Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mikið vesen vegna einnar mínútu

459123

Bænaköll geta greinilega valdið miklum óróa í Skipholtinu. Jafnvel þó að þau standi aðeins yfir í eina mínútu i senn á fimm tíma fresti. En ef til vill var það tímasetningin sem gerði útslagið. Hver vill vera vakin upp á laugardagsmorgni klukkan fimm vegna bilunar í hugbúnaði?

Þórarinn komst heldur betur í fréttirnar í vetur með verkið sitt "This is not a bomb" sem hann kom fyrir á listasafni í Toronto, við lítinn fögnuð starfsfólks og lögreglu.  Það var umfjöllun um bænakallið í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.


mbl.is Bilun í hugbúnaði kveikti á bænakalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Safnasafnið opnar á laugardag

Bodskort_og_forsida_LAGF Laugardaginn 19. apríl kl. 14.00 verða opnaðar 10 nýjar sýningar í Safnasafninu á Svalbarðsströnd. Ávörp flytja Margrét M. Norðdahl framkvæmdastjóri landshátíðarinnar Listar án landamæra og Guðmundur Vignir Óskarsson framkvæmdastjóri í Reykjavík, félagar í Huglist lesa upp ljóð og Kristján Þór Júlíusson 1. þingmaður Norðausturkjördæmis opnar sýningar safnsins

Í anddyrinu er samsýning á verkum fjögurra listakvenna, máluðu fjörugrjóti eftir Önnu Ágústsdóttur á Hvammstanga, skrautkortum eftir Jóhönnu Bjarnadóttur frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal, tálguðum fuglum eftir Oddnýju Jósepsdóttur í Sporði í Línakradal, Húnaþingi Vestra, og tálguðu höfðum með spónahári eftir Sigrúnu Gísladóttur á Flögu í Skaftárhreppi

Í Brúðusafninu er ný grunnsýning og “fólk sem við þekkjum” eftir nemendur 5. og 6. bekkja í Grenivíkurskóla. Í Leikfangasafninu eru einnig ný grunnsýning og þar sýna jafnaldrar þeirra í Valsárskóla hluti sem þau bjuggu til undir áhrifum af leikföngum safnsins

Safnasafnið tekur þátt í List án landamæra með tveimur sýningum: Huglistarhópinn á Akureyri sýnir verk úr ýmsum efnum eftir Brynjar Freyr Jónsson, Atla Viðar Engilbertsson, Finn Inga Erlendsson, Hallgrím Siglaugsson, Ragnheiði Örnu Arnarsdóttur og Stefán J. Fjólan; á Gamlársdag 2007 afhenti Guðmundur Vignir Óskarsson Safnasafninu til varðveislu listaverk eftir bróður sinn, Ingvar Ellert (1944-1992), 639 pappírsmyndir í stærðunum A3-A5, unnar með blýanti, krít, vatnslitum og tússi á 8. og 9. áratugnum, og kynnir nú safnið hluta þessara verka

Í Vestursal er fyrri sýning af tveim á verkum Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur, Arnarneshreppi; í Langasal er safnsýning á lágmyndum eftir Óskar Beck (d), Reykjavík, sem hann gerði úr plasthúðuðu þakjárni; í bókasafni eru lágmyndir og postulínsverk eftir Rósu Sigrúnu Jónsdóttur í Reykjavík; í verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar & Co eru nálapúðar eftir Hannyrðasystur úr Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsströnd, Akureyri og Reykjavík; í Svalbarðsstrandarstofu er sýning sem ber heitið Menningarerfðir og nýsköpun þar sem tveir elstu árgangarnir í Leikskólanum Álfaborg sýna hluti innan um hefðbundið handverk, efni og gripi

Steyptar og málaðar höggmyndir Ragnars Bjarnasonar frá Öndverðarnesi taka svo að venju á móti gestum á hlaðinu. Léttar veitingar verða bornar í boði safnsins
Safnasafnið er opið kl. 14-17 um helgar til 17. maí; síðan daglega kl. 10-18 til 31. ágúst; eftir það skv. samkomulagi til 12. október. Flestar sýningarnar munu standa fram á vor 2009.


Söngvísur og baráttuljóð í Deiglunni

songbok_kapar Söngvísur og baráttuljóð
í Deiglunni á Akureyri
laugardaginn 19. apríl kl. 15:00
Í tilefni af útkomu norrænu söngbókarinnar ’Ska nya röster sjunga’


Fram koma Bengt Hall frá Svíþjóð ritstjóri söngbókarinnar og harmonikkuleikari og Per Warming frá Danmörku, rithöfundur, söngvaskáld og söngvari. Þeir félagar munu taka lagið og spjalla stuttlega um tilgang og tilurð söngbókarinnar.

Aðrir flytjendur eru Gunnar Guttormsson, Þórarinn Hjartarson og Solveig Hrafnsdóttir, Kristján Hjartarson og Kristjana Arngrímsdóttir

Kynnir: Pétur Pétursson læknir.

Dagskráin mun taka um tvo tíma með kaffihléi.
Aðgangseyrir er 1.500 krónur.
(1.000 krónur fyrir félagsmenn Gilfélagsins og Norræna félagsins)

Allir fá söngbókina í hendur við innganginn og geta keypt hana þar með afslætti eða skilað henni í lok dagskrár.

Að dagskránni stendur áhugahópur í samstarfi við Norrænu upplýsingaskrifstofuna, NF á Akureyri, Gilfélagið og syngjandi norræna gesti og heimamenn.

Útgefandi söngbókarinnar er Nordisk socialistisk folkeoplysningsforbund (NSFOF)


Nánari upplýsingar hjá:
Norræna upplýsingaskrifstofan/Nordisk informationkontor
Kaupvangsstræti 23
600 Akureyri
Island.
Sími: 462 7000 Fax: 462 7007


Hlynur Hallsson með leiðsögn um sýninguna “Bæ bæ Ísland” á sunnudag

baebae

Sunnudaginn 13. apríl klukkan14:00 mun Hlynur Hallsson vera með leiðsögn um sýninguna “Bæ bæ Ísland” í Listasafninu á Akureyri.

Rýnt verður í einstök verk og velt upp spurningum um samfélagið og sýn listamanna og almennings á það. Spurningum verður velt upp eins og: Hvað er fallegt? Er allt leyfilegt? Getur listin breytt einhverju? Er komin kreppa? Hvar endar þetta? Boðið verður uppá umræður um sýninguna og einstök verk.

Leiðsögnin ásamt umræðum mun standa yfir í um 40 mínútur og er öllum opin.

Heiti verkefnisins, „Bæ bæ Ísland”, vísar í fyrsta lagi til kveðjuhófs eða útfarar um 19. og 20. aldar hugmyndarinnar um Ísland. Það sem í gær var unga Ísland er nú tákn hins liðna. Bless bless (hin kristilega blessun) víkur fyrir hinu ennþá óformlegra bæ bæ og vitnar um leið um það hvernig íslenskan er farin á límingunum. Í öðru lagi hljómar bæ eins og sögnin að kaupa (buy) á ensku og verður því til eins konar undiráróður: „Kaupum kaupum Ísland!” „Bæ bæ Ísland” er þannig uppgjör við hugmyndina um tunguna sem upphaf og endi sögulegrar tilvistar þjóðarinnar, sem og möguleika hennar til að lifa af menningarlega útjöfnun hnattvæðingarinnar.

Tímarit eða sýningarskrá með upplýsingum um verkefnið, listamenn, verkin og þjóðfélagið kom út fyrir opnun sýningarinnar og dreift án endurgjalds og án kostunaraðila.

Unnið er að því að gefa út viðamikla bók síðar á árinu þar sem tugir ef ekki hundruð Íslendinga gera upp við gamla konseptið Ísland og fyrirhugað er að halda ráðstefnu undir sama nafni. Bókin er hugsuð sem safnrit og jafnframt nokkurs konar leiðarvísir. Í henni verður m.a. tekið á bankakerfinu, þjóðarímyndinni, útlendingum á Íslandi, fjölmiðlum, stóriðju- og náttúruverndarsjónarmiðum og siðferði í stjórnmálum, auk þess sem þar verður einnig að finna umfjöllun um framlag listamannanna á sýningunni og myndir af verkum þeirra.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni í Listasafninu eru Ásmundur Ásmundsson, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Erling Þ. V. Klingenberg, Hallgrímur Helgason, Hannes Lárusson, Hlynur Hallsson, Inga Svala Þórsdóttir & Wu Shan Zhuan, Kolbeinn Hugi Höskuldsson, Libia Pérez de Siles de Castro & Ólafur Árni Ólafsson, Magnús Sigurðarson, Ólafur Sveinn Gíslason, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Rúrí, Steingrímur Eyfjörð, Unnar Örn Auðarson & Huginn Þór Arason, Þorvaldur Þorsteinsson og Þórdís Alda Sigurðardóttir.
Sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson.

Hlynur Hallsson er myndlistarmaður og einn þátttakenda í sýningunni Bæ bæ Ísland.

Ítarlegar upplýsingar um listamennina og inntak sýningarinnar er að finna á vefsíðu Listasafnsins: www.listasafn.akureyri.is.


Lýðræðisdagurinn 2008 á Akureyri

ak

Lýðræðisdagurinn 2008 verður haldinn laugardaginn 12. apríl nk. í Brekkuskóla á Akureyri undir yfirskriftinni "Þú & ég & Akureyri". Tilgangurinn með framtakinu er fyrst og fremst að efla íbúalýðræðið og koma af stað frjóum umræðum um það hvernig bæjarbúar sjái fyrir sér að gera megi Akureyri að ennþá betri bæ.

Dagskráin hefst kl. 13.00 og er áætlað að henni ljúki um klukkan 17.00. Vonast er eftir góðri þátttöku þar sem fólk getur valið um að ræða málin í átta ólíkum málstofum þar sem fjallað verður um ýmis áhugaverð málefni sem varða hag bæjarbúa. Flestar málstofurnar verða haldnar tvisvar og því ætti jafnvel að vera hægt að taka þátt í tveimur þeirra ef vilji er fyrir hendi.

Á fundinum gefst bæjarbúum tækifæri til að hafa áhrif á bæjarbraginn, deila skoðunum sínum og sjónarmiðum með öðrum, og láta gott af sér leiða í bæjarmálum almennt.

Málstofurnar eru eftirfarandi:

      Íbúalýðræði
      Framsaga: Ágúst Þór Árnason - agust@unak.is
      Umræðustjóri: Margrét Guðjónsdóttir

      Mengun, umferð og lýðheilsa
      Framsaga: Pétur Halldórsson - peturh@ruv.is
      Umræðustjóri: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir

      Göngu- og hjólreiðastígar
      Framsaga: Guðmundur Haukur Sigurðarson - ghs@vgkhonnun.is
      Umræðustjóri: Inga Þöll Þórgnýsdóttir

      Lýðheilsa og skipulag
      Framsaga: Matthildur Elmarsdóttir - matthildur@alta.is
      Umræðustjóri: Karl Guðmundsson

      Hæglætisbær eða heimsborgarbragur?
            Framsaga: Hólmkell Hreinsson - holmkell@akureyri.is
            Umræðustjóri: Katrín Björg Ríkarðsdóttir


      Vistvernd í verki. Allra hagur.
      Framsaga: Stella Árnadóttir - gstella@heimsnet.is
      Umræðustjóri: Gunnar Gíslason

      Að eldast á Akureyri.
      Framsaga: Sigrún Sveinbjörnsdóttir - sigrunsv@unak.is
      Umræðustjóri: Þórgnýr Dýrfjörð

      Akureyri – fjölskylduvænt samfélag.
      Framsaga: Jan Eric Jessen - 24jej@ma.is
      Umræðustjóri: Sigríður Stefánsdóttir


Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, setur Lýðræðisdaginn kl. 13.00 með stuttu ávarpi og síðan hefst vinnan í málstofunum. Að þinginu loknu, upp úr kl. 16.00, mun María Sigurðardóttir, nýr leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, sjá um að slíta samkomunni á viðeigandi hátt.

Skorað er á Akureyringa að fjölmenna og taka þátt í líflegum umræðum um bæinn sinn.


Jóhannes Dagsson opnar myndlistasýninguna ,,Stöðumyndir" í DaLí Gallery laugardaginn 12. apríl kl. 17

     miðjuspil, kinningarmynd

Efnivið sinn sækir Jóhannes í tvö af fyrirferðarmeiri menningarfyrirbærum liðinnar aldar, módernisma og fótbolta.  Stöðumyndir er ellefta einkasýning Jóhannesar og á hann einnig að baki þátttöku í fjölmörgum samsýningum.  

Jóhannes lauk myndlistanámi frá Myndlistaskólanum á Akureyri 1997 og námi í heimsspeki og bókmenntum frá Háskóla Íslands 2000. Síðan lá leið hans til Skotlands til listnáms í Edinburgh College of Art sem hann lauk árið 2002, en í dag stundar hann meistaranám í heimspeki við Háskóla Íslands. 

Jóhannes fagnar nú tíu ára sýningarafmæli á þessu ári en í september fyrir 10 árum hóf hann sýningarferil sinn á samsýningunni ,,Konur" í Safnahúsinu á Húsavík .

Sýningin ,,Stöðumyndir stendur til 27. apríl í DaLí Gallery á Akureyri og er sýningin opin föstudaga og laugardaga kl. 14-17 og eftir samkomulagi.

Allir eru velkomnir

Kær kveðja
Dagrún og Lína í DaLí Gallery
Brekkugata 9, 600 Akureyri

8957173 / 8697872
dagrunm(hjá)snerpa.is
http://daligallery.blogspot.com

opið föstudaga og laugardaga kl.14-17
og eftir samkomulagi


Guðmundur R Lúðvíksson opnar sýninguna "Hreppsómagi og vindhanar" á Café Karólínu á Akureyri, laugardaginn 5. Apríl 2008,

hreppsomagi000

Guðmundur R Lúðvíksson hefur sett upp fjölmargar sýningar á síðustu árum og er nýkominn frá Rotterdam þar sem hann tók þátt í samsýningu. Hann segir um verkin sem hann sýnir á Café Karólínu:

"Verkið Hreppsómagi og vindhanar er unnið þannig að ég mun leggja af stað kl. 05.00 föstudags nótt frá Njarðvíkum til Akureyrar. Kílómetra mælir bílsins verður stilltur á núll við upphaf ferðar. Við hver hreppamörk alla leið til Akureyrar verður lofti blásið í poka, og lokað þétt fyrir þá. Hver poki  er merktur með km sem eftir eru á áfangastað. Ljósmynd er tekin af gjörningnum og tilheyrir hverjum poka. Núll pokinn verður stærri en allir hinir pokarnir.
Einnig verða þrjú verk sem unnin eru með girni og eru þrívíð."

Guðmundur R Lúðvíksson

Hreppsómagi og vindhanar

05.04.08 - 02.05.08   

Café Karólína // www.karolina.is

Kaupvangsstræti 23 // IS 600 Akureyri // 4612755

Laugardaginn 5. Apríl 2008, opnar Guðmundur R Lúðvíksson sýninguna "Hreppsómagi og vindhanar", á Café Karólínu á Akureyri.

sumar99

Nánari upplýsingar um Guðmund R Lúðvíksson era ð finna á www.1og8.com og netfangið er 5775750(hjá)isl.is   Sýningin á Café Karólínu stendur til 2. maí, 2008.

Meðfylgjandi er ferilskrá Guðmundar R Lúðvíkssonar og tvær myndir, önnur af verkinu "Sumarið í Reykjavík 1999" sem hann sýndi einmitt á Café Karólínu árið 1999.

Sýning Jóns Laxdal “Úr formsmiðju” á Karólínu Restaurant stendur yfir til 5. september 2008.

Næstu sýningar á Café Karólínu: 

03.05.08-13.06.08    Kjartan Sigtryggsson
14.06.08-04.07.08    Arnar Ómarsson
05.07.08-01.08.08    Vilhelm Jónsson
02.08.08-05.09.08    Margeir Sigurðsson
06.09.08-03.10.08    Sigurlín M. Grétarsdóttir
04.10.08-31.10.08    Ingunn St. Svavarsdóttir Yst
01.11.08-05.12.08    Þorsteinn Gíslason

Umsjónarmaður sýninganna er Hlynur Hallsson


Allt að gerast í Gilinu, hellingur af opnunum

Það eru margar opnanir á Akureyri í dag og tilvalið að slá margar flugur í einu höggi. Hér eru nokkrir viðburðanna í tímaröð og svo eru nánari upplýsingar um hvern viðburð einnig á síðunni: 


Ketilhúsið kl. 14.00. Frumflutningur á tónverki (upptökutónleikar) eftir Karólínu Eiríksdóttur í tengslum við sýninguna í Listasafninu

Populus tremula kl. 14.00  Opnun á sýningu Arnars Tryggvasonar
Deiglan kl. 14.30. Opnun á sýningu Jóns Garðars
Jónas Viðar Gallery kl. 14.30       Opnun á sýningu Jónasar Viðars
Listasafnið kl. 15.00. Opnun á sýningunni Bæ bæ Ísland
Svalirnar fyrir ofan Listasafnið kl. 15.00  Karlakór Akureyrar Geysir
Ketilhúsið kl. 16.00 Opnun á gluggalistaverki. Paul Forin gerir grein fyrir verkinu kl. 16.
DaLí gallerí kl. 17. Opnun á sýningu Þuríðar Sigurðardóttur "Stóð"
Báshús vinnustofur kl. 17-19 Opnun á vinnustofum Brekkugötu 13
 
Kaffi Karólína: Unnur Óttarsdóttir
Karólína Restaurant: Jón Laxdal Halldórsson
Veggverk: Þórarinn Blöndal
Gallerí Box: Hrafnkell Sigurðsson

Kunstraum Wohnraum sunnudaginn 16. mars kl. 11-13 Opnun á sýningu Ragnars Kjartanssonar, Ásabyggð 2
Nánari upplýsingar um alla þessa viðburði á síðunni hér fyrir neðan.


Bæ bæ Ísland opnar í Listasafninu á Akureyri á laugardag

listak_frettir_0208

LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI KYNNIR

Bæ bæ Ísland

Uppgjör við gamalt konsept
Laugardaginn 15. mars nk. verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýningin „BÆ BÆ ÍSLAND” sem er átaksverkefni tuttugu og þriggja myndlistamanna og fjölmargra annarra sem vilja ræða landsins gagn og nauðsynjar með einum eða öðrum hætti. Höfundur verkefnisins og sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni í Listasafninu eru Ásmundur Ásmundsson, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Erling Þ. V. Klingenberg, Hallgrímur Helgason, Hannes Lárusson, Hlynur Hallsson, Inga Svala Þórðardóttir & Wu Shan Zhuan, Kolbeinn Hugi Höskuldsson, Libia Pérez de Siles de Castro & Ólafur Árni Ólafsson, Magnús Sigurðarson, Ólafur Sveinn Gíslason, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Rúrí, Steingrímur Eyfjörð, Unnar Örn Auðarson & Huginn Þór Arason, Þorvaldur Þorsteinsson og Þórdís Alda Sigurðardóttir.

Sem sjá má er hér smalað saman í öflugan her fólks sem er allt annað en skoðanalaust um „verkefnið Ísland” og hvernig því hefur verið umturnað á síðustu tveimur áratugum. Því Íslandi hefur verið umbylt og í þeirri byltingu eru lykilorðin einkavæðing, kvótakerfi, misskipting, útrás, græðgi, þrælsótti, innflytjendur og stóriðja. Allt gott og blessað en afleiðingin er að nú má segja að landið byggi þrjár þjóðir, þ.e. milljarðamæringar, íslenskt alþýðufólk og innflytjendur.

Heiti verkefnisins, „Bæ bæ Ísland”, vísar í fyrsta lagi til kveðjuhófs eða útfarar um 19. og 20. aldar hugmyndarinnar um Ísland. Það sem í gær var unga Ísland er nú tákn hins liðna. Bless bless (hin kristilega blessun) víkur fyrir hinu ennþá óformlegra bæ bæ og vitnar um leið um það hvernig íslenskan er farin á límingunum. Í öðru lagi hljómar bæ eins og sögnin að kaupa (buy) á ensku og verður því til eins konar undiráróður: „Kaupum kaupum Ísland!” „Bæ bæ Ísland” er þannig uppgjör við hugmyndina um tunguna sem upphaf og endi sögulegrar tilvistar þjóðarinnar, sem og möguleika hennar til að lifa af menningarlega útjöfnun hnattvæðingarinnar.

DSCF0012Verkefninu „Bæ bæ Ísland” tengist fólk sem er óhrætt við að segja meiningu sína í salarkynnum tjáningarfrelsisins. Þetta er fólk sem getur skilgreint sig á báðum vígstöðvum, í hinu gamla sem og hinu nýja, staðbundið og heimsvætt, hvort heldur sem er á sjó eða landi, á leikskólum eða í bönkum. Alvarleiki, sem dottinn er úr tísku, er hér settur á oddinn.

„Bæ bæ Ísland” er einnig uppgjör við atlögu auðmagnsins að landi þjóðarinnar. Ýmsir nútímavæddir „víkingahöfðingjar“ virðast hafa sagt bæ bæ við landið í áþreifanlegri merkingu og fjarstýra nú að miklu leyti efnahagsmálum þjóðarskútunnar utan úr heimi líkt og Danakonungur gerði á sínum tíma. En þegar öllu er á botninn hvolft var það samt ekki kana- eða kommagull sem asninn bar yfir borgarmúrana. Gullið kom úr hirslum okkar sjálfra. Sýningin er eins konar hugmyndafræðileg úför og kveðjuhóf í formi myndlistarsýningar.
Á opnunardegi sýningarinnar kl. 14 verður frumflutt tónverkið „Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands“ í Ketishúsinu á Akureyri, en verkið var unnið í samstarfi myndlistardúósins Libiu Castro og Ólafs Ólafsson og tónskáldsins Karólínu Eiríksdóttur. Libia og Ólafur fóru þess á leit við Karólínu að hún semdi tónverk þar sem allar 81 greinar stjórnarskrárinnar væru sungnar. Verkið er skrifað fyrir tvo einsöngvara, píanó, kontrabassa og blandaðan kór og flytjendur verksins eru: Ingibjörg Guðjónsdóttir (sópran), Bergþór Pálsson (baritón) Tinna Þorsteinsdóttir (píanóleikari), Gunnlaugur Torfi Stefánsson (kontrabassaleikari) og kammerkórinn Hymnódía frá Akureyri undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar.

Föstudaginn 14. mars kl. 15 verður haldið opið málþing um „konseptið Ísland“ í Ketilhúsinu. Ágúst Þór Árnason, Þorvaldur Þorsteinsson og Ósk Vilhjálmsdóttir halda framsöguerindi, en fundarstjóri er Birgir Guðmundsson lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri.

Unnið er að því að gefa út viðamikla bók síðar á árinu þar sem tugir ef ekki hundruð Íslendinga gera upp við gamla konseptið Ísland og fyrirhugað er að halda ráðstefnu undir sama nafni. Bókin er hugsuð sem safnrit og jafnframt nokkurs konar leiðarvísir. Í henni verður m.a. tekið á bankakerfinu, þjóðarímyndinni, útlendingum á Íslandi, fjölmiðlum, stóriðju- og náttúruverndarsjónarmiðum og siðferði í stjórnmálum, auk þess sem þar verður einnig að finna umfjöllun um framlag listamannanna á sýningunni og myndir af verkum þeirra.

Ítarlegar upplýsingar um listamennina og inntak sýningarinnar er að finna á vefsíðu Listasafnsins: www.listasafn.akureyri.is. Frekari upplýsingar veitir forstöðumaður safnsins, Hannes Sigurðsson, í síma 899-3386 (netfang: hannes@art.is).

Þess má að lokum geta að ekkert fyrirtæki treysti sér til að styrkja verkefnið, sem segir ef til vill sína sögu. Sýningunni lýkur 11. maí og er safnið opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17.


Þrír kanadískir listamenn listamenn í gestavinnustofunni

when-the-rains-came_185_big 065HouseProject-full erin+glover

Þrír listamenn deila gestavinnustofunni í Mars 2008. Robert Mailinowski, Paul Fortin og Erin Glover. Þau koma öll frá Kanada.
Robert og Paul verða með sýningu í Populus Tremula 21. mars og Erin Glover mun sýna í galleriBOXi sama dag. Auglýst síðar.

Nánari upplýsingar: www.artistsstudio.blogspot.com

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband