Færsluflokkur: Menning og listir

Davíð Hólm Júlíusson og Freyja Reynisdóttir í Kaktus á Akureyrarvöku

11951368_736019869854272_1565168717799056923_n

Þau Davíð Hólm Júlíusson og Freyja Reynisdóttir sýna listir sínar í Kaktus á Akureyrarvöku. Húsið opnar kl. 22.00 á laugardagskvöld og skömmu síðar hefjast tónleikar.

Um tónleikahald sér einn fremsti raftónlistarmaður landsins Davíð Hólm Júlíusson, einnig þekkur sem DAVEETH. Nýjasta plata hans er Mono Lisa, forvitnir geta hlustað á hana hér:
https://daveeth.bandcamp.com/album/mono-lisa

Freyja Reynisdóttir, listamaður og ein Kaktusa sýnir videóverkið DÓTTIR sama kvöld. Videóverkið verður einnig til sýnis á SÚPER SUNNUDEGI sem haldinn verður í annað sinn! Gestum er velkomið að stoppa við í kaffisopa og njóta þess að lesa, lita, hlusta, spila og spjalla. Svo er aldrei að vita nema DJ KÚL verði með síðdegissett og aðrir listamenn með óvæntar uppákomur. Opið frá kl. 14:00 - 17:00.

ATH. Á föstudag stendur Kvikmyndaklúbburinn Kvikyndi fyrir bíósýningu á langa gangi kl. 17:30. Bíómyndin sem heitir Purge er frá árinu 2012 og hefur hlotið magnaða dóma. Hún er byggð á bókinni Hreinsun eftir Sofi Oksanen.

Ungir sem aldnir eru hjartanlega velkomnir ♥ Gleðilega akureyrarvöku.

Kaktus er styrktur af Akureyrarstofu.

https://www.facebook.com/events/830295567067802


Höfuðverk í Sal Myndlistarfélagsins

11049596_910333259039678_425806961722884074_n

Myndlistarhópurinn Höfuðverk samanstendur af 9 konum sem allar voru saman í Myndlistarskólanum á Akureyri. Hópurinn hefur sýnt saman nokkrum sinnum og í hvert sinn leitast við að hafa sýningarnar sem fjölbreyttastar enda listakonurnar eins ólíkar og þær eru margar. Á sýningum hópsins hafa meðal annars verið málverk, innsetningar, veggverk, skúlptúrar o.fl.

Í þessari samsýningu sem ber titilinn Höfuðverk taka 6 konur þátt, þær Áslaug Anna Jónsdóttir, Ásta Bára Pétursdóttir, Hrafnhildur Ýr Denke, Hrönn Einarsdóttir, Telma Brimdís Þorleifsdóttir og Ragney Guðbjartsdóttir

Sýningin opnar á Akureyrarvöku, laugardaginn 29. ágúst klukkan 14:00.

Velkomin!

https://www.facebook.com/events/1479250352376673


Móðir

Móðir

Móðir er samsýning tveggja ljósmyndara, Daníels Starrasonar og Magnúsar Andersen á Akureyrarvöku 2015, helgina 29-30. ágúst. Sýningin varð til í kringum þema Akureyrarvöku í ár, sem er Dóttir, móðir, amma en á sýningunni fjalla Daníel og Magnús í máli og myndum um líf mæðra og barna þeirra á tveimur stöðum; Akureyri og London. Mæðurnar koma úr ýmsum áttum, eru á öllum aldri og búa við mismunandi aðstæður. Ein móðirin er til að mynda prestur, önnur er ljósmyndari sem tekur barn sitt með sér hvert sem hún fer og enn önnur eignaðist sitt fyrsta barn þegar hún var 48 ára gömul.

Ljósmyndasýningin Móðir er önnur sýningin sem Daníel og Magnús halda í sameiningu, en sýningin Íslenskt tónlistarfólk var sýnd í Populus Tremula og á Kex Hostel árið 2013. Þeir hafa auk þess haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum saman og í sitt hvoru lagi.

Daníel er fæddur á Húsavík árið 1987, hann eignaðist sína fyrstu myndavél á barnsaldri en áhuginn kviknaði að mestu á meðan hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri. Hann nam við Medieskolerne í Danmörku á árunum 2011-2015 og starfar nú sem ljósmyndari á Akureyri. Daníel hefur verið iðinn að skrásetja íslenskt tónlistarlíf, bæði með tónleikaljósmyndun og portrettmyndum af íslensku tónlistarfólki.

 

Magnús fæddist í Noregi árið 1990 og ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Hann hefur síðan úr barnæsku haft mikinn áhuga á ljósmyndun. Eftir nám við Menntaskólann í Hamrahlíð flutti hann til Danmerkur og lærði ljósmyndun við Medieskolerne. Han býr nú í London og vinnur sem sjálfstætt starfandi ljósmyndari og aðstoðarmaður. Þess á milli myndar hann sín eigin verkefni og finnst skemmtilegast að taka portrettmyndir af ýmsum áhugaverðum einstaklingum.

Sýningin Móðir verður haldin á Ráðhústorgi 7 á Akureyrarvöku og verður opin laugardaginn 29. ágúst og sunnudaginn 30. ágúst frá kl. 14 til kl. 17.


Óskað eftir verkum á "Salon des Refusés" í Deiglunni

11218163_1006057142738174_796634250057844969_n

Gilfélagið stendur fyrir samsýningunni "Salon des Refusés" í Deiglunni. Sýningin opnar á AKUREYRARVÖKU 2015. Laugardaginn 29. ágúst kl. 14:00.
Sýningin endurspeglar hvað listamenn á Akureyri og nærsveitum eru að fást við þessa stundina. Fjölbreytt og áhugaverð sýning!

Ennþá er pláss fyrir fleiri listamenn, skráning á gilfelag@listagil.is

Verkum þarf að skila í Deigluna á mánudaginn 24. ágúst eða samkv. samkomulagi.

Stjórn Gilfélagsins.

 


A! Gjörningahátíð haldin á Akureyri

11855619_987122054642970_3333175628423377327_n

A! Gjörningahátíð verður haldin í fyrsta sinn dagana 3. - 6. september 2015. Stefnt er að því að hún verði að árlegum viðburði. Að hátíðinni standa Listasafnið á Akureyri, Leiklistarhátíðin LÓKAL, Reykjavík Dance Festival, Menningarfélag Akureyrar og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar með stuðningi frá Myndlistarsjóði.

Fjölbreyttir gjörningar myndlistarmanna og sviðslistafólks verða á A! og meðal þeirra sem fram koma eru Magnús Pálsson, Anna Richardsdóttir, Katrín Gunnarsdóttir, Snorri Ásmundsson, Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir, Marta Nordal, Freyja Reynisdóttir & Brák Jónsdóttir, Örn Ingi Gíslason, Hekla Björt Helgadóttir, Choreography Rvk og Kriðpleir.

A! fer fram víðsvegar um Akureyri og teygir anga sína til Hjalteyrar. Meðal annars verða settir upp gjörningar í kirkjutröppunum, uppskipunarskemmu á Oddeyri, Verksmiðjunni á Hjalteyri og nokkrir gjörningar verða Menningarhúsinu Hofi og í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Auk þess verður „off venue” dagskrá í Listagilinu og víðar og á sama tíma fer fram vídeólistahátíðin Heim.

Dagskrá A! verður gefin út í lok ágúst og mun hátíðin marka lokin á Listasumri sem staðið hefur frá byrjun júní. Ókeypis verður á öll verkin á A! 

Nánari upplýsingar veita Guðrún Þórsdóttir, Ragnheiður Skúladóttir, Bjarni Jónsson, Jón Páll Eyjólfsson og Hlynur Hallsson.

listak.is


Tónleikar í Sal Myndlistarfélagsins

11053425_907448759328128_1400272629388009308_o

Verkið Brothætt er samið í kringum Flísafóninn sem ég bjó til ásamt pabba mínum Emil Valgarðsyni í sumar. Flísafónn er þriggja áttunda ásláttarhljómborð úr gólf-flísum. 
Stórvinur minn Þorvaldur Örn Davíðsson sem er nýútskrifað tónskáld úr LHÍ samdi þrjú þemu sérstaklega fyrir flísafón sem að ég nota í verkinu. Ásamt flísafóninum mun ég notast við lifandi bakgrunnshljóð, allskonar slagverkshljóðfæri ofl.

Húsið opnar klukkan 20:00 en tónleikarnir hefjast 20:30. Salur Myndlistarfélagsins er til húsa í Listagilinu, Kaupvangsstræti 10. 

Fríkeypis inn! 

Tónleikarnir eru í boði skapandi sumarstarfa Akureyrarbæjar.

https://www.facebook.com/events/865079116901297


30 myndlistarmenn sýna á haustsýningu Listasafnsins á Akureyri

large_stefanboulter.aron.s

Í mars síðastliðnum auglýsti Listasafnið á Akureyri eftir umsóknum um þátttöku í haustsýningu safnsins sem stendur yfir dagana 29. ágúst - 18. október 2015. Forsenda umsóknar var að listamenn búi eða starfi á Norðurlandi eða hafi tengingu við svæðið. Alls bárust hátt í 90 umsóknir og sérstaklega skipuð dómnefnd valdi 30 listamenn og verk á sýninguna. Dómnefndina skipuðu Aðalheiður S. Eysteinsdóttir myndlistarkona, Alice Liu myndlistarkona og rekstraraðili gestavinnustofanna Listhúss á Ólafsfirði, Arndís Bergsdóttir hönnuður og doktorsnemi í safnafræði, Hlynur Hallsson myndlistarmaður og safnstjóri Listasafnsins á Akureyri og Ólöf Sigurðardóttir forstöðukona Hafnarborgar menningar– og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar.

Listamennirnir sem taka þátt í haustsýningunni vinna með ólíka miðla og aðferðir, hér gefur að líta málverk, innsetningar, vídeóverk, leirverk, skúlptúra, ljósmyndir, skjáverk, textílverk, teikningar og bókverk. Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru: Arna Guðný Valsdóttir, Arnar Ómarsson, Baldvin Ringsted, Bergþór Morthens, Björg Eiríksdóttir, Eiríkur Arnar Magnússon, Freyja Reynisdóttir, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Guðrún Þórisdóttir, Gunnhildur Helgadóttir, Helga Pálína Brynjólfsdóttir, Heiðdís Hólm, Hekla Björt Helgadóttir, Joris Rademaker, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir, Klængur Gunnarsson, Marina Rees, Ragnheiður Þórsdóttir, Rannveig Helgadóttir, Rósa Sigrún Jónsdóttir, Rósa Júlíusdóttir, Sam Rees, Stefán Boulter, Unnur Óttarsdóttir, Victor Ocares, Þórarinn Blöndal, Þórgunnur Oddsdóttir, Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir og Þóra Sigurðardóttir. Sýningarstjóri er Hlynur Hallsson.

Haustsýningar voru lengi fastur liður í sýningarhaldi hér á landi og erlendis lifa þær víða enn góðu lífi. Haustsýning Listasafnsins á Akureyri verður tvíæringur og endurvekur þá góðu hefð að sýna hvað listamenn á svæðinu eru að fást við. Hún verður því fjölbreytt og mun gefa góða innsýn í líflega flóru myndlistar á Akureyri og Norðurlandi. Sýningin opnar á Akureyrarvöku laugardaginn 29. ágúst kl. 15 og stendur til sunnudagsins 18. október 2015. Sýningin er hluti af Listasumri 2015.

www.listak.is


Jónína Björg Helgadóttir sýnir í Útibúinu

11888034_648773625257083_5996134223388140393_n

Jónína Björg Helgadóttir sýnir minni útgáfuna af stuttri ferð um lítinn hluta af heiminum, á sýningunni Knænska í Gallerí Ískáp, Útibúinu. Sýningin opnar kl. 14 laugardaginn 22. ágúst og er opin til kl. 17. Aðeins opið þennan eina dag! Útibúið verður staðsett í Listagilinu, fyrir utan Kaktus. Sýningin er hluti af Listasumar á Akureyri 2015

Jónína Björg útskrifaðist úr fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri síðastliðið vor. Hún er einn af stofnendum og umsjónarmönnum lista- og menningarýmisins Kaktus og hefur í sumar, auk þess að vinna að eigin listsköpun, staðið að verkefninu RÓT sem fór fram í Ketilhúsinu í júní og júlí. 

www.joninabjorg.com

https://www.facebook.com/events/1453995244909827


Opnanir og tónleikar á Listasumri um helgina

LefterisYakoumakis-768x1024

Listasumar á Akureyri heldur áfram og margt er um að vera um helgina. Fimmtudaginn 13. ágúst verður ljóðaupplestur í Davíðshúsi Gef mér ást til alls hins góða – trúin í ljóðum Davíðs Stefánssonar kl 15, umsjón með dagskrá er í höndum Valgerðar H. Bjarnadóttur. Og í kvöld verða í Deiglunni í Listagilinu Vandræðagangur í Gilinu, tónleikar með Vandræðaskáldunum og hefjast tónleikarnir kl. 21 þar sem þau munu flytja lög úr væntanlegri sýningu sinni Útför – saga ambáttar og skattsvikara og eru tónleikarnir ókeypis.

Um helgina, föstudag verður opnun á sýningunni Sápa í Útibúinu á við Lista og menningarrýmið Kaktus þar sem að ung og upprennandi listakona, Brák Jónsdóttir mun bjóða óhreinum gestum upp á allsherjar þvott og hefst þvotturinn kl. 13.

Á laugardaginn er loka helgi tveggja sýninga í Sal Myndlistafélagsins, Fyrst og fremst ég er, ljósmyndir Siggu Ellu samanstanda af portrettmyndum af tuttugu og einum einstaklingi með Downs heilkennið á aldrinum 9 mánaða til 60 ára. Náttúrupælingar 1 er einnig sýning í Sal Myndlistafélagsins og þar sýnir Stefán Bessason olíumálverk, landslögð.

Gríski listamaðurinn Lefteris Yakoumakis opnar sýninguna “Íbúðarmálverk og hugsanir um ferðina í kjölfarið” í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri á laugardaginn 15. ágúst þar sem að hann veltur upp efasemdum sínum um birtingarmynd kapitalismans í íslensku samfélagi.  Lefteris Yakoumakis er fæddur í Aþenu, Grikklandi árið 1984. Hann nam myndlist við Aristotle Háskólann í Thessaloniki þar sem hann sérhæfði sig í málverki. Hann hefur sýnt verk sín í Grikklandi, Bandaríkjunum og á Íslandi. Árið 2010 var gestalistamaður í Herhúsinu á Siglufirði og síðan þá hefur hann dvalist þar reglulega og unnið við fiskvinnslu.

Í Deiglunni í Listagilinu opnar Sverrir Karlsson ljósmyndasýninguna Landshorn á laugardaginn kl. 14. Stefán er áhugaljósmyndari og um ræðir landslagsmyndir héðan og þaðan af landinu.

Græni Hatturinn stendur fyrir sínu þar sem að Hundur í óskilum munu spila fyrir gesti á föstudaginn og Hvanndalsbræður á laugardagskvöldið.

Þetta og margt fleira framundan á Akureyri á næstunni.

http://www.listasumar.is


Listamannaspjall með Mireyu Samper í Listasafninu á Akureyri

11855842_984887341533108_2625405463450508792_n

Sýningu Mireyu Samper, Endurvarp, lýkur næstkomandi sunnudag 16. ágúst. Af því tilefni verður boðið upp á listamannaspjall með Mireyu í Listasafninu laugardaginn 15. ágúst kl. 15 og er aðgangur ókeypis.

Mireya Samper útskrifaðist frá Ecole d’Art de Luminy í Marseille í Frakklandi 1993. Hún stundaði einnig nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987-90 og Academia di Bologna á Ítalíu 1992. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og erlendis auk þess að taka þátt í fjölmörgum samsýningum. Mireya er stofnandi, framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi alþjóðlegu listahátíðarinnar Ferskir vindar.

Sýningin Endurvarp endurspeglar ferli og áhrif sem Mireya hefur unnið með og upplifað, bæði á Íslandi og í Japan, undanfarin misseri. Fjallað er um innri og ytri kosmós, óendanleikann, eilífðina, endurtekninguna og hringrásina – innri og ytri hringrás.

Á sýningunni er að finna innsetningu, tví- og þrívíð verk eftir Mireyu ásamt verkum eftir japönsku gestalistamennina Tomoo Nagaii sem samdi hljóðverk með innsetningunni og vídeó verk eftir Higuma Haruo unnið uppúr samvinnu hans og Mireyu með sömu innsetningu. Innsetningin er einskonar „íhugunarrými“ – gestum sýningarinnar býðst að fara inn í rýmið, setjast eða leggjast og gefst þar tækifæri til íhugunar. Þá er einnig japanska gjörningalistakonan Kana Nakamura þátttakandi í sýningunni. Pappírsverkin á sýningunni eru öll unnin á japanskan washi pappír og flest þeirra með tækni sem Mireya hefur þróað og gerir þau ljóshleypin og kallar fram nýja eiginleika í pappírnum.

Sýningin er opin kl. 10-17 alla daga fram að lokun á sunnudaginn. Aðgangur er ókeypis.

http://www.listak.is

https://www.facebook.com/events/912396285500738


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband