Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Guðrún Pálína opnar myndlistarsýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri

gu_ru_769_n_pa_769_li_769_na.png

Fimmtudaginn 1. mars kl. 16.00 – 18.00 mun Guðrún Pálína opna myndlistarsýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri.

Sýning Guðrúnar Pálínu er opin mánudaga og miðvikudaga frá kl. 8.00 – 16.00, þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 8.00 – 18.00 og stendur til 30. mars.

Sýningin er sú fjórða og síðasta í ættfræði-seríu sem Guðrún Pálína hefur unnið að síðustu árin og sýnt á Akureyri. Sýningin í Bókasafni Háskólans á Akureyri ber nafnið “Maður fram af manni” og fjallar um ættir móðurafa Guðrúnar Pálínu, Höskuldar Tryggvasonar frá Víðikeri í Bárðardal. Sýningin samanstendur af 8 litríkum málverkum á tréplötum sem hvíla á gólfi og hallast að veggjunum. Það er von Guðrúnar Pálínu að sýningin veki áhuga áhorfandans á eigin ættarsögu. Bak við hvern einstakling er líf og erfðaefni margra forfeðra og formæðra sem hafa áhrif á hver við erum og hvað við gerum.

Guðrún Pálína stundaði listnám í Hollandi og sótti námskeið í grafískri hönnun í eitt ár við Myndlistarskólann á Akureyri. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum, bæði á Íslandi og erlendis. Guðrún Pálína rekur ásamt eiginmanni sínum, Joris Rademaker, listgalleríið Gallerí+ á Akureyri.

Allir eru velkomnir.


Habby Osk sýnir í GalleríBoxi

 

nothing_sticks_poster.jpg

Laugardaginn 3. mars kl. 14:00 opnar Habby Osk sýninguna Nothing Sticks - A drifter’s story í GalleríBoxi. Sýningin samanstendur af ljósmyndum úr hluta af ljósmyndaseríunni Nothing Sticks - A drifter’s story og mun bók koma út seinna á árinu með allri seríunni.

 

Nokkrum mánuðum eftir að Habby Osk útskrifaðist úr meistaranámi sínu í myndlist frá The School of Visual Arts í New York árið 2009, þá pakkaði hún ofan í ferðatösku og hefur síðan lifað sem eins konar “drifter”. Á þessum tíma hefur hún tekið fjöldann allan af ljósmyndum á ferðalögum sínum, sem spanna allt frá stórborgum yfir á fáfarnar slóðir.

 

Verk Habby Osk hafa verið sýnd víðsvegar um Evrópu og Bandaríkin. Nú síðast á The 8th Berlin International Directors Lounge Film and Video Festival og Re:Rotterdam Art Fair.

 

Sýningin stendur til 11. mars. Opnunartími um helgar 14:00-17:00 og á skrifstofutíma á virkum dögum.  GalleríBOX, Kaupvangsstræti 10, 600 Akureyri.


Menningarsjóður Akureyrar og starfslaun listamanna

akureyri

Auglýst hefur verið eftir umsóknum um styrki úr Menningarsjóði Akureyrarbæjar og umsóknum listamanna um starfslaun frá 1. júní 2012 til 31. maí 2013.

Stjórn Akureyrarstofu úthlutar styrkjum úr Menningarsjóði og er hlutverk sjóðsins að styrkja liststarfsemi og aðra menningarstarfsemi á Akureyri. Í ár verður sérstaklega horft til verkefna sem tengjast 150 ára afmæli Akureyrar.

Umsóknum skal skilað í þjónustuanddyri Ráðhússins, Geislagötu 9 og er hægt að nálgast þar eyðublöð eða hér á heimasíðu Akureyrarbæjar. Þess skal vandlega gætt að allar umbeðnar upplýsingar komi fram. Umsóknarfrestur er til 2. mars 2012.

Stjórn Akureyrarstofu auglýsir einnig eftir umsóknum listamanna um starfslaun fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. maí 2013. Starfslaununum verður úthlutað til eins listamanns og hlýtur viðkomandi sex mánaða laun. Eyþór Ingi Jónsson, tónlistarmaður og organisti við Akureyrarkirkju, naut starfslaunanna 2011-2012.

Markmiðið með starfslaununum er að sá sem þau hlýtur geti helgað sig betur listsköpun sinni eða einstökum verkefnum á vettvangi hennar á tímabilinu. Einungis listamenn sem eiga lögheimili á Akureyri koma til greina.

Umsækjendur skulu skila, ásamt umsókn, upplýsingum um listferil sinn og greinargóðum upplýsingum um hvernig starfslaunatíminn skuli notaður. Umsóknum skal skila í Þjónustuanddyri ráðhússins að Geislagötu 9. Umsóknarfrestur er til og með 2. mars 2012.

Nánari upplýsingar um Menningarsjóðinn og starfslaun listamanna veitir Hulda Sif Hermannsdóttir verkefnastjóri hjá Akureyrarstofu en hún er með netfangið huldasif@akureyri.is.


Henrjeta Mece sýnir í Pop­ulus Tremula

Henrjeta-web

 

DIALOGUES ON UNCERTAINITY II
Henrjeta Mece
24.-25. febrúar 2012

Laugardaginn 24. febrúar kl. 14.00 mun kanadíska listakonan Henrjeta Mece opna myndlistar­sýningu í Pop­ulus Tremula.

Henrjeta, sem hefur hlotið fjölda viðurkenninga og sýnt víða í Norður-­Ameríku og Evrópu, dvelur um þessar mundir í gestavinnustofu Gilfélagsins á Akureyri.

Á sýningunni verður röð teikninga þar sem listakonan veltir fyrir sér ljóðrænu þess að komast af í nútímasamfélagi.

Einnig opið sunnudaginn 25. febrúar kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.


Sólveig Thoroddsen sýnir í Mjólkurbúðinni í Listagili

attachment_1137222.jpg

Sólveig Thoroddsen opnar sýninguna NORÐUR í Mjólkurbúðinni Listagili,
föstudaginn 24. febrúar kl. 17 og eru allir velkomnir.

Sólveig Thoroddsen um sýninguna Norður:

Sýning "Norður" byggir á dvöl minni á Svalbarða í nóvember síðastliðnum. Í
verkum mínum túlka ég áhrif náttúru, samfélags og umhverfis. Sérstaklega er
mér hugleikið sambandið milli manns og náttúru, aðlögun beggja afla hvort að
öðru og spennuna sem ríkir oft milli þessa ólíku en þó náskyldu afla, því
maðurinn er, þegar allt kemur til alls, hluti af náttúrunni.

Sólveig Thoroddsen útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2010 og er
þetta fyrsta einkasýning hennar. Sólveig hefur tekið virkan þátt í
samsýningum og má þar nefna m.a. þátttöku Sólveigar í myndlistasýningunni
Nýjir Þjóðhættir á vegum Úti Á Túni Menningarfélags á Húsavík á mærudögum
2011 og í samsýningu Dieter Roth Akademíunnar í Verksmiðjunni á Hjalteyri
2010.


Sýningin NORÐUR stendur aðeins þessa einu helgi 24.-26.febrúar og er opið:

Föstudag kl.17-20

Laugardag og sunnudag kl.14-17.

ALLIR VELKOMNIR



Heimasíða Sólveigar Thoroddsen

s.8624896
solveigthoroddsen@gmail.com

Mjólkurbúðin á facebook

s.8957173


Jolien Kramer sýnir í Sal Myndlistarfélagsins

39_schermafbeelding-2011-07-15-om-023717

Laugardaginn 18. febrúar 2012, klukkan 3 opnar í Sal okkar sýning Jolien Kramer. Hún er ung listakona frá Hollandi sem hefur dvalið undanfarið í Herhúsinu á Siglufirði. Hún vinnur mest með teikningar þar sem hún leggur áherslu á smáatriði og viðfangsefnið er fólk sem umbreytist í landslag ásamt vídeoverkum. Sýningin mun standa 3 helgar.

 

GalleríBOX

Salur Myndlistarfélagsins

Kaupvangsstræti 10

600 Akureyri


Gestavinnustofur í Dale í Noregi lausar til umsóknar

Dale_winter_large

NORDIC ARTISTS' CENTRE DALE | NORDISK KUNSTNARSENTER DALE is an Artist-in-Residence center funded by Norwegian Ministry Of Culture. The A-I-R program encourages international contacts for artists and focuses on visual arts including design, architecture and locally rooted practice. Nordic Artists' Centre Dale is situated in the village of Dale, the administrative center of the Fjaler municipality on the West Coast of Norway.

---

OPEN CALL: ARTIST-IN-RESIDENCE 2013
APPLICATION DEADLINE Thursday, March 15, 2012


MÓBERGUR, RAFSTEINN OG SÆMUNKUR Í KETILHÚSINU

ketilhu_769_s.jpg

Laugardaginn 11. febrúar kl. 15 opnar ný sýning í Ketilhúsinu. Um er að ræða fyrstu sýningu á vegum Sjónlistamiðstöðvarinnar í þessum sal. Sýningin kallast Móbergur – Rafsteinn – Sæmunkur en það eru gamlar persónulegar nafngiftir sem listamennirnir Árni Valur Axfjörð, Hafsteinn Michael Guðmundsson og Jón Sæmundur Auðarson hafa dustað rykið af í tilefni sýningarinnar.

Listamennirnir þrír eiga það sameiginlegt að sækja innblástur til annars veruleika, hugar og sálar mannsins, andlegra heima, fornra leyndardóma og trúarbragða. Hver um sig hefur skapað sinn eigin hugmyndaheim sem fullur er af táknum og vísunum sem sótt eru til hinna fjölbreytilegustu hugmynda úr liðinni tíð en byggður er upp í sköpun og kyngimögnuðu andrúmslofti fortíðar, nútíðar og framtíðar.

Árni Valur Axfjörð – Mórbergur – er fæddur á Akureyri 14. maí 1970. Hann er sjálfmenntaður listamaður sem hefur þróað með sér sérstakan stíl allt frá því hann byrjaði fyrst að mála olíu á striga þegar hann var búsettur í Hollandi árið 1999. Næstu ár einbeitti hann sér að því að þróa þá leið sem hann vildi fara í listinni, læra á mismunandi miðla og tækni ásamt miklum lestri á heimspeki og andlegum fræðum. „Á meðan þjóðir heimsins keppast við að tortíma sjálfum sér, og jörðinni, finnst mér ég knúinn til þess að veita fólki innsýn inn í þann veruleika sem við mér blasir. Sú hugsun að endir sé byrjun er allsráðandi. Þegar þessarri jarðvist lýkur vaknar maður upp af draumi og byrjar hið raunverulega líf,“ útskýrir Árni Valur, sem hélt sýna fyrstu sýningu í Dauða galleríinu sumarið 2010.

Hafsteinn Michael Guðmundsson – Rafsteinn – er fæddur í Reykjavík 17. nóvember 1976. Hann útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista- og handíðaskólans árið 1999. Lífið er Hafsteini hugleikið og dregur hann fram firrta eftirmynd af okkar heimi, Dystópíu með allri sinni undirliggjandi ógn og valdboði, skreyttan ljóðrænni grafík. Persónur myndverka Hafsteins eru erkitýpur sem hafa fengið að þróast í gegnum árin og ganga stundum aftur eða breyta um ham, þannig vísar ein mynd oft í aðra svo bæði verkin öðlast nýja merkingu. Hafsteinn hefur haldið níu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga.

Jón Sæmundur Auðarson – Sæmunkur – er fæddur í Reykjavík 16. júní 1968. Hann útskrifaðist úr fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1999 og öðlaðist svo meistaragráðu í myndlist úr Glasgow School of Art árið 2001. Jón Sæmundur hefur unnið aðallega við innsetningar þar sem blönduð tækni – málverk, skúlptúr, myndbandsverk og tónlist – skapa ákveðið mynstur hugmyndalistar. Líf og dauði er mikilvægt viðfangsefni í list Jóns en hann greindist jákvæður af HIV smiti árið 1994. Á þeim tímapunkti upplifði hann kröfuna um að yfirstíga ótta sinn við dauðann. Þessi hugmynd varð upphafið að Dead sem er marglaga konsept en þar vinnur hann með myndlist, tónlist, netsjónvarp og fatnað undir merkinu Dead.
 
Sýningin stendur til 11. mars og er opin alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17.
Aðgangur er ókeypis í boði Akureyrarbæjar
 

Sjónlistamiðstöðin - Ketilhús
www.sjonlist.is
S: 461 2610
sjonlist@sjonlist.is


Jónas Viðar opnar 50 ára afmælissýningu í Hofi

414383_10151218536750220_723620219_22515809_2028703934_o.jpg

Björg Eiríksdóttir opnar sýningu í Artóteki

naering-u_769_r-myndbandsverki-2009.jpg

Næsta laugardag,  4. febrúar kl. 15  opnar  sýning á verkum Bjargar Eiríksdóttur myndlistarmanns, í Artóteki á 1. hæð Borgarbókasafns Reykjavíkur.

Sýningin í Artótekinu er sjötta einkasýning Bjargar og þar sýnir hún málverk, myndband, textíl og svífandi skúlptúr. Flest verkanna hefur Björg sýnt áður á Akureyri en nú teflir hún saman nokkrum verkum þar sem hún eltir innsæið. Öll verkin fela í sér langan tíma og í þeim er talað um að horfa á sig, hringiðu, munstur, mat og óbærilegan léttleika.

Björg Eiríksdóttir lauk myndlistarnámi frá Fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri árið 2003. Hún hefur einnig lært hugmyndasögu og siðfræði við Háskólann á Akureyri og stundar nú almennt meistaranám við sama skóla og tengir það myndlistarkennslu. Björg lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1991.

Björg hefur unnið við myndlist frá því að hún lauk námi í faginu árið 2003.
Hún hefur einnig kennt til margra ára og síðustu átta ár myndlistagreinar við Verkmenntaskólann á Akureyri. Sjálf telur hún þær greinar sem hún lagði stund á í Kennaraháskóla Íslands, líffræði og kristin fræði, hafa áhrif á myndlist sína. Má glögglega sjá þessi áhrif í verkum Bjargar þar sem skynjun og nánd eru orð sem koma upp í hugann þegar verk hennar eru skoðuð.
Hún veltir fyrir sér manneskjunni sem lífveru, líkama hennar og hinu innra lífi.

Björg hefur einnig verið sýningarstjóri og hafði umsjón með gestavinnustofu Gilfélagsins 2006-2007. Árið 2009-2010 hlaut Björg styrk frá Eyþingi vegna samstarfsverkefnis og frá Akureyrarbæ vegna sýningar 2005. Björg er félagsmaður í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og í Myndlistarfélaginu.

Artótekið leigir út og selur íslenska myndlist til einstaklinga og fyrirtækja. Hægt er að skoða verkin á staðnum eða á vefsíðunni www.artotek.is.

Sýningin stendur til 11. mars.
Opið er mánudaga – fimmtudaga kl. 10-19, föstudaga kl. 11-18 og um helgar kl. 13-17

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband