KvikYndi (Kvikmyndaklúbbur Akureyrar) sýnir Rauðu skóna í Hofi

red_shoes.jpg

KvikYndi, Bíó Paradís og Menningarhúsið Hof hafa tekið höndum saman og ætla
að bjóða upp á kvikmyndasýningar í vetur. Sýningarnar fara fram í Hamraborg,
stóra sal Hofs, í fullkomnum hljóð og myndgæðum. Andrúmsloft kvikmyndanna
verður fært í Hof og leitast verður eftir að skapa notalega stemningu.


Rauðu skórnir (The red shoes) 1948  sýnd miðvikudaginn 21. september kl. 20

Leikstjóri: Michael Powell
Aðalhlutverk: Anton Walbrook, Marius Goring og Moira Shearer

Fyrsta myndin sem sýnd verður í Hofi er breska myndin Rauðu skórnir (e.The
red shoes) frá árinu 1948. Myndin er lauslega byggð á samnefndu ævintýri
H.C. Andersen, en er einnig talin innblásin af sambandi ballettdansaranna
Sergei Diaghilev og Diana Gould. Diaghilev bað hana að ganga í ballettflokk
sinn en hann lést áður en af því varð. Gould varð síðar eiginkona
fiðlusnillingsins Yehudi Menuhin.

Rauðu skórnir hefur verið innblástur fyrir marga af þekktustu leikstjórum
samtímans og til dæmis hefur Martin Scorsese ítrekað nefnt hana sem sína
uppáhaldsmynd og 2009 stóð hann að endurgerð hennar og hefur hún verið sýnd
víða. Annar leikstjóri, Brian De Palma, hefur einnig nefnt hana sem sína
uppáhaldsmynd.

Rauðu skórnir þótti á sínum tíma einstaklega vel unnin kvikmynd. Hinn
víðfrægi tökumaður Jack Cardiff myndaði og notaðist við Technicolor tæknina
sem þá var ný. Scorsese hefur bent á að þetta sé ein fegursta litmynd sem
gerð hafi verið.

Myndin er einnig viðurkennd sem ein af sárafáum kvikmyndum sem tekur ballett
alvarlega, en fjölmargir dansarar Konunglega ballettsins í Bretlandi koma
fram í henni.

Miðasala fer fram https://midi.is/sale/tickets.aspx?s=%2fImKipYAViwYfNNrMVaOeAv8EUN%2fag4JyjC
%2bYrfgu%2b85qDhU9rzpgA%3d%3d
hér og í miðasölu Hofs, s. 450 1000.

Miðaverð: 1.200 kr.

Fyrir námsmenn og fyrir félaga í KvikYndi: 1.000 kr.

Bíó Paradís við Hverfisgötuna í Reykjavík hefur heldur betur fest sig í
sessi sem hjarta kvikmyndamenningar á Íslandi á því ári sem það hefur verið
starfrækt. Þar eru sýndar nýjar og sígildar kvikmyndar sem rata sjaldan í
hin almennu bíóhús. KvikYndi (Kvikmyndaklúbbur Akureyrar) hefur verið
starfræktur í fjögur ár og tilgangur félagsins er að bjóða félögum sínum upp
á sýningar á áhugaverðum kvikmyndum sem ekki standa til boða með öðrum
hætti. Félagið stendur fyrir virku samstarfi við aðra kvikmyndaklúbba og er
vettvangur umræðna um allt sem viðkemur kvikmyndum og kvikmyndamenningu og
stendur einnig fyrir fyrirlestrum og námskeiðum eftir því sem tilefni gefst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband