Ásdís Arnardóttir opnar sýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri

attachment

Ásdís Arnardóttir opnar myndlistasýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri laugardaginn 2. febrúar kl. 15:00. Sýningin mun standa til 1. mars.
Ásdís nam fyrst við Myndlistaskólann á Akureyri 1995-1996, síðan í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk prófi frá málunardeild árið 1999. Auk þess hefur hún tekið ýmis námskeið í steinhöggi m.a. við Accademia di Belle Arti, Bologna og hjá Einari Má Guðvarðarsyni, myndhöggvara.
Hún hefur m.a. starfað við Menningarmiðstöðina Gerðuberg og hjá Listasafni Kópavogs, Gerðarsafni. Að undanförnu hefur hún eingöngu unnið að eigin list.
Á sýningunni á bókasafninu eru myndir málaðar með vatnslitum á hríspappír. Myndefnið sækir Ásdís í ljósmyndir frá miðjum 8. áratug síðustu aldar, sem teknar voru á Kodak Instamatic myndavél af einfaldri gerð. Í verkunum kallast á innileiki ljósmyndarinnar og sú tilfinning sem myndast við samspil pappírs og litar. Um leið segir hver mynd örsögu úr nálægri fortíð.

Bókasafn Háskólans á Akureyri er opið alla virka daga frá 8:00 – 18:00 og á laugardögum frá 12:00 – 15:00. 

Allir eru velkomnir


Bráðið vatn - Smeltevand

Portalen_invi_press

Sýningin Smeltevand sem er samsýning 10 norrænna listakvenna heldur áfram ferð sinni og var hún (ný og endurbætt) sett upp í sýningarsölum Menningarmiðstöðvarinnar Portalen, í Greve í Danmörku. 

Fimm íslenskar listakonur sem allar starfa að listsköpun á Akureyri eru þátttakendur: Ragnheiður Björk Þórsdóttir vefari, Hrefna Harðardóttir og Sigríður Ágústsdóttir leirlistarkonur, Anna Gunnarsdóttir textíl, Sveinbjörg Hallgrímsdóttir grafík og svo eru: Mette Strøm frá Noregi, Anette Andersen, Heidrun Sørensen, Else Marie Gert Nielsen, Inge-Lise Busacke frá Danmörku. 

 

Listsýningin er haldin í tengslum við „Alþjóðlegt heimskautaár“  sem nú stendur yfir í heiminum og reyna listakonurnar að túlka þeirra sýn á hlýnun jarðar, bráðnun jökla hækkandi sjávarstöðu m.a. í grafík, textíl- og leirverkum. Smeltevand var sett upp í Grænlandshúsinu í Kaupmannahöfn í september-nóvember s.l. og fékk bæði mjög góða blaðadóma og mikla aðsókn.  

Sýningin stendur frá 12. janúar til 24. febrúar nk. og opnunartími er:  kl. 14-17 þri-fös og kl. 13-17 lau. og kl. 11-15 sun. 
Greve er í klukkustundar lestarferð fyrir utan Kaupmannahöfn, farið út við Hundige lestarstöðina.
Sýningin í Portalen mun standa í 5 vikur en heldur þá áfram ferðalaginu og kemur til Akureyrar í júní.   Aðgangur er ókeypis.
Nánari upplýsingar : 
skoða Gallerierne - Smeltevand
__________________________________________

Alþjóðlega heimskautaárið, International Polar Year, hófst  1. mars 2007 og lýkur í mars 2009.  Heimskautaárið stendur því í raun í tvö ár.   Þessi viðburður er hluti af sögulegri hefð, en 1/2 öld er liðin frá síðasta alþjóðlega heimskautaári.   Á heimskautaári er lögð áhersla á stór rannsóknarverkefni á öllum sviðum heimskautamála þar sem vísindamenn af ýmsum þjóðernum leggja saman krafta sína.

Fyrir áhugasama er hér tengill á heimasíðu IPY   http://www.ipy.org
Um og yfir 6.500 vísindamenn taka höndum saman frá 60 ríkjum og eru verkefnin um 200 talsins. Stóru áherslurnar eru helst á sviði loftslagsmála og veðurfarsbreytinga og þýðingu þeirra fyrir gróðurfar og dýralíf.  Eitt af því sem hvað mest verður í brennidepli á heimskautaári eru frekari rannsóknir á Grænlandsjökli og viðbrögð hans við veðurfarssveiflum.  Nú á að freista þess að leggja í afkomulíkan jökulsins, sem hlýtur að teljast vera risavaxið verkefni ekki síst þar sem lítið er um beinar mælingar á ákomu og leysingu þessa stærsta ísmassa norðurhvels.

Á fyrsta alþjóðlega heimskautaárinu 1882-1883 var megináherslan lögð á veðurathuganir og rannsóknir á norðurljósum.

Næst, eða 1932-1933 voru vísindamenn afar uppteknir af segulsviði jarðar og mælingum á hafinu.

1957-1958 gekk mikið á í margvíslegum rannsóknum jarðeðlisfræðinnar, en þá var árið reyndar kallað alþjóða jarðeðlisárið og sérstakt sjónarhorn á Suðurskautslandið. 

Einar Sveinbjörnsson Veðurfræðingur

Bloggfærslur 29. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband