Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
Steinn Kristjánsson
Hugrenningar
02.02.08 - 29.02.08
Velkomin á opnun laugardaginn 2. febrúar 2008, klukkan 14
Café Karólína // www.karolina.is
Kaupvangsstræti 23 // IS 600 Akureyri // 4612755
---
Laugardaginn 2. febrúar 2008, klukkan 14 opnar Steinn Kristjánsson sýninguna "Hugrenningar", á Café Karólínu á Akureyri.
Steinn Kristjánsson útskrifaðist frá fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri 2007. Hann stundar nú nám við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hann segir um sýninguna á Café Karólínu:
"Umræðan í þjóðfélaginu fer fram á ólíkum stöðum. Mörgum sýnist sem hefðbundið kaffihúsaspjall sé á hröðu undanhaldi fyrir spjallrásum og bloggsíðum. Fólk er að eiga í orðaskiptum á netinu sem það myndi ekki eiga undir fjögur augu.
Sýningin Hugrenningar er tilraun listamannsins til að færa umræðuna aftur inn á kaffihúsið undir formerkjum bloggsins. Hann setur ekki upp sýningu sem á að hanga vikum saman á staðnum. Heldur er það listamaðurinn sjálfur sem hangir á kaffihúsinu og gerir eitthvað nýtt og spennandi á hverjum degi. Í stað þess að blogga um eitthvað hengir hann upp renning, s.k. hugrenning. Á hann skrifar hann sínar hugrenningar um það sem honum liggur á hjarta hverju sinni, límir á hann teikningar, ljósmyndir og úrklippur. Öllum er heimilt að kommenta á renninginn. Í stuttu máli er þetta tilraun um mannleg samskipti. "
Nánari upplýsingar veitir Steinn í steinn52(hjá)visir.is og í síma 8490566
Sýningin á Café Karólínu stendur til 29. febrúar, 2008. Allir eru velkomnir á opnun laugardaginn 2. febrúar, klukkan 14.
Sýning Brynhildar Kristinsdóttur á Karólínu Restaurant hefur verið framlengd til 29. febrúar 2008. Þann 1. mars opnar Jón Laxdal nýja sýningu á Karólínu Restaurant.
29.1.2008 | 11:47
Ásdís Arnardóttir opnar sýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri
Ásdís Arnardóttir opnar myndlistasýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri laugardaginn 2. febrúar kl. 15:00. Sýningin mun standa til 1. mars.
Ásdís nam fyrst við Myndlistaskólann á Akureyri 1995-1996, síðan í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk prófi frá málunardeild árið 1999. Auk þess hefur hún tekið ýmis námskeið í steinhöggi m.a. við Accademia di Belle Arti, Bologna og hjá Einari Má Guðvarðarsyni, myndhöggvara.
Hún hefur m.a. starfað við Menningarmiðstöðina Gerðuberg og hjá Listasafni Kópavogs, Gerðarsafni. Að undanförnu hefur hún eingöngu unnið að eigin list.
Á sýningunni á bókasafninu eru myndir málaðar með vatnslitum á hríspappír. Myndefnið sækir Ásdís í ljósmyndir frá miðjum 8. áratug síðustu aldar, sem teknar voru á Kodak Instamatic myndavél af einfaldri gerð. Í verkunum kallast á innileiki ljósmyndarinnar og sú tilfinning sem myndast við samspil pappírs og litar. Um leið segir hver mynd örsögu úr nálægri fortíð.
Bókasafn Háskólans á Akureyri er opið alla virka daga frá 8:00 18:00 og á laugardögum frá 12:00 15:00.
Allir eru velkomnir
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2008 | 10:52
Bráðið vatn - Smeltevand
Sýningin Smeltevand sem er samsýning 10 norrænna listakvenna heldur áfram ferð sinni og var hún (ný og endurbætt) sett upp í sýningarsölum Menningarmiðstöðvarinnar Portalen, í Greve í Danmörku.
28.1.2008 | 11:53
Myndlistarfélagið stofnað
Stofnfundur Myndlistarfélagsins var haldinn í Deiglunni á Akureyri þann 26. janúar 2008. Hátt í 50 myndlistarmenn mættu á fundinn og eru stofnfélagar um 60.
Tilgangur og markmið Myndlistarfélagsins eru:
Að efla samtök myndlistarmanna og vera málsvari þeirra.
Að bæta kjör og starfsgrundvöll myndlistarmanna, gæta hagsmuna þeirra.
Að efla umræðu um myndlist og auka þekkingu og fræðslu um myndlist.
Að auka myndlist á Norðurlandi sérstaklega og koma á samstarfi við opinbera aðila á svæðinu.
Að standa fyrir sýningum á verkum félaga Myndlistarfélagsins.
Að koma á samvinnu við listamenn, erlendis sem og hér á landi.
Lög félagsins voru samþykkt og einnig ályktun um að efla beri starfslaun Akureyrarbæjar til listamanna. Umræður urðu um starfsaðstöðu myndlistarmanna og lagt til að gerð verði könnun á stöðu myndlistarmanna á svæðinu. Fjölmargar hugmyndir komu fram um starfsemi félagsins og uppbyggilegar tillögur.
Stjórn félagsins var kosin og hana skipa:
Hlynur Hallsson, formaður
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, varaformaður
Brynhildur Kristinsdóttir, ritari
Þórarinn Blöndal, vararitari
Gunnar Kr Jónasson, gjaldkeri
Varamenn:
Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Jónas Viðar
27.1.2008 | 23:02
LÖG MYNDLISTARFÉLAGSINS
LÖG MYNDLISTARFÉLAGSINS
samþykkt á stofnfundi 26. janúar 2008.
1. grein
Félagið heitir MYNDLISTARFÉLAGIÐ.
2. grein
Varnarþing er á Akureyri.
3. grein
Tilgangur og markmið Myndlistarfélagsins er:
a) að efla samtök myndlistarmanna og vera málsvari þeirra.
b) að bæta kjör og starfsgrundvöll myndlistarmanna, gæta hagsmuna þeirra.
c) að efla umræðu um myndlist og auka þekkingu og fræðslu um myndlist.
d) að auka myndlist á Norðurlandi sérstaklega og koma á samstarfi við opinbera aðila á svæðinu.
e) að standa fyrir sýningum á verkum félaga Myndlistarfélagsins.
f) að koma á samvinnu við listamenn, erlendis sem og hér á landi.
4. grein
Sameiginlegir punktar varðandi inntökuskilyrði í eftirtalin myndlistafélög:
Myndlistarfélagið, FÍM, Íslensk Grafík, Textílfélagið, Myndhöggvarafélagið, Leirlistafélagið og einstaklingsaðild að SÍM.
Félagar þurfa að hafa lokið háskólaprófi eða sambærilegri menntun í myndlist eða sýna fram á með öðrum hætti að þeir starfi að myndlist af fullri alvöru.
Að öðrum kosti þarf umsækjandi að uppfylla fjögur af neðangreindum skilyrðum.
1. Hafa aðra menntun í myndlist (t.d. nám á framhaldsskólastigi, námskeið, einkatíma eða annað) staðfest með yfirlýsingu viðkomandi kennara/skóla.
2. Hafa haldið eina eða fleiri einkasýningar í viðurkenndum sýningarstöðum.
3. Hafa tekið þátt í alþjóðlegri sýningu, samsýningu styrktri af opinberum aðilum eða ekki færri en fimm samsýningum öðrum.
4. Hafa verið falið af dómnefnd, að vinna að listskreytingu á opinberum vettvangi.
5. Eiga minnst eitt verk í opinberri eigu, keypt af viðkomandi safnráði eða matsnefnd.
6. Hafa hlotið opinberan styrk eða starfslaun.
Stjórn félagsins fjallar um umsóknir og leggur niðurstöðuna fyrir félagsfund til endanlegrar afgreiðslu.
Sætti umsækjandi sig ekki við niðurstöðu matsaðila getur hann vísað málinu til aðalfundar og ræður þar einfaldur meirihluti atkvæða.
5. grein
Stjórn Myndlistarfélagsins skipa fimm fulltrúar, formaður, varaformaður, ritari, vararitari og gjaldkeri. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur eru einnig kosnir til tveggja ára og skipta þeir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Aldrei skulu fleiri en tveir meðstjórnendur ganga úr stjórninni hverju sinni. Á aðalfundi skal ennfremur kjósa tvo varamenn. Ef stjórnarmaður hættir stjórnarsetu áður en kjörtímabili hans lýkur skal varamaður skipa sæti hans. Ef aðalmaður boðar forföll skal boða varamann í hans stað. Stjórnin skal kosin á aðalfundi og eru allir fullgildir félagsmenn sambandsins kjörgengir. Þeir frambjóðendur sem flest atkvæði hljóta í kjöri meðstjórnenda taka sæti í stjórn. Sá sem næstur kemur tekur sæti varamanns. Hljóti tveir menn jafna atkvæðatölu skal varpað hlutkesti á milli þeirra.
6. grein
Aðalfund skal halda að vori ár hvert og ekki seinna en í apríllok. Fundurinn skal boðaður með tveggja vikna fyrirvara. Fundurinn er lögmætur ef 10 félagsmenn mæta. Félagsfundi skal halda þegar stjórnin telur þess þörf eða þriðjungur félagsmanna óskar þess. Félagsfundi skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara. Formaður kallar saman stjórnarfundi þegar honum þykir þurfa eða einhver í stjórninni óskar þess, ekki færri en fjóra fundi á ári. Aðalfundur ákveður árgjald félagsins. Gjaldkeri afhendir endurskoðendum reikninga félagsins viku fyrir aðalfund.
Dagskrá aðalfundar skal vera svohljóðandi:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Reikningar.
3. Stjórnarkosning.
4. Kosning félagslegs skoðunarmanns og endurskoðanda til eins árs.
5. Lagabreytingar.
6. Ákvörðun félagsgjalda.
7. Önnur mál.
Allar samþykktir á aðalfundi verða að hljóta einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.
7. grein
Nöfn þeirra félagsmanna sem ekki hafa greitt árgjald yfirstandandi árs, mánuði fyrir aðalfund, skulu sett á aukaskrá. Skal þeim tilkynnt þetta skriflega eða með tölvupósti þegar í stað. Félagar á aukaskrá hafa ekki atkvæðisrétt á félagsfundum né aðalfundi og ekki heldur kjörgengi í stjórn, nema þeir hafi gert upp skuld sína fyrir aðalfund.
Þeir félagsmenn, sem ekki hafa greitt árgjaldið í tvö ár samkvæmt framansögðu, falla sjálfkrafa út af félagaskrá og verða ekki félagsmenn á ný fyrr en þeir hafa greitt skuld sína.
8. grein
Breytingar á lögum Myndlistarfélagsins verða ekki gerðar nema á aðalfundi og því aðeins að 2/3 mættra fundarmanna greiði þeim atkvæði. Allar tillögur um lagabreytingar svo og aðrar veigamiklar tillögur sem bera skal upp til atkvæða á aðalfundi skulu boðaðar í fundarboði.
9. grein
Ákvörðun um slit félags verður tekin á aðalfundi með auknum meirihluta, 2/3 og renna eignir þess til Sambands Íslenskra Myndlistarmanna.
10. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Menning og listir | Breytt 27.3.2008 kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2008 | 11:24
Stofnfundur Myndlistarfélagsins á laugardaginn
Laugardaginn 26. janúar 2008, klukkan 17 verður haldinn stofnfundur Myndlistarfélagsins, í Deiglunni á Akureyri.
Undirbúningsfundur að stofnun félags myndlistarfólks var haldinn í nóvember síðastliðinn í Deiglunni. Hátt í 30 myndlistarmenn mættu á fundinn. Þar voru hagsmunamál myndlistarfólks á Akureyri og nágrenni rædd og fjölmargar hugmyndir komu fram. Valin var undirbúningshópur að stofnun félagsins og rætt var um að félagið sækti um aðild að Sambandi íslenskra myndlistarmanna.
Undirbúningshópur var valinn og í honum eru: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Brynhildur Kristinsdóttir, Gunnar Kr. Jónasson, Þórarinn Blöndal og Hlynur Hallsson. Varamenn eru Arna Valsdóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Jónas Viðar.
Undirbúningshópurinn ákvað að halda úti þessari vefsíðu með upplýsingum um myndlistarviðburði á Norðurlandi og tenglum á félaga og gallerí og söfn.
Á stofnfundinum verða drög að lögum félagsins kynnt, kosin stjórn og rætt um hagsmunamál myndlistarfólks.
- Hvernig eflum við myndlist og menningu á Norðurlandi?
- Hvað á myndlistarfólk á Norðurlandi sameiginlegt?
- Hver eru hagsmunamál myndlistarmanna?
- Getum við haft meiri áhrif saman en í sitt hverju lagi?
- Hvað viljum við og hvað getum við gert?
Allt myndlistarfólk er velkomið á stofnfundinn.
17.1.2008 | 13:42
Búdda er á Akureyri: Opnun í Listasafninu á Akureyri
Búdda er á Akureyri:
Oft var zen en nú er nauðzen
Laugardaginn 19. janúar kl. 15 verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýning sem hefur lífsspeki búddismans að leiðarljósi, en listamennirnir á henni eru Halldór Ásgeirsson, Erla Þórarinsdóttir, Finnbogi Pétursson og hinn heimskunni bandaríski vídeólistamaður Bill Viola, sem hér sýnir í fyrsta sinn á Íslandi.
Listasafnið á Akureyri hefur oft farið ótroðnar slóðir í sýningarhaldi og er þessi sýning engin undantekning frá þeirri reglu. Henni er ætlað að vera fræðandi og til þess fallin að skapa áhugaverða umræðu og jafnvel deildar meiningar. Af þeim sökum fylgir veglegt blað með henni sem hefur að geyma talsverðar upplýsingar um búddisma og þróun hans (rúmlega 26.000 orð). Til er gríðarlegt magn af efni um búddisma á öðrum tungumálum, en því miður mjög lítið á íslensku og ætti því að vera nokkur fengur að blaðinu.
Til að gera sýninguna nærtækari íslenskum áhorfendum var leitað á náðir kunnra íslenskra myndlistarmanna sem hafa tileinkað sér búddisma (Halldór Ásgeirsson), þekkja vel til hans og nota það innsæi í list sinni (Erla Þórarinsdóttir), eða virðast smellpassa í þetta tiltekna samhengi (Finnbogi Pétursson). Á henni er einnig að finna nokkra hefðbundna búddíska hluti. Sérstakur gestur sýningarinnar er Bill Viola, einn virtasti myndlistarmaður heims. Viola hefur lengi verið kenndur við búddisma og setur verk hans á sýningunni, Lostalotning (Observance, 2002), hana í alþjóðlegt samhengi.
Sigurður Skúlason leikari, sem er búddisti, skrifaði fróðlegan pistil um sögu búddismans af þessu tilefni og gerði skrá yfir ýmis hugtök sem þar bregður oft fyrir. Hannes Sigurðsson, sýningarstjóri og höfundur verkefnisins, skrifar einnig ítarlega grein um búddisma og hugmyndafræði hans, einkum og sér í lagi tantrískan búddisma, og kemur víða annars staðar við á yfirreið sinni, auk þess að fjalla um listamennina og setja þá í samhengi við búddisma. Þá er í blaðinu að finna samandregna endursögn hans á tveimur af mörgum bókum indverska ólíkindatólsins Oshos (1931-1990), en þessi andlegi meistari var þyrnir í augum bandarísku alríkislögreglunnar sem vísaði honum úr landi og var honum í framhaldi meinað að stinga niður fæti í tuttugu öðrum þjóðríkjum.
Blaðið setur sýninguna í víðtækt samhengi og opnar fyrir fjölbreytilega túlkun á listaverkunum sem á henni eru. Á sýningunni geta áhorfendum einnig upplifað búddisma á eigin skinni, ef svo má segja. Boðið verður upp á ókeypis Body-Balance æfingar í safninu í samvinnu við heilsuræktina Átak, sem í þessu samhengi alveg eins mætti nefna Art Movements þar sem fólk getur teygt sig og notið listarinnar á sama tíma og ætti það að vera kjörið tækifæri til að koma stirðum skammdegiskroppum aftur á hreyfingu eftir allar jólakrásirnar. Þeir sem vilja frekar melta inntak sýningarinnar að zenbúddískum sið geta tyllt sér í hugleiðsluhorn sem útbúið hefur verið í miðsal safnsins.
Sýningin stendur frá 19. janúar til 9. mars. Opið alla daga nema mánudaga frá 12-18. Aðgangseyrir kr. 400. Ókeypis á fimmtudögum. Máttarstólpi sýningarinnar er Eymundsson. Aðrir styrktaraðilar eru: Átak, Flugfélag Ísland, Ásprent, KPMG, Securitas, Eimskip, ISS, Sparisjóður Norðlendinga, Flügger litir og Hótel Akureyri.
Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í síma 899-3386. Netfang: hannes(hjá)art.is
Ný sýning í galleriBOXi á laugardag
ÞÓRUNN E. SVEINSDÓTTIR opnar sýninguna BLÍÐLYNDI
laugardaginn 19.janúar kl.16:00
Þórunn Elísabet Sveinsdóttir hefur unnið við leikhús í um tvo áratugi en einnig gert búninga fyrir sjónvarp, tónlistarmyndbönd, auglýsingar og kvikmyndir. Hún gerði t.d. búninga fyrir kvikmyndirnar 101 Reykjavík, Ikingut og Hafið. Henni voru veitt Grímuverðlaunin 2004 - Íslensku leiklistarverðlaunin fyrir bestu búninga ársins í sýningu Vesturports á Romeó og Júlíu. Meðal leiksýninga sem Þórunn hefur unnið búninga fyrir við Þjóðleikhúsið eru Gauragangur, Snædrottningin, Taktu lagið Lóa, Sjálfstætt fólk og Krítarhringurinn í Kákasus. Nýleg verkefni Þórunnar við Þjóðleikhúsið eru búningar fyrir Rambó 7 og fyrir Klaufa og kóngsdætur (H.C. Andersen), en fyrir þá búninga var hún tilnefnd til Grímunnar 2005. Nýjustu verk hennar innan Þjóðleikhússins eru Umbreyting, Stórfengleg!, Sitji guðs englar, Leitin að jólunum, Leg og nú er í vinnslu Baðstofan, sem frumsýnd verður í febrúarbyrjun og unnin er af sama hópi og gerði Leg, en fyrir þá sýningu fékk hún Grímuna og kosin Búningahöfundur ársins 2007. Á Listahátíð 2007 var hún einn höfunda leiksýningarinnar Gyðjan í vélinni sem vakti mikla athygli, fékk mjög lofsamlega umfjöllun og var tilnefnd ein besta sýning ársins.
Frá unglingsárum hefur Þórunn fundið útrás listsköpunar í teppasaumi og óhætt að fullyrða að þar hefur hún þróað sérstakan og persónulegan stíl. Eftir hana liggja mörg hundruð teppi hérlendis og erlendis, en hér er eru nú sýnd örfá af nýjustu teppunum hennar.
Sýningin stendur til 3.febrúar.
Opið er laugardaga og sunnudaga frá 14-17.
--
galleriBOX
Kaupvangstræti 10
600 Akureyri
www.galleribox.blogspot.com
Populus tremula kynnir:
Þorvaldur Þorsteinsson
“LEIKMYNDIR”
Myndlistarsýning, bók, kvöldskemmtun
Laugardaginn 19. janúar kl. 14:00 opnar Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarsýninguna Leikmyndir í Populus tremula. Um leið kemur út bókin Mónólógar eftir Þorvald.
Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 20. jan. kl. 14:00-17:00. Aðeins þessi eina helgi.
Að kvöldi sama dags, kl. 22:00, verður kvöldskemmtun þar sem stórleikarar lesa úr nýútkominni bók ásamt höfundi og Sickbird leikur eigin tónlist með stórsveit, skipaðri þeim Arnari Tryggvasyni, Kristjáni Edelstein, Ingva Rafni Ingvasyni, Pálma Gunnarssyni og Togga skyttu.
Húsið verður opnað kl. 21:30 og malpokar leyfðir.
Aðgangur ókeypis, sem endranær í vinnustofu okkar.
http://poptrem.blogspot.com
16.1.2008 | 14:31
Dagrún Matthíasdóttir sýningu sína ,,Lífið er saltfiskur" á Veggverk og í DaLí Gallery á Akureyri
Dagrún Matthíasdóttir
"Lífið er saltfiskur"
Veggverk - DaLí Gallery
Á laugardaginn 19. janúar opnar Dagrún Matthíasdóttir sýningu sína ,,Lífið er saltfiskur" á Veggverk og í DaLí Gallery á Akureyri. Um ræðir sýningu undir sömu yfirskrift en Dagrún vinnur verk sitt á þessa tvo staði í miðbæ Akureyrar sem kallast á í verki utandyra og innandyra. Opnun sýningarinnar fer fram í DaLí Gallery í Brekkugötu 9 á Akureyri kl. 17 og eru allir velkomnir.
Dagrún Matthíasdóttir, um sýningu sína:
,,Lífið er saltfiskur"! Mér hefur alltaf þótt þetta snilldarfrasi. Allt frá því ég las bækurnar hans pabba um teiknimyndafígúruna Siggu Viggu og skildi hvorki frasann um saltfiskinn né pólitíska þráðinn í sögunum. En þótti drepfyndið að lífið gæti verið saltfiskur! Síðar á unglingsárunum vann ég í saltfiski inni á Langeyri við Álftafjörð og kynntist af eigin raun bæði saltfiskinum og striti vinnunnar í svuntu og stígvélum frá 66°norður.
Form sólþurrkaða saltfisksins heillar mig á myndrænan hátt formið vekur upp ljúfar minningar hugans og bragðlauka ásamt því að gleðja augað. Hvort form Saltfisksins vekur sömu hughrif hjá öðrum veit ég ekki en frasinn ,,Lífið er saltfiskur" lifir enn góðu lífi í málnotkun allra, ungra uppa jafnt sem gamalla hippa, kótelettu karla og mussu kellna. Því finnst mér því tilvalið að nota form saltfisksins í myndsköpun svona rétt eftir neyslubrjálæði jólahátíðarinnar.
Hugmyndin af verkum mínum sem sjá má á Akureyri frá og með 19.janúar undir yfirskriftinni "Lífið er saltfiskur" mótast í raun af huglægu bragði og vinnu. Til að framkalla saltbragð þeirra sem á horfa, mun formið taka á sig mynd á Veggverk og endurvarpast með nýjum hætti í DaLí Gallery, af einum vegg yfir á annan.
Formleg opnun verður 19. janúar kl.17 og verður tekið á móti listunnendum og skemmtilegu fólki á DaLí Gallerý í Brekkugötu 9 á Akureyri.
Dagrún Matthíasdóttir s. 8957173
http://www.dagrunmatt.blogspot.com
http://daligallery.blogspot.com
http://gralist.wordpress.com
Sýningarstjóri Jóna Hlíf Halldórsdóttir
www.veggverk.org