21.12.2007 | 22:56
Opið hús í Freyjulundi á þorláksmessu
Það verður opið hús hjá Aðalheiði og Jóni Laxdal í Freyjulundi á þorláksmessu, þar sem vinum og velunnurum gefst færi á að setjast niður og spjalla yfir jólaglöggi eða reistarárvatni.
20.12.2007 | 09:10
Sæunn Þorsteinsdóttir sýnir málverk á Bókasafni Háskólans á Akureyri
Sæunn Þorsteinsdóttir opnaði málverkasýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri laugardaginn 15. desember. Sýningin mun standa til 19. janúar.
Sæunn er fædd 15. mars 1967. Hún stundaði nám í pappírsgerð og vinnu með pappír sem listform við Penland school of arts í Bandaríkjunum árin 1987 og 1988 og sömu ár stundaði hún nám í módelteikningu við Myndlistaskólann í Reykjavík. 1988-1993 var Sæunn við nám í textíldeild Myndlista - og handíðaskóla Íslands. Kennaraprófi lauk hún frá Háskólanum á Akureyri árið 2005 og fór á námskeið í sýningarhönnun og safnagerð á Háskólasetri Vestfjarða árið 2006.
Sæunn hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum í Reykjavík og einnig textílsýningu í Bergen í Noregi.
Auk þess að starfa við eigin listsköpun hefur hún m.a. kennt mynd- , hand- og tónmennt á Akureyri, Vogunum og í Bandaríkjunum, unnið á Minjasafninu á Akureyri og rekið listmunagallerýið Gallerý Listakot í Reykjavík.
Á sýningu Sæunnar eru myndir málaðar á árunum 2006 - 2007. Þetta eru akrílmyndir málaðar á striga og tré, svo og smámyndir unnar með blandaðri tækni. Myndirnar eru unnar útfrá hringformum sem sjást gjarnan í gömlum útskurði.
Bókasafn Háskólans á Akureyri er opið alla virka daga frá 8:00 - 18:00 og á laugardögum frá 12:00 - 15:00. Á milli jóla - og nýárs er safnið opið frá kl. 8-16
18.12.2007 | 08:40
Karen Dúa með NÝTT SJÓNARHORN í VeggVerki
Karen Dúa Kristjánsdóttir sýnir um þessar mundir verkið NÝTT SJÓNARHORN í VeggVerki á Akureyri. Hún segir um þetta verk:
"Verkið er einfalt en krefst þátttöku áhorfandans, það ber aðeins þann tilgang að fá vegfarandann til að staldra við og virða fyrir sér nánasta umhverfi.
Kannski hefðum við öll gott af dálítilli sjálfsskoðun af og til, að líta á hlutina frá öðru sjónarhorni en venjulega og jafnvel klifra upp á þak og sjá hvernig okkar eigin garður lítur út úr fjarlægð.
-Klifraðu upp, ekki vera smeykur því hæðin sýnist meiri en hún raunverulega er."
Hallur Gunnarsson setti Veggverk á fót fyrir rúmu ári síðan. Hallur býr í Vancouver, Kanada en starfar á Akureyri. Sýningarrýmið er á vesturhlið Strandgötu 17 á Akureyri og Jóna Hlíf Halldórsdóttir er sýningarstjóri VeggVerks.org
14.12.2007 | 08:51
Taktföst tortíming senn á enda
Sýningarstjóri: Francis McKee
Listamenn: Baldvin Ringsted Vignisson, Will Duke, Erica Eyres, Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Lorna Macintyre
Sunnudaginn 16. desember lýkur sýningunni Taktföst tortíming í Listasafninu á Akureyri. Þessi síðasta sýningu ársins er í höndum kraftmikilla ungra listamanna, sem valdir voru af Francis McKee, safnstjóra Nýlistasafnsins í Glasgow, einum virtasta og framsæknasta sýningarstjóra Skotlands. Listamennirnir eru allir fæddir á áttunda áratugnum og hafa stundað framhaldsnám við Glasgow School of Art en koma frá Kanada, Englandi, Skotlandi og Íslandi. Þótt þeir eigi sama nám að baki hefur hver og einn þeirra markað sér efnistök, áherslur og tækni. Baldvin fæst við spennandi tilraunir á mörkum hljóðs og ljóss, en Will skapar ógnvekjandi stafrænar hreyfimyndir. Húmor og sterk konsept einkenna margvísleg verk Jónu, Erica afmyndar fólk og kannar viðþolið gagnvart hinu ljóta á meðan Lorna skapar merkingu eða kerfi úr fundnum munum og óreiðu.
Veglegt blað var gefið út vegna sýningarinnar og má þar m.a. finna grein eftir sýningarstjórann þar sem hann fjallar hann um rotnun, grotnun, eyðingu, tæringu, visnun, ryð og elli, sem virðast ef til vill í fljótu bragði koma ungum listamönnum lítið við. En McKee heldur því fram að eyðingin sé nauðsynlegur jarðvegur fyrir nýjar leiðir. Rómantíkin hefur verið nefnd sem mögulegt andsvar við síðpóstmódernisma og sem mögulegur lífsstíll á 21. öld. Draumsýn um endurvakningu hennar er hugmynd sem fleygt hefur verið fram undanfarna áratugi í fleiri en einu samhengi. Þessir listamenn eru kannski sporgöngumenn rómantíkur en miklu líklegra er að þeir svipti plástrinum af kaunum þess samfélags sem virðist staðráðið í að tortíma sér.
Styrktaraðilar sýningarinnar eru: British Council, AB búðin, Ásprent, Bílaleiga Akureyrar, Eymundsson, Flugfélag Íslands, Flügger litir, Flytjandi, Iss ræstingar, Karólína Restaurant, Kaupþing, KPMG, Securitas og Sjóvá.
Nánari upplýsingar veitir forstöðumaður Listasafnsins, Hannes Sigurðsson, í síma 899-3386, netfang: hannes(hjá)art.is
Listasafnið á Akureyri er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Aðgangseyrir er kr. 400. Frítt á fimmtudögum.
13.12.2007 | 09:51
Sveinbjörg Hallgrímsdóttir sýnir á Bláu könnunni
Hringleikur á aðventu
Sveinbjörg Hallgrímsdóttir sýnir nýjar tréristur og sandblástursfilmur á Bláu könnunni í desember.
Meginþema verkanna er hringformið, sem er tákn óendanleikans. Margslungnar fléttur og þræðir spinnast saman og mynda hring, lokað ferli án upphafs og endis. Verkin bera með sér fyrirheit um uppskeru og nýja blómatíð.
Sveinbjörg Hallgrímsdóttir er fædd í Reykjavík 01.10.1957. Hún stundaði nám við Kennaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1974 til 1978. Á árunum 1986 til 1990 stundaði hún nám við Myndlistaskóla Reykjavíkur og þvínæst við málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1990 til 1992.
Frá árinu 1992 hefur Sveinbjörg verið með eigin vinnustofu. Í dag starfrækir hún vinnustofu sína og sýningaraðstöðu, ásamt Önnu Gunnarsdóttur, Gallerí Svartfugl og Hvítspóa í miðbæ Akureyrar.
Sveinbjörg er félagi í grafíkfélaginu Íslensk Grafík og Sambandi íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Hún er einnig meðlimur í dönsku grafíksamtökunum Fyns Grafiske Værksted í Óðinsvéum.
Sveinbjörg var bæjarlistamaður Akureyrar 2004 og valin listamaður ársins hjá Stíl 2007, en fyrirtækið styrkir sýninguna. Hún á að baka margar einkasýningar og hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum heima og erlendis.
Vinnustofa / sýningarsalur, Gallerí Svartfugl og Hvítspói,
Brekkugötu 3a (bakhús við Ráðhústorg) - 600 Akureyri.
s: 4613449 - 8937661.
tölvupóstur: sveinbjorg(hjá)svartfugl.is - heimasíða: www.svartfugl.is
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2007 | 21:37
Karine Séror sýnir í Populus Tremula
Þræddir Stígar, myndlistarsýning Karine Séror
Laugardaginn 15. desember kl. 14:00 verður opnuð myndlistarsýningin Þræddir stígar í Populus tremula í Listagilinu á Akureyri. Þar sýnir franska myndlistarkonan og skáldkonan Karine Séror verk sem hún vann á ferðalagi um fyrrum Júgóslavíu. Þegar líða tók á ferðalagið dró Karine saumadót og ýmislegt fleira upp úr töskunni og skráði ferðasöguna í myndmáli, þræddi stíga.
Búast má við óvæntri uppákomu á opnun sýningarinnar.
Einnig opið sunnudaginn 16. desember kl. 14:00 - 17:00. Aðeins þessi eina helgi.Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2007 | 10:26
Kartöflugeymslan verður listhúsið Festarklettur
Óli G. Jóhannsson listmálari hefur fest kaup á gömlu kartöflugeymslunni efst í listagilinu á Akureyri af arkitektastofunni Kollgátu og fær hann húsnæðið afhent í janúar. Hyggst hann opna þar listhús sem hlotið hefur nafnið Festarklettur. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is. Það mun því enn fjölga galleríunum í Gilinu og myndlistin er farin að teygja sig upp að sundlaug. Fyrir eru GalleríBOX, Jónas Viðar Gallery, Populus Tremula, Deiglan, Ketilhúsið, Listasafnið á Akureyri, Myndlistarskólinn á Akureyri og Kaffi Karólína. Auk þess eru fjöldi listamanna með vinnustofur í Gilinu, þar á meðal Óli G. Einnig búa margir myndlistarmenn í Listagilinu enda stutt að fara í vinnuna!
Í fréttinni á mbl.is kemur einnig fram að Óli G. er að fara að opna einkasýningu í Opera Gallery í New York. Áfram svona Óli! Hér eru nokkrir tenglar:
Óli G. í Listasafninu á Akureyri
![]() |
Sýnir í New York og kaupir kartöflugeymslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.12.2007 | 09:09
Umsóknir um styrki CIA til 10. des. 2007
Kæru myndlistarmenn
Síðasti dagur á árinu 2007 til að senda inn umsóknir til Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar cia.is, vegna styrkja til verkefna með skemmri fyrirvara er, næstkomandi mánudagur, 10. desember.
Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu miðstöðvarinnar:
http://cia.is/styrkir/index.htm
Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar
Hafnarstræti 16
101 Reykjavík
tel: +354-562-7262
fax:+354-562-6656
info(hjá)cia.is
www.cia.is
www.artnews.is
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2007 | 09:38
JÓL - Norðlensk Hönnun í galleríBOXi
JÓL
Norðlensk Hönnun
galleríBOX
Kaupvangsstræti 10
600 Akureyri.
Laugardaginn 8. desember klukkan 12:00 opnar markaður með norðlenska Hönnun í BOXinu.
Enginn ætti að láta þetta fram hjá sér fara, þarna verður það heitasta sem er að gerast hjá ungum og reyndum hönnuðum.
Meðal þeirra sem sýna eru Brynhildur Þórðardóttir, Guðjón Sigurður Tryggvason, Aðalheiður S. Eystinesdóttir, Jón Laxdal, Frúin í Ham, Gitte Nielsen, Helgi þórsson.......
Einnig stendur yfir sýningin Songs With Dirty Words eftir Niall og Ruth en þau koma frá Glasgow.
Markaðurinn stendur yfir alla laugardaga og sunnudaga fram að jólum. Opið frá 12:00-18:00
NOKKUR SÉRvalin KRISTNESK JÓLATRÉ OG GREINAR VERÐA TIL SÖLU 15.-16. desember & 22.-23. desember. Meðan birgðir endast (skógur endist)
Heitt jólaglögg og piparkökur
Fjölbreyttar vörur í jólapakka
Allir Velkomnir
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
6630545
6.12.2007 | 09:21
"Grálist með smálist" í DaLí Gallery á Akureyri
"Grálist með smálist" er samsýning í DaLí Gallery á Akureyri í desember.
Grálista-hópurinn verður með smálistagjörning á myndbandi og þekja veggi gallerísins með smálist. Ekkert smáverk verður stærra en 20×20 cm og má þar líta hluta af smámyndasafni Grálista-hópsins. Opnun verður laugardaginn 8. desember og er opið kl. 14-17, og alla föstudaga og laugardaga kl.14-17 fram að jólum. http://daligallery.blogspot.com
Grálist er hópur ungra myndlistamanna sem hafa öll útskrifast frá fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri að undanskildum þremur sem útskrifast næsta vor.
Grálist er óháður og fjölbreyttur hópur sem hefur það að markmiði að vera sýnileg út um allt eins og gráir kettir, ýmist saman í heild, í smærri hópum og sem einstaklingar.
Frekari upplýsingar um Grálist má sjá hér: http://gralist.wordpress.com
Kveðja Dagrún og Lína í DaLí Gallery
8957173 8697872
Brekkugötu 9, Akureyri
6.12.2007 | 09:03
Samhengi í Deglunni á laugardag og sunnudag

Nemendur skoðuðu samhengi verka sinna við verk og aðferðir annarra listamanna, en kannski enn fremur samhengið eða tengslin á milli þeirra sjálfra og verkanna sem þau skapa.
Sýningin er aðeins opin Laugardag og Sunnudag 14.00 - 17.00
Allir velkomnir
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2007 | 14:48
Songs With Dirty Words í galleríBOXi
Nú stendur yfir sýningin Songs With Dirty Words í galleríBOXi í Gilinu á Akureyri (gengið inn um næstu dyr fyrir neðan Listasafnið)
Listamennirnir koma alla leiðina frá Skotlandi og heita Niall Macdonald og Ruth Barker. Þau sýna prentverk, skúlptúra og teikningar.
Niall Macdonald stundar masternám við Glasgow School of Art. Niall vinnur með prentverk, skúlptúra og innsetningar. Nýlegar sýningar eru The Breeder,Athens, Grikklandi, Beijng Institute for the Arts, Kína og Terrace Gallery,London.
Ruth Barker útskrifaðist með Master frá Glasgow School of Art 2004. Ruth er ein af sýningarstjórum fyrir Washington Garcia gallery í Glasgow.Ruth vinnur með teikningar, skúlptúra og texta. Nýlega sýningar eru Gallery Adler Frankfurt Þýskalandi og Intermedia Glasgow, en hún hefur einnig sýnt í Kanada, Ísrael, Japan og London.
Meiri upplýsingar á:
www.washingtongarciagallery.com
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2007 | 10:08
Sýning Rúnu Þorkelsdóttur í Gallerí+ framlengd

Rúna Þorkelsdóttir hefur verið starfandi myndlistakona í Amsterdam síðustu 30 árin og rekur þar myndlistarbókabúðina Boekie Woekie ásamt tveimur öðrum myndlistarmönnum, Hettie van Egten og Jan Voss, en bókabúðin átti nýlega tvítugsafmæli. Útibú frá henni var í Hafnarhúsinu á yfirlitssýningu Dieter Roth.
Rúna sýnir innsetningu með þrykktum blómamyndum í Gallerí+ sem hún hefur unnið með síðustu 10 árin.
3.12.2007 | 23:11
Til hamingju Mark Wallinger
Mark Wallinger er vel að Turnerverðlaununum kominn og verkið hans "State Britain" er afar pólitískt og krassandi. Það er einnig til fyrirmyndar að þessi stærstu myndlistarverðlaun sem veitt eru á Bretlandi (og þó víðar væri leitað) skuli vera afhent að þessu sinni utan höfuðborgarinnar London. Sýningin og verlaunaafhendingin fór fram í Liverpool. Hér á Íslandi eru Sjónlistaverðlaunin að einhverju leyti sambærileg Turner verðlaununum, nokkrir listamenn tilnefndir og þau setja upp sýningu og svo er einn valinn. Íslendingar eru aðeins framsæknari því Sjónlistaverðlaunin hafa frá upphafi verið staðsett utan höfuðborgarinnar, nefnilega hér á Akureyri en ef til vill verða þau einhvertíma afhent á Seyðisfirði, í Hafnarfirði eða jafnvel í Reykjavík.
Hér eru nokkrir tenglar fyrir þá sem vilja kynna sér Turner verðlaunin, Mark Wallinger og verkin hans betur.
![]() |
Mark Wallinger hlaut Turnerverðlaunin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2007 | 11:38
Unnið að stofnun myndlistarfélags á Akureyri og nágrenni
Undirbúningsfundur að stofnun félags myndlistarfólks var haldinn í Deiglunni á Akureyri laugardaginn 24. nóvember 2007. Hátt í 30 myndlistarmenn mættu á fundinn. Þar voru hagsmunamál myndlistarfólks á Akureyri og nágrenni rædd og fjölmargar hugmyndir komu fram. Valinn var undirbúningshópur að stofnun félagsins. Rætt var um að félagið sækti um aðild að Sambandi íslenskra myndlistarmanna. Undirbúningshópur var valinn og í honum eru:
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Brynhildur Kristinsdóttir
Gunnar Kr. Jónasson
Þórarinn Blöndal
Hlynur Hallsson
Og varamenn:
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
Arna Valsdóttir
Jónas Viðar
Þessi síða á að vera vettvangur félagsins og hægt er að koma ábendingum á framfæri til Hlyns Hallssonar í hlynur(hjá)gmx(punktur)net
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)