Færsluflokkur: Menntun og skóli

Nemendur Listhönnunardeildar Myndlistaskólans á Akureyri sýna í Safnahúsinu á Húsavík

 Safnahusid

MENNINGARRÁÐ EYÞINGS - MYNDLISTASKÓLINN Á AKUREYRI

Sýning á minjagripum og nytjaverkum nemenda í SAFNAHÚSINU Á HÚSAVÍK

Að frumkvæði Ragnheiðar Jónu Ingimarsdóttur, menningarfulltrúa Eyþings, var ákveðið að ráðast í átak, sem stuðlað gæti að atvinnu- og nýsköpun á starfssvæði Eyþings. Afraksturinn var verkefnið „Þingeyskt og þjóðlegt“ samstarf verkefnahópanna, Þingeyskt handverk á Kópaskeri, Þjóðlegum arfi og Svartárkoti-menningu, náttúru/Kiðagili, Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og Myndlistaskólans á Akureyri. Verkefnið snerist um að hanna minjagripi og þjóðlega vöru sem dragi fram sérstöðu svæðanna í Þingeyjarsýslu með tilvísun til gripa á Byggðarsafni N. Þingeyinga og til Útilegumanna sýningar í Kiðagili.
Stofnað var til samstarfs við Myndlistaskólann á Akureyri með það að markmiði að fá inn í verkefnið faglega þekkingu á sviði hönnunar og jafnframt gefa nemendum tækifæri til að vinna að raunverulegu verkefni og auka þekkingu þeirra á menningu svæðisins. Leitast var við að nýta þá fagþekkingu sem er á svæðinu og var Brynja Baldursdóttir hönnuður og myndlistamaður fengin til að hafa umsjón fyrir hönd Myndlistaskólans. Hún er búsett á Siglufirði.
Formleg kennsla í grafískri hönnun hófst við Myndlistaskólann á Akureyri árið 1992 en fram að því hafði aðeins verið kennd grafísk hönnun við Myndlista og handíðaskóla Íslands frá 1961. Sú kennsla hélt áfram við Listaháskóla Íslands sem var stofnaður árið 1998. Oft er rætt um íslenska hönnun sem nýtt fyrirbæri en þó hafa íslenskir hönnuðir verið starfandi allt frá þriðja áratugnum. Íslensk hönnun hefur fylgt þróun menningar í landinu sem byggði á grunni sveitamenningar sem hefur þróast í átt að alheimsvæðingu. Íslensk hönnun er orðin útflutningsvara í æ ríkara mæli og stendur jafnfætis því besta sem gerist erlendis á sviði hönnunar. Það er farið að gæta sterkrar þjóðernisvitundar og hönnuðir sækja sér í auknum mæli innblástur í gömul munstur og hefð í handverki. Þegar er komin skemmtileg reynsla á samstarf af þessu tagi sem er vænlegt til árangurs. Má þar nefna samstarfsverkefni LHÍ og „Beint frá Býli“ og áfanga í Listaháskólanum að frumkvæði Lilju Pálmadóttur að byggja framsækna hönnun á gripum í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Það er skemmtileg viðbót að Myndlistaskólinn á Akureyri leggi sitt lóð á vogarskálarnar í vöruhönnun byggðri á þjóðlegum grunni og sérstöðu Þingeyjarsýslna. Útkoman er; fjölbreyttar hugmyndir sem eru vel til þess fallnar að fara í framleiðslu. Þetta samstarf styrkir samkeppnisstöðu og fjölbreytni í verðmætasköpun og bendir á vaxtarbrodda og möguleika svæðisins til nýsköpunar.
Sýningin er opin almenningi laugardaginn 6. febrúar 2010 kl. 13.00-17.00 og frá kl. 13.00-16.00 dagana 7. - 13. febrúar.

MENNINGARRÁÐ EYÞINGS - MYNDLISTASKÓLINN Á AKUREYRI
Vöruhönnun - Þingeyskt og þjóðlegt
Listhönnunardeild Myndlistaskólans á Akureyri - Grafísk hönnun Kennari: Brynja Baldursdóttir, hönnuður og myndlistarmaður
Sýnendur:
Berglind H Helgadóttir Dagrún Íris Sigmundsdóttir Heiða Erlingsdóttir Herdís Björk Þórðardóttir Helgi Vilberg Helgason Karen Lind Árnadóttir Sindri Smárason Unnur Jónsdóttir Bergný Sjöfn Sigurbjörnsdóttir Guðfinna Berg Stefánsdóttir Guðmundur Valur Viðarsson.


Aðkomumaður: fyrirlestur listnámsbrautar VMA í Ketilhúsinu

Joris Rademaker
 
Föstudaginn 5. febrúar kl. 14.50 í Ketilhúsinu mun Guðrún Pálína Guðmundsdóttir flytja fyrirlestur um myndlistamanninn og kennarann Joris Rademaker. Sýning á verkum hans stendur yfir í Listasafninu á Akureyri.

Guðrún Pálína er starfandi myndlistarmaður og kennari á Akureyri. Hún hefur um árabil starfrækt Gallerí+ í Brekkugötu 35 á Akureyri ásamt Joris Rademaker. Hún nam myndlist í Svíþjóð og Hollandi en hefur mestmegnis starfað á Akureyri síðan.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þróun listar hollenska myndlistarmannsins Joris Rademaker og þau áhrif sem flutningur til Íslands hafði á list hans. Fyrirlesturinn er í tengslum við yfirlitssýningu hans „Aðkomumaður“, sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri. Joris verður einnig viðstaddur og talar um hugmyndafræði verkanna og vinnuferlið.

Joris vinnur oftast verk sín í seríum og vinnur með mismunandi þema t.d. form púsluspils eða skapalón úr auglýsingum. Hann hefur einnig unnið með matvæli eins og hnetur, spaghetti og kartöflur. Einnig hefur hann notað fundna hluti og notað tannstöngla í sína skúlptúra. Oftast vinnur hann með andstæður ljóss og skugga. Hreyfingin og rýmið er aðal uppistaðan í verkum Joris, óháð efnismeðferð. Hann bæði málar myndir og býr til skúlptúra og innsetningar.

Fyrirlestrarnir eru skipulagðir af kennurum á listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri í samvinnu við Listasafnið á Akureyri og Menningarmiðstöðina í Grófargili.
 

Ögrandi list og tilraunir til ritskoðunar, fyrirlestur í Ketilhúsinu


Myndir sem fanga: Ögrandi list og tilraunir til ritskoðunar

Þriðjudaginn 26. janúar klukkan 17:15 stendur Listasafnið á Akureyri fyrir fyrirlestri bandaríska fræðimannsins dr. Steven C. Dubin í Ketilhúsinu á Akureyri. Yfirskrift fyrirlestrarins er Myndir sem fanga: Ögrandi list og tilraunir til ritskoðunar ( e. “Arresting Images: Controversial Art and Attempts to Censor It”) og fer hann fram á ensku. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Dr. Dubin er mannfræðingur sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á sviði menningar, lista og safnafræða. Hann hefur beint sjónum sínum að ritskoðun og tjáningarfrelsi og bók hans um pólitíska list, Arresting Images: Impolitic Art and Uncivil Actions, vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 1992. Dubin hefur haldið fjölda fyrirlestra og ritað um umdeilda list, átök innan listheimsins og stuðning hins opinbera við listir. Dubin skrifar reglulega greinar fyrir Art in America auk þess að hafa rannsakað og fjallað sérstaklega um áhrif lýðræðisumbóta á menningarlíf í Suður-Afríku við fráhvarf aðskilnaðarstefnunnar.

Steven C. Dubin var prófessor í mannfræði við Fylkisháskólann í New York í 19 ár en hefur starfað sem prófessor í menningarstjórnun við Columbia Háskóla í New York frá 2005, auk þess að gegna rannsóknarstöðu við skólann á sviði afrískrar menningar. Hann er staddur hér á landi á vegum Fulbright stofnunar og námsbrautar í safnafræðum við félagsvísindadeild Háskóla Íslands.

Nánar á: http://www.listasafn.akureyri.is/uppakomur


Staður: Ketilhúsið, Listagilinu á Akureyri
Stund: Þriðjudaginn 26. janúar klukkan 17:15


Joris Rademaker í Listasafninu á Akureyri

_mg_3353_951996.jpg

Laugardaginn 16. janúar klukkan 15 opnar Listasafnið á Akureyri yfirlitssýningu á verkum hollenska myndlistarmannsins Jorisar Rademaker. 

Joris er fæddur í smábænum Eersel í Hollandi árið 1958 en hefur búið á Íslandi í hartnær tvo áratugi. Hann hefur fengist við myndlist síðan árið 1983 og einnig starfað sem myndlistarkennari á Akureyri um árabil. Undanfarin ár hefur hann starfrækt Gallerí+ á Akureyri ásamt Pálínu Guðmundsdóttur eiginkonu sinni. Joris var útnefndur bæjarlistamaður Akureyrar árið 2006. 

Myndlist Jorisar spannar ólíkar stefnur og rífur skörð í þá múra sem eitt sinn stóðu fyrir kynslóðabil andstæðra fylkinga. Hann vinnur með hugsanaflæði, bæði tvívítt og þrívítt, og styðst við fundna hluti og látlausan efnivið. Í byrjun var pallettan sterk en smám saman hefur hún orðið nær litlaus. Ákveðin stef eru könnuð í mörgum mismunandi útfærslum og byggja á formrænni einföldun sem á meira skylt við geómetríska abstraktsjón, eða De Stijl-skólann, og skynvilluleiki op-listarinnar en kaldrifjaða smættarhyggju. Ákveðin stef eru könnuð í mörgum mismunandi útfærslum og byggaja á formrænni einföldun þar sem möguleikar skynjunar og alls konar skynvilluleikir ráða ferðinni.

Við fyrstu kynni virðist þessi myndheimur Jorisar frekar óaðgengilegur þótt reglulega bregði fyrir bernskum fígúrum og malerískum, expressjónískum hvellum. Inn í hann fléttast einnig tvö vinsæl viðfangsefni sem heltóku myndlistina á níunda og tíunda áratugnum, nefnilega líkamslist (e. body-art) og auðkennispólitík (e. identity politics). Verkin virka stundum eins og litlir, viðkvæmir púðluhundar sem allt í einu sýna í sér vígtennurnar og eru ótrúlega ógnandi. Sársaukinn tekur við þar sem votti af væmni sleppir, pipraður með áhrifum afrískrar ættbálkalistar í staðinn þess að saltað sé í sárið að norrænum fantasið (þessi skírskotun í afríska skúlptúra byggir þó á meiri innlifun en tíðkaðist hjá Cobra-mönnum).* List Jorisar hefur samt engar beinharðar pólitískar blammeringar að geyma eða samfélagsgreinandi gegnumlýsingu. Hún margsnýst í leit sinni að staðsetningu sjálfsins sem reif sig upp með rótum og endurkastast nú milli tveggja heima, Hollands og Íslands, þar sem Joris hefur búið. Stráhattur van Goghs og skólufsur flækingsins, sem dúkka stundum upp, minna okkur á að hann er aðkomumaður. 

Í tilefni af sýningunni hefur Listasafnið á Akureyri gefið út 90 blaðsíðna bók með ítarlegri umfjöllun um feril og list Jorisar eftir Úlfhildi Dagsdóttur bókmenntafræðing og Hannes Sigurðsson forstöðumann Listasafnsins á Akureyri.

Sýningin stendur til 7. mars 2010 og er opin alla daga nema mánudaga frá 12-17.

Frekari upplýsingar gefur Hannes Sigurðsson forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri í síma 899-3386

ÆVI Í ULL: fyrirlestur og sýning


ÆVI Í ULL

 

Einstakt tækifæri til að kynnast ullarvinnslu og -framleiðslu á öldinni sem leið.

 

Kristinn Arnþórsson, ullarfræðingur, flytur fyrirlestur um ull og ullarframleiðslu á öldinni sem leið á Amtsbókasafninu á Akureyri, laugardaginn 9. janúar klukkan 14:00.

 

Um leið verður opnuð á Amtsbókasafninu sýning Iðnaðarsafnsins um ull og ullarframleiðslu á síðustu öld. Sýningin verður opin til 31. janúar.

 

Ævi Kristins er ofin í ull allt frá því hann lék sér við verksmiðjulækinn sem barn þar til hann lét af störfum sem ullarfræðingur. Eftir nám í Englandi hóf Kristinn störf við Gefjun þar sem hann hafði m.a. með höndum að blanda saman ullarhárum sauðkindanna til að búa til “sauðalitina” í ullargarni sem enn er notað í dag. Ennfremur hönnun á mynstri værðarvoða og margt fleira sem lítur að vinnslu og hönnun á ullarvörum. M.a. á Kristinn stóran þátt í hönnun á þeim varningi sem seldur var í vöruskiptum við Rússland og taldi milljónir af ullarvörum.

 

Fyrirlesturinn og sýningin eru á vegum Iðnaðarsafnsins á Akureyri með dyggum stuðningi Menningarráðs Eyþings.

Byggðastofnun styrkir atvinnurekstur kvenna

kvenna.jpg

Byggðastofnun í samstarfi við Handverk og hönnun, Hönnunarmiðstöð, Listaháskóla Íslands,  Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ímark og Útflutningsráð Íslands auglýsir eftir umsóknum um stuðning við markaðssetningu erlendis á íslensku handverki og hönnunarvörum.   Heildarráðstöfunarfé er tíu milljónir króna, hámarksstyrkur er tvær milljónir króna, en þó aldrei hærri en 50% af heildarkostnaði.

Markmið:

Að styðja við undirbúning og framkvæmd markaðsaðgerða erlendis á handverki og hönnunarvörum. Styrkjunum er ætlað að skapa aukin verðmæti og ný markaðstækifæri og eru liður í framkvæmd á aðgerð í Byggðaáætlun um stuðning við atvinnurekstur kvenna. 

Þátttökurétt:

Hafa konur og fyrirtæki í eigu kvenna (a.m.k. 50%) með lögheimili á starfssvæði* Byggðastofnunar.

Skilyrði:

Verk/vara verður að vera tilbúin til markaðssetningar erlendis og að framleiðsla verksins/vörunnar fari að hluta eða öllu leyti fram á Íslandi.

Við mat á umsóknum verður horft til eftirfarandi þátta: 

Að verk/vara sé vönduð og samkeppnishæf.  

Markaðsáætlun sé hnitmiðuð, raunhæf og vel skilgreind.          

Kostnaðar- og verkáætlun sé trúverðug og vel skilgreind.             

Möguleg framþróun.

Framkvæmd:           

Rýnihópur metur umsóknir og velur verk/vörur tíu umsækjenda.                

Vörurnar/verkin sem rýnihópurinn velur verða til sýnis dagana 18.-21. mars 2010.     

Dómnefnd velur a.m.k. fimm verk og fá eigendur þeirra fjárhagslegan og faglegan stuðning við að koma verkinu/vörunni  á markað erlendis.                       

Val dómnefndar verður tilkynnt 21. mars á lokadegi Hönnunarmars 2010.    


Umsóknum skal skilað rafrænt fyrir kl. 17:00 mánudaginn 1. febrúar 2010, umsóknareyðublað og leiðbeiningar eru á heimasíðu Byggðastofnunar www.byggdastofnun.is.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Elín Þórðardóttir í síma 4555400 eða  sigridur@byggdastofnun.is.   

Mikilvægt er að senda vandaða umsókn og er umsækjendum bent á að hægt er að fá ráðgjöf hjá Byggðastofnun, atvinnuþróunar-félögunum og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Útskriftarnemendur á listnámsbraut VMA sýna í Deiglunni


Góðan daginn,

Við vildum vekja athygli á að útskriftarnemendur á listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri halda sýningu á lokaverkefnum sínum helgina 28.-29. nóvember í Deiglunni. 
Opið verður frá kl. 14-18 báða dagana.
Allir velkomnir. 

Okkur þætti vænt um ef þið gætuð komið þessum upplýsingum á framfæri.

Með fyrirfram þökk,

Útskriftarnemar listnámsbrautar VMA.

Hjálmar H. Ragnarsson með fyrirlestur í Ketilhúsinu

Ketilhus_ArnaVals


Fyrirlestrar á haustdögum

Listmenntun

Hjálmar H. Ragnarsson mun flytja fyrirlestur í Ketilhúsinu í Listagili föstudaginn
20. nóvember 14.50. Í erindi sínu mun hann  fjalla um: Listmenntun almennt.
Fyrirlestrar á haustdögum, eru skipulagðir af kennurum á listnámsbraut
Verkmenntaskólans á Akureyri, í samvinnu við Listasafnið á Akureyri og
Menningarmiðstöðvarinnar í Grófargili.
Fyrirlesturinn er opinn  öllum og aðgangur ókeypis.


LISTASJÓÐUR DUNGAL auglýsir eftir umsóknum um styrki

sitelogo
 
Listasjóður Dungal var stofnaður árið 1992 í minningu Margrétar og Baldvins P. Dungal kaupmanns í Pennanum. Markmið sjóðsins er að styrkja unga og efnilega myndlistarmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref á listabrautinni.
 
Umsóknareyðublöð og nánari upplýsingar má nálgast á vef listasjóðsins www.listasjodur.is.
 
Umsóknum skulu fylgja ljósmyndir af verkum umsækjenda ásamt ferilsskrá og skal skila gögnum í pósthólf 148, 121 Reykjavík.
 
(Vinsamlegast athugið að ekki er tekið við gögnum í tölvupósti)
 
Umsóknarfrestur er til 7. desember 2009

Bergþór Morthens opnar sýningu á Café Karólínu

bergthor_930376.jpg

 

Bergþór Morthens

 

Jón um Jón frá Jóni til Jóns

 

07.11.09 - 04.12.09

 

Café Karólína // Kaupvangsstræti 23 // IS 600 Akureyri // 4612755

---

Bergþór Morthens opnar sýninguna “Jón um Jón frá Jóni til Jóns” á Café Karólínu laugardaginn 7. nóvember klukkan 15.

 

Sýningin “Jón um Jón frá Jóni til Jóns” samanstendur af portrett myndum unnum með blandaðri tækni. Verkin eru byggð á prófílmyndum þeirra sem heita Jón Sigurðsson á Facebook og hafa ýmsar skírskotanir til atburða, persóna eða aðstæðna úr samtíma okkar. Þjóðerniskennd, sjálfstæði og hetjudýrkun.

 

Bergþór Morthens útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2004 og hefur notað undanfarin ár eftir útskrift til að byggja upp myndlistarstefnu sína og hefur verið duglegur við að sýna, bæði á einka- og samsýningum.

 

Meðfylgjandi mynd er af einu verka Bergþórs.

 

Nánari upplýsingar veitir Bergþór í síma 691 6017 eða tölvupósti: bergthorm(hjá)simnet.is og á http://artnews.org/artist.php?i=4331

 

Næstu sýningar á Café Karólínu:

05.12.09 - 08.01.10                  Sveinbjörg Ásgeirsdóttir                 

09.01.10 - 05.02.10                  Anna Gunnarsdóttir

06.02.10 - 05.03.10                  Samúel Jóhannsson

06.03.10 - 02.04.10                  Guðbjörg Ringsted                 

03.04.10 - 30.04.10                  Kristján Pétur Sigurðsson

01.05.10 - 04.06.10                  List án landamæra

05.06.10 - 02.07.10                  Hanna Hlíf Bjarnadóttir

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband