Taktföst tortíming senn á enda

forsida5

Sýningarstjóri: Francis McKee
Listamenn: Baldvin Ringsted Vignisson, Will Duke, Erica Eyres, Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Lorna Macintyre

Sunnudaginn 16. desember lýkur sýningunni Taktföst tortíming í Listasafninu á Akureyri. Þessi síðasta sýningu ársins er í höndum kraftmikilla ungra listamanna, sem valdir voru af Francis McKee, safnstjóra Nýlistasafnsins í Glasgow, einum virtasta og framsæknasta sýningarstjóra Skotlands. Listamennirnir eru allir fæddir á áttunda áratugnum og hafa stundað framhaldsnám við Glasgow School of Art en koma frá Kanada, Englandi, Skotlandi og Íslandi. Þótt þeir eigi sama nám að baki hefur hver og einn þeirra markað sér efnistök, áherslur og tækni. Baldvin fæst við spennandi tilraunir á mörkum hljóðs og ljóss, en Will skapar ógnvekjandi stafrænar hreyfimyndir. Húmor og sterk konsept einkenna margvísleg verk Jónu, Erica afmyndar fólk og kannar viðþolið gagnvart hinu ljóta á meðan Lorna skapar merkingu eða kerfi úr fundnum munum og óreiðu.

Veglegt blað var gefið út vegna sýningarinnar og má þar m.a. finna grein eftir sýningarstjórann þar sem hann fjallar hann um rotnun, grotnun, eyðingu, tæringu, visnun, ryð og elli, sem virðast ef til vill í fljótu bragði koma ungum listamönnum lítið við. En McKee heldur því fram að eyðingin sé nauðsynlegur jarðvegur fyrir nýjar leiðir. Rómantíkin hefur verið nefnd sem mögulegt andsvar við síðpóstmódernisma og sem mögulegur lífsstíll á 21. öld. Draumsýn um endurvakningu hennar er hugmynd sem fleygt hefur verið fram undanfarna áratugi í fleiri en einu samhengi. Þessir listamenn eru kannski sporgöngumenn rómantíkur en miklu líklegra er að þeir svipti plástrinum af kaunum þess samfélags sem virðist staðráðið í að tortíma sér.

Styrktaraðilar sýningarinnar eru: British Council, AB búðin, Ásprent, Bílaleiga Akureyrar, Eymundsson, Flugfélag Íslands, Flügger litir, Flytjandi, Iss ræstingar, Karólína Restaurant, Kaupþing, KPMG, Securitas og Sjóvá.

Nánari upplýsingar veitir forstöðumaður Listasafnsins, Hannes Sigurðsson, í síma 899-3386, netfang: hannes(hjá)art.is

Listasafnið á Akureyri er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Aðgangseyrir er kr. 400. Frítt á fimmtudögum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband