sjálfsskoðun og í kjölfarið unnu þau sitt eigið persónulega rými. Útkoman er í formi skúlptúra, innsetninga, ljósmynda og gjörninga, sem nemendur bjóða gestum og gangandi að virða fyrir sér og upplifa með þeim. Allir eru hjartanlega velkomnir. 


Nemendur:
Ásmundur Jón Jónsson
James Earl Ero Cisneros Tamidles
Jónína Björg Helgadóttir
Elísabet Inga Ásgrímsdóttir
Hekla Björt Helgadóttir
Margrét Kristín Karlsdóttir
Sigrún Birna Sigtryggsdóttir
Anna Elionora Olsen Rosing
Kolbrún Vídalín
Karólína Baldvinsdóttir
Sunna Björk Hreiðarsdóttir
Sandra Rebekka Dudziak
Freyja Reynisdóttir
Egill Logi Jónasson
Hildur Björnsdóttir
Ragnheiður Mekkín Ragnarsdóttir
Sigríður Jónsdóttir
Unnur Rósa Eyfjörð Ásgeirsdóttir
Gunnhildur Helgadóttir


Íris Ólöf opnar sýningu í Flóru

dros5.jpg

Íris Ólöf Sigurjónsdóttir
Drósir og draumar
24. nóvember  2012 - 13. janúar 2013
Opnun laugardaginn 24. nóvember kl. 14
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri

Laugardaginn 24. nóvember kl. 14 opnar Íris Ólöf Sigurjónsdóttir sýningu sem nefnist „Drósir og draumar” í Flóru í Hafnarstræti 90 á Akureyri. Þar sýnir hún textílverk og skart úr hráefni úr ýmsum áttum sem lifað hefur tímana tvenna og þrenna. Gamlir efnisbútar, perlur og prjál  eru efniviður nýrra drauma og drósir koma við sögu.

Íris Ólöf Sigurjónsdóttir er textílhönnuður og textílforvörður að mennt. Menntuð í Osló og London. Hún er safnstjóri  Byggðasafnsins á Dalvík og samfara safnastarfinu vinnur hún að textílhönnun á vinnustofu sinni í Svarfaðardal þar sem hún hefur búið sl. 10 ár. Íris Ólöf hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum s.s hjá Handverki og Hönnun en sýningin í Flóru  er þriðja einkasýning Írisar.

iris.jpg

Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru mánudaga til föstudaga kl. 11-13 og 16-18 og laugardaga kl. 13-16 og stendur til laugardagsins 13. janúar 2013.
Nánari upplýsingar veitir Íris Ólöf í síma 892 1497 og Kristín í síma 661 0168.


Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.


Ragnar Hólm Ragnarsson sýnir í Populus tremula

Ragnar-Ho%CC%81lm-web

 

Laugardaginn 17. nóvember kl. 14.00 opnar Ragnar Hólm Ragnarsson aðra sýningu af þremur sem hann heldur nú í haust í tilefni af 5 ára afmæli dóttur sinnar, 50 ára afmæli sjálfs sín og 150 ára afmæli Akureyrarbæjar.

Að þessu sinni sýnir Ragnar í Populus tremula.

Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 18. nóvember frá kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.


Ómyndir í Deiglunni

omyndir_web.jpg

Laugardaginn 10. nóvember opnar, á vegum Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri, sýning á verkum eftir listamennina Ástu Fanney Sigurðardóttur, Matthías Rúnar Sigurðsson og Victor Ocares. Sýningin ber yfirskriftina Ómyndir og opnar í Deiglunni í Listagili klukkan 15.
Vinnuheiti sýningarinnar var að rusla saman sýningu, því rýmið stóð autt og listamennirnir með nægan efnivið í sýningu. Þeir tefla mestmegnis fram teikningum og skissum, með hráa uppsetningu að leiðarljósi. Hjá þeim vaknaði sú spurning hvort hráleikinn væri boðlegur; hvort skissur og teikningar, hinar svokölluðu ómyndir, séu sýningarhæf verk. En mögulega skipta umgjörð og framsetning engu máli. Ómyndirnar tala sínu máli og í hverri þeirra blundar óheftur heimur listamannsins. Myndirnar vísa til drauma, veraldar ímyndunar og möguleika, sem komast hvergi annars staðar fyrir.

ÁSTA FANNEY SIGURÐARDÓTTIR
,,Svo læt ég töfrajöfra stikla milli augasteinanna, grafa vendi í enni þitt og teikna í hvel mynstur sem svæfir tímana og þú heyrir hvíslað í bæði eyrun þó enginn sé nálægur nema ómennskur hvalur á blaði“.
Ásta Fanney útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2012.
Hún fæst einkum við blöndum ljóða og teikninga og súrrealískar samsetningar.
Ásta sér um listamannarekna sýningarrýmið Kunstschlager í félagi við fjóra aðra listamenn en það opnaði s.l. sumar á Rauðarárstíg 1, í Reykjavík. Þar gefst fólki kostur á að sjá sýningar og verk eftir unga, upprennandi listamenn.
 
MATTHÍAS RÚNAR SIGURÐSSON
 „Ég teikna mikið og hef gert frá því ég man eftir mér. Nú er það orðið
þannig að ég nota yfirleitt skrúfblýant, því á honum er oddurinn
alltaf beittur og strokleðrið, sem hægt er að skrúfa upp og niður,
nota ég líka mikið. Myndirnar sem ég geri koma úr mínum innri heim. Ég
lít á myndirnar sem gróður og hlutverk mitt er að láta hann vaxa. Ég
sæki í einbeitingu og tímaleysi og þannig líður mér best. Ég vil engan
æsing eða óþarfa flækjur. Verkin mín vekja í mér óviðjafnanlega gleði
sem ég finn hvergi fyrir annars staðar”.Matthías er á þriðja ári í myndlistardeild Listaháskóla Íslands.
 
 
VICTOR OCARES
Victor er hafsjór heilabrota og sýður saman hugmyndir úr ýmsum áttum. Hann hefur unun af því að leita svara innan heimspekinnar, vísindanna og annara fræðigreina sem hafa að geyma undarlegar ráðgátur og möguleika. Það sem hann tínir saman úr spekinni, sýður hann svo saman við hughrifin sem kvikna innan frá. Þar er heimur sem einnig geymir dularfullar gátur sem þarfnast svara og úrvinnslu. Afraksturinn gæti skilað sér í tónverki, í formi skúlptúra, teikninga eða hvernig sem honum þykir best að sýna fram á upplifun sína og heilabrot. Victor er á þriðja ári í myndlistardeild Listaháskóla Íslands.
 


Elva María Káradóttir með fyrirlestur í VMA

elva.jpg

Föstudaginn 9. nóvember kl. 15:00 - 16:00 flytur Elva María Káradóttir fyrirlestur í Verkmenntaskólanum á Akureyri í stofu M01.


Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri hóf Elva nám við Esmod tískuskólann í París, þar sem hún nam bæði herra- og dömusníðagerð í 3 ár. Hún úskrifaðist þaðan sem " Aiguille d' or " eða gullnálin, fyrir bestu einkunn í sníðagerð.
Eftir námið hóf hún að vinna fyrir Jean Colonna sem ásamt Martin Margiela, Anne Demeulemeester og Helmut Lang höfðu djúp áhrif á þá stefnu sem tískan tók á tíunda áratugnum.

Þá tók við vinna í nokkur ár fyrir japanska fatahönnuðinn Shinichiro Arakawa sem veitti henni innsýn í japanska sníðagerð. Sá tími sem Elva vann fyrir Arakawa hafði mikil áhrif á hana sem má sjá í verkum hennar enn í dag.
Eftir þetta vann hún freelance fyrir ýmsa hönnuði um nokkurra ára skeið ásamt því að koma af stað barnafatamerkinu Pùùki.
Síðustu árin áður en Elva flutti aftur heim til Akureyrar vann hún fyrir John Galliano og Ninu Ricci.
Meðfram vinnu sinni í tískuheiminum hefur hún líka starfað bæði fyrir leikhús og óperu.


Í fyrirlestrinum mun Elva fara yfir feril sinn í máli og myndum og skoða stíla
þeirra hönnuða sem hún hefur unnið fyrir.


Fyrirlesturinn er hluti af námsefni áfanganna „Listir-Menning“ á listnámsbraut VMA en allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!
Enginn aðgangseyrir.

Ragna Hermannsdóttir - Grafík og Bókverk í Listasafninu á Akureyri

ragna_web.jpg

Í Listasafninu á Akureyri opnar Sjónlistamiðstöðin sýningu á verkum listakonunnar Rögnu Hermannsdóttur laugardaginn 10. nóvember, kl. 15.  Verkin á sýningunni eru valin úr rausnarlegri dánargjöf Rögnu til Safnahússins á Húsavík.
Ragna var fjölhæf listakona og vann í marga miðla en á þessari sýningu er lögð áhersla á grafíkverk hennar einkanlega tréristur og bókverk en á því sviði náði hún sérstökum árangri.  Sköpun hennar er  dularfull og óræð í senn en samt er eins og að baki búi óþreyjufull löngun til að miðla, segja frá og koma ákveðnum boðskap á framfæri.  Heildaráhrifin eru afar sterk  en þó þægileg og hlý eins og Ragna var sjálf. Eftir nám í ljósmyndun á árunum 1972-1975 hóf Ragna, 55 ára að aldri, listnám sitt við Myndlista og handíðaskóla Íslands. Leið hennar lá síðan til Hollands, í Rijks-Akademie í Amsterdam og til Rochester, New York, í áframhaldandi nám.  Þegar heim var komið hóf hún heimspekinám við Háskóla Íslands þar sem hún lauk BA námi 1997, þá 73 ára að aldri. Páll Skúlason var leiðbeinandi hennar í lokaverkefninu sem fjallaði um heimskuna. Þess má einnig geta að árið 1990 dvaldi hún í Marfa, listamiðstöð Donald Judd í Texas.
Allan þennan tíma var hugur Rögnu opinn og leitandi og í verkum sínum sameinar hún þroska fullorðinnar manneskju og leitandi lærdómsþrá æskuáranna.
Á tímabilinu 1976-2003 hélt Ragna 22 einkasýningar á Íslandi og í Hollandi, og tók einnig þátt í fjölda samsýninga.
Ragna Hermannsdóttir fæddist í Bárðardal 1924 og var 87 ára að aldri er hún lést, á síðasta ári.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband