Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Sjónlist 2012 í Hofi

sjonlist_web_1171658.jpg

ENDURREISN ÍSLENSKU SJÓNLISTAVERÐLAUNANNA
verðlaunaafhending í Hofi 13. september kl. 20

Þrír einstaklingar hafa verið tilnefndir til Sjónlistaverðlaunanna af sérstakri dómnefnd sem skipuð er þremur fulltrúum frá Listaháskóla Íslands, Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Listfræðifélagi Íslands. Einnig verður heiðurslistamaður útnefndur sem og Spíran veitt  ungum og upprennandi listamanni. Hátíðin var haldin árlega á árunum 2006-2008 en hefur legið niðri vegna fjárskorts þar til nú. Áður voru verðlaunin veitt bæði hönnuði og myndlistarmanni en í ár verður sjónum einungis beint að myndlistarmönnum og eru þrír tilnefndir til Sjónlistaverðlauna.
Hátíðardagskráin hefst í Hamraborg í Hofi kl. 20 fimmtudagskvöldið 13. september. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur ókeypis en nauðsynlegt er að tryggja sér miða í miðasölu Hofs eftir kl. 13 fimmtudaginn 13. september. Sýning á verkum ofangreindra listamanna verður opnuð í Listasafninu á Akureyri laugardaginn 15. september kl. 15.


Sýningu Jónu Hlífar í Flóru að ljúka

flora_jona.jpg

Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Info
25. ágúst - 11. september 2012
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri

Þriðjudaginn 11. september lýkur sýningu Jónu Hlífar Halldórsdóttur sem nefnist „Info” í Flóru í Hafnarstræti 90 á Akureyri.

Verkin sem Jóna Hlíf sýnir í Flóru eru textaverk römmuð inn í gömul auglýsingaskilti sem fylgdu húsinu Hafnarstræti 90 þegar Frúin í Hamborg fékk húsið á sínum tíma.

Jóna Hlíf Halldórsdóttir er fædd í Reykjavík 1978 og hún býr og starfar þar. Hún stundaði nám við Myndlistarskólann á Akureyri á árunum 2002-2004. Hún útskrifaðist með MFA gráðu frá Glasgow School of Art 2007.

Verk Jónu Hlífar Halldórsdóttur hafa verið sýnd nokkuð víða, Kuckei+Kuckei í Berlín (2011), Listasafn Así (2010), Listasafn Reykjavíkur (2008), Listasafnið á Akureyri (2007), Kunstvlaai í Amsterdam(2006), í Tramway, Glasgow (2007, útskriftarsýning) og A Cabine do Amador í Lissabon (2007).

Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru mánudaga til föstudaga kl. 12-18 og laugardaga kl. 12-16.
Heimasíða Jónu Hlífar: www.jonahlif.com
Nánari upplýsingar veitir Jóna Hlíf í síma 663 0545.



Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.


Umfjöllun umsýninguna Glóbal - lókal í Listasafninu á Akureyri

img_2846.jpg

Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri

Listumfjöllun

Glóbal - lókal í Listasafninu á Akureyri (Sjónlistamiðstöðin).

Í listasafninu stendur nú yfir samsýningin Glóbal-lókal í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarbæjar. Sýningarstjóri er Dr. Hlynur Helgason. Sex listamenn sem á einn eða annan hátt tengjast Akureyri deila með sér rými safnsins. Listamennirnir hafa allir einhver tengsl við erlendan listheim gegnum búsetu, nám eða sýningahald erlendis.

Hér er fjallað um sýninguna með augum fræðslufulltrúa Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri sem er í nánast daglegum tengslum við sýninguna og marga af gestum hennar. Fellur þessi umfjöllun frekar undir listfræðslu fyrir almenning frekar en að um hefðbundna listgagnrýni sé að ræða. Hér verður hvorki vitnað í ítarlegan texta Dr. Hlyns Helgasonar, sem finna má á heimasíðu Sjónlistamiðstöðarinnar, né í listgagnrýni Þóroddar Bjarnasonar, sem birtist í Fréttablaðinu. Hvorutveggja á að vera sýnilegt á www.sjonlistamidstodin.is auk Sjónpípunnar sem er miðill stofnunarinnar sjálfrar.

Samruni - jafnvægi

Eftir að hafa unnið í safninu í fleiri vikur með sýningunni Glóbal-lókal eru þau hugtök sem fyrst koma upp í hugann samruni og jafnvægi. Jafnvægi er helst fólgið í valinu á listamönnunum og samruni í því hvernig verkin falla saman og á stundum verða að einu verki. Þar ber helst að nefna tónverk Baldvins Ringsted og söngvídíóverk Örnu Valsdóttur sem verður sem eitt verk við innganginn í miðsalinn. Þess ber að geta að það er vægast sagt þreytandi að hlusta á hávaða frá listaverkum á sýningum fyrir þá sem sitja yfir í fjóra tíma samfellt á dag en í þessu tilviki sleppur það nokkuð vel vegna þess hve verkin eru vönduð og falla vel saman.


Blámi norðursins

Sjálf sýningin hefst raunar með tvíræðum texta Hlyns Hallssonar utan á safninu við brunastigann en þar hefur hann krotað NEYÐARINNGANGUR. Mjög skilja menn þetta misjafnlega eins og sennilega er ætlun listamannsins.
Við safnaleiðsögn er best að byrja við þennan umrædda inngang að innanverðu og horfa yfir Austursalinn og yfir í Miðsalinn. Blái liturinn er yfirgnæfandi í verkunum sem sýnileg eru frá þessu sjónarhorni og tengir hann þau saman í þétta heild og vísar kannski ómeðvitað í norðrið, áttina til Norðurpólsins.
Flugferð Örnu í videoverki hennar þar sem fingur hennar reyna að snerta skýin og himininn og blár veggur Hlyns með hvítu blöðunum sem öll vísa til staða í bænum sem áhorfandinn getur myndgert á sérstökum blöðum, tóna vel saman. Bláa litinn er einnig að finna í textaverki Jónu Hlífar Halldórsdóttur þar sem bláir stafir (texti þar sem stendur “Þú siglir aldrei til sama lands”) eru á svörtum fleti sem og bláu málverki Baldvins af kirkju bæjarins og einhverri paradísarströnd með pálmum. Öll þessi fjögur verk, ýta ennfremur undir tilfinningu fyrir útkjálka norðursins og þess sem er lokal eða staðbundið.
Í sama sal er textaverk Hlyns með þremur textum á mismunandi tungumálum og er enski hlutinn skrifaður með bláum lit neðst á veggnum. Hinir textarnir eru í grænu og rauðu (sjá nánari útskýringu á verkunum í texta  Dr. Hlyns Helgasonar á heimasíðu). Málverk Baldvins er áhugavert, bæði formið; að saga Akureyrarkirkju út og bæta ofan á verkið og einnig innihaldslega; tregi og rómantísk sýn á heimabæinn og táknmynd hans. Þetta ætti að vera kunnuglegt flestum þeim er dvalið hafa langdvölum erlendis. Baldvin gefur þessu líka skoplegan blæ. Verkið virkaði í fyrstu sem nokkurskonar kitchmynd eða söluvarningur á túristastöðum en eftir margra vikna áhorf hefur styrkur hennar og fegurð magnast og má hún teljast góð táknmynd fyrir 150 ára afmæli Akureyrar.

img_4055.jpg

Snautleg listaverkaeign bæjarins

 Hér er ekki hægt annað en taka fram hve sorglegt það er að Akureyrarbær fjárfesti ekki í listaverkum og að ekkert sé keypt til minningar um þessi merku tímamót. Listaverkaeign bæjarins er ekki einungis tímaskekkja heldur til skammar. Ekki er hægt að gefa bænum listaverk ef einhver hefur áhuga á því, því hann tekur ekki við slíkum gjöfum þar sem þeim fylgja kvaðir. Það er alveg með ólíkindum að vilji sé ekki fyrir hendi á því að safna verkum eftir þá góðu listamenn sem tengjast bænum og líka yfir höfuð að safna nútímalist eftir fremstu listamenn þjóðarinnar. Þessi verk verða bara dýrari í innkaupum með tímanum og bestu verkin verða ekki einu sinni föl, þegar frammí sækir.

Verk Hlyns Hallssonar kallast vel á yfir salinn á stærstu veggjum þess og halda þau góðu jafnvægi hvert við annað eins og samstilltar vogarskálar. Krafturinn og fegurðin í verkum Hlyns nýtur sín vel hér auk þess sem hann ögrar áhorfandanum. Pappírsskúlptúr Jónu Hlífar nýtur sín líka einkar vel við gluggana sem kasta skuggum sínum inn í salinn í sólskini og hafa þeir sjónræn áhrif á listaverkið og umhverfi þess. Þessi skúlptúr er fagur og áhrifaríkur, þar sem lítið tré vex uppúr blaðabunka og leitar í birtuna frá gluggunum en ekki upp í loftið. Þetta litla tré krefst þess að starfsmennirnir hlúi vel að því með vatnsgjöfum og umhyggju. Á efsta blaðinu í pappírsbunkanum stendur “Öll tré á Íslandi eru gróðursett”. Verkið vísar á ljóðrænan hátt í hringrás náttúrunnar og iðnaðarins/menningarinnar. Pappír er gerður úr trjám og hér lætur hún pappírinn gera eða halda utanum tré í vexti. Hlutföll plöntunnar og pappírsins ýta undir styrk verksins og fagurfræði.

Nonni sem tákngervingur sýningarinnar

Annað verk eftir Jónu Hlíf er í litlu rými við Vestursal en þar sést vídeómynd af henni mála á sér nefið og í kringum munninn eins og trúðar gera en einnig koma upp í hugann myndir af pandabjörnum. Undir vídeóinu er lesin texti eftir Hjálmar Brynjólfsson af Garðari Thor Cortes en hann lék Nonna í kvikmynd um þá bræðurna Nonna og Manna, fyrir all löngu. Á kynningarplakati sýningarinnar kemur þessi tenging við Nonna aftur fram en þar spjallar hann sem gamall rithöfundur við japönsk börn. Akureyringurinn orðinn heimsmaður og víðförull að fræða ungviði heimsins um æsku sína á norðurhjara veraldar. Þetta verk, ekki síður en málverk Baldvins, vex við hvert áhorf. Ástæða er til þess að nefna mikilvægi þess að skoða sýningar oft og hve blekkjandi það er oft að dæma verk eftir fyrsta áhorf.
Verk Níelsar Hafstein eru öll í Vestursalnum auk textaverks Hlyns og vídeóverks af næturhimni vorsins á Akureyri eftir Örnu sem fellur snilldarlega inn í verk Níelsar af byggingargrind húss. Annað verk Níelsar á sýningunni er af mörgum sögum sem saga í stólpa úr tré og er hreyfing verksins slík að auðvelt er að hugsa sér sagarhljóðin og hreyfingu þeirra. Þetta verk magnast við hvert áhorf og verður í huganum að einhverskonar hreyfimynd. Lítið líkan af Effelturninum í París er þarna líka og mynd af því hvernig hægt er að gera líkan af Empire State byggingunni í New York. Gaman er því að labba frá táknmynd Parísar í gegnum húsgrindina sem táknar Akureyri og yfir til New York. Meira global og lokal getur það ekki verið en Akureyri er sem kunnugt  einmitt staðsett mitt á milli þessara borga. Verk Níelsar mynda sterka heild í rýminu og tjá bæði gott skopskyn hans og næmi fyrir efninu.

Minningar uppvaxtarins

 Í miðsalnum eru fleiri verk eftir Baldvin. Áhugaverðast er spegill sem sagaður hefur verið niður á kerfisbundinn hátt í tengslum við rytma í discolagi úr fortíð hans. Hlutarnir eru svo límdir  saman aftur og ræmur af veggfóðri komið fyrir á veggnum neðan við spegilinn en  þær vísa einnig í tísku uppvaxtarára hans. Verkið er hrífandi og langaði gesti safnsins frá Kaliforníu að eignast það en þar sem það rúmaðist ekki í handfarangri þeirra eins og þau sögðu keyptu þau minna verk á annarri sýningu og stungu í handfarangur sinn. Þau lofsömuðu þá list sem þau sáu á Akureyri og fannst snautlegt að geta flutt svo lítið magn með sér heim.
Verk Jóní Jónsdóttur af hinni sögufrægu ævintýrapersónu Gosa og vinkonu hans hér Gosastelpunni, að plata fólk er áhrifaríkt og formsterkt. Verkið er pínulítið á stórum vegg en styrkur þess er þannig að það virðist mun stærra. Gestir safnsins þurfa margir skýringu á því, hvað það þýði að Gosastelpan segist vera Akureyringur og nefið lengist. Skýringuna má lesa í texta Dr. Hlyns á heimasíðunni. Allir þeir aðkomumenn sem ekki aðlagast bænum auðveldlega geta samsamað sig þessu verki, einkum börn nærsveitanna sem flytja og byrja í nýjum skóla á Akureyri. Plakat af verkinu er til sölu í safninu. Verk Jóní er sterkt, eftirminnilegt og fallegt. Þetta verk er nokkuð eitt á báti og eins og örlítið aðskilið frá öllum hinum verkunum sem fléttast svo auðveldlega saman og mynda eins og eina heild. Þetta er þó á engan hátt truflandi, þvert á móti endurspeglar verkið að ekki allir eru Akureyringar þó svo það sé gefið í skyn. Hvað er það annars að vera Akureyringur?
Hve lengi á að búa hér til að verða Akureyringur? Eru menn það eftir einhvern vissan árafjölda af búsetu hér í æsku, jafnvel þó að  þeir flytji í burtu? Margir hafa eitt uppvaxtarárunum á  mörgum mismunandi stöðum, kannski er tímaskekkja að kenna sig einungis við einn stað.
 

img_2813.jpg

Sami himinninn heima sem heiman

Það verk sem flestir gestir safnsins tjá sig um að hrífi þá og lýsa hrifningu sinni yfir er videóverk Örnu Valsdóttur en titill þess er eftir samnefndri kvikmynd Der himmel über Berlin eftir Wim Wenders og vill Arna vísa til þess að allt er þetta sami himininn hvort heldur hann er yfir Akureyri eða Berlin, lokal eða global. Verkið snertir augljóslega áhorfandann djúpt og hrífur söngurinn á eftirminnilegan hátt.

Sýningin hefur verið mjög vel sótt og stærsti hluti gestanna verið útlendingar.
Þetta er áhugaverð sýning í tilefni afmæli bæjarins og vekur upp margar spurningar og vangaveltur á viðfangsefninu sem erfitt er að gera skil í svo stuttum texta. Safngestirnir hafa margir ekki getað orða bundist af hrifningu yfir því að það skuli vera ókeypis inn á safnið og á allar sýningarnar í Listagilinu. Einhverjir verða fyrir vonbrigðum með að á safninu skuli ekki vera safneign til sýnis ásamt tilfallandi sýningum. Það er kannski tímabært að fara að safna myndlist og endurbyggja húsnæðið fyrir 200 ára afmæli bæjarins.


Fræðsludagskrá í Sal Myndlistarfélagsins

fraedsludagskra.jpg

KEA auglýsir eftir umsóknum í Menningar- og viðurkenningasjóð

kea-landsk

Menningar- og viðurkenningasjóður KEA auglýsir eftir styrkumsóknum og er umsóknarfrestur til 30. september 2012. Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér nánari útlistun á úthlutunarflokkum og reglugerð sjóðsins á heimasíðu KEA, www.kea.is. Nauðsynlegt er að fylla út umsóknareyðublað sem nálgast má á heimasíðunni eða á skrifstofu KEA, Glerárgötu 36.

Styrkúthlutun tekur til eftirfarandi flokka:

   Til einstaklinga, félaga eða hópa sem vinna að mikilvægum menningarmálum á félagssvæðinu. Um getur verið að ræða málefni á sviði félagsmála, minja, lista og almennt þeirra málefna sem flokkast sem menning í víðtækri merkingu.

   Til þátttökuverkefna á sviði menningarmála. Í þessum flokki er horft til stærri verkefna á sviði menningarmála á félagssvæði KEA.

   Til ungra afreksmanna á sviði mennta, lista og íþrótta eða til viðurkenninga fyrir sérstök afrek s.s. á sviði björgunarmála. Í þessum flokki skulu umsækjendur vera yngri en 25 ára og búsettir á félagssvæði KEA.

   Styrkir til íþróttamála. Markmiðið er að stuðla að því að sem flest börn og unglingar eigi kost á íþróttaiðkun og að íþróttamenn eða lið sem skara fram úr geti stundað markvissar æfingar og sótt mót við sitt hæfi. Einnig falla hér undir verkefni sem eru til þess fallin að stuðla að heilbrigðum lífstíl almennings eða snúa að uppbyggingu á aðstöðu til íþróttaiðkunar.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér reglugerð sjóðsins.

Nauðsynlegt er að fylla út umsóknareyðublöð sem nálgast má á heimasíðunni umsóknareyðublöð  eða á skrifstofunni og skal þeim skilað rafrænt eða á skrifstofu KEA, Glerárgötu 36, á Akureyri fyrir 30. september 2012. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband