Listumfjöllun um sýninguna Rembrandt and Degas - Portrait of the Artist as a Young Man

f_exhibition1.jpg

Listumfjöllun - gagnrýni
Pálína Guðmundsdóttir skrifar.

Rembrandt and Degas - Portrait of the Artist as a Young Man. Sýningin var sett upp í Rijksmuseum í Amsterdam í október 2011. Þaðan fór hún til Clark Art Institute í Williamstown í Massachsetts (13. nóvember 2011 - 5. febrúar 2012)  og þaðan til Metropolitan Museum of Art í New York (23. febrúar - 20. mai 2012) Portrait of the Artist as a Young Man.

Sýningin sýnir myndverk tveggja ungra listamanna og sjálfsmyndir þeirra. Þeir eru báðir rúmlega tvítugir. Sýnd eru 22 verk, ellefu eftir hvorn þeirra. Málverk, grafík og teikningar þeirra beggja voru smekklega hengdar upp í fallegum nýuppgerðum sal safnsins í Amsterdam. Safnið hafði lengi verið lokað þar sem verið var að endurgera það og því tilhlökkunarefni að koma þangað aftur. Myndunum var öllum blandað saman svo maður sá ýmist málverk eftir Rembrandt eða Degas innanum pappírsverk þeirra beggja.


Rembrandt van Rijn lifði 1606 - 1669 í Hollandi en Edgar Degas 1834 - 1917 í Frakklandi það var því nokkuð óvænt að sjá þá þarna á samsýningu. Degas gafst upp á náminu í École des Beaux-Arts í París og fór í þriggja ára sjálfsnám til Ítalíu. Þar féll hann gjörsamlega fyrir verkum Rembrants eftir að hafa kynnst þeim í mýflugumynd og byrjaði að kopíera teikningar hans og ætingar af miklum áhuga og nákvæmni. Þetta hafði djúpstæð áhrif á hann sem listamann þó einhverjir hafi bennt á að andlitsmyndirnar hans minni meira á verk eftir Raphael heldur en Rembrandt þar sem hann var fyrirmyndin í teikningu í Frakklandi. Stúdía Degas á notkun ljóss og skugga,  brotnum línum og að fanga  stemmingu eins og í teikningum Rembrandts sýnir sterk áhrif og jákvæða þróun á verk hans jafnvel síðar þegar hann fór út á braut Impressionismans.

f_exhibition2.jpg

Rembrandt bjó fyrst í hinum fræga háskólabæ Leiden þar sem hann fæddist og flutti svo til Amsterdam og var þar til dauðadags. Hann naut gríðarlegrar velgengni framan af og varð auðugur en síðan færðust dökkir skuggar yfir líf hans og hann dó frátækur og óhamingjusamur. Sjálfsmyndir hans þykja í hæsta gæðaflokki evrópskarar listar og er ásamt verkum van Goghs mikilvægustu gersemar Hollands og draga milljónir ferðamanna til landsins ár hvert. Fyrir utan einstaka notkun á ljósi og skuggum og tæknilega fullkomnun þá er styrkur og töfrar sjálfsmynda hans lýsingin á mannlegum tilfinningum. Hann sýnir allan skala mannlegra tilfinninga, allt frá galvöskum unglingi sem vill sigra heiminn og síðar hrokafullum myndlistarmanni sem gleymir sér í lystisemdunum og firrist við vegna velgengninnar. Síðar sorgmæddan mann sem hefur misst sína ástkæru eiginkonu Saskíu og son sinn Titus. Að lokum er það dapurt og fátækt gamalmenni sem bíður svangur dauða síns. Rembrandt var átrúnaðargoð margra samtíma listamanna Degas vegna þess hve óhefðbundinn hann var og utan við þá list sem merkilegust þótti á þeim tíma. Rembrandt fór alltaf sínar eigin leiðir bæði í efnisvali og tækni og var það ein af ástæðum þess hve vinsæll hann varð sem fyrirmynd síðar. Degas og margir af samferðamönnum hans þoldu illa hefðina og vildu finna nýjan tjáningamiðil sem lýsti augnablikinu með stemmingu þess og birtu þá stundina. Hann hreyfst af ballettmeyjum og fór þá inn á ókönnuð mið í viðfangsefni, eins og Rembrandt sjálfur gerði þegar hann málaði eigin andlit og sálarlíf þess.

Sýningin, var falleg og áhugaverð og sýndi hvernig áhrifa Rembrandts gætir í list annars listamanns tæpum tvöhundruð árum seinna. Og hve ferskur, sterkur og mikilfenglegur Rembrandt er enn í dag, rúmlega fjögur hundruð árum eftir fæðingu hans. Hún dregur líka fram gæði Degas sem andlitsmyndamálara en það er ekki beinlínis það sem hann er þekktur fyrir. Þetta er sýning sem ég hefði viljað sjá oftar og geta setið og velt fyrir mér en í staðinn sá maður hana í tölverðum mannfjölda og þrengslum eins og venja er á Rijksmuseum í Amsterdam.

Ég hvet alla þá sem tök hafa á að sjá sýninguna í New York og áhuga hafa á þessum listamönnum að gera það. Ég hef mikinn áhuga á nútímalist en með jöfnu millibili verð ég að skoða gömlu meistarana og finnst það að jafnaði vera eins og að fá ferskt loft og næringu eftir innilokun og loftleysi. Þess vegna eru þeir sígildir í orðsins fyllstu merkingu.
Gallar sýningarinnar var fyrir utan smægðina að í framhaldinu langaði mig að sjá stóra sýningu með andlitsmyndum Rembrandts eingöngu annars vegar og hins vegar aðra jafn stóra með ballettmyndum og styttum Degas. Kannski var það ekki galli heldur bara kostur.
 
Þessi blanda af verkum Rembrandts og Degas að frumkvæði Rijksmuseum gekk upp en oft er þreytandi þegar verið er að sulla saman alla vega list, listamönnum og listformum á sýningum. Sá ég átakanlega mislukkað dæmi um það í Koninlijk Museum voor Schone Kunsten í Antwerpen i fyrra sumar, þegar einhver mér óþekkt gömul stjarna í borginni fékk að bregða á leik og troða eigin myndum í alla salina innan um fasta safneignina. Mér finnst oftast ekkert trompa einkasýningar í þeim efnum, jafn vel þó ég hafi séð margar frábærar samsýningar. Í einkasýningum finnst mér oft list viðkomandi listamanna njóta sín best, alla vega þeirra sígildu.

Myndirnar eru fengnar af vef Clark Art Institute

Myndbandið er fengið af vef Rijksmuseum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband