Færsluflokkur: Bækur

Sýning um bækur, rithöfunda, skáld, prentsmiðjur og útgáfustarfsemi í GalleríBOXi

Laugardaginn 28. nóvember kl. 14 opnar sýningin Bráðum – áminning um möguleika gleymskunnar á Akureyri. Sýningin verður í GalleríBOXi, sal Myndlistarfélagsins fram til 6. desember.
Sýningin fjallar í stuttu máli sagt um bækur, rithöfunda, skáld, prentsmiðjur og útgáfustarfsemi í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Sérstaklega hefur víða verið leitað fanga til að bregða upp mynd af Akureyri í bókmenntum og bókmenntum á Akureyri. Hægt verður að skoða forvitnilegar bækur, gleymda höfunda og forvitnast um að því er virðist týnda kynslóð skálda.
Á staðnum verður horn til að grúska í bókum og tímaritum og alltaf heitt á könnunni. Ásprent og Menningarráð Eyþings gerðu það kleyft að setja sýninguna upp og eru þeim bestu þakkir færðar.
Sýninguna vinna Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Hjálmar Stefán Brynjólfsson. Sýningin er sú fyrsta af þremur sem tengjast bókmenningu og margmiðlun. Í undirbúningi er sýningin reimleikur/húslestur fyrir árið 2010.
Nánari upplýsingar veitir Hjálmar í síma 849 – 3143 eftir kl. 16.


Aðalsteinn Þórsson með myndlistarsýningu og bók

adalsteinn-thorsson-web.jpg

MYNDLISTARSÝNING OG BÓK
Aðalsteinn Þórsson
PÓSTKORT

Laugardaginn 21. nóvember kl. 14:00 mun Aðalsteinn Þórsson opna myndlistarsýningu í Populus Tremula. Jafnframt kemur út á vegum Populus bókin PÓSTKORT eftir Aðal­stein, sem inniheldur 16 póstkort með myndum listamannsins.

Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 22. nóvember kl. 14:00 - 17:00


Íslensk samtímahönnun í Ketilhúsinu

bo_skort_a_syninguna_slensk_samtimahonnun.jpg


Sýningin Íslensk samtímahönnun
Húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr í Ketilhúsinu

Á laugardaginn klukkan 14 opnar í Ketilhúsinu á Akureyri sýningin Íslensk
samtímahönnun - Húsgögn, vöruhönnun og arkitektúr og verður við þetta
tækifæri afhent fyrsta eintak bókarinnar Íslensk samtímahönnun.  Þetta er
fyrsta bókin sem sinnar tegundar sem bregður upp yfirliti yfir störf
íslenskra hönnuða á síðustu árum.  Valin eru verk sem gefa sem
fjölbreyttasta mynd af starfi íslenskra hönnuða samtímans hvort sem það eru
snjóflóðavarnargarðarnir á Siglufirði eða barinnréttingar í Hong Kong.

 Fátt er eins lýsandi fyrir mannlegt samfélag og það umhverfi sem maðurinn
hefur mótað til daglegra athafna. Segja má að í manngerðu umhverfi birtist
spegilmynd hönnunarsögunnar; ólíkar myndir hönnunar, breytilegar eftir
tíðaranda, gildismati, ríkjandi hugmyndafræði, túlkun  og aðstæðum hverju
sinni.

Á sýningunni, sem var hluti af Listahátíð Reykjavíkur og var sett upp á
Kjarvalsstöðum í sumar, er sýnd íslensk samtímahönnun þar sem er unnið með
tengsl þriggja hönnunargreina, húsgagna- og vöruhönnun og arkitektúr sem
eiga stóran þátt í að móta manngert umhverfi með samspili sín á milli. Á
sýningunni er samhengi þeirra skoðað og hvernig þær eru samofnar mannlegri
hegðun allt frá því að eiga þátt í  að skipuleggja tímann, væta kverkarnar
eða  verja okkur fyrir náttúruhamförum. Sýnd eru gríðarstór mannvirki og
fínleg nytjahönnun sem eiga þó það sameiginlegt að tilheyra manngerðu
umhverfi og vera mótandi þáttur í því.

Sýningunni Íslensk samtímahönnun er ætlað að vera spegill þess sem telja má
á einn eða annan hátt gæði í íslenskri hönnun undanfarin ár. Markmiðið er að
árétta gildi góðrar hönnunar og öflugs hugvits fyrir mannlegt samfélag -
verðmæti  til að virkja  til framtíðar.

Sýnd eru verk frá um 20 hönnuðum sem eru valin með það í huga að eiga erindi
ytra til frekari kynningar, sölu eða framleiðslu en frá Akureyri fer
sýningin til Norðurlandanna og svo alla leið til Kína þar sem hún verður
sett upp á Expó í Shanghai á næsta ári.

Samhliða hönnunarsýningunni er kynning á verkum ungra, efnilegra hönnuða í
samvinnu við Hönnunarsjóð Auroru.

Sýningarstjóri er Elísabet V. Ingvarsdóttir og mun hún leiðsegja um
sýninguna sunnudaginn 24. október klukkan 13.30.
Sýningin er samstarf Akureyrarstofu, Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili og
Hönnunarmiðstöðvar Íslands og Listahátíðar í Reykjavík.

Nánari upplýsingar veita Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri
Hönnunarmiðstöðvar Íslands í síma 699 3600 og Elísabet V. Ingvarsdóttir
sýningarstjóri í síma  860 0830


Save us! - Bjargið okkur! í DaLí Gallery

pressa.jpg

Save us! - Bjargið okkur!

Ef ofurhetjur væru til í alvörunni væri heimurinn kannski betri staður.
Ofurhetjur svara ávallt kallinu og hlaupa til þegar hætta steðjar að. Þær
eru hugrakkar fram í fingurgóma og nýta krafta sína til góðs. En við höfum
engar ofurhetjur eins og í bíómyndunum. Við höfum bara venjulegt fólk og
það verður víst að duga. En mikið væri núskemmtilegt ef…

Save us! - Bjargið okkur! - Friðlaugur Jónsson opnar sýningu í DaLí
Gallery laugardag 26. september kl. 14-17. Save us! - Bjargið okkur! er
fyrsta einkasýning Friðlaugs sem er grafískur hönnuður. Verk Friðlaugs eru
prentuð á segl og bylgjupappa og eru bæði stafræn málverk og leturverk.
Sýningin stendur til 11. október og allir velkomnir.

DaLí Gallery
Opið lau-sun kl.14-17
Brekkugata 9, Akureyri
Dagrún Matthíasdóttir og Sigurlín M. Grétarsdóttir
s.8957173 og 8697872
dagrunm@snerpa.is
daligallery.blogspot.com

Friðlaugur Jónsson s.8681343
frilli7@gmail.com
www.frilli7.com


Maj Hasager sýnir í Populus Tremula

MAJ HASAGER
myndlistarsýning
22.-23. ágúst 2009


Laugardaginn 22. ágúst kl. 13:00 opnar listakonan Maj Hasager sýninguna HABITATION // ANTICIPATION í Populus Tremula. Þar sýnir hún á tveimur skjáum ljósmyndir og texta frá Vesturbakkanum í Palestínu verkið To Whom it May Concern, nokkurs konar ferðadagbók um breytingar á svæðinu undir hernámi Ísraela. Hasager sýnir einnig 21 verk sem hún hefur unnið á pappír meðan á dvöl hennar á Akureyri stendur.

Maj Hasager er dönsk listakona sem dvelur í gestavinnustofu Gilfélagsins á Akureyri í ágúst. Maj, sem er fædd 1977, hefur stundað list- og ljósmyndanám í Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi og hlaut MFA gráðu frá Listaháskólanum í Malmö 2008. Hún hefur haldið sýningar og tekið þátt í samsýningum víða um heim á undanförnum árum.

Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 23. ágúst kl. 13:00 - 17:00. Aðeins þessi eina helgi.


SAMSÝNINGIN "Í RÉTTRI HÆÐ" OPNAR Í POPULUS TREMULA

_rettrihaed_9_5_09.jpg

Laugardaginn 16. maí kl. 14:00 verður opnuð samsýningin Í RÉTTRI HÆÐ í Populus Tremula.

Þar sýna verk sín listamennirnir Aðalsteinn Svanur, Arnar Tryggvason, Gunnar Kr., Kristján Pétur, Jón Laxdal og Þórarinn Blöndal. Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera hengd upp í réttri hæð. Sýningarstjóri er Gunnar Kr.

Við þetta tækifæri er einnig endurútgefin ljóðabók Jóns Laxdal, sem Populus tremula gaf út 2007 og verið hefur ófáanleg um nokkurt skeið. Bókin, sem var fyrsta útgáfuverkefni Pt, verður til sölu á staðnum, eins og aðrar bækur útgáfunnar, sem nú fylla tvo tugi.

Uppákomur verða á opnun.

Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 17. maí kl. 14:00 - 17:00

Aðeins þessi eina helgi

Yfirlitssýning Huldu Hákon í Listasafninu á Akureyri

hulda.jpg

Tveir menn, kona og sæskrímsli

Yfirlitssýning Huldu Hákon

í Listasafninu á Akureyri

Laugardaginn 16. maí verður opnuð yfirlitssýning á verkum Huldu Hákon í Listasafninu á Akureyri og er sýningin hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Allt frá upphafi ferils síns hefur Hulda Hákon (f. 1956) haft auga fyrir því að varpa einkennilegum hetjuljóma á hversdagslífið. Verk hennar eru bautasteinar um litla sigra, óhöpp eða bara forvitnileg atvik sem hún varðveitir í uppstillingum, myndum og texta, og minnir á að þau eru alveg jafn merkileg og þau viðfangsefni sem oftast eru uppspretta opinberra skúlptúra. Sýningin veitir einstaka innsýn í skrautlegan hugmyndaheim Huldu undanfarna tvo áratugi þar sem hún hendir gaman að heimóttarlegum veruleika okkar, snýr upp á hann og kitlar ímyndunaraflið um leið.

Hulda fann fljótlega sinn stíl með því að blanda saman slípuðu konsepti og velættaðri íslenskri villimennsku, fígúratífum mótífum og náttúrulegu innsæi, formum og hugdettum, fortíð og nútíð. Oftast er niðurstaðan lágmynd með fígúrum – fólki, hundum eða fuglum – og hnyttinn texti sem fer með veggjum og leynir á sér. Í verkum hennar má finna skip og skrímslafjöld, farfugla og þekkta furðufugla, nafngreinda hunda og gamla þjóðlega siði eins og að troðast fram fyrir í röðinni – hreinræktaða sjálfumgleði og þvermóðsku. Þannig fjallar hún um hið fámenna þjóðfélag sem situr fast við sinn keip þótt allt virðist á hverfanda hveli.

Í seinni tíð hafa verkin stundum verið bútuð niður í hreina texta, orð án mynda sem draga upp blendnar tilfinningar og ýta undir hálfgerðan flökurleika. Lágmyndirnar standa hins vegar í lappirnar og hafa yfirbragð skúlptúrs í dálítið afdalalegum en mjög meðvituðum stíl. Hvöss samfélagsádeila skýtur öðru hvoru upp kollinum líkt og þríhöfða þurs milli glettinna vísana í kunningjaþjóðfélagið. Þó eru verk Huldu Hákon ávallt söm við sig og ná hvað eftir annað að botnfrysta andartakið þegar Íslendingurinn hittir skyndilega sjálfan sig fyrir, sitt eðlislæga „déjà vu“, þótt hann eigi ekki eins fínt orð yfir það og Frakkarnir. Hann er kominn í dragt eða jakkaföt og þykist orðinn sjóaður í nútímanum og alþjóðlegum samskiptum en innst inni er hann ennþá í lopapeysu og á sauðskinnsskóm.

Í tengslum við sýninguna gefur Listasafnið á Akureyri út bók um Huldu með ítarlegum texta eftir Auði Jónsdóttur rithöfund og fyrsta „hirðskáld“ Borgarleikhússins, sem lagði sig fram við að kynna sér verkin og manneskjuna á bak við þau. Verkin verða svo nærtæk í meðförum Auðar að þau gætu allt eins átt við þjóðfélagið eftir hrunið mikla eins og lífið í litlu sjávarþorpi úti á landi á sjötta áratugnum eða útþensluskeiðið á þeim tíunda. Í þessari bók eru einnig dregnir saman á einn stað ýmsir af helstu textum um Huldu eftir innlenda og erlenda fræðimenn.

Auður hefur sig hátt á loft og steypir sér fimlega ofan í félagsfræði hversdagsleikans í verkum Huldu og allar grátbroslegu samsteypurnar sem þar er að finna: „Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson [standa] á tröppum gamla Safnahússins. Þeir stara út í veröldina. Steyptir í efni listamannsins, nauðbeygðir að standa þarna um alla eilífð, óþægilega manneskjulegir hlið við hlið. Minnisvarðinn um þá hefur annan blæ en minnisvarðarnir um alþjóðlegu fótboltahetjurnar sem Hulda reisti líka. Þetta er minnisvarði um menn í samlitum jakkafötum sem munu skreyta veggi minjasafna um ókomna tíð. Þeir eru þekktir að góðu og illu, það fer eftir augnablikum sögunnar. Hvenær hver horfir á þá. Sumum kann að þykja þeir standa of nærri okkur, sjálfsagt þykir þeim nóg um hve nálægt þeir standa hvor öðrum. Verkið tilheyrir seríu þar sem Hulda hefur skeytt saman frægum persónum svo úr verða dægurpör; það er óður til síbylju fjölmiðlanna og masins í þjóðarsálinni. Dægurstjörnurnar Andrea Gylfadóttir og Ragnhildur Gísladóttir standa hlið við hlið og andspænis þeim gæti áhorfandinn hugsað: Þær voru, eru og verða. Hvert par segir sína sögu um fólkið sem skrifar og les um það á degi hverjum; fræg andlit eru birtingarmynd þjóðarinnar sem gerir það frægt. Tíðarandinn breytir því stöðugt lágmyndinni af Ólafi og Davíð. Verkið er allt annað en það sem leit dagsins ljós fyrir fjölmiðlafrumvarpið. Annað verk en það var fyrir kreppuna. Annað verk en það er í miðri kreppunni. Hvert eðli þess verður í framtíðinni er ómögulegt að segja. Kannski þarf aðra þjóð til að lesa í hana. Kannski þvælumst við of mikið hvert fyrir öðru í fámenninu til að sjá nokkuð.“

Sýning Huldu stendur til 28. júní. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson forstöðumaður í síma 461-2610 / 899-3386. Netfang: hannes@art.is. Listasafnið er opið alla daga frá kl. 12-17 og er aðgangur ókeypis í boði Akureyrarbæjar.

 

 LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI
 AKUREYRI ART MUSEUM

Erika Lind Isaksen
Safnfulltrúi
Museum Coordinator

Kaupvangsstræti 12
600 Akureyri, Iceland
Sími/Tel: +354 461 2610
GSM: +354 868 8506
Fax: +354 461 2969
art@art.is
http://www.listasafn.akureyri.is


Áfram heldur List án landamæra á Norðurlandi

f_list_an_landamaera_list_an_landamaera_gogn_2009_dagskra_og_myndir_arni_honnudur_upplysingar_f_dagskrarbaekling_no


Mjög mikil stemning hefur verið á viðburðum sem fram hafa farið á Norðurlandi á vegum Listar án landamæra.  Formlega opnunin um síðustu helgi tókst með mikilli prýði og má sem dæmi nefna að Safnvörðurinn sem nú stendur stoltur við Safnasafnið á Svalbarðsströnd hefur vakið óskipta athygli en heiðurinn að honum á hinn mjög svo öflugi Huglistarhópur.   Um daginn var opnuð í Gallerí Ráðhús sýningin KALLI25 og þykir hún hafa tekist einkar vel.  Rósa Kristín Júlíusdóttir hefur unnið með Kalla í mörg ár.


Á laugardaginn klukkan 14 er komið að opnun í Amtsbókasafninu á sýningu nemenda í Fjölmennt en það er miðstöð símenntunar sem þjónar fötluðu fólki 20 ára og eldri.  Sýningin ber yfirskriftina Norðurheimskautið og verða þar sýnd verk úr ýmiskonar efnivið. Leikhópurinn Hugsanablaðran stígur á stokk og sýnir hluta af tilraunaverkefni með söng- og leiklist.  Á laugardaginn verður einnig opið hús 14-17 í GalleríBOX í Listagilinu þar sem yfirskriftin er Komdu að leika.  Þar mun myndlistarfólk vinna með með börnum og er sýningunni ætla að gefa gestum fjölbreytt sýnishorn af því hvernig myndlistarfólk og börn vinna saman.

Hátíðin List án landamæra er nú haldin í sjötta sinn og hefur hátíðin breyst og þróast ár frá ári og fleiri eru að verða meðvitaðir um gildi hennar í listalífinu, bæði þátttakendur og njótendur. Þátttakendum fjölgar með hverju ári og í ár eru fleiri bæjarfélög með atburði á dagskrá en nokkru sinni fyrr.
Markmið hátíðarinnar er að koma list og menningu fólks með fötlun á framfæri.

Nánari upplýsingar um sýninguna í Amtsbókasafninu gefur Brynhildur Kristinsdóttir myndlistarkennari (868-3599)
Upplýsingar um hátíðina í heild sinni gefur Margrét M. Norðdahl framkvæmdastýra hátíðarinnar (691-8756)

Nánari upplýsingar um hátíðina er einnig að finna á heimasíðunni   www.listanlandamaera.blog.is

Sýning Jóns Laxdals Halldórssonar framlengd um viku


1jonlaxdal.jpg 2jonlaxdal.jpg

Skúlptúrsýning Jóns Laxdals Halldórssonar  "Kjallarakvæði" í Gallerí + Brekkugötu 35, Akureyri hefur verið framlengt um viku, til sunnudagsins 26. apríl.

Opið laugardag og sunnudag kl. 14.00-17.00
Aðra tíma eftir samkomulagi við galleríhaldarana í síma 462 7818.

Sjá nánar um list Jóns Laxdal á heimasíðunni  http://www.freyjulundur.is

OPIÐ ALLA DAGA YFIR PÁSKANA KL. 12 – 17 NEMA MÁNUDAG Í LISTASAFNINU Á AKUREYRI

kenjottar-bordi.nota

Nú stendur yfir samsýning fimm málara í Listasafninu á Akureyri sem eiga það sameiginlegt
að vinna óhlutbundið, en síðustu árin er engu líkara en að abstrakt-expressjónisminn hafi
gengið í endurnýjun lífdaga á Íslandi. Hér eru á ferðinni athyglisverðar og upprennandi
listakonur, ástríðufullar og flestar lítt þekktar. Laufey Johansen, Maja Siska, Arna Gná
Gunnarsdóttir, Anna Jóelsdóttir og Guðný Kristmannsdóttir. Allar hafa þær náð að skapa
sér sérstakan tjáningarmáta sem einkennist af fítonskrafti, hugmyndaauðgi og smitandi
sköpunargleði og ber vott um þá miklu grósku og óþrjótandi möguleika sem abstraktlistin
býður upp á.
Í tengslum við sýninguna hefur Listasafnið á Akureyri gefið út glæsilega 168 síðna bók
á ísensku og ensku með greinum eftir Hannes Sigurðsson, Bjarna Sigurbjörnsson og
Aðalstein Eyþórsson, ásamt hugleiðingum þátttakenda.
Nánari upplýsingar veitir Hannes í síma 461-2610 / 899-3386. Netfang: hannes@art.is.
Sýningunni lýkur 10. maí.
Listasafnið á Akureyri er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17
Aðgangur ókeypis


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband