Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Viktor, Ivar og George Hollanders sem sýna í Populus Tremula

georg-og-synir-web_925783.jpg

Laugardaginn 24. október kl. 14:00 verður opnuð myndlistarsýningin OPSTRAAT & RESTJES, Japonisma í Populus Tremula. Það eru feðgarnir Viktor, Ivar og George Hollanders sem sýna saman. Sýningin fjallar um endurnýtingu eða gjörnýtingu og kynnir nýja hugmyndafræði eða “public trademark”, Opstraat & Restjes.
Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 25. október kl. 14:00 - 17:00


Evudætur í Listasafninu á Akureyri

bordi.evur

EVUDÆTUR

TÓTA, TOBBA OG HRAFNHILDUR

Laugardaginn 24. október kl. 15 verður sýningin Evudætur opnuð í Listasafninu á Akureyri, en hér eru á ferðinni þær stöllur Þórunn Elísabet Sveinsdóttir (Tóta), Þorbjörg Halldórsdóttir (Tobba) og Hrafnhildur Arnardóttir. Þessar vinkonur unnu allar um skeið hjá Fríðu frænku þar sem gamlir hlutir ganga í endurnýjum lífdaga og andi hins liðna svífur yfir vötnum. Þær eiga einnig sameiginlegt að vinna með fundna hluti og alls konar lífræn og ólífræn efni og aðferðir.

Þórunn Elísabet Sveinsdóttir (f. 1952) hefur starfað innan leikhússins í hartnær 30 ár og getið sér gott orð fyrir búningahönnun og sviðsmyndir. Þórunn útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands í frjálsri myndlist 1982 en fljótlega eftir að námi lauk tók hún að sér verkefni fyrir leikhúsin. Meðfram fjölbreyttu og krefjandi starfi í leikhúsunum hefur Þórunn unnið að myndlist og haldið einkasýningar ásamt því að taka þátt í ýmsum samsýningum. Fyrsta einkasýning hennar var í gamla Nýlistasafninu vorið 1982. Árið 2001hélt Gerðuberg henni Sjónþing þar sem farið var yfir feril hennar að viðstöddu fjölmenni og sýndi hún þar um leið nýjustu verk sín. Tilfinning og efnismeðferð í myndlist Þórunnar hefur í öllum sínum fjölbreytileika og litadýrð lengst af verið nátengd ástríðu hennar fyrir búningum; áhugi hennar á íslenskri þjóðmenningu hefur einnig verið mikill áhrifavaldur í verkum hennar. Að undanförnu hafa ný efni og önnur sjónarhorn í verkum hennar brotið þann ramma.

Hrafnhildur Arnardóttir (f. 1969) útskrifaðist með MFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 1996, þar sem hún hefur búið og starfað allar götur síðan. Listamannsnafn hennar er Shoplifter. Í verkum sínum tekst hún á við fyrirbæri eins og hégóma, sjálfsmynd, fegurð og tísku og kemur með margvíslegum hætti inn á þráhyggju og blæti, afsprengi nútímalifnaðarhátta. Tilraunir Hrafnhildar hafa mótast af straumum alþjóðlegrar myndlistar sem og afþreyingarmenningu, tískuiðnaði, dægurlagakúltúr, leikhúsi og fjölmiðlum. Verk hennar eru samofin gjörningum á ýmsa vegu þar sem hún leikur sér oft með freistingar ofgnóttarinnar. Á undanförnum árum hefur hún unnið mikið með gervihár og náttúrulegt hár og búið til skúlptúra og veggmyndir, sem minna á klifurplöntur á húsgöflum, svo úr verður skreytikennd fegurð sem býr jafnframt yfir ógnvekjandi draugalegum áhrifum. Í verkum sínum glímir Hrafnhildur við sögu þessarar hárugu þráhyggju okkar og hvernig sköpun með hana heldur áfram að birtast í menningu samtímans þar sem tilhugsunin um „slæman hárdag“ (e. bad hair day) vokir yfir okkur eins og bölvun.

Þorbjörg Halldórsdóttir (f. 1968) útskrifaðist frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1988. Tveimur árum síðar hélt hún á vegum skiptinemasamtakanna A.U.S til Mexíkó þar sem hún dvaldi næstu tólf mánuði og stundaði tónlistarnám og starfaði sem músiktherapisti. 1993 urðu tímamót í hennar lífi þegar hún kynntist Önnu í versluninni Fríðu frænku þar sem hún starfaði á árunum 1994-2002. Nokkru síðar var stefnan tekin norður til Akureyrar og árið 2004 opnaði hún sjálf, ásamt Guðrúnu Jónsdóttur, búðina Frúin í Hamborg. Það má segja að í gegnum búðina hafi hún þróað sína myndlist. Þorbjörg vinnur mest með innsetningar og gjörninga og þá gjarnan í samvinnu við aðra listamenn. Í Frúnni í Hamborg hannar og saumar Tobba púða, töskur, hálskraga, hárspangir, kjóla og margt fleira undir merkinu „Frúin í Ham“.

Í grein sem Sjón skrifaði í tilefni sýningarinnar segir m.a.: „Það var í svörtum flauelspúða, stungnum með samlitum glersteinum; það var í jörpum, snúnum hárlokki sem bundinn var saman með fölnandi appelsínugulum silkiborða; það var í eldhússvuntu, svo bættri með grænum, rauðum, bláum og gulum bótum að engin leið var að sjá að eitt sinn var hún hvít. Flauelið í einu horni púðans tók að hnoðrast líkt og krafsað væri í það með langri nögl. Eitt hár lokksins tók að vaxa, að spinna sig frá hinum í silkihaftinu, og reyndist hrokkið. Einn saumanna sem hélt fastri bót á vinstra brjósti svuntunnar tók að rekja sig upp, að lengjast og vinda sig niður á gólfið. Og þannig gekk á með kvisi, hvísli og hvískri uns flauelshnoðrinn, hárið staka og saumþráðurinn höfðu magnast svo að stærð og gerð – hnoðri dafnað, hár þykknað, þráður hlaðist upp – að hvert fyrir sig myndaði að lokum fullvaxna og einstaka konu.“

Sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson. Rithöfundurinn Sjón skrifar smásögu í sýningarskrána sem er hönnuð af Kviku ehf. Sýningin stendur til 13. desember. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í síma: 461-2610 / 899-3386. Netfang: hannes@art.is.

Listasafnið á Akureyri er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Ókeypis aðgangur í boði Akureyrarbæjar.

 
 LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI
 AKUREYRI ART MUSEUM


Ani Baronian sýnir í Deiglunni

206_282


Ani Baronian er gestalistamaður í gestavinnustofu Gilfélagsins á Akureyri í október.

Ani sem er armenskur Bandaríkjamaður vinnur með teikningar og skúlptúra og ætlar að halda sýningu á verkum sínum í Deiglunni í Listagilinu laugardaginn 24. október kl. 15–17 og sunnudag frá kl. 14-17.

ALLIR VELKOMNIR


Hrefna Harðardóttir opnar sýningu í DaLí Gallery

hh_disir09.jpg

Hrefna Harðardóttir opnar sýninguna DÍSIR í DaLí Gallery, Brekkugötu 9 á
Akureyri, fyrsta vetrardag laugardaginn 24. október kl. 14-17.

Undanfarin ár hefur Hrefna verið að móta í leir, myndir af fornum gyðjum
og þannig reynt að skilja formæður sínar og heiðra kvenmenningararfinn,
því sagt er; án fortíðar er engin framtíð.
Að þessu sinni hefur hún valið að ljósmynda þrettán dásamlegar nútímakonur
og gert þær að táknmyndum DÍSA. Með því vill hún sýna hvað konur geta
verið fagrar, flottar, duglegar og klárar og hve máttur þeirra er mikill.
Menn kvöddu sumar og heilsuðu vetri með blóti, bæði til goða og vætta og
ekki síst dísa og þannig kveður hún sumar og heilsar vetri á fyrsta
vetrardegi árið 2009.

Sýningin stendur til 8. nóvember og er opin laugardaga og sunnudaga kl.14-17.
Upplýsingar í síma 862-5640 og hrefnah(hjá)simnet.is

Allir velkomnir.
Bestu kveðjur
Dagrún og Lína í DaLí Gallery
s. 8957173/8697872
daligallery.blogspot.com


Íslensk samtímahönnun í Ketilhúsinu

bo_skort_a_syninguna_slensk_samtimahonnun.jpg


Sýningin Íslensk samtímahönnun
Húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr í Ketilhúsinu

Á laugardaginn klukkan 14 opnar í Ketilhúsinu á Akureyri sýningin Íslensk
samtímahönnun - Húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr og verður við þetta
tækifæri afhent fyrsta eintak bókarinnar Íslensk samtímahönnun.  Þetta er
fyrsta bókin sem sinnar tegundar sem bregður upp yfirliti yfir störf
íslenskra hönnuða á síðustu árum.  Valin eru verk sem gefa sem
fjölbreyttasta mynd af starfi íslenskra hönnuða samtímans hvort sem það eru
snjóflóðavarnargarðarnir á Siglufirði eða barinnréttingar í Hong Kong.

 Fátt er eins lýsandi fyrir mannlegt samfélag og það umhverfi sem maðurinn
hefur mótað til daglegra athafna. Segja má að í manngerðu umhverfi birtist
spegilmynd hönnunarsögunnar; ólíkar myndir hönnunar, breytilegar eftir
tíðaranda, gildismati, ríkjandi hugmyndafræði, túlkun  og aðstæðum hverju
sinni.

Á sýningunni, sem var hluti af Listahátíð Reykjavíkur og var sett upp á
Kjarvalsstöðum í sumar, er sýnd íslensk samtímahönnun þar sem er unnið með
tengsl þriggja hönnunargreina, húsgagna- og vöruhönnun og arkitektúr sem
eiga stóran þátt í að móta manngert umhverfi með samspili sín á milli. Á
sýningunni er samhengi þeirra skoðað og hvernig þær eru samofnar mannlegri
hegðun allt frá því að eiga þátt í  að skipuleggja tímann, væta kverkarnar
eða  verja okkur fyrir náttúruhamförum. Sýnd eru gríðarstór mannvirki og
fínleg nytjahönnun sem eiga þó það sameiginlegt að tilheyra manngerðu
umhverfi og vera mótandi þáttur í því.

Sýningunni Íslensk samtímahönnun er ætlað að vera spegill þess sem telja má
á einn eða annan hátt gæði í íslenskri hönnun undanfarin ár. Markmiðið er að
árétta gildi góðrar hönnunar og öflugs hugvits fyrir mannlegt samfélag -
verðmæti  til að virkja  til framtíðar.

Sýnd eru verk frá um 20 hönnuðum sem eru valin með það í huga að eiga erindi
ytra til frekari kynningar, sölu eða framleiðslu en frá Akureyri fer
sýningin til Norðurlandanna og svo alla leið til Kína þar sem hún verður
sett upp á Expó í Shanghai á næsta ári.

Samhliða hönnunarsýningunni er kynning á verkum ungra, efnilegra hönnuða í
samvinnu við Hönnunarsjóð Auroru.

Sýningarstjóri er Elísabet V. Ingvarsdóttir og mun hún leiðsegja um
sýninguna sunnudaginn 24. október klukkan 13.30.
Sýningin er samstarf Akureyrarstofu, Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili og
Hönnunarmiðstöðvar Íslands og Listahátíðar í Reykjavík.

Nánari upplýsingar veita Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri
Hönnunarmiðstöðvar Íslands í síma 699 3600 og Elísabet V. Ingvarsdóttir
sýningarstjóri í síma  860 0830


Styrktarsjóður Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur óskar eftir umsóknum

Svavar


STYRKTARSJÓÐUR
Svavars Guðnasonar listmálara
og Ástu Eiríksdóttur


Styrktarsjóður Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur óskar
hér með eftir umsóknum um styrk úr sjóðnum.
Styrkirnir eru tveir að upphæð kr. 500.000 hvor
og veitist tveimur ungum, efnilegum myndlistarmönnum.

Eftirfarandi upplýsingar og gögn þurfa að fylgja umsóknum:
Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang og símanúmer,
þrjár til fimm ljósmyndir, litskyggnur eða stafrænar myndir af verkum
umsækjanda ásamt ítarlegum náms- og listferli.

Umsóknir merktar: Styrktarsjóður Svavars Guðnasonar og
Ástu Eiríksdóttur, sendist fyrir 4. nóvember 2009 til
Listasafns Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík.

Í dómnefnd sitja:
Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands
Þuríður Sigurðardóttir, myndlistarmaður, SÍM
Hulda Stefánsdóttir, prófessor, LHÍ







Opnun í GalleríBOXi á laugardag

HVAÐ LEYNIST Í SKÚMASKOTUM

24.10.09 klukkan 16:00
Myndlistarsýning félagsmanna Myndlistarfélagsins

Allir velkomnir!

Léttar veitingar
Aðeins opið þessa einu helgi

25.10.09 – opið frá kl. 14:00-17:00

 

GalleríBOX

Salur Myndlistarfélagsins

Kaupvangsstræti 10

600 Akureyri


Kristján Pétur sýnir í Hafnarfirði

JSBach%20Brandenburgerconcert%20kynning_thumb%5B1%5D

Laugardaginn 17.10. kl. 14-17 opnar Kristján Pétur Sigurðsson sýninguna „Þagnarangar úr Brandenburgarkonsert nr. 5 eftir J.S.Bach“ í Gullsmíða og Skartgripaverslun Fríðu Strandgötu 43 í Hafnarfirði. Verkin eru unnin úr krossviði, kopar og maghóní.

Sýningin verður síðan opin í þrjár vikur á opnunartíma verslunarinnar.
Það væri mér sönn ánægja að þú og þínir litu inn við opnun.

Kristján Pétur Sigurðsson


Frestur til að sækja um starfslaun listamanna að renna út

Þeir sem ætla að sækja um starfslaun eru beðnir um að ganga frá sinni umsókn fyrr en seinna til að lenda ekki í mesta álaginu þegar nær dregur.
Athugið að eingöngu er hægt að sækja umsóknareyðublað á heimsíðu sjóðsins www.listamannalaun.is
 
Munið að frestur til að sækja um starfslaun listamanna sem verður úthlutað árið 2010 rennur út mánudaginn 19. október n.k. á miðnætti.
Umsóknargögnum skal skilað rafrænt, hægt  er að nálgast þau á vefsíðunni www.listamannalaun.is.

 

Starfslaun listamanna

Hér með eru auglýst til umsóknar starfslaun listamanna sem úthlutað verður árið 2010, í samræmi við ákvæði laga nr. 57/2009 með áorðnum breytingum.
Starfslaunin eru veitt úr sex sjóðum, þ.e.:
 
1. Launasjóði hönnuða,
2. Launasjóði myndlistarmanna,
3. Launasjóði rithöfunda,
4. Launasjóði sviðslistafólks,
5. Launasjóði tónlistarflytjenda,
6. Launasjóði tónskálda
 
Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á vef listamannalauna á vefslóðinni www.listamannalaun.is fram til  mánudagsins  19. október 2009.  Þegar komið er inn í umsókn er aðgangur veittur á kennitölu umsækjanda (ekki kennitölu félags eða samtaka) og verður lykilorð sent viðkomandi á netfang sem hann gefur upp við nýskráningu.

Lykilorðinu má breyta eftir innskráningu með því að opna Mínar stillingar. Umsækjendur skrá sig inn með kennitölu og lykilorði og velja Stjórn listamannalauna undir flipanum Umsóknir. Þar eru umsóknareyðublöðin. Svæði merkt rauðri stjörnu verður að fylla út.

Fylgigögnum með umsókn sem ekki er hægt að senda rafrænt skulu berast Skrifstofu Stjórnar listamannalauna, Hallveigarstöðum, Túngötu 14, 101 Reykjavík fyrir kl. 17:00 mánudaginn 19.október 2009.

Með umsókn skal fylgja greinargerð um verkefni það sem liggur til grundvallar umsókninni ásamt upplýsingum um hve langan starfstíma er sótt um og rökstuðningi fyrir tímalengd.  Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um náms- og starfsferil, verðlaun og viðurkenningar. Þessir þættir  skulu  að  jafnaði  liggja  til  grundvallar  ákvörðun  um úthlutun starfslauna. 

Athugið að hafi umsækjandi áður hlotið starfslaun verður umsókn hans því aðeins tekin til umfjöllunar að hann hafi skilað Stjórn listamannalauna skýrslu um störf sín í samræmi við ákvæði 4. gr. laga um listamannalaun nr. 57/2009 með áorðnum breytingum.

Nánari upplýsingar og leiðbeiningar fást á vef Stjórnar listamannalauna www.listamannalaun.is eða á skrifstofunni í síma 562 6388.

Umsóknarfrestur rennur út mánudaginn  19. október 2009.

Stjórn listamannalauna 16. ágúst 2009


Möguleg fjármögnun til menningarstarfs

norden.jpg


Möguleg fjármögnun til menningarstarfs
Kynning á Akureyri

Skipuleggjandi: Norræna upplýsingaskrifstofan á Akureyri

Flestir þeir sem vinna með menningartengd verkefni þurfa að sækja um styrki til fjármögnunar þeirra.  Til hvaða verkefna, frá hverjum og hvernig er hægt að fá styrki?

Á kynningunni verður lögð sérstök áhersla á Norræna menningarsjóðinn.  Markmið sjóðsins er að efla norrænt menningarsamstarf og er starfssviðið breitt, nær til lista- og menningarsviðsins, jafnt fagfólks sem leikmanna.

Einnig verður farið verður farið yfir aðra sjóði tengda norrænu menningarsamstarfi

Dagskrá

13.00 – 16:00 
Kynntar verða nýjar áherslur Norræna menningarsjóðsins sem taka gildi
                        1. janúar 2010
                       
Kynnt verða sérstök verkefni Norræna menningarsjóðsins
                       
                        Umsóknareyðublað sjóðsins verður skoðað og við förum yfir mikilvæg atriði varðandi umsóknir til sjóðsins.

                        Umsækjandi segir frá reynslu sinni af umsóknarferlinu.

                        Aðrir norrænir sjóðir kynntir.
                       
                        Kaffi, spurningar og umræður

Um kynningu sjá: Stefán Baldursson óperustjóri og stjórnarmeðlimur Norræna menningarsjóðsins, María Jónsdóttir forstöðumaður Norrænu upplýsingaskrifstofunnar og George Hollanders listamaður.                 

Tími og staður

Kynningin verður haldin í Ketilhúsinu á Akureyri föstud. 16. okt. 2009 kl. 13:00 – 16:00 og er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Skráningar í síðasta lagi  13. okt. 2009, kl. 12:00  hjá Maríu Jónsdóttur Norrænu upplýsingaskrifstofunni.   Tölvupóstfang mariajons@akureyri.is.  Heimasíða skrifstofunnar er www.akmennt.is/nu


María Jónsdóttir


Forstöðumaður Norrænu upplýsingaskrifstofunnar


Leder Nordisk informationkontor 


Netfang/e-post: mariajons@akureyri.is


hjemmeside: www.akmennt.is/nu



Norræna upplýsingaskrifstofan/Nordisk informationkontor


Kaupvangsstræti 23


600 Akureyri


Island.


Sími: 462 7000

Fax: 462 7007


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband