Færsluflokkur: Menning og listir
23.6.2014 | 19:47
Sykursætur veruleiki í Sal Myndlistarfélagsins
Sykursætur veruleiki. Myndlistarsýning María Isabel Vargas.
Sérstakur gjörningur verður á opnunarkvöldinu 28. júní kl. 18.00 með Maria Isabel Vargas og Sigrúnu Guðmundsdóttur.
Sýningin er frá 28. júní - 13. júlí 2014 í Sal Myndlistarfélagsins, Kaupvangstræti 10, 600 Akureyri.
23.6.2014 | 16:11
Sumarsýning GÓMS í Deiglunni 2014 "Tvívirkni / Duality"
Sýningin Tvívirkni er áframhald af samvinnu GÓMS (Georg Óskar & Margeir Dire Sigurðsson).
Í verkum GÓMS tvíeykisins má glögglega sjá að allar hugmyndir hafa ákveðið mikilvægi. Þær hlaðast saman á einum myndfleti sem endurspeglar andrúmsloft og undirliggjandi samhengi hlutanna.
Útkoman er aðferðafræði sem kallast Absorbism eða Óbeislað hugmyndaflæði.
Tilgangur lífsins, Himalaya fjöllin, Pungbartar og Kúlusúkk eru til að mynda í þessum skilningi órjúfanleg heild í leit að ákveðinni tilfinningu og túlkun.
Á sýningunni Tvívirkni renna tveir hugarheimar í eitt og við skyggnumst djúpt inní hugarheim þessara dularfullu fígúru sem myndlistamaðurinn og hugmyndasmiðurinn GÓMS er.
Eðli hans er órannsakað og hvatir óþekktar, en eitt getum við gefið okkur, hann er klofinn skrauthundur sem svífst einskis þegar kemur að sköpun.
Við fyrstu kynni af GÓMS er ekki víst að fólk átti sig ekki á því hvað hann er að segja, enda liggur honum margt á hjarta og á það til að tala um það allt saman í einni belg og biðu. En það gerir hann að ásettu ráði, því það er svo margt sem ekki er hægt að koma fullkomlega í orð eða setningu og því bætir hann við leikrænum tilburðum.
Einnig má hann virðast annars hugar, hvatvís og í erfiðleikum með að halda aftur af sér, sem er í vissulega í ákveðnum skilningi rétt, en það er einmitt það sem gæðir verkunum þá dýpt sem þau búa yfir. Allt hleðst saman, ofan á og yfir hvort annað, Þangað til allt sem skiptir raunverulega máli helst hönd í hönd og segir allt sem segja þarf.
GÓMS þekkir sjálfan sig og umhverfið sem hann lifir í. Í hreinskilni sinni setur hann miðju fingurinn upp og segir "Gera meira, blaðra minna"
Þetta er í sjöunda sinn sem þeir félagar vinna saman undir nafninu GÓMS en fyrsta sýningin var árið 2009.
Nánari upplýsingar um GÓMS: http://www.gomsduo.com
https://www.facebook.com/events/682429545166434
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2014 | 01:13
RÓT2014 í Gilinu á Akureyri
Vikuna 23. - 29. júní fer fram listaviðburðurinn RÓT2014 í Gilinu á Akureyri. Þetta er í fyrsta skipti sem þessi viðburður er haldinn og er hann skipulagður af þrem ungum listakonum. Í heila viku mun fjölbreyttur hópur listamanna koma saman í Portinu fyrir aftan Listasafnið, og vinna að sameiginlegu verki, einu á dag. Afraksturinn verður svo sýndur á flötinni fyrir ofan Ketilhúsið. Laugardaginn 28. og sunnudaginn 29. júní verður unnið í Populus Tremula í Kaupvangsstræti 10.
Verkefnið er styrkt af Menningarráði Eyþings.
https://www.facebook.com/2014rot
22.6.2014 | 19:14
Myndlistarsjóður, umsóknarfrestur er 11. ágúst 2014
Myndlistarsjóður
Opnað fyrir umsóknir í Myndlistarsjóð 22.júní
Veittir verða:
Undirbúningsstyrkir og styrkir til minni sýningar verkefna allt að 500.000
Styrkir til stærri sýningarverkefna, útgáfu/rannsóknarstyrkir og aðrir styrkir allt að 2.000.000
Umsóknarfrestur er 11.ágúst 2014
Upplýsingar um myndlistarsjóð, umsóknareyðublað, úthlutunarreglur og leiðbeiningar er að finna á vefsíðu myndlistarráðs www.myndlistarsjodur.is
Úthlutað verður í september.
20.6.2014 | 17:41
Karólína Baldvinsdóttir sýnir í Geimdósinni
Sumarsýningar Geimdósarinnar í Gilinu halda áfram. Karólína Baldvinsdóttir er næsti geimfari dósarinnar og opnar sýningu þar á morgun, laugardaginn 21. júní, kl. 20. Eins og aðrir dósarar fékk Karólína ljóð eftir Heklu Björt Helgadóttur til að vinna með, en það hljóðar svo:
Árabátur Pípuhattur
Á meðan ég var í burtu, byggði systir mín þetta hús
og hún fyllti það af kuðungum og alls konar málum
og oft lagði hún kuðung að eyranu
og nokkrum sinnum á dag, hellti hún nýju kaffi í málin
en ég lét aldrei í mér heyra
og ég kom aldrei til að hlusta
og ég er alltaf á leiðinni, en þokusál í fjöru
marandi í málinu, með barrnálar í vösum
gjafir rekandi skóga, stungur undir nöglum
og ég óska þess að faðmur minn
boði henni meira, en orðin sem ráku á fjöruna
orð sem ég aldrei sagði
orð sem hún aldrei heyrði
oh
. reikula þokusál
lífstyrða hræða
og systir mín er árabátur, hún leitar mín á sjónum
og ég vildi ég væri stór pípuhattur
sem ver hana frá stormum
Karólína er nýútskrifuð af fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri. Þar vann hún m.a. stóra innsetningu með skúlptúr, málverki og camera obscura. Karólína heldur auk þess úti síðu þar sem skoða má verk hennar og vinnu nánar.
Léttar veitingar verða í boði við opnunina og eru allir hjartanlega velkomnir sérstaklega þeir sem mæta með pípuhatt
Tekið af akv.is
20.6.2014 | 00:41
Anna Elionora Olsen Rosing með gjörning og sýningarlok
Nú er síðasta sýningarhelgi á sýningu Önnu Elionoru Olsen Rosing "Inuit and Masks" í Hvítspóa Brekkugötu 3a, Akureyri.
Laugardaginn 21. júní verður hún með gjörning á sýningunni í tilefni þess að það er þjóðhátíðardagur Grænlendinga.
Þetta er nýr gjörningur sem hún gerir við tónlist sem bróðir hennar samdi en hann er tónlistarmaður og myndlistarmaður.
Þess má einnig geta að bróðir Önnu, Georg Olsen mun opna sýningu í Hvítspóa þann 28. júní, Nánar auglýst síðar.
Allir eru velkomnir að sjá þennan gjörning sem hefst kl. 14 þann 21. júní.
Hvítspói
Art Studio & Gallerý
Brekkugata 3a
600 Akureyri
Tel. 4662064 / 8976064
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2014 | 17:13
Musical juggling í Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Fjöllistahópur setur upp sýninguna "Musical juggling" í Alþýðuhúsinu á Siglufirði sunnudaginn 22. júní kl. 15.00.
Sýningin höfðar til allra aldurshópa og er í senn skemmtileg, ljóðræn og listræn.
Aðgangur er ókeypis, en tekið er á móti frjálsum framlögum.
16.6.2014 | 12:06
Fjölþjóðleg textílsýning í Populus tremula
Laugardaginn 21. júní kl. 14.00 verður opnuð í Populus tremula sýning sjö listakvenna sem dvalið hafa í mánuð í vinnustofu Textílseturs Íslands á Blönduósi. Á sýningunni, sem ber yfirskriftina Lightly Acquainted, getur að líta afrakstur vinnu þeirra þennan tíma þar sem þræðir þeirra hafa legið saman í samtölum og samveru á framandi slóðum. Sýnendur eru: Maaike Ebbinge, Hollandi; Erika Lynne Hanson, USA; Samantha Hookway, USA/Svíþjóð; Natalie Lauchlan, Kanada; Jessica Self, USA; Karin Thorsteinson, Kanda; Eva Portelance, Kanda.
Sýningin er einnig opin sunnudaginn 22. júní kl. 14.00-17.00.
Aðeins þessi eina helgi.
Maaike Ebbinge, The Netherlands www.maaike-ebbinge.nl
Erika Lynne Hanson, USA www.elhanson.com
Samantha Hookway, USA/Sweden www.samanthahookway.com
Natalie Lauchlan, Canada www.natalielauchlan.ca
Jessica Self, USA jesslself.com
Karin Thorsteinson, Canada www.karinthor.tumblr.com
Intern: Eva Portelance, Canada, evaportelance.com
https://www.facebook.com/events/740497156013361
11.6.2014 | 00:16
Kristín Gunnlaugsdóttir sýnir í Flóru
Kristín Gunnlaugsdóttir
14. júní - 17. ágúst 2014
Opnun laugardaginn 14. júní kl. 14
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168
http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri
https://www.facebook.com/events/477137992432792
Laugardaginn 14. júní kl. 14, opnar sýning á nýjum og nýlegum verkum Kristínar Gunnlaugsdóttur í Flóru á Akureyri.
Kristín er fædd á Akureyri og stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, MHÍ í Reykjavík og Accademia delle Belle Arti í Florence á Ítalíu. Hún er ein af okkar fremstu myndlistarmönnum og einkasýning hennar í Listasafni Íslands á síðasta ári hlaut verðskuldaða athygli. Fyrir þá sýningu fékk Kristín menningarverðlaun DV fyrr á þessu ári.
Í bókinni Sköpunarverk sem kom út í tilefni sýningarinnar í Listasafni Íslands skrifar Halldór Björn Runólfsson:
Styrkur Kristínar sem myndlistarmanns er endurnýjunarkrafturinn, hversu rækilega hún er tilbúin að taka sjálfa sig í gegn og koma þannig sér og öðrum á óvart án þess að slá af þeirri kröfu að nota sama efniviðinn og sömu aðferðirnar og áður; fást með öðrum orðum við þá tegund myndgerðar sem á rætur að rekja til kvennadyngjunnar og klausturlifnaðarins á miðöldum. Ekkert er eins djarft og afgerandi og það að brjóta gegn bannhelgi þessara luktu verkstæða þaðan sem ekkert kom sem ekki naut fullkominnar handleiðslu og blessunar andlegra eftirlitsafla, þeirra sjálfskipuðu siðavarða sem enn vaka yfir stórum hluta kvenna þessa heims, af því að þær eru svo útsettar fyrir óheppilegum refilstigum tilverunnar.
Kristín Gunnlaugsdóttir er með öðrum orðum ein þeirra örfáu listamanna okkar sem tilbúnir eru að hafa endaskipti á sjálfu sér svo þeir megi hitta okkur varnarlausa þegar minnst varir og við þörfnumst þess sem mest að vera slegin út af laginu.
Kristín verður með listamannsspjall í Flóru föstudaginn 4. júlí kl. 20.
Nánari upplýsingar um verk Kristínar má finna á http://kristing.is
Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru alla daga kl. 10-18. Sýningin stendur til sunnudagsins 17. ágúst 2014.
Flóra er verslun og viðburðastaður með vinnustofum sem Kristín Þóra Kjartansdóttur félagsfræðingur rekur. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður. Menningardagskrá Flóru hlaut styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2014 | 17:54
Christa Spencer sýnir í Populus tremula
Laugardaginn 14. júní kl. 14.00 opnar þýska listakonan Christa Spencer sýninguna Paperwork í Populus tremula.
Christa, sem dvelur í Gestavinnustofu Gilfélagsins um þessar mundir, vinnur verkin á pappír og hafa fjöllin blá og gróðurinn í Lystigarðinum haft áhrif á mótíf og litaval.
Sýningin er einnig opin sunnudaginn 15. júní kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.