Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Gunn Nordheim Morstøl opnar myndlistasýningu í Mjólkurbúðinni

gunn.jpg

Gunn Nordheim Morstøl opnar myndlistasýningu í Mjólkurbúðinni í listagilinu á Akureyri laugardaginn 18.ágúst kl. 14.

 
Fyrir sýninguna Delicious vann Gunn sérstaklega myndaröð unna með ætingu og á sýningin að standa yfir 150 ára afmæli Akureyrarbæjar.  Myndröðin fór með pósti þann 2.ágúst frá heimabæ Gunn, Åndalsnes og er enn ókomin til Akureyrar en var síðast skráð í Export Customs Clearance í Osló þann 8.
 
Gunn lætur það ekki slá sig út af laginu, kemur til Akureyrar og gerir aðrar ráðstafanir : ,, Þetta verður ok, ég er með málverk í vinnslu og ég tek þau með í flug og vona bara að upphenging nái fyrir auglýstan opnunartíma” segir Gunn og hlær. En hún lendir í Keflavík aðfaranótt opnunardagsins og á bókað með fyrsta flugi til Akureyrar. Hún hefur meiri áhyggjur af listaverkum Dagrúnar Matthíasdóttur  sem eiga að skila sér heim í sömu sendingu eftir sýningu í Noregi. Gunn er jákvæð þrátt fyrir óvissuna með listaverkin og vonar hún að pakkinn skili sér á meðan á dvöl hennar stendur svo enn er ekki útilokað að myndröðin hennar  nái á veggi Mjólkurbúðarinnar meðan sýningin stendur yfir.
 
Um Gunn Nordheim Morstøl:
Gunn Nordheim Morstøl lærði myndlist í Gerlesborgsskolan i Bohuslän í Svíþjóð og starfar ásamt myndlistinni sem kennari í Åndalsnes Ungdomsskole. Hún heldur einnig utan um listviðburðinn “Kunst I Natur” sem er árlegur listahátíð (fjellfestival) í fjöllunum í kringum heimabæ Gunn, þar sem listamenn koma víða að og taka þátt. Gunn hefur verið öflug í sýningarhaldi í Noregi og einnig sýnt verk sín víða um heim, m.a. í New York, Ísrael, Japan, Rússlandi, Spáni, Englandi, Frakklandi og hér á Íslandi. Gunn hefur hlotið menningarverðlaun  Rauma Kommunes kulturpris  2003 og hlaut einnig verðlaunin ”Jerusalemprint 2000,” sem voru veitt í tengslum við alþjóðleg grafíklistasýningu í Ísrael 1998. Gunn hefur áður komið til Íslands og tók þá þátt í stórri samsýningu Staðfugl-Farfugl í Eyjarfirði 2008 þar sem útiskúlptúr var hennar framlag auk þess sem hún hélt námskeið fyrir börn og fyrirlestur ásamt sænsku listakonunni Helen Molin í Deiglunni á Akureyri.
 
Sýning Gunn Nordheim Morstøl stendur yfir Akureyrarvöku sem nú er 150 ára afmælishátíð Akureyrarbæjar og henni lýkur 2.september.
Opið laugardaga og sunnudaga kl.14-17 og eftir samkomulagi – Allir velkomnir.
 
Gunn Nordheim Morstøl s.+4793264341
Mjólkurbúðin s.8957173 dagrunmatt@hotmail.com


Hinn fullkomna lygi í Deiglunni

forsidumynd.jpg

Opnun í Deiglunni
laugardaginn 18. ágúst kl. 21:00.
HIN FULLKOMNA LYGI

Við erum ungir áhugaljósmyndarar að halda okkar fyrstu sýningu.  Við höfum
hvorki lært ljósmyndun né myndvinnslu og er þetta aðeins áhugamál okkar
beggja.
 
*"Sjálfsímynd kvenna er brotin niður þegar þær reyna að bera sig saman við
óraunverulegan fegurðarstuðul eins og hann birtist í tímaritum." Dr.?
Nicole Hawkins, sálfræðingur.*

Ákvörðunin um að halda sýningu kom í kjölfar þess að við fórum saman í
stúdíó að mynda, þar byrjaði vinkona Baldvins að tala um  stelpur í
tískublöðun sem væru ekki með neina fæðingarbletti, með fullkomna húð og
þar fram eftir vegi. Þá fórum við að velta fyrir okkur hvernig farið er með
myndir í auglýsingabransanum og tímaritum.

Markmið okkar er að sýna hvernig er verið að ýkja og of vinna fallegar
myndir. Á sýningunni verða myndirnar óunnar eins og þær koma beint úr
myndavélinni og svo aftur eftir myndvinnslu. Meiri partur fólks veit hvað
photoshop er en ber sjálft sig þó saman við myndir af módelum sem eru
"fullkomin" í útliti.

Við, ólærðir og youtube menntaðir, gátum gert þetta, ímyndið ykkur hvað
atvinnumenn geta gert!

Við viljum þakka módelunum og öllum aðilum sem komu að sýningunni að gera
þetta mögulegt.

Sýningin stendur til 3. september


Ingiríður Sigurðardóttir sýnir í Populus tremula

aefingar-og-skreytingar.jpg

ÆFINGAR OG SKREYTINGAR
Málverk og frönsk endurreisnartónlist

Laugardaginn 11. ágúst kl. 14.00 mun Ingiríður Sigurðardóttir opna málverkasýningu í Populus tremula. Einnig opið sunnudaginn 12. ágúst kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.

Laugardagskvöldið 11. ágúst kl. 21.00 munu svo Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, söngur og pikkolóselló, Mathurin Matharel, fiðlubassi og Brice Sally, semball, halda tónleika með franskri endurreisnartónlist.

Aðgangur ókeypis | Malpokar leyfðir


Benni Valsson opnar "PROMO-SHOTS" í Ketilhúsinu

beinnivals_mail3.jpg

Opnun í Ketilhúsi
laugardaginn 4. ágúst kl. 15.
Benni Valsson „PROMO-SHOTS“
Sjónlistamiðstöðin kynnir með stolti ljósmyndarann og Akureyringinn Bernharð Valsson - Benna Vals, sem mun leggja undir sig Ketilhús í byrjun ágústmánaðar. Heimsfræg andlit munu hanga uppi um alla veggi og gefur hér að líta úrval verka frá síðastliðnum árum sem eiga það sammerkt að birta okkur leiftursýn af listamönnum í kynningarherferð á kvikmyndum, hljómplötum, tónleikum, bókum og öðrum sköpunarverkum sínum og voru myndirnar oft teknar við nokkuð knappar aðstæður, ósjaldan á hótelherbergjum. Sem dæmi um andlit á sýningunni má nefna Robbie Williams í stódíói í London og Leonardo DiCaprio og Martin Scorsese í anddyri kvikmyndahúss í París.

Sýningin stendur til 26. ágúst


Guðrún Pálína opnar sýningu í Uglunni, Gamla barnaskólanum, Skógum í Fnjóskadal

palina_1165161.jpg

Sýning Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur, Skólaskylda, opnar 3. ágúst kl. 14 í Uglunni, Gamla barnaskólanum, Skógum í Fnjóskadal.

Sýningin er röð andlitsmynda af börnum máluð með akryllitum á málaradúk. Öll eiga börnin það sameiginlegt að fyrr en síðar hefst þeirra skólaganga og mun hún væntanlega verða sumum þeirra til farsældar og gleði en öðrum erfið. Áhorfandinn getur sjálfur viðrað eigin tilfinningar gagnvart skólagöngu sinni og annarra við að skoða myndirnar og dvelja um leið í umhverfi sem var menntastofnun barna.

Vonandi vekur sýningin og umhverfið upp spurningar og hugmyndir tengdar skólaskyldu, fræðslu og þekkingaröflun annars vegar og hins vegar umhugsun um skammsýni, fáfræði og heimóttarhátt, sem vel getur verið til staðar hjá vel upplýstum og menntuðum þjóðum.
Þá koma upp ýmsar siðferðilegar spurningar tengdar menntun, þekkingu, völdum og þurfa Íslendingar ekki að fara nema til ársins 2008 til að rifja upp hvernig hámenntaðir og vinnusamir menn ráku efnahag landsins síns í þrot. Gætu kennsluhættir fyrri ára og viska Uglunnar orðið okkur innblástur til að finna leiðir sem gefa raunverulega menntun?

Myndlistarmaðurinn Guðrún Pálína Guðmundsdóttir er menntuð í myndlist frá Íslandi, Svíþjóð og Hollandi. Hún er búsett og starfandi á Akureyri og hefur haft fjölda sýninga síðustu tuttugu og fimm árin. Hún er einnig menntaður myndlistarkennari og hefur mest megnis fengist við slíka kennslu hérlendis og í Svíþjóð.

Brynhildur Kristinsdóttir og Laufey Margrét Pálsdóttir opna sýningu í Mjólkurbúðinni

bilda.jpg

Listakonurnar Brynhildur Kristinsdóttir og Laufey Margrét Pálsdóttir opna sýningu sína „ÉG VAR“ í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri 4. ágúst kl.15:00.


Sýning þeirra er innsetning og fjallar um það sem var og er:

Gardínukonan felur sig á bak við gluggatjöldin. Hún ber kvíða í brjósti og óttast að nú fái hún brátt heimsókn. Kvöldsólin brýtur sér leið framhjá þykkum tjöldunum og sendir geisla sína inn í stofuna, haustgolan læðist inn um opinn gluggann og rétt sem snöggvast er heimurinn hennar „stofan“ sveipuð ævintýraljóma. 
Handan við hornið eru rauðar verur sestar á skólabekk. Með glampa í augum og alls grunlausar um hvað bíður þeirra í menntaKERFI nútímans sitja þær vonglaðar og bíða.

Sýningin ÉG VAR stendur til 12.ágúst og eru allir velkomnir

opið laugardaga og sunnudaga kl.14-17 og eftir samkomulagi.

Brynhildur Kristinsdóttir bilda@simnet.is s.8683599
Laufey Margrét Pálsdóttir laufeym@internet.is s.8228707

Mjólkurbúðin á facebook - Vertu vinur!
Dagrún s.8957173

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband