Yfirlitssýning Huldu Hákon í Listasafninu á Akureyri

hulda.jpg

Tveir menn, kona og sæskrímsli

Yfirlitssýning Huldu Hákon

í Listasafninu á Akureyri

Laugardaginn 16. maí verður opnuð yfirlitssýning á verkum Huldu Hákon í Listasafninu á Akureyri og er sýningin hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík. Allt frá upphafi ferils síns hefur Hulda Hákon (f. 1956) haft auga fyrir því að varpa einkennilegum hetjuljóma á hversdagslífið. Verk hennar eru bautasteinar um litla sigra, óhöpp eða bara forvitnileg atvik sem hún varðveitir í uppstillingum, myndum og texta, og minnir á að þau eru alveg jafn merkileg og þau viðfangsefni sem oftast eru uppspretta opinberra skúlptúra. Sýningin veitir einstaka innsýn í skrautlegan hugmyndaheim Huldu undanfarna tvo áratugi þar sem hún hendir gaman að heimóttarlegum veruleika okkar, snýr upp á hann og kitlar ímyndunaraflið um leið.

Hulda fann fljótlega sinn stíl með því að blanda saman slípuðu konsepti og velættaðri íslenskri villimennsku, fígúratífum mótífum og náttúrulegu innsæi, formum og hugdettum, fortíð og nútíð. Oftast er niðurstaðan lágmynd með fígúrum – fólki, hundum eða fuglum – og hnyttinn texti sem fer með veggjum og leynir á sér. Í verkum hennar má finna skip og skrímslafjöld, farfugla og þekkta furðufugla, nafngreinda hunda og gamla þjóðlega siði eins og að troðast fram fyrir í röðinni – hreinræktaða sjálfumgleði og þvermóðsku. Þannig fjallar hún um hið fámenna þjóðfélag sem situr fast við sinn keip þótt allt virðist á hverfanda hveli.

Í seinni tíð hafa verkin stundum verið bútuð niður í hreina texta, orð án mynda sem draga upp blendnar tilfinningar og ýta undir hálfgerðan flökurleika. Lágmyndirnar standa hins vegar í lappirnar og hafa yfirbragð skúlptúrs í dálítið afdalalegum en mjög meðvituðum stíl. Hvöss samfélagsádeila skýtur öðru hvoru upp kollinum líkt og þríhöfða þurs milli glettinna vísana í kunningjaþjóðfélagið. Þó eru verk Huldu Hákon ávallt söm við sig og ná hvað eftir annað að botnfrysta andartakið þegar Íslendingurinn hittir skyndilega sjálfan sig fyrir, sitt eðlislæga „déjà vu“, þótt hann eigi ekki eins fínt orð yfir það og Frakkarnir. Hann er kominn í dragt eða jakkaföt og þykist orðinn sjóaður í nútímanum og alþjóðlegum samskiptum en innst inni er hann ennþá í lopapeysu og á sauðskinnsskóm.

Í tengslum við sýninguna gefur Listasafnið á Akureyri út bók um Huldu með ítarlegum texta eftir Auði Jónsdóttur rithöfund og fyrsta „hirðskáld“ Borgarleikhússins, sem lagði sig fram við að kynna sér verkin og manneskjuna á bak við þau. Verkin verða svo nærtæk í meðförum Auðar að þau gætu allt eins átt við þjóðfélagið eftir hrunið mikla eins og lífið í litlu sjávarþorpi úti á landi á sjötta áratugnum eða útþensluskeiðið á þeim tíunda. Í þessari bók eru einnig dregnir saman á einn stað ýmsir af helstu textum um Huldu eftir innlenda og erlenda fræðimenn.

Auður hefur sig hátt á loft og steypir sér fimlega ofan í félagsfræði hversdagsleikans í verkum Huldu og allar grátbroslegu samsteypurnar sem þar er að finna: „Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson [standa] á tröppum gamla Safnahússins. Þeir stara út í veröldina. Steyptir í efni listamannsins, nauðbeygðir að standa þarna um alla eilífð, óþægilega manneskjulegir hlið við hlið. Minnisvarðinn um þá hefur annan blæ en minnisvarðarnir um alþjóðlegu fótboltahetjurnar sem Hulda reisti líka. Þetta er minnisvarði um menn í samlitum jakkafötum sem munu skreyta veggi minjasafna um ókomna tíð. Þeir eru þekktir að góðu og illu, það fer eftir augnablikum sögunnar. Hvenær hver horfir á þá. Sumum kann að þykja þeir standa of nærri okkur, sjálfsagt þykir þeim nóg um hve nálægt þeir standa hvor öðrum. Verkið tilheyrir seríu þar sem Hulda hefur skeytt saman frægum persónum svo úr verða dægurpör; það er óður til síbylju fjölmiðlanna og masins í þjóðarsálinni. Dægurstjörnurnar Andrea Gylfadóttir og Ragnhildur Gísladóttir standa hlið við hlið og andspænis þeim gæti áhorfandinn hugsað: Þær voru, eru og verða. Hvert par segir sína sögu um fólkið sem skrifar og les um það á degi hverjum; fræg andlit eru birtingarmynd þjóðarinnar sem gerir það frægt. Tíðarandinn breytir því stöðugt lágmyndinni af Ólafi og Davíð. Verkið er allt annað en það sem leit dagsins ljós fyrir fjölmiðlafrumvarpið. Annað verk en það var fyrir kreppuna. Annað verk en það er í miðri kreppunni. Hvert eðli þess verður í framtíðinni er ómögulegt að segja. Kannski þarf aðra þjóð til að lesa í hana. Kannski þvælumst við of mikið hvert fyrir öðru í fámenninu til að sjá nokkuð.“

Sýning Huldu stendur til 28. júní. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson forstöðumaður í síma 461-2610 / 899-3386. Netfang: hannes@art.is. Listasafnið er opið alla daga frá kl. 12-17 og er aðgangur ókeypis í boði Akureyrarbæjar.

 

 LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI
 AKUREYRI ART MUSEUM

Erika Lind Isaksen
Safnfulltrúi
Museum Coordinator

Kaupvangsstræti 12
600 Akureyri, Iceland
Sími/Tel: +354 461 2610
GSM: +354 868 8506
Fax: +354 461 2969
art@art.is
http://www.listasafn.akureyri.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband