Um sýningu Finns Arnars og Þórarins Blöndal, Samhengi hlutanna

Um sýningu Finns Arnars og Þórarins Blöndal,
Samhengi hlutanna
Eftir G. Pálínu Guðmundsdóttur fræðslufulltrúa Sjónlistamiðstöðvarinnar

attachment_1192358.jpg

Sýningin Samhengi hlutanna stendur nú yfir  í Sjónlistamiðstöðinni á Akureyri, en að henni standa myndlistamennirnir Finnur Arnar Arnarson og Þórarinn Blöndal. Þeir eru Akureyringum góðkunnir og hafa sýnt þar með reglulegu millibili. Sýningin opnaði 15. janúar og stendur til og með 3. mars. Jóhann S. Bogason, heimspekingur og þýðandi, hefur skrifað fróðlegan pistil um hugðarefni félaganna sem lesa má í heild á heimasíðu Sjónlistamiðstöðvarinnar: www.sjonlist.is. Myndlistarmennirnir hafa báðir unnið lengi að myndlist auk þess sem þeir hafa margoft starfað við leikmyndagerð. Þeir hafa einnig séð um hönnun og sett upp safneignir fyrir Safnahúsið á Húsavík og Smámunasafnið í Eyjafirði.

Afstæði tímans
Sköpunin er sameiginlegur þráður hjá báðum í Samhengi hlutanna. Finnur Arnar vinnur með spurningar er varða líf og dauða og kemur auk þess inn á hugmyndir um hve tíminn er afstæður út frá viðmiðum hverju sinni. Vídeóverk hans og ljósmyndir mynda áhugaverða heild. Videomyndir af höndum virðast  sem ljósmyndir en við nánari eftirgrennslan hreyfast þær örlítið. Að sögn listamannsins tákna þær upphaf og enda lífsins, þær bæði gefa líf og  taka líf. Í fornri speki segir að við höfum líflínu í lófunum sem á að geta sagt eitthvað til um lengd lífs okkar. Hugmyndin um tímann og að öllu er afmörkuð stund, eins og segir í Biblíunni, kemur fram  í videoverki Finns þar sem annars vegar eru sýndir  berir fætur gangandi manns sem dregur með sér vopn til veiða og hins vegar fjöll sem hálfhulin eru í þoku og ógreinilegir fuglar fljúga í björgum. Hugsanlega á þetta að minna okkur á að skerpa athyglina og gefa okkur tíma til að njóta listarinnar.

Tími hverrar mannveru er stuttur miðað við tíma fjallanna en hann er líka stuttur í samanburði við sólkerfið. Biblían, frægasta bók okkar siðmenningar fjallar um sköpun heimsins; hér sjást 7 ljósmyndir af mismunandi þurrkuðum plöntum sem settar hafa verið inn í hana til geymslu. Með því að þurrka blóm getum við reynt að lengja tíma þeirra og notið þeirra lengur. Taka má þessa hugsun lengra og ímynda sér að manneskjan taki upp plönturnar með höndunum úr fjallshlíðunum og þær rotna svo og verða að mold aftur og úr henni koma ný blóm sem mannshöndin getur kippt upp o.s. frv. Endalaus hringrás.

Allt helst í hendur
Á sýningu Finns Arnars eru einnig tvær nokkuð stórar ljósmyndir af listamanninum teknum með sólarhrings millibili, þær eru staðsettar hvor á móti annarri og er líkt og  þær horfist í augu. Fyrri myndin er tekin áður en listamaðurinn undirgekkst ófrjósemisaðgerð og sú seinni sólarhring síðar sem  aftur veltir upp hugmyndum um sköpun og eyðileggingu. Áhorfandinn hefur á sýningunni möguleika á að skoða hluta af hringrás lífs og dauða, frjósemi og sköpunar og getur velt því fyrir sér hvernig eitt leiðir af öðru og í hvaða samhengi hlutirnir birtast okkur, eins og titill sýningarinnar gefur til kynna.
Aðspurður um hvaða listamenn honum finnst að hann tengist mest nefnir Finnur frönsku myndlistarkonuna Luise Bourgoise vegna þess að hún notar lífshlaup sitt og tilfinningar sem grunn að eigin verkum. Í þessu liggur  sérstaða Finns Arnars í íslenskri myndlist, alla vega meðal karlkyns myndlistarmanna. Samvinna hans og eiginkonu hans Áslaugar Thorlacius og barna þeirra er alveg einstök á Íslandi en þau stóðu fyrir eftirminnilegri sýningu í Listasafni ASÍ, 2010.

Skúlptúrar margra sjónarhorna
Þórarinn Blöndal sýnir þrjá stóra skúlptúra, en einn þeirra var hluti af samsýningu Sjónlistamiðstöðvarinnar Allt+ sumarið 2012, sem sett var upp í tengslum við 150 ára afmæli Akureyrarbæjar. Verkið heitir Förumaður og átti að vera staðsett fyrir utan tískuvöruverslun í miðbæ Akureyrar en endaði framan við Ketilhúsið seinna um sumarið. Verkið vann Þórarinn um það leyti sem hann flutti búferlum frá Akureyri til Reykjavíkur. Í innkaupakerrunni (sem er hluti af verkinu) er mismunandi munum og dóti komið haganlega fyrir en við nánari skoðun er ekki allt sem sýnist því í dótinu leynast skúmaskot og göt sem mynda mismunandi rými, leiksvið eða aðra heima.

Þórarinn notar spegla til að fá fram mismunandi sjónhverfingar, t.d. virðist eitt rýmið vera margir metrar á lengd, jafnvel óendanlegt, en er í raun bara um hálfur metri. Hér reynir á forvitni og hugkvæmni áhorfandans að finna rýmin, sum eru að vísu svo hátt uppi að erfitt er að sjá þau fyrir lávaxna nema þeir fari upp á stól eða stiga. Önnur eru staðsett svo neðarlega að menn þurfa að beygja sig og jafnvel að krjúpa. Allir ættu að geta séð eitthvað miðað við sínar forsendur, stærð, þroska og áhuga. Listaverkin gera vissa kröfu til áhorfandans um þátttöku með því að leita og uppgötva. Annað verk á sýningunni er af svipuðum toga. Þar er þjappað saman hlutum, verkfærum og mismunandi efnum – sem allt er listamönnum kunnugt – í einn skúlptúr.  

attachment-1_1192359.jpg

Hugrænar sápukúlur
Þriðji skúlptúrinn er merkileg kúla þar sem Þórarinn hefur endurskapað  vinnustofu listamanns. Inni í kúlunni er svo endurgerð af þessari endurgerð og hægt væri að hugsa sér að þarna væri að finna enn aðra endurgerð og svo koll af kolli eins og rússneskar matryoshka-dúkkur hver inni í annarri. Þórarinn minnir okkur á að sköpunin endar hvergi, hún er endalaus í báðar áttir – kúlan getur minnkað niður í frumendir eða stækkað í það óendanlega. Kúla Þórarins er mynduð úr stálgrind sem gegnsætt plast er strengt yfir og fest  í loftið þannig að hún svífur yfir gólfinu.

Þórarinn og verk hans eiga sér vart hliðstæðu í íslenskri myndlist. Vandvirkni, efnistilfinning og næmi fyrir smáatriðum, samhengi og jafnvægi hlutanna, færir áhorfandann inn í fjölbreyttan heim skynjunar, þar sem eðlisfræði, leikhús, sýningarrými og staða listamannsins nær að mynda kröftuga fagurfræðilega heild. Að mati Hannesar Sigurðssonar sjónlistastjóra er helst að sjá einhverskonar hliðstæður í verkum Ilya Kabakov, Joseph Cornell og Louise Nevelson. Verk þessara listamanna falla vel saman þó ólík séu á margan hátt að forminu til og mynda sterka heild sem vekur forvitni og umræður og ýtir undir fagurfræðilega upplifun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband