Sjónlistaverðlaunin 2012 afhent

sjonlist.png

Í gærkvöldi afhenti Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sjónlistaverðlaunin 2012 við hátíðlega athöfn í Hofi á Akureyri. Tilnefndir listamenn að þessu sinni voru Ásmundur Ásmundsson fyrir sýninguna Hola í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi sem haldin var árið 2009, Katrín Sigurðardóttir fyrir sýninguna Katrin Sigurdardottir at the Met sem haldin var á Metropolitan safninu í New York, 2010-2011 og Ragnar Kjartansson fyrir sýningarnar The End, sem var framlag Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2009, Bliss á Performa-hátíðinni í New York, 2011 og Song í Carnegie safninu í Pittsburgh árið 2011.
 
Einnig var Heiðurslistamaður Sjónlistar útnefndur og viðurkennning, Spíran, veitt ungum og upprennandi listamanni. Líkt og við fyrri verðlaunaafhendingar voru allar tilnefningar í höndum faglegrar og óháðar nefndar skipuð þremur forsvarsmönnum fyrir hönd félagasamtaka og stofnana. Ragnar Kjartansson hlaut Sjónlistarorðuna 2012, en Hildur Hákonardóttir var kjörin Heiðurslistamaður fyrir ævilangt framlag til íslenskrar myndlistar og Janette Castioni var útnefnd Spíran 2012. Hér fyrir neðan má lesa greinargerð dómnefndarinnar um þá listamenn til tilnefndir voru til Íslensku sjónlistaverðlaunanna í ár.

Sýning á verkum ofangreindra listamanna verður opnuð í Listasafninu á Akureyri laugardaginn 15. september kl. 15.
 
---------------------------------------------
 
 
Greinagerð dómnefndar fyrir Íslensku sjónlistaverðlaunin 2012
 
Það eru afar jákvæð tíðindi fyrir íslenskt myndlistarlíf að Íslensku sjónlistaverðlaunin skuli vera endurreist eftir fjögurra ára dvala. Starfi og verkefnum myndlistarmanna er nauðsynlegt að hampa og segja má að Sjónlistaverðlaunin hafi verið mikilvægur þáttur í því umhverfi þar sem litið er yfir farinn veg hvers árs fyrir sig.
Líkt og við fyrri verðlaunaafhendingar liggur að baki óháð nefnd skipuð þremur forsvarsmönnum fyrir hönd félagasamtaka og stofnana, Listaháskóla Íslands, Sambands íslenskra myndlistarmanna og Listfræðafélags Íslands. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að kalla eftir tillögum í viðhorfskönnun sem send var út á félaga Sambands íslenskra myndlistarmanna, Nýlistasafnsins, Listfræðafélags Íslands og Listaháskóla Íslands. Dómnefnd tók tillit til þess viðhorfs sem birtist meðal þátttakenda án þess að könnunin hafi haft mótandi áhrif á niðurstöðu nefndarinnar.
Starf dómnefndar fyrir Íslensku sjónlistaverðlaunin í ár var  sérstaklega vandasamt því ólíkt fyrri verðlaunum var, við val á tilnefndum listamönnum, í þetta sinn litið til baka á sýningarsögu íslenskra myndlistarmanna síðastliðin fjögur ár. Við þá rannsóknarvinnu og skoðanaskipti sem fram fóru á fundum nefndarinnar kom skýrt í ljós hve metnaðarfullt og fjölbreytt sýningarhald íslenskra listamanna er, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi. Afstaða var tekin til fjölda merkra sýninga sem staðið hafa yfir á tímabilinu. Eftir krefjandi en jafnframt gefandi umræðu meðal nefndarmanna var vel ígrunduð niðurstaða dómnefndar einróma með tilliti til þeirra margþættu forsenda sem liggja að baki valinu.
 
Dómnefndin tilnefnir eftirfarandi þrjá íslenska listamenn til Íslensku sjónlistaverðlaunanna árið 2012. Þau eru: Ásmundur Ásmundsson fyrir sýninguna Hola í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi sem haldin var árið 2009, Katrín Sigurðardóttir fyrir sýninguna Katrin Sigurdardottir at the Met sem haldin var á Metropolitan safninu í New York, 2010-2011 og Ragnar Kjartansson fyrir sýningarnar The End, framlagi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2009; Bliss á Performa-hátíðinni í New York, 2011; og Song í Carnegie safninu í Pittsburgh árið 2011. Tekin var afstaða til þeirrar staðreyndar að tveir af þremur tilnefndum listamönnum í ár hafi áður verið tilnefndir til Sjónlistarverðlaunanna (Katrín Sigurðardóttir árið 2006 og Ragnar Kjartansson árið 2008). Telur dómnefnd mikilvægt að líta ekki framhjá markverðum sýningum og verkefnum listamanna sökum þess að þeir hafi áður hlotið viðurkenningu fyrir fyrri verk, enda ekki lagðar slíkar forsendur í vali dómnefndar hverju sinni.
Ásmundur Ásmundsson (f. 1971) er vel kunnur fyrir afdráttarlausa gagnrýni á samfélagið í verkum sínum. Hann hefur lagt skýrar línur með myndlistinni sem stendur sem hnífbeitt rödd til gagnrýnnar umræðu eða öllu heldur róttæks niðurrifs, þar sem jafnan eldfim málefni eru lögð til endurskoðunnar. Sýningin Hola þótti að mati dómnefndar draga þarfa mynd af því umhverfi sem íslenskt samfélag stóð andspænis árið 2009 en sýningin tilheyrði sýningarröð sem kallaði eftir því að tengja myndlistina út fyrir stofnunina. Margra tonna steypuklumpur mótaður úr holu sem ungir grunnskólanemendur grófu upp er táknrænn fyrir þá gildru sem lífshættir íslenskt samfélags hefur lagt fyrir komandi kynslóðir. Verk Ásmundar eru þó ávallt margræð þar sem fagurfræði og efnistök ávarpa einnig hugmyndafræðilegar og listsögulegar hefðir og samhengi. Í einfaldleika sínum er steypuklumpur Ásmundar einnig tilraun til afbyggingar á hugmyndafræði módernismans. Í hrárri steinsteypunni er að finna tvöfeldni sem grefur undan sjálfhverfri áherslu á listmiðilinn með því beina samtali sem listamaðurinn krefur áhorfandann til að horfast í augu við.
Sýning Katrínar Sigurðardóttur  (f. 1967), Katrin Sigurdardottir at the Met vann í samræðu við safneign Metropolitan safnsins og samanstóð af tveim innsetningum sem báru yfirskriftina Boiseries. Katrín er þekkt fyrir endurgerð og túlkun á stöðum bæði raunverulegum og ímynduðum, en innsetningarnar voru endurgerðir í fullri stærð á tveimur frönskum herbergjum frá 18. öld sem varðveittar eru í safninu. Einu frá Hôtel de Crillon (1777-80) á Place de la Concorde í París og öðru frá Hôtel de Cabris (ca. 1774) frá Grasse í Provence. Alhvítt yfirbragð innsetninganna gefur þessum stöðum fágað og hlutlaust yfirbragð og rýnir þar um leið í sögulegan bakrunn hins upprunalega staðar sem flysjaður hefur verið af stoðum sínum og yfirfærður út fyrir samhengi sitt. Það er hin hugmyndfræðilegi undirtónn verksins sem felur því merkingu sína. Margslungin samsetning um stað og upplifun er höfuðeinkenni verka Katrínar en með innsetningunum má sjá djúpa heimspekilega samræðu kallast á við þau grunnþemu.
Ragnar Kjartansson (f. 1976) hefur nýtt sér sjónarspil og bakland leikhússins sem samtvinnast við efnistök gjörningalistarinnar. Gjarnan fær hann að láni efnivið úr safni klassískra verka, hvort sem um er að ræða bókmenntir, leikhúsverk eða jafnvel staðlaðar ímyndir hins rómantíska listamanns. Á undanförnum árum hefur hann fengist við svokallaða þolgæðisgjörninga sem tilheyrðu The End, sex mánaða gjörningi á Feneyjartvíæringnum árið 2009, Bliss sem var tólf klukkustunda óperuflutningur sem fluttur var á Performa-hátíðinni í New York og Song sem var þriggja vikna gjörningur fluttur af frænkum listamannsins á Carnegie safninu í Pittsburgh árið 2011. Með þessum verkefnum hefur Ragnar sýnt fram á að hafa náð fullu valdi á viðfangi sínu. Það er á mörkum þrautseigju og uppgjafar sem virkni eða ‘pathos’ verka hans verður sýnilegt í samspili andstæðra tilfinninga sem spretta fram meðal áhorfandans.
Það er áhugavert að sjá að landfræðileg mörk þurfa ekki að hafa áhrif á störf listamanna í myndlist samtímans. Katrín Sigurðardóttir kann að starfa að mestu frá New York í Bandaríkjunum en hefur ávallt lagt upp úr því að halda sterkum tengslum við íslenskt myndlistarlíf með reglulegum sýningum og kennslu á Íslandi samfara störfum sínum á alþjóðlegum vettvangi. Ásmundur og Ragnar hafa aftur á móti starfað að mestu frá Íslandi og með því móti haft mótandi áhrif á íslenskt myndlistarumhverfi. Ásmundur hefur með verkum sínum og skrifum sérstaklega beint sjónum að íslensku samfélagi í beinum samræðum við pólitískt og menningarlegt ástand hverju sinni. En báðir listamenn hafa einnig teygt starfsemi sína út fyrir landsteinanna, eins og birtist með skýrum hætti í störfum Ragnars síðustu ár. Á þessu má sjá að gróskan í íslensku myndlistarlífi elur af sér framúrskarandi listamenn sem hafa vægi í alþjóðlegu samhengi listarinnar.
 
 
Líkt og fyrri ár er einnig veitt heiðursorða fyrir einstakt æviframlag til myndlistar á Íslandi. Í ár er það Hildur Hákonardóttir sem hlýtur heiðursorðu Íslensku sjónlistaverðlaunanna. Afstaða dómnefndar er bundin við þann virka þátt sem Hildur átti í myndlistarumhverfinu á Íslandi sem hefur haft mótandi áhrif á þær kynslóðir sem á eftir komu og það umhverfi sem við þeim blasir allt til dagsins í dag.
Hildur er fædd í Reykjavík árið 1938. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1968 og stundaði framhaldsnám við Edinburgh College of Art frá 1968-69. Hún var meðlimur í SÚM hópnum og tók virkan þátt í kvennabaráttunni og þeim miklu þjóðfélagshræringum sem áttu sér stað á árunum eftir stúdentabyltinguna árið 1968. Í list sinni lagði Hildur einkum fyrir sig myndvefnað sem hafði sterkar skírskotanir til atburða eða ástands í samtímanum.
Auk listsköpunar sinnti hún margskonar störfum tengdum myndlist. Meðal annars kenndi hún við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1969 -1982 og var síðar skólastjóri hans frá 1975-1978 og stofnaði þá hina umdeildu Nýlistadeild og einnig málaradeild. Hún var forstöðumaður Byggða- og listasafns Árnessýslu 1982-1992 og síðar Listasafns Árnesinga til ársins 1996. Þó að ekki hafi mikið farið fyrir störfum Hildar í myndlist undanfarin ár hefur innkoma hennar t.a.m. með yfirlitssýningu í Listasafni ASÍ á síðasta ári og samsýningu í Sjónlistarmiðstöðinni á Akureyri fyrr á árinu, undirstrikað mikilvægi hennar í íslensku myndlistarumhverfi.
 
Nýr flokkur hefur verið tekinn upp til að heiðra, utan heiðurslistamanns , listamann af yngri kynslóð íslenskra listamanna, undir heitinu Spíran. Jeannette Castioni er kjörin Spíra Íslensku Sjónlistarverðlaunanna árið 2012. Hugmyndin um spíru í myndlist er afstæð og á Jeannette fremur ungan myndlistaraldur að baki sér þrátt fyrir að ferill hennar tengist störfum í myndlist til lengri tíma. Jeannette er fædd árið 1968 í Verona á Ítalíu og býr og starfar bæði þar og í Reykjavík. Hún nam forvörslu við The School of Conservations and Restoration í Flórens, Ítalíu (1990-93) og síðar málaralist við Academy of Arts, Bologna, Ítalíu (1998-2002). Hún útskrifaðist með BA- gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2006 ásamt framhaldsnámi í kennslufræðum, 2007. Árið 2008 lauk hún einnig námi í ítölskum bókmenntum og heimsspeki við University of Literature and Philosophy á Ítalíu. Verk Jeannette búa yfir ákveðinni dýpt þar sem hún nýtir sinn klassíska bakgrunn til rökræðna við samtímann sem gjarnan tengjast menningarlegum eða félagslegum efa. Hún hefur með fyrri verkum fundið sinn persónulega stíl og skýran listrænan vettvang og á að baki sér sýningarferil sem vert er að taka eftir.
 
Dómnefnd Íslensku sjónlistaverðlaunanna árið 2012 er bæði ánægja og heiður að tilkynna tilnefningar til verðlaunanna og er sannfærð um að valið hafi markast af bestu vitund og samvisku.
 
Fyrir hönd dómnefndar,
Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, formaður.
 
 
DÓMNEFND
 
Hildur Bjarnadóttir, myndlistarmaður
Fyrir hönd Listaháskóla Íslands
 
Hlynur Hallsson, myndlistarmaður
Fyrir hönd Sambands íslenskra myndlistarmanna
 
Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, listfræðingur
Fyrir hönd Listfræðafélags Íslands


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband