Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Dagrún Matthíasdóttir sýnir í Cælum Gallery í New York

dagrun_1112501.jpg

Þrjár skandinavískar listakonur sýna í Cælum Gallery á Manhattan í New York.
Listakonurnar Dagrún Matthíasdóttir frá Íslandi, Gunn Morstöl frá Noregi
og Helen Molin frá Svíþjóð opnuðu sýninguna „Delicious“ í Cælum Gallery í
Chelsea á Manhattan í New York nú í vikunni og taka á móti gestum í
formlegu opnunarteiti 29. sept. milli kl. 18-20.

Listakonurnar hittust á stórri samsýningu í Eyjafirði, Staðfugl-Farfugl
árið 2008 og ákváðu þá að hittast og sýna saman í framtíðinni sem nú er
orðið að veruleika.

Dagrún Matthíasdóttir sýnir málverk unnin með olíu og blandaðri tækni og
er umfjöllunarefnið matur og matgæðingar.

Helen Molin er búsett í Gautaborg í Svíþjóð, sýnir stór málverk unnin með
eggtempúru og fjallar um skynjun hins mannlega í bland við náttúruna.

Gunn Morstöl er frá Isfjorden í Noregi. Hún sýnir málverk unnin með
blandaðri tækni og ætingu, þæfða skúlptúra og textílverk og er
umfjöllunarefnið rómantískt og fjallar um mannleg samskipti.

Nánar: http://caelumgallery.com


MELLI – ljósmyndasýning í Populus tremula 1.-2. október

Mellamyndir-1-web


Laugardaginn 1. október kl. 14.00 opnar Sigurður Gunnarsson ljósmyndasýninguna Melli í Populus tremula á Akureyri.

Vorið 2006 fór Hrafnkell Brynjarsson (Melli) í lyfjameðferð eftir að hafa greinst með krabbamein í eista. Ljósmyndarinn Sigurður Gunnarsson fylgdi honum í gegnum meðferðina. Á sýningunni má sjá myndir sem skrá daglegt líf Mella meðan á meðferð stóð.

Myndirnar varpa ljósi á hvernig líkaminn breytist við slíka þolraun og eru auk þess brotakennd sýn á hið daglega líf sjúklingsins. Líkamsstellingar og athafnir Mella á meðan meðferðinni stóð geta virst sláandi, en þó fullar öryggis; óttinn við að bíða lægri hlut í glímunni við illvígan sjúkdóm er ekki til staðar. Heldur horfir hann beint í myndavélina fullur öryggis og yfirvegunar og biður ekki um samúð eða vorkunn.

Sigurður Gunnarsson f. 1978 útskrifaðist úr Ljósmyndaskóla Sissu árið 2006. Næstu ár eftir vann hann sem aðstoðarmaður ýmissa ljósmyndara og síðar sem sjálfstættstarfandi blaðaljósmyndari. Undanfarið hefur Sigurður unnið að sínum eigin verkefnum og haldið sýningar heima og erlendis. Melli er 5. einkasýning hans.

https://www.facebook.com/event.php?eid=144256159004045

Populus tremula
LISTAGILI
Akureyri


„Það sem hendi er næst“ í Boxinu, sal Myndlistarfélagsins

box_1111136.jpg

Fréttatilkynning.
„Það sem hendi er næst“ í Boxinu sal Myndlistarfélagsins.
Dagana 24. og 25. Sept. 1. og 2 okt. og 8. og 9. okt.
Tími: 14.00-17.00
Sýningin samanstendur af verkum átta myndlistarkvenna sem eru hluti hópsins „Höfuðverk“.
Þær sem sýna að þessu sinni eru:
Áslaug Anna Jónsdóttir, Ásta Bára Pétursdóttir, Eygló Antonsdóttir, Gulla Sigurðardóttir, Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, Margrét Buhl, Telma Brimdís Þorleifsdóttir og Ragney Guðbjartsdóttir.
Höfuðverk er hópur samnemenda úr Myndlistarskólanum á Akureyri.  Allar hafa þær haldið einkasýningar og er þetta í annað skiptið sem hópurinn sýnir saman.


Ljóðahátíð í Verksmiðjunni á Hjalteyri, Grundarskógi og Populus tremula

lj_c3_b3dah_c3_a1t_c3_addin-2011-web2.jpg

Síðustu helgina í september verður haldin Ljóðahátíð í Eyjafirði.
Aðstandendur hennar eru Verksmiðjan á Hjalteyri, Populus tremula og
Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Hin árlega Ljóðaganga í Eyfirskum skógi verður að þessu sinni hluti
hátíðarinnar og nú haldin í Grundarskógi í Eyjafirði.

Dagskrá verður þríþætt eins og fram kemur hér að neðan. Hópur góðskálda
heimsækir Eyjafjörð og les ljóð sín fyrir heimamenn og gesti.

Fram munu koma m.a. eftirtalin skáld:

Guðbrandur Siglaugsson
Anton Helgi Jónsson
Kristín Svava Tómasdóttir
Bjarni Gunnarsson
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir
Ísak Harðarson

Fyrst verður ljóðakvöld í Verksmðjunni á Hjalteyri kl. 21.00 föstudaginn 23. sept.

Síðan Ljóðaganga Grundarskógi í Eyjafirði kl. 14.00 laugardaginn 24. sept.

Að lokum ljóðakvöld í Populus tremula sama kvöld kl. 21.00.

Aðgangur verður ókeypis og öllum heimill. Malpokar leyfðir.

Ljóðahátíðin er styrkt sérstaklega af Menningarráði Eyþings, Uppheimum og
Amtsbókasafninu á Akureyri.

 


Sýningarstjórn og samfélagsrýni, Hlynur Hallsson með fyrirlestur í Ketilhúsinu

hlynur_hafnarhus.jpg

hlynur_bush.jpg

Hlynur Hallsson heldur fyrirlestur á vegum Listnámsbrautar VMA, Listasafnsins á Akureyri og Menningarmiðstöðvarinnar í Grófargili.
Fyrirlesturinn sem ber titilinn " Sýningarstjórn og samfélagsrýni" fer fram í Ketilhúsinu í Listagilinu á Akureyri föstudaginn 23. september kl. 14:00 - 15:00, er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Fyrirlestraröðin hefur verið hluti af námsefni listnámsbrautar VMA til fjölda ára og er boðið upp á 8 fyrirlestra yfir vetrartímann með áherslu á að við fáum innsýn í margvíslega heima lista og menningarlífsins.

Facebook

Í fyrirlestri sínum mun Hlynur segja frá nokkrum verka sinna og sýningum með áherslu á verk sem hafa með tengsl við áhorfendur að gera, samfélagsgagnrýni, þátttökuverk og sýningarstjórnun.

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hamborg, Düsseldorf og Hannover og lauk mastersnámi 1997. Hlynur hefur haldið yfir 60 einksýningar nú síðast í GalleriBOX á Akureyri með Jónu Hlíf Halldórsdóttur og í Malkasten í Düsseldorf. Hann hefur tekið þátt í meira en 80 samsýningum á síðustu árum nú síðast í "Læsi" í Nýlistasafninu og "Beyond Frontiers” hjá Kuckei+Kuckei í Berlín.

Hlynur hefur einnig verið virkur sem blaðaútgefandi og sýningarstjóri og hann vinnur nú að sýningu á textaverkum íslenskar og erlendra listamanna sem tengjast Íslandi sem opnar í Berlín þann 15. október í tilefni að því að Ísland er heiðursgestur á bókakaupstefnunni í Frankfurt í ár.
Hann hefur rekið sýningarrýmið Kunstraum Wohnraum frá árinu 1994. Starfrækti sýningarrýmið Villa Minimo í Hannover 1997-1999 og sá um sýningar á Kaffi Karólínu 2005-2010. Hefur rekið Verksmiðjuna á Hjalteyri frá árinu 2008 ásamt félögum sínum og situr í stjórn hennar. Hann hefur einnig verið sýningarstjóri á sýningum í Þýskalandi, Bandaríkjunum, Japan, Noregi og á Íslandi. Hlynur hefur einnig kennt við Myndlistaskólann á Akureyri og við Listaháskóla Íslands.

Hlynur var bæjarlistamaður Akureyrar 2005, hlaut tveggja ára starfslaun listamanna 2006 og tveggja ára starfslaun Kunstverein í Hannover árið 1997 og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Verk Hlyns eru í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafnsins á Akureyri  auk nokkurra einkasafna á Íslandi og í Evrópu. Fyrr á þessu ári kom út bókin “Myndir - Bilder - Pictures” með 33 texta/ljósmyndaverkum eftir Hlyn ásamt textum eftir fjóra höfunda.

Hlynur var formaður SÍM, Sambands íslenskra myndlistarmanna 2009-2010, formaður Myndlistarfélagsins 2008-2009. Sat í stjórn Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar 2007-2010. Sat fjórum sinnum á Alþingi sem varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns-framboðs 2003-2007. Hann var í safnráði Kunstverein Hannover 1997-2001 og í stjórn Gilfélagsins 1989-1990 og formaður Leikklúbbsins Sögu 1988-1990.

Hlynur vinnur með ljósmyndir, texta, innsetningar, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Verk hans snúast gjarnan um samskipti, tengingar, skilning, landamæri, fjölmiðlun, viðhorf okkar og hvað við lesum úr hlutunum.

Nánari upplýsingar um verk Hlyns er að finna á:
http://hlynur.is   
http://www.hallsson.de
http://www.kuckei-kuckei.de
http://www.galerie-robert-drees.de
http://www.seitenwechsel-hannover.de
 

Fyrirlestraröð á haustönn 2011

Hlynur Hallsson
"Sýningarstjórn og samfélagsrýni"
15 ár af óvenjulegum sýningum

hlynur_s.jpg


KvikYndi (Kvikmyndaklúbbur Akureyrar) sýnir Rauðu skóna í Hofi

red_shoes.jpg

KvikYndi, Bíó Paradís og Menningarhúsið Hof hafa tekið höndum saman og ætla
að bjóða upp á kvikmyndasýningar í vetur. Sýningarnar fara fram í Hamraborg,
stóra sal Hofs, í fullkomnum hljóð og myndgæðum. Andrúmsloft kvikmyndanna
verður fært í Hof og leitast verður eftir að skapa notalega stemningu.


Rauðu skórnir (The red shoes) 1948  sýnd miðvikudaginn 21. september kl. 20

Leikstjóri: Michael Powell
Aðalhlutverk: Anton Walbrook, Marius Goring og Moira Shearer

Fyrsta myndin sem sýnd verður í Hofi er breska myndin Rauðu skórnir (e.The
red shoes) frá árinu 1948. Myndin er lauslega byggð á samnefndu ævintýri
H.C. Andersen, en er einnig talin innblásin af sambandi ballettdansaranna
Sergei Diaghilev og Diana Gould. Diaghilev bað hana að ganga í ballettflokk
sinn en hann lést áður en af því varð. Gould varð síðar eiginkona
fiðlusnillingsins Yehudi Menuhin.

Rauðu skórnir hefur verið innblástur fyrir marga af þekktustu leikstjórum
samtímans og til dæmis hefur Martin Scorsese ítrekað nefnt hana sem sína
uppáhaldsmynd og 2009 stóð hann að endurgerð hennar og hefur hún verið sýnd
víða. Annar leikstjóri, Brian De Palma, hefur einnig nefnt hana sem sína
uppáhaldsmynd.

Rauðu skórnir þótti á sínum tíma einstaklega vel unnin kvikmynd. Hinn
víðfrægi tökumaður Jack Cardiff myndaði og notaðist við Technicolor tæknina
sem þá var ný. Scorsese hefur bent á að þetta sé ein fegursta litmynd sem
gerð hafi verið.

Myndin er einnig viðurkennd sem ein af sárafáum kvikmyndum sem tekur ballett
alvarlega, en fjölmargir dansarar Konunglega ballettsins í Bretlandi koma
fram í henni.

Miðasala fer fram https://midi.is/sale/tickets.aspx?s=%2fImKipYAViwYfNNrMVaOeAv8EUN%2fag4JyjC
%2bYrfgu%2b85qDhU9rzpgA%3d%3d
hér og í miðasölu Hofs, s. 450 1000.

Miðaverð: 1.200 kr.

Fyrir námsmenn og fyrir félaga í KvikYndi: 1.000 kr.

Bíó Paradís við Hverfisgötuna í Reykjavík hefur heldur betur fest sig í
sessi sem hjarta kvikmyndamenningar á Íslandi á því ári sem það hefur verið
starfrækt. Þar eru sýndar nýjar og sígildar kvikmyndar sem rata sjaldan í
hin almennu bíóhús. KvikYndi (Kvikmyndaklúbbur Akureyrar) hefur verið
starfræktur í fjögur ár og tilgangur félagsins er að bjóða félögum sínum upp
á sýningar á áhugaverðum kvikmyndum sem ekki standa til boða með öðrum
hætti. Félagið stendur fyrir virku samstarfi við aðra kvikmyndaklúbba og er
vettvangur umræðna um allt sem viðkemur kvikmyndum og kvikmyndamenningu og
stendur einnig fyrir fyrirlestrum og námskeiðum eftir því sem tilefni gefst.


Miðlar & Gjörningar - Myndlistarnámskeið

na_769_mskei_1.jpg

Helgina 8. & 9. október verður myndlistarnámskeiðið Miðlar & Gjörningar haldið á Akureyri. Á námskeiðinu verður unnið með lifandi gjörninga, myndbandalist og ljósmyndun. Námskeiðið er ætlað fólki 16. ára og eldri og fá námsmenn sérstakan afslátt. 

Verð: 18.000 kr. // Námsmenn: 15.000 kr.

Skráning & upplýsingar: habbyosk@gmail.com

Kennari: Habby Osk //  www.habbyosk.com
 

Tilkynning frá Bókasafni Listasafns Íslands

503-180x400

TIL LISTAMANNA, LISTFRÆÐINGA OG SÝNINGARSTAÐA
BEIÐNI UM SÝNINGARSKRÁR, BOÐSKORT OG ANNAÐ EFNI UM ÍSLENSKA MYNDLIST

Bókasafn Listasafns Íslands hefur að markmiði að safna öllu útgefnu efni um íslenska myndlist.  
Á bókasafni LÍ er gott Heimildasafn, sem inniheldur sýningarskrár og boðskort íslenskra listamanna. Einnig er þar mjög viðamikið Úrklippusafn, sem samanstendur af úrklippum úr dagblöðum um íslenska myndlist, allt frá árinu 1950.  

Okkur langar að fara þess á leit við ykkur að þið sendið á Bókasafn LÍ sýningarskrár eða annað efni frá sýningum,  3 eintök af hverri sýningarskrá til varðveislu í Heimildasafnið.  
Einnig þætti okkur vænt um að vera á póstlista ykkar um sýningaropnanir til að geta fylgst með starfsemi ykkar.

BÓKASAFN: Laufásvegi 12 • 101 Reykjavík • Sími 515 9600 • list@listasafn.is


Reynsla er Þekking í Verksmiðjunni á Hjalteyri

george_d.jpg


Reynsla er Þekking
George Hollanders / Sharka Mrnakova / Birgit Ehrhardt
10. - 25. september 2011

Opnun laugardaginn 10. september kl. 14
Opið laugardaga og sunnudaga kl. 14-17 og eftir samkomulagi 892 6804

https://www.facebook.com/event.php?eid=153838708036850


Sýningin Reynsla er Þekking er lífandi og listræn framsetning sem beinir athygli að eko- og úti kennslu í leikskólum, náttúrulegum leikgörðum og áhrifum þeirra á þroska fólks - bæði andlegan og líkamlegan. Þetta er einskonar hugleiðsla um óhefðbundnar kennsluaðferðir sem byggja á "experiential learning".

Miðpunkturinn er manneskjan, skilningarvit hennar, tengslin við náttúruna, náttúrulögmál, staðbundnar atvinnugreinar, auðlindir, menningararfleifðin, samfélagið og sjalfbærir lífnaðarhættir.
Sýningin mun standa frá 10. til 25. September 2011 í Verksmiðjunni á Hjalteyri.

Náttúrulegir leikvellir er gerðir úr náttúrulegu eða endurunnu hráefni eða hlutum. Heildrænt umhverfi sem þessar leikgarðar mynda, miðar að því að örva skilningarvit barnanna og fólks og færa þau nær náttúrunni og samfélaginu sem þau búa í.

Sýningin er margþætt og er samstarfsverkefni Sharka Mrnakova, George Hollanders og Birgit Ehrhardt.

Meðal þess sem verður sýnt er:
Afrakstur af þróunarverkefni um útikennslu sem var unnið í sumar í samstarfi við leikskólann Iðavelli á Akureyri. Þar voru elstu börnin úti alla daga frá júni og fram í miðjan júli á nærliggjandi leikvelli og unnu í anda úti leikskóla. Unnið var með náttúruleg og endurunnin hráefni, menningararfleifðinna s.s. sögur og staðbundna starfshætti, skilningarvitin, náttúrulögmál og element svo eitthvað sé nefnt. Einnig var unnið með órjúfanleg tengsl manneskjunnar og náttúrunnar með því að leggja áhersla á sjálfbæra lifnaðarhætti, endurvinnslu og náttúruvernd í gegnum daglegt starf eða upplifun og fræðslu.

Sýnt verður bland af verkefnum barnanna en einnig gögnum sem leikskólakennara söfnuðu saman s.s. upptökur (hljóð og myndbönd), ljósmyndir og fleira.

Einnig verða til sýnis hönnunarferli og uppbygging í samvinnu við foreldra frá náttúralegum leikgarði sem varð til við Krílakot í sumar til að gefa innsýn í hugmyndfræði á bak við þessa tegund af leikgörðum.  
Til sýnis verða aðferðir og óhefbundnar leiðir til að endurnýta sorp eða úrgang við kennslu í leikskólum eða fræðsluaðferðir.

Ýmsar innsetningar leika sér að skilningarvitum gesta og gangandi og eru gagnvirk til að gefa dýpri innsýn í eigin reynsluheim og hugmyndafræðina á bak við náttúrulega leikgarða og "experiential learning". Einnig eru til staðar gagnvirkt vinnusvæði þar sem gestir og gangandi geta tekið þátt í og skapað sína eigin hugarsmíð.

Á sýningunni er einnig ítarleg kynning um eko- eða úti leikskóla og náttúrulega leikgarða.

Menningarráð Eyþings er stuðningsaðili sýningarinnar.

George Hollanders & Sharka Mrnakova
Nánari upplýsingar veitir George i síma 892 6804




Verksmiðjan á Hjalteyri
http://www.verksmidjan.blogspot.com
https://www.facebook.com/pages/Verksmi%C3%B0jan-%C3%A1-Hjalteyri/92671772828
https://www.facebook.com/event.php?eid=153838708036850


george_g.jpg


Starfslaun listamanna 2012 - umsóknarfrestur 3. október

 

Starfslaun listamanna

 

Umsóknarfrestur rennur út mánudaginn  3. október 2011, kl. 17.00.

Hér með eru auglýst til umsóknar starfslaun listamanna sem úthlutað verður árið 2012, í samræmi við ákvæði laga nr. 57/2009.

Starfslaun eru veitt úr sex sjóðum, þeir eru:

 

1.   launasjóður hönnuða
2.   launasjóður myndlistarmanna
3.   launasjóður rithöfunda
4.   launasjóður sviðslistafólk
5.   launasjóður tónlistarflytjenda
6.   launasjóður tónskálda

 

Auk starfslauna er sjóðunum heimilt að veita ferðastyrki.

Sækja skal um listamannalaun á vef Stjórnarráðsins, vefslóðin er: http://umsokn.stjr.is  umsóknarfrestur er til kl. 17.00, mánudaginn 3. október 2011.

 

Rafrænt umsóknareyðublað fyrir listamannalaun verður aðgengilegt innan tveggja vikna.

Fylgigögn með umsókn sem ekki er hægt að senda rafrænt skulu berast skrifstofu stjórnar listamannalauna, Hverfisgötu 54, 101 Reykjavík, fyrir  kl. 17.00, mánudaginn 3. október 2011, sé um póstsendingu að ræða gildir dagsetning póststimpils.

 

Hafi umsækjandi hlotið starfslaun áður, verður umsókn því aðeins tekin til umfjöllunar að framvinduskýrslu vegna fyrri starfslauna hafi verið skilað til stjórnar listamannalauna, sbr. ákvæði 4. gr. laga um listamannalaun nr. 57/2009.

Einungis er unnt að sækja um starfslaun fyrir sama verkefni í einn sjóð.

 

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/2009 er stjórn listamannalauna heimilt að færa umsóknir á milli sjóða. Slíkt verður gert í samráði við umsækjanda.

 

Lög um listamannalaun og reglugerð er að finna á heimasíðu stjórnar listamannalauna:www.listamannalaun.is

Nánari upplýsingar veittar á skrifstofunni í síma 562 6388.

Stjórn listamannalauna 18. ágúst 2011.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband