Færsluflokkur: Umhverfismál

Viktor, Ivar og George Hollanders sem sýna í Populus Tremula

georg-og-synir-web_925783.jpg

Laugardaginn 24. október kl. 14:00 verður opnuð myndlistarsýningin OPSTRAAT & RESTJES, Japonisma í Populus Tremula. Það eru feðgarnir Viktor, Ivar og George Hollanders sem sýna saman. Sýningin fjallar um endurnýtingu eða gjörnýtingu og kynnir nýja hugmyndafræði eða “public trademark”, Opstraat & Restjes.
Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 25. október kl. 14:00 - 17:00


Varp Haraldar Jónssonar í Gallerí Víð8ttu601

img_0979.jpg


Laugardaginn 29. ágúst var verkið VARP eftir Harald Jónsson myndlistarmann
afhjúpað hjá Gallerí Víð8ttu601 í hólmanum í Leirutjörn á Akureyri.
Innsetningin sem unnin er í nánu samstarfi við aðstandendur
sýningarstaðarins vísar í margar áttir samtímis,verkið er í senn heimsendir
eða neyðarmerki yfir á íslenska meginlandi en er líka stækkunargler og
fylgja sem kom til þegar Drottningarbrautin,sem kennd er við dönsku krúnuna,
var lögð á sínum tíma og myndar leiðin þannig áþreifanlegan naflastreng út á
flugvöll og yfir til okkar fyrri nýlenduherra.
Haraldur Jónsson nam myndlist í Aix en Provence í Frakklandi, í
Myndlistaskólanum í Reykjavík, MHÍ, við Kunstakademíuna í Düsseldorf í
Þýskalandi og Institut des Hautes Etudes en Arts Plastiques í París,
Frakklandi. Verk hans eru í eigu helstu safna landsins og eru reglulega til
sýnis víðs vegar um heim.


Haraldur Jónsson sýnir í Gallerí Víð8ttu601

haraldurj

Laugardaginn 29. ágúst kl.17:00 verður verkið Varp eftir Harald Jónsson myndlistarmann afhjúpað í hólmanum í Leirutjörn við Drottningarbraut á Akureyri. Innsetningin sem unnin er í nánu samstarfi við aðstandendur Víð8ttu vísar í margar áttir samtímis, verkið er í senn heimsendir eða neyðarmerki yfir á íslenska meginlandið en það er sömuleiðis stækkunargler og fylgja sem kom til þegar Drottningarbrautin, sem kennd er við dönsku krúnuna, var lögð á sínum tíma og myndar verkið þannig áþreifanlegan naflastreng út á flugvöll og yfir til okkar fyrri nýlenduherra.

Haraldur Jónsson nam myndlist í Aix en Provence í Frakklandi, í Myndlistaskólanum í Reykjavík, MHÍ, við Kunstakademíuna í Düsseldorf í Þýskalandi og Institut des Hautes Etudes en Arts Plastiques í París, Frakklandi. Verk hans eru í eigu helstu safna landsins og eru reglulega til sýnis víðs vegar um heim.

Þetta er síðasta sýningin sem Gallerí Víð8tta601 setur upp í hólmanum í Leirutjörn en Víð8tta bindur sig ekki við almenn sýningarrými heldur finnur sér stað úti í náttúrunni eða í byggingum sem ekki hafa verið notaðar sem sýningarstaðir áður.

Upplýsingar um verkið veitir Haraldur Jónsson:  860 8468

Upplýsingar um Gallerí Víð8ttu601: Steini eða Dísa  846 1314


Þórgunnur Oddsdóttir opnar sýningu á Café Karólínu

Þórgunnur Oddsdóttir

Íslensk landafræði

01.08.09 - 04.09.09


Café Karólína // Kaupvangsstræti 23 // IS 600 Akureyri // 4612755


Þórgunnur Oddsdóttir opnar sýninguna “íslensk landafræði” á Café Karólínu laugardaginn 1. ágúst klukkan 15.

Þórgunnur er Eyfirðingur, fædd árið 1981. Hún stundar nám við Listaháskóla Íslands og hefur meðfram námi starfað sem blaðamaður og pistlahöfundur á Fréttablaðinu og nú síðast sem fréttamaður á RÚV.

Sýningin Íslensk landafræði er óður til gömlu landslagsmálaranna sem lögðu grunn að íslenskri myndlistarsögu og áttu með verkum sínum þátt í að vekja þjóðerniskennd í brjóstum landsmanna. Fjallið upphafna er á sínum stað, líkt og í verkum meistaranna, en þetta eru hvorki Hekla né Herðubreið heldur óárennilegir fjallgarðar sniðnir eftir línuritum yfir gengisþróun, úrvalsvísitölu, verðbólgu og tap. Landslagið sem tekið hefur við.


Nám

2007 -  Listaháskóli Íslands, myndlistardeild
2006 – Kunstskolen Spektrum, Kaupmannahöfn
2003 – 2006 Háskóli Íslands, BA-próf í íslensku og fjölmiðlafræði
2002 – 2003 Myndlistarskólinn á Akureyri, fornámsdeild
1997 – 2001 Menntaskólinn á Akureyri, stúdentspróf

Meðfylgjandi mynd er af einu verka Þórgunnar.

Nánari upplýsingar veitir Þórgunnur í síma 820 8188 eða tölvupósti: thorgunnur.odds@gmail.com

Næstu sýningar á Café Karólínu:
05.09.09 - 02.10.09    Ólöf Björg Björnsdóttir
03.10.09 - 06.11.09    Bryndís Kondrup     
07.11.09 - 04.12.09    Bergþór Morthens   
05.12.09 - 01.01.10    Sveinbjörg Ásgeirsdóttir

Umsjónarmaður sýninganna er Hlynur Hallsson


Safnamörk, samsýning við Safnasafnið

safnamork_frettatilkynning.jpg

Laugardaginn 13. júní kl. 14:00 verður opnuð sýningin Safnamörk í Reinum norðan við Safnasafnið á Svalbarðsströnd. Huginn Þór Arason, Karlotta Blöndal og Unnar Örn J. Auðarson sýna þar verk unnin sérstaklega með garð Safnasafnsins í huga.

SAFNAMÖRK
samsýning í Reitnum norðan við Safnasafnið á Svalbarðsströnd
Huginn Þór Arason, Karlotta Blöndal & Unnar Örn
Daganna 13/6 -7/9 2009
Laugardaginn 13.júní kl.14.00 opnar í Reitnum norðan við Safnasafnið á Svalbarðsströnd sýningin Safnamörk. Þar munu myndlistarmennirnir Huginn Þór Arason, Karlotta Blöndal & Unnar Örn sýna verk unnin sérstaklega með garð Safnasafnsins í huga. Á sýningunni vinna listamennirnir útfrá staðsetningu Safnasafnsins og endimörkum þess bæði landfræðilega sem og hugmyndafræðilega. Verk listamannanna koma frá ólíkum rótum, alþjóðlegum helgisiðum og venjum tengdum sumarsólstöðum, munnmælasögum um uppruna skóga í Eyjafirði, takmörk upplifunar í manngerðri náttúru og merkingu einkennisklæðnaðar.

Kristín Kjartansdóttir sagnfræðingur og garðyrkjukona segir í texta sem fylgir sýningunni:
“Íslendingar sem í aldaraðir bjuggu allflestir hreinlega hálf grafnir í jörðu samsvöruðu sig vel við krafta náttúrunnar og upplifðu sig sem hluta af henni. Náttúran var eins og hýbýli landans órjúfanleg heild af manneskjunni sjálfri, ekki eitthvert fyrirbæri sem horft var á úr fjarska eða fólk réð yfir. Ólíkt því sem nú er þá fannst fólki það ekki þurfa að stjórna náttúrunni, heldur að læra umgangast hana. Þegar við gengum út úr moldarkofunum í byrjun 20. aldar, var náttúran skilin eftir, en svo snérum við okkur að því að beisla krafta hennar og stjórna eins og mögulegt er á meðan við ræktuðum tengslin við hana í yndislegum lautarferðum og landslagsmálverkum.”

Sýningin Safnamörk er hluti af viðamikilli og fjölbreyttri sýningardagskrá Safnasafnsins þetta sumarið. Safnasafnið er opið í sumar alla daga vikunnar frá 10.00 til 18.00.

Nánari upplýsingar veitir Níels Hafstein safnstjóri í síma 4614066 og eins er hægt að hafa samband beint við listamennina. Huginn - 692 9817 / Karlotta - 846 5042 / Unnar - 699 5621


Arnar Tryggvason sýnir í Jónas Viðar Galleryi

arnartryggva_600.jpg

Þetta er þriðja einkasýning Arnars sem útskrifaðist sem grafískur hönnuður
frá Myndlistaskólanum á Akureyri 1995.

Myndverk Arnars hafa vakið verðskuldaða athygli enda sýnir hann ljósmyndir
af landslagi sem er ekki til - ljósmyndir af hugarheimi.

Hvert verk er samsett úr aragrúa ljósmynda. Arnar sækir búta úr ljósmyndum
héðan og þaðan og raðar saman upp á nýtt - mótar nýtt landslag. Og þrátt
fyrir að myndefnið hafi yfir sér framandlegan blæ er áhorfandinn þess
jafnframt fullviss að hann þekki myndefnið, hafi gengið þarna um.

Sýningin opnar laugardaginn 13. júní kl. 15:00 og er öllum boðið að vera
við opnun sýningarinnar. Létta veitingar verða í boði.

______________________________________________

Jónas Viðar
sími: 8665021
Heimasíða: http://www.jvs.is
Jónas Viðar Gallery: http://www.jvs.is/jvgallery.htm


Gunnar Kr. Jónasson sýnir í Gallerí Borgum Dimmuborgum

Gunnar Kr. Jónasson sýnir í Gallerí Borgum Dimmuborgum

 

Laugardaginn 6. júní opnar Gunnar Kr. Jónasson sýningu í Gallerí Borgum.

Gallerí Borgir er í nýopnuðu þjónustuhúsi við Dimmuborgir í Mývatnssveit.

Gunnar Kr. Jónasson myndlistarmaður býr og starfar á Akureyri. Hann vinnur jöfnum höndum að málverki, teikningum og gerð þríviðra verka. Gunnar Kr. hefur unnið lengi að myndlist, framan af meðfram öðrum störfum og atvinnurekstri, en síðan 2002 hefur hann helgað sig listinni óskiptur.

Verk Gunnars Kr. hafa vakið verðskuldaða athygli, enda hefur hann skapað sér afar persónulegan stíl sem hann hefur þróað markvisst um langa hríð.

Í Gallerí Borgum sýnir Gunnar Kr. teikningar úr Mývatnssveit. Sýningin er opin frá 6. júní fram í miðjan júlí á opnunartíma Kaffi Borga frá kl. 10:00-22:00.


GUÐMUNDUR ÁRMANN SÝNIR Í POPULUS TREMULA

garmann_populus_800074.jpg

Laugardaginn 28. febrúar kl. 14:00 mun Guðmundur Ármann opna myndlistarsýninguna ÍMYNDIR í Populus Tremula. Verkin á sýningunni, sem öll eru akvarellur, eru ný af nálinni, máluð á þessu ári. Guðmund Ármann þarf vart að kynna enda löngu landskunnur myndlistarmaður. Á síðasta ári kom út vönduð bók um Guðmund og myndlist hans.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 1. mars frá 14:00-17:00  |  Aðeins þessi eina helgi.


Ásdís Spanó sýnir í Jónas Viðar Gallery

asdis_spano.jpg

Laugardaginn 14. febrúar kl. 15 opnar Ásdís Spanó einkasýningu í Jónas Viðar Gallery í Listagilinu á Akureyri.

Sýningin ber nafnið "Tellus Ictus" og byggist á hugleiðingum listamannsins um hin ýmsu útrænu og innrænu öfl sem áhrif hafa á yfirborð jarðvegs. Í lagskiptingu verkana byggir Ásdís á samspili náttúru og borgar, hinu sjálfráða og hinu rökræna. Leiðarstef verkanna er orkuflæðið sem myndast í sköpunarferlinu.

Tellus Ictus er níunda einkasýning Ásdísar Spanó, en hún hefur tekið þátt í fjölmörgum sýningum síðan hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2003.


Jónas Viðar Gallery


Kristin G. Jóhannsson opnar sýningu í Jónas Viðar Gallery

 

Laugardaginn 17. janúar kl.15.00 verður opnuð sýning á nýjum verkum eftir
Kristin G. Jóhannsson, listmálara, í Jónas Viðar Gallery ,
Kaupvangsstræti á Akureyri.

Sýningin ber titilinn "Haustbrekkur" og er hluti myndraðar, sem
listamaðurinn hefur unnið að undanfarin ár.
Hann sýndi fyrsta hluta þessa bálks í Ketilhúsi fyrir tveimur árum og hét
"Búðargil og brekkurnar" og eru verkin á þessari sýningu í beinu framhaldi
af þeim.

Kristinn leitar fanga í nánasta umhverfi sitt og segist efna til þessara
verka í brekkunum upp af Fjörunni eða eins og segir í sýningarskrá:"Verkin
á þessari sýningu eru sem sagt hluti af stærri heild og sækja blæbrigði í
litskrúð brekknanna og minnir á haustið eða gróður sem er að syngja sitt
síðasta með trega, flúri eða fagurgala. Líf í lækkandi sól."

Sýningin veður opin til 8. febrúar og er gallerýið opið föstudaga og
laugardaga  kl 14.00-18.00.

Allir eru velkomnir á opnun sem er sem fyrr sagði kl. 15.00 n.k. laugardag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband