Kjötkveðjuhátíð í Listagilinu

fjolpostur_sidebar.jpg

Smiðshöggið á glæsilega sumardagskrá Sjónlistamiðstöðvarinnar verður rekið á afmælisvökunni um næstu helgi þegar Kjötkveðjuhátíð Sjónlistamiðstöðvarinnar gengur í garð, en hún hefst á elektrónískum tónleikum; Exodus 2012, sem hefjast kl. 20.45 föstudaginn 31. ágúst og endar með dýrindis veislu í Listagilinu daginn eftir, sem stendur frá kl. 15-18. Þetta eru stærstu teknótónleikar sem haldnir hafa verið á Akureyri og verða þeir í umsjón Reyk Veek; grúppu sem varð til í kjölfar hrunsins og vildi leggja sitt af mörkum til að græða og byggja upp þjóðarsálina. Tónleikarnir höfða ekki síður til augna en eyrna því mikið ljósasjó verður í gangi og er fólk hvatt til þess að dilla sér og sleppa fram af sér beislinu. Sett verður upp lítið danssvið á miðri götunni fyrir þá sem þora að stíga á stokk til að sýna hvað í þeim býr. Marmiðið með tónleikunum er að kveikja hlýhug, samhygð og von í brjóstum allra sem byggja móður jörð og senda sterka og jákvæða strauma út í óravíddir alheimsins. Hægt verður fylgjast með tónleikunum í beinni útsendingu á netinu með því að fara inn á slóðina: facebook.com/sjonlist

Daginn eftir stendur Sjónlistamiðstöðin í samvinnu við Klúbb matreiðslumeistara á Norðurlandi og fjölda handverks- og myndlistarfólks fyrir skemmtilegri uppákomu í Listagilinu sem fengið hefur heitið „List með lyst“. Listamenn kynna sköpunarverk sín, bæjarins færustu kokkar munu bjóða gestum og gangandi að bragða á öllum kúnstarinnar réttum úr íslensku hráefni og fjörugir dansarar verða á ferð upp og niður gilið. Listafólk og listakokkar leiða þannig hesta sína saman undir merkjum fögnuðar og samvista í góðra vina hópi og ilmandi matarlykt svífur yfir vötnum. Þarna verður gleðin við völd þar sem seiðandi danssveifla, sala á listaverkum og gómsætir matarbitar mynda sannkallaða hátíðarstemningu með sjónrænum tilþrifum. Jesú og lærisveinarnir sitja við háborð og láta fara vel um sig, enda höfðu þeir félagar ekkert í líkingu við þessa meistarakokka til að stjana við hér áður fyrr. Þetta verður því ekki síðasta kvöldmáltíðin heldur sú fyrstu – slík verður upplifun bragðlaukanna.
          
Fyrir þá sem ekki hafa fengið nægju sína ber að nefna að sunnudaginn 2. september kl. 13-15 verður gestum og gangandi boðið að bragða á réttum frá 20 löndum, frá London til Jemen, í Listasafninu á Akureyri þar sem núna fer fram sýningin Lókal-Glóbal. Í dag búa á Akureyri innflytjendur frá 57 þjóðríkjum sem sýnir og sannar hversu ríkt þetta litla samfélag okkar lengst norður í ballarhafi er á heimsvísu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband