LÖG MYNDLISTARFÉLAGSINS

LÖG MYNDLISTARFÉLAGSINS

samþykkt á stofnfundi 26. janúar 2008.

 
1. grein
Félagið heitir MYNDLISTARFÉLAGIÐ.


2. grein
Varnarþing er á Akureyri.


3. grein
Tilgangur og markmið Myndlistarfélagsins er:
a) að efla samtök myndlistarmanna og vera málsvari þeirra.
b) að bæta kjör og starfsgrundvöll myndlistarmanna, gæta hagsmuna þeirra.
c) að efla umræðu um myndlist og auka þekkingu og fræðslu um myndlist.
d) að auka myndlist á Norðurlandi sérstaklega og koma á samstarfi við opinbera aðila á svæðinu.
e) að standa fyrir sýningum á verkum félaga Myndlistarfélagsins.
f) að koma á samvinnu við listamenn, erlendis sem og hér á landi.


4. grein
Sameiginlegir punktar varðandi inntökuskilyrði í eftirtalin myndlistafélög:
Myndlistarfélagið, FÍM, Íslensk Grafík, Textílfélagið, Myndhöggvarafélagið, Leirlistafélagið og einstaklingsaðild að SÍM.
Félagar þurfa að hafa lokið háskólaprófi eða sambærilegri menntun í myndlist eða sýna fram á með öðrum hætti að þeir starfi að myndlist af fullri alvöru.
Að öðrum kosti þarf umsækjandi að uppfylla fjögur af neðangreindum skilyrðum.
  1. Hafa aðra menntun í myndlist (t.d. nám á framhaldsskólastigi, námskeið, einkatíma eða annað)  staðfest með yfirlýsingu viðkomandi kennara/skóla.
  2. Hafa haldið eina eða fleiri einkasýningar í viðurkenndum sýningarstöðum.
  3. Hafa tekið þátt í alþjóðlegri sýningu, samsýningu styrktri af opinberum aðilum eða ekki færri en fimm samsýningum öðrum.
  4. Hafa verið falið af dómnefnd, að vinna að listskreytingu á opinberum vettvangi.
  5. Eiga minnst eitt verk í opinberri eigu, keypt af viðkomandi safnráði eða matsnefnd.
  6. Hafa hlotið opinberan styrk eða starfslaun. 
Stjórn félagsins fjallar um umsóknir og leggur niðurstöðuna fyrir félagsfund til endanlegrar afgreiðslu.

Sætti umsækjandi sig ekki við niðurstöðu matsaðila getur hann vísað málinu til aðalfundar og ræður þar einfaldur meirihluti atkvæða.


5.  grein
Stjórn Myndlistarfélagsins skipa fimm fulltrúar, formaður, varaformaður, ritari, vararitari og gjaldkeri. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur eru einnig kosnir til tveggja ára og skipta þeir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Aldrei skulu fleiri en tveir meðstjórnendur ganga úr stjórninni hverju sinni. Á aðalfundi skal ennfremur kjósa tvo varamenn. Ef stjórnarmaður hættir stjórnarsetu áður en kjörtímabili hans lýkur skal varamaður skipa sæti hans. Ef aðalmaður boðar forföll skal boða varamann í hans stað. Stjórnin skal kosin á aðalfundi og eru allir fullgildir félagsmenn sambandsins kjörgengir. Þeir frambjóðendur sem flest atkvæði hljóta í kjöri meðstjórnenda taka sæti í stjórn. Sá sem næstur kemur tekur sæti varamanns. Hljóti tveir menn jafna atkvæðatölu skal varpað hlutkesti á milli þeirra.


6. grein
Aðalfund skal halda að vori ár hvert og ekki seinna en í apríllok. Fundurinn skal boðaður með tveggja vikna fyrirvara. Fundurinn er lögmætur ef 10 félagsmenn mæta. Félagsfundi skal halda þegar stjórnin telur þess þörf eða þriðjungur félagsmanna óskar þess. Félagsfundi skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara. Formaður kallar saman stjórnarfundi þegar honum þykir þurfa eða einhver í stjórninni óskar þess, ekki færri en fjóra fundi á ári. Aðalfundur ákveður árgjald félagsins. Gjaldkeri afhendir endurskoðendum reikninga félagsins viku fyrir aðalfund.

Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:
1.  Skýrsla stjórnar.
2.  Reikningar.
3.  Stjórnarkosning.
4.  Kosning félagslegs skoðunarmanns og endurskoðanda til eins árs.
5.  Lagabreytingar.
6.  Ákvörðun félagsgjalda.
7.  Önnur mál.

Allar samþykktir á aðalfundi verða að hljóta einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.


7. grein
Nöfn þeirra félagsmanna sem ekki hafa greitt árgjald yfirstandandi árs, mánuði fyrir aðalfund, skulu sett á aukaskrá. Skal þeim tilkynnt þetta skriflega eða með tölvupósti þegar í stað. Félagar á aukaskrá hafa ekki atkvæðisrétt á félagsfundum né aðalfundi og ekki heldur kjörgengi í stjórn, nema þeir hafi gert upp skuld sína fyrir aðalfund.

Þeir félagsmenn, sem ekki hafa greitt árgjaldið í tvö ár samkvæmt framansögðu, falla sjálfkrafa út af félagaskrá og verða ekki félagsmenn á ný fyrr en þeir hafa greitt skuld sína.


8. grein
Breytingar á lögum Myndlistarfélagsins verða ekki gerðar nema á aðalfundi og því aðeins að 2/3 mættra fundarmanna greiði þeim atkvæði.  Allar tillögur um lagabreytingar svo og aðrar veigamiklar tillögur sem bera skal upp til atkvæða á aðalfundi skulu boðaðar í fundarboði.


9. grein
Ákvörðun um slit félags verður tekin á aðalfundi með auknum meirihluta, 2/3 og renna eignir þess til Sambands Íslenskra Myndlistarmanna.

10. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Þetta eru hin ágætustu lög.

Væri þetta ekki tilvalið í tenglasafn síðunnar?    http://www.visitakureyri.is

Hallmundur Kristinsson, 27.1.2008 kl. 23:51

2 Smámynd: Hlynur Hallsson

Jú, tilvalið að skella tengli á þetta Hallmundur. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 28.1.2008 kl. 10:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband