Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Sýningin Víxlverkun opnar í Deiglunni

hertha_iris1.jpg

VÍXLVERKUN

Laugardaginn 2. mars kl. 15 verður opnuð í Deiglunni, sýningin Víxlverkun þar sem gefur að líta verk listakvennanna D. Írisar Sigmundsdóttur og Herthu Maríu Richardt Úlfarsdóttur.

Blíðlyndi, leikgleði, húmor, skelfing, ofsi, togstreita, húmor og ádeila eru nokkur orð sem lýsa myndverkum þeirra Írisar og Herthu. Í teikningum sínum leika þær sér að þeirri mynd sem samfélagið dregur upp af kvenmönnum og kvenmannslíkamanum; þeim kröfum, þankagangi, sársauka og fegurð sem er ítrekað otað að einstaklingum samfélagsins. Þetta eru þeir sameiginlegu þræðir sem binda annars ólík myndverk þessara tveggja myndlistamanna.

D.Íris Sigmundsdóttir (fædd 1976) útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri vorið 2011. Verk hennar eru “collage” verk eða klippimyndaverk sem unnin eru með blandaðri tækni þar sem blaðaúrklippum, gouache litum, penna og blýantsteikningum, ýmiskonar efni og öðru tilfallandi er blandað saman til að skapa heildarmyndina. Hertha M.R Úlfarsdóttir (fædd 1983) leggur stund á kynjafræði við Háskóla Íslands ásamt því að vera starfandi myndlistamaður og skáld. Helstu miðlar eru innsetningar og teikningar með bleki, vatnslitum og blýanti.

Sýningin stendur til 31. mars og er opin laugardaga og sunnudaga kl. 14-16.       

Aðgangur er ókeypis.


Móttökustöð fyrir mannsandann opnar í Ketilhúsinu

GudmundurViborg

Laugardaginn 2. mars kl. 15 opnar í Ketilhúsinu á Akureyri sýning á verkum alþýðulistamannsins og völundarins Guðmundar Viborg Jónatanssonar (1853-1936). Myndir hans eru markverð viðbót við það stóra safn myndverka eftir sjálflærða listamenn sem smám saman hefur komið fram á sjónarsviðið á Íslandi á undanförnum áratugum. Viðfangsefnið er óútreiknanlegur margbreytileiki lífsins, tjáður af hreinskilni og leikgleði.

Guðmundur starfaði lengi við sjómennsku og vélstjórn m.a. á gufuskipum Norðmanna og á gufubátnum Hvítá og er í vélstjóratali talinn vera fyrsti starfandi vélstjóri hérlendra manna. Eftir 1910 stundaði hann gullsmíði í Reykjavík til dauðadags, enda völundur bæði á tré og járn, og raunar hvaða efni sem hann tók sér í hendur. Fyrir utan myndirnar, liggja margir fagrir skrautgripir, skart, borðbúnaður, drykkjarhorn og silfurskildir eftir Guðmund Viborg sem var undarleg blanda af praktískum handverksmanni og örgeðja sveimhuga, upptendraður af hugmyndum þjóðernisrómantískrar sjálfstæðisbaráttu 19. aldar. Myndir hans eru ekki einasta heimildir um viðhorf 19. aldar fjölhaga, heldur áhrifamikil myndgerving þeirra viðhorfa.

Sýningin stendur til 31. mars og er opið alla daga nema mánudaga og þriðjudaga kl. 13-17


Um sýningu Finns Arnars og Þórarins Blöndal, Samhengi hlutanna

Um sýningu Finns Arnars og Þórarins Blöndal,
Samhengi hlutanna
Eftir G. Pálínu Guðmundsdóttur fræðslufulltrúa Sjónlistamiðstöðvarinnar

attachment_1192358.jpg

Sýningin Samhengi hlutanna stendur nú yfir  í Sjónlistamiðstöðinni á Akureyri, en að henni standa myndlistamennirnir Finnur Arnar Arnarson og Þórarinn Blöndal. Þeir eru Akureyringum góðkunnir og hafa sýnt þar með reglulegu millibili. Sýningin opnaði 15. janúar og stendur til og með 3. mars. Jóhann S. Bogason, heimspekingur og þýðandi, hefur skrifað fróðlegan pistil um hugðarefni félaganna sem lesa má í heild á heimasíðu Sjónlistamiðstöðvarinnar: www.sjonlist.is. Myndlistarmennirnir hafa báðir unnið lengi að myndlist auk þess sem þeir hafa margoft starfað við leikmyndagerð. Þeir hafa einnig séð um hönnun og sett upp safneignir fyrir Safnahúsið á Húsavík og Smámunasafnið í Eyjafirði.

Afstæði tímans
Sköpunin er sameiginlegur þráður hjá báðum í Samhengi hlutanna. Finnur Arnar vinnur með spurningar er varða líf og dauða og kemur auk þess inn á hugmyndir um hve tíminn er afstæður út frá viðmiðum hverju sinni. Vídeóverk hans og ljósmyndir mynda áhugaverða heild. Videomyndir af höndum virðast  sem ljósmyndir en við nánari eftirgrennslan hreyfast þær örlítið. Að sögn listamannsins tákna þær upphaf og enda lífsins, þær bæði gefa líf og  taka líf. Í fornri speki segir að við höfum líflínu í lófunum sem á að geta sagt eitthvað til um lengd lífs okkar. Hugmyndin um tímann og að öllu er afmörkuð stund, eins og segir í Biblíunni, kemur fram  í videoverki Finns þar sem annars vegar eru sýndir  berir fætur gangandi manns sem dregur með sér vopn til veiða og hins vegar fjöll sem hálfhulin eru í þoku og ógreinilegir fuglar fljúga í björgum. Hugsanlega á þetta að minna okkur á að skerpa athyglina og gefa okkur tíma til að njóta listarinnar.

Tími hverrar mannveru er stuttur miðað við tíma fjallanna en hann er líka stuttur í samanburði við sólkerfið. Biblían, frægasta bók okkar siðmenningar fjallar um sköpun heimsins; hér sjást 7 ljósmyndir af mismunandi þurrkuðum plöntum sem settar hafa verið inn í hana til geymslu. Með því að þurrka blóm getum við reynt að lengja tíma þeirra og notið þeirra lengur. Taka má þessa hugsun lengra og ímynda sér að manneskjan taki upp plönturnar með höndunum úr fjallshlíðunum og þær rotna svo og verða að mold aftur og úr henni koma ný blóm sem mannshöndin getur kippt upp o.s. frv. Endalaus hringrás.

Allt helst í hendur
Á sýningu Finns Arnars eru einnig tvær nokkuð stórar ljósmyndir af listamanninum teknum með sólarhrings millibili, þær eru staðsettar hvor á móti annarri og er líkt og  þær horfist í augu. Fyrri myndin er tekin áður en listamaðurinn undirgekkst ófrjósemisaðgerð og sú seinni sólarhring síðar sem  aftur veltir upp hugmyndum um sköpun og eyðileggingu. Áhorfandinn hefur á sýningunni möguleika á að skoða hluta af hringrás lífs og dauða, frjósemi og sköpunar og getur velt því fyrir sér hvernig eitt leiðir af öðru og í hvaða samhengi hlutirnir birtast okkur, eins og titill sýningarinnar gefur til kynna.
Aðspurður um hvaða listamenn honum finnst að hann tengist mest nefnir Finnur frönsku myndlistarkonuna Luise Bourgoise vegna þess að hún notar lífshlaup sitt og tilfinningar sem grunn að eigin verkum. Í þessu liggur  sérstaða Finns Arnars í íslenskri myndlist, alla vega meðal karlkyns myndlistarmanna. Samvinna hans og eiginkonu hans Áslaugar Thorlacius og barna þeirra er alveg einstök á Íslandi en þau stóðu fyrir eftirminnilegri sýningu í Listasafni ASÍ, 2010.

Skúlptúrar margra sjónarhorna
Þórarinn Blöndal sýnir þrjá stóra skúlptúra, en einn þeirra var hluti af samsýningu Sjónlistamiðstöðvarinnar Allt+ sumarið 2012, sem sett var upp í tengslum við 150 ára afmæli Akureyrarbæjar. Verkið heitir Förumaður og átti að vera staðsett fyrir utan tískuvöruverslun í miðbæ Akureyrar en endaði framan við Ketilhúsið seinna um sumarið. Verkið vann Þórarinn um það leyti sem hann flutti búferlum frá Akureyri til Reykjavíkur. Í innkaupakerrunni (sem er hluti af verkinu) er mismunandi munum og dóti komið haganlega fyrir en við nánari skoðun er ekki allt sem sýnist því í dótinu leynast skúmaskot og göt sem mynda mismunandi rými, leiksvið eða aðra heima.

Þórarinn notar spegla til að fá fram mismunandi sjónhverfingar, t.d. virðist eitt rýmið vera margir metrar á lengd, jafnvel óendanlegt, en er í raun bara um hálfur metri. Hér reynir á forvitni og hugkvæmni áhorfandans að finna rýmin, sum eru að vísu svo hátt uppi að erfitt er að sjá þau fyrir lávaxna nema þeir fari upp á stól eða stiga. Önnur eru staðsett svo neðarlega að menn þurfa að beygja sig og jafnvel að krjúpa. Allir ættu að geta séð eitthvað miðað við sínar forsendur, stærð, þroska og áhuga. Listaverkin gera vissa kröfu til áhorfandans um þátttöku með því að leita og uppgötva. Annað verk á sýningunni er af svipuðum toga. Þar er þjappað saman hlutum, verkfærum og mismunandi efnum – sem allt er listamönnum kunnugt – í einn skúlptúr.  

attachment-1_1192359.jpg

Hugrænar sápukúlur
Þriðji skúlptúrinn er merkileg kúla þar sem Þórarinn hefur endurskapað  vinnustofu listamanns. Inni í kúlunni er svo endurgerð af þessari endurgerð og hægt væri að hugsa sér að þarna væri að finna enn aðra endurgerð og svo koll af kolli eins og rússneskar matryoshka-dúkkur hver inni í annarri. Þórarinn minnir okkur á að sköpunin endar hvergi, hún er endalaus í báðar áttir – kúlan getur minnkað niður í frumendir eða stækkað í það óendanlega. Kúla Þórarins er mynduð úr stálgrind sem gegnsætt plast er strengt yfir og fest  í loftið þannig að hún svífur yfir gólfinu.

Þórarinn og verk hans eiga sér vart hliðstæðu í íslenskri myndlist. Vandvirkni, efnistilfinning og næmi fyrir smáatriðum, samhengi og jafnvægi hlutanna, færir áhorfandann inn í fjölbreyttan heim skynjunar, þar sem eðlisfræði, leikhús, sýningarrými og staða listamannsins nær að mynda kröftuga fagurfræðilega heild. Að mati Hannesar Sigurðssonar sjónlistastjóra er helst að sjá einhverskonar hliðstæður í verkum Ilya Kabakov, Joseph Cornell og Louise Nevelson. Verk þessara listamanna falla vel saman þó ólík séu á margan hátt að forminu til og mynda sterka heild sem vekur forvitni og umræður og ýtir undir fagurfræðilega upplifun.


Fyrirlestur í Ketilhúsinu

fyrirlestur_kveikja_nota.jpg

Gamli Elgur aka Helgi Þórsson sýnir í Populus tremula

Helgi-Thorsson.-23.2-web

FRÁ HÁLIÐAGRASI TIL KVENNAKÚGUNAR
GAMLI ELGUR


Laugardaginn 23. febrúar kl. 14.00 mun hinn lítt frægi Gamli Elgur (sem er myndlistarnafn Helga í Kristnesi (sem aldrei fær starfslaun listamanna (öfugt við nafna hans í Reykjavík))) opna sýningu á vatnslitamyndum í Populus tremula.

Bara nýjar myndir, sem sína allt frá háliðagrasi til klassískrar kvennakúgunar, auk stakra kyrralífs- og ævintýramynda.


Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 24. febrúar frá kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.


Arnar Ómarsson með sýningarspjall í Kompunni, Alþýðuhúsinu

arnaromarsson_talk.jpg

Arnar Ómarsson listamaður mun fjalla um sýninguna sína Tengsl á laugardaginn n.k. í Alþýðuhúsinu á Siglufirði klukkan 17:00. Það verður heitt á könnunni og allir velkomnir.

Arnar lauk listnámi sínu í University of the Arts, London sumarið 2011 og hefur haldið sýningar síðan víða um Evrópu. Arnar ásamt öðrum stendur einnig fyrir Reitum, skapandi samstarfsverkefni á Siglufirði, sem haldið var í fyrsta sinn í fyrra en um árlegt verkefni er að ræða. Hann notast við teikningar, innsetningar, myndbandsverk og ljósmyndun aðallega, en leggur einnig mikinn metnað í skipulagningu menningarviðburða. Frekari upplýsingar um listamanninn má finna á heimasíðunni www.arnaromarsson.com.


Sigurjón Már Svanbergsson opnar ljósmyndasýningu í Flóru

gir_ingar1.jpg

Sigurjón Már Svanbergsson
Girðingar
16. febrúar - 9. mars 2013
Opnun laugardaginn 16. febrúar kl. 14
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri

Laugardaginn 16. febrúar kl. 14 opnar Sigurjón Már Svanbergsson sýningu sem nefnist „Girðingar” í Flóru í Hafnarstræti 90 á Akureyri. Þar sýnir hann ljósmyndir teknar á filmuvélar.

girðing -ar, -ar KVK 1 það að girða 2 það sem girt er (með) kringum e-ð > gaddavírsgirðing / girðingarstaur 3 afgirt svæði > girðingarhólf hólf í girðingu 4 staðbundið klettabelti

Sigurjón segir um sýninguna: “Girðingar hafa alltaf einhvernvegin heillað mig, þessar dæmigerðu íslensku sveitagirðingar, ýmist á kafi í vatni, snjó eða liggjandi á sinu eftir snjóþungan vetur.
Þessar myndir sem hér eru til sýnis eru teknar á haustmánuðum 2012 og er mín fyrsta tilraun til að fanga girðingar á filmu.”

Sigurjón Már Svanbergsson er fæddur, uppalinn og búsettur á Akureyri, hann hefur brennandi áhuga á filmuljósmyndun, tekur að mestu leyti á svart hvítar filmur og framkallar filmurnar sjálfur, ásamt því að framkalla á pappír í myrkraherbergi í kjallara Flóru.
Ef litfilmur fara í myndavélar hans, þá eru þær í langflestum tilfellum útrunnar (heillast af þessum undarlegu litum í þeim).
Hann tekur mest á medium format filmuvélar, Mamiya RZ67 og Hasselblad, einnig aðrar eldri vélar með sál og reynslu.


Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru mánudaga til föstudaga kl. 11-13 og 16-18 og laugardaga kl. 13-16 og stendur til laugardagsins 9. mars 2013.


Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.

sigurjon.jpg


Birgir Sigurðsson opnar sýningu á vinnustofu Myndhöggvarafélagsins

birgir_ljos.jpg

Grænt ljós í Myndhöggvarafélaginu

Óvenjulega sýning verður opnuð á vinnustofu Myndhöggvarafélagsins Nýlendugötu 15 í Reykjavík, fimmtudaginn 7. febrúar kl. 18.00. Sýningin nefnist Grænt ljós 2 og er undir merkjum Vetrarhátíðar. Hrá vinnustofan býður upp á fjölbreytt samtal milli verks og áhorfenda, en viðfangsefnið er samspil mannsins og þess umhverfis sem hann lifir í. Það er Birgir Sigurðsson, myndlistarmaður og rafvirki, sem sýnir hér ljósverk og vídeóverk og hefur fengið félaga sinn Odd Garðarsson til að semja tónverk sérstaklega inn í þessar aðstæður.

Birgir Sigurðsson hefur starfað í myndlist síðustu 14 árin, en hann er að mestu sjálfmenntaður. Fyrir tveimur árum stofnaði Birgir 002 Gallerí, sem er 63 fermetra íbúðin hans í Hafnarfirði. Oddur Garðarsson starfar sem þyrluflugvirki en meðfram því hefur hann numið tónsmíðar og samið lög og tónverk. Hann spilar einnig með hljómsveitinni Hrókunum. Grænt ljós 2 er þriðja sýningin sem þeir vinna að í sameiningu. Sýningin stendur til 10. febrúar og er opið frá 18.00 til 22.00 alla dagana.


Opnar vinnustofur í miðbæ Akureyrar

kaup12.jpg flora90.jpg torg7.jpg

Við ætlum að opna vinnustofur okkar fyrir gestum og gangandi

fimmtudaginn 7. febrúar 2013, kl. 16-20


Kaupvangsstræti 12. Listasafnshúsið / gengið inn úr portinu fyrir ofan, baka til:

Linda Björk Óladóttir myndlistarmaður og Ólafur Sveinsson myndlistarmaður
G. Rúnar Guðnason myndlistarmaður og Hallgrímur Ingólfsson myndlistarmaður


Flóra Hafnarstræti 90

Sigurjón Már og Marta Kusinska áhugaljósmyndarar
Kristín Þóra Kjartansdóttir félagsfræðingur og framkvæmdastýra Flóru
Hlynur Hallsson myndlistarmaður
Elín Hulda - recycled by elinhulda
Auður Helena - Kaí merking
Inga Björk - gullsmíði og myndlist


Ráðhústorg 7

Fótografía, Guðrún Hrönn ljósmyndari.
María Ósk, listamaður
Blek hönnunarstofa
Herdís Björk vinnustofa | Bimbi

Allir eru velkomnir og stefnt er að því að þetta verði mánaðarlegur viðburður þar sem fólk getur gengið á milli og kíkt í heimsókn á vinnustofur og skoðað það sem verið er að framleiða og bjóða uppá í miðbænum.

Kaffi Ilmur, Bautinn og RUB 23 eru með tilboð í gangi og opið fram eftir kvöldi.

Viðburður á facebook https://www.facebook.com/events/520664087978912

Umsókn um styrk úr Menningarsjóði Akureyrarbæjar

akureyrarstofa_landscape

Stjórn Akureyrarstofu úthlutar styrkjum úr Menningarsjóði Akureyrarbæjar og er hlutverk sjóðsins að styrkja listastarfsemi og aðra menningarstarfsemi á Akureyri. Umsóknum skal skilað í þjónustuanddyri Ráðhússins, Geislagötu 9, og er hægt að nálgast eyðublöðin þar eða á heimasíðu Akureyrarbæjar. Þess skal vandlega gætt að allar umbeðnar upplýsingar komi fram.

Umsóknarfrestur er til 15. febrúar 2013.

Upplýsingar veitir Hulda Sif Hermannsdóttir, verkefnastjóri á Akureyrarstofu, í netfanginu huldasif@akureyri.is.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband