Færsluflokkur: Lífstíll

Lýðræðisdagurinn 2008 á Akureyri

ak

Lýðræðisdagurinn 2008 verður haldinn laugardaginn 12. apríl nk. í Brekkuskóla á Akureyri undir yfirskriftinni "Þú & ég & Akureyri". Tilgangurinn með framtakinu er fyrst og fremst að efla íbúalýðræðið og koma af stað frjóum umræðum um það hvernig bæjarbúar sjái fyrir sér að gera megi Akureyri að ennþá betri bæ.

Dagskráin hefst kl. 13.00 og er áætlað að henni ljúki um klukkan 17.00. Vonast er eftir góðri þátttöku þar sem fólk getur valið um að ræða málin í átta ólíkum málstofum þar sem fjallað verður um ýmis áhugaverð málefni sem varða hag bæjarbúa. Flestar málstofurnar verða haldnar tvisvar og því ætti jafnvel að vera hægt að taka þátt í tveimur þeirra ef vilji er fyrir hendi.

Á fundinum gefst bæjarbúum tækifæri til að hafa áhrif á bæjarbraginn, deila skoðunum sínum og sjónarmiðum með öðrum, og láta gott af sér leiða í bæjarmálum almennt.

Málstofurnar eru eftirfarandi:

      Íbúalýðræði
      Framsaga: Ágúst Þór Árnason - agust@unak.is
      Umræðustjóri: Margrét Guðjónsdóttir

      Mengun, umferð og lýðheilsa
      Framsaga: Pétur Halldórsson - peturh@ruv.is
      Umræðustjóri: Kristín Sóley Sigursveinsdóttir

      Göngu- og hjólreiðastígar
      Framsaga: Guðmundur Haukur Sigurðarson - ghs@vgkhonnun.is
      Umræðustjóri: Inga Þöll Þórgnýsdóttir

      Lýðheilsa og skipulag
      Framsaga: Matthildur Elmarsdóttir - matthildur@alta.is
      Umræðustjóri: Karl Guðmundsson

      Hæglætisbær eða heimsborgarbragur?
            Framsaga: Hólmkell Hreinsson - holmkell@akureyri.is
            Umræðustjóri: Katrín Björg Ríkarðsdóttir


      Vistvernd í verki. Allra hagur.
      Framsaga: Stella Árnadóttir - gstella@heimsnet.is
      Umræðustjóri: Gunnar Gíslason

      Að eldast á Akureyri.
      Framsaga: Sigrún Sveinbjörnsdóttir - sigrunsv@unak.is
      Umræðustjóri: Þórgnýr Dýrfjörð

      Akureyri – fjölskylduvænt samfélag.
      Framsaga: Jan Eric Jessen - 24jej@ma.is
      Umræðustjóri: Sigríður Stefánsdóttir


Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, setur Lýðræðisdaginn kl. 13.00 með stuttu ávarpi og síðan hefst vinnan í málstofunum. Að þinginu loknu, upp úr kl. 16.00, mun María Sigurðardóttir, nýr leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, sjá um að slíta samkomunni á viðeigandi hátt.

Skorað er á Akureyringa að fjölmenna og taka þátt í líflegum umræðum um bæinn sinn.


Tilraunastofa Kristjáns Ingimarssonar í Ketilhúsinu kl. 20.30 laugardagskvöld

frelseren11_smallÞriðji viðburðinn í tengslum við SKÖPUN - tilraunastofu leikarans Kristjáns Ingimarssonar sem kemur áhofendum skemmtilega á óvart. Hvað er það sem gerir það að verkum að eitthvað nýtt verður til? Eitthvað sem enginn veit hvað er en allir eru sammála um að þetta eitthvað er einstaklega hrífandi, skemmtilegt, óhugnanlegt eða upplífgandi, með athygli sinni og undrun gefa því líf. Í tilefni af byrjun á vinnslu nýrrar sólóleiksýningar sem ber vinnuheitið SKÖPUN er dyrunum hrundið upp til viðburðar sem vonandi kollvarpar öllum hugmyndum um heilbrigða skynsemi. Kristján nýtur aðstoðar myndlistamannsins Þórarins Blöndal við uppsetninguna í Ketilhúsinu. Vinsamlegast takið með ykkur myndavél með flassi!

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.


Bæ bæ Ísland opnar í Listasafninu á Akureyri á laugardag

listak_frettir_0208

LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI KYNNIR

Bæ bæ Ísland

Uppgjör við gamalt konsept
Laugardaginn 15. mars nk. verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýningin „BÆ BÆ ÍSLAND” sem er átaksverkefni tuttugu og þriggja myndlistamanna og fjölmargra annarra sem vilja ræða landsins gagn og nauðsynjar með einum eða öðrum hætti. Höfundur verkefnisins og sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni í Listasafninu eru Ásmundur Ásmundsson, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Erling Þ. V. Klingenberg, Hallgrímur Helgason, Hannes Lárusson, Hlynur Hallsson, Inga Svala Þórðardóttir & Wu Shan Zhuan, Kolbeinn Hugi Höskuldsson, Libia Pérez de Siles de Castro & Ólafur Árni Ólafsson, Magnús Sigurðarson, Ólafur Sveinn Gíslason, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Rúrí, Steingrímur Eyfjörð, Unnar Örn Auðarson & Huginn Þór Arason, Þorvaldur Þorsteinsson og Þórdís Alda Sigurðardóttir.

Sem sjá má er hér smalað saman í öflugan her fólks sem er allt annað en skoðanalaust um „verkefnið Ísland” og hvernig því hefur verið umturnað á síðustu tveimur áratugum. Því Íslandi hefur verið umbylt og í þeirri byltingu eru lykilorðin einkavæðing, kvótakerfi, misskipting, útrás, græðgi, þrælsótti, innflytjendur og stóriðja. Allt gott og blessað en afleiðingin er að nú má segja að landið byggi þrjár þjóðir, þ.e. milljarðamæringar, íslenskt alþýðufólk og innflytjendur.

Heiti verkefnisins, „Bæ bæ Ísland”, vísar í fyrsta lagi til kveðjuhófs eða útfarar um 19. og 20. aldar hugmyndarinnar um Ísland. Það sem í gær var unga Ísland er nú tákn hins liðna. Bless bless (hin kristilega blessun) víkur fyrir hinu ennþá óformlegra bæ bæ og vitnar um leið um það hvernig íslenskan er farin á límingunum. Í öðru lagi hljómar bæ eins og sögnin að kaupa (buy) á ensku og verður því til eins konar undiráróður: „Kaupum kaupum Ísland!” „Bæ bæ Ísland” er þannig uppgjör við hugmyndina um tunguna sem upphaf og endi sögulegrar tilvistar þjóðarinnar, sem og möguleika hennar til að lifa af menningarlega útjöfnun hnattvæðingarinnar.

DSCF0012Verkefninu „Bæ bæ Ísland” tengist fólk sem er óhrætt við að segja meiningu sína í salarkynnum tjáningarfrelsisins. Þetta er fólk sem getur skilgreint sig á báðum vígstöðvum, í hinu gamla sem og hinu nýja, staðbundið og heimsvætt, hvort heldur sem er á sjó eða landi, á leikskólum eða í bönkum. Alvarleiki, sem dottinn er úr tísku, er hér settur á oddinn.

„Bæ bæ Ísland” er einnig uppgjör við atlögu auðmagnsins að landi þjóðarinnar. Ýmsir nútímavæddir „víkingahöfðingjar“ virðast hafa sagt bæ bæ við landið í áþreifanlegri merkingu og fjarstýra nú að miklu leyti efnahagsmálum þjóðarskútunnar utan úr heimi líkt og Danakonungur gerði á sínum tíma. En þegar öllu er á botninn hvolft var það samt ekki kana- eða kommagull sem asninn bar yfir borgarmúrana. Gullið kom úr hirslum okkar sjálfra. Sýningin er eins konar hugmyndafræðileg úför og kveðjuhóf í formi myndlistarsýningar.
Á opnunardegi sýningarinnar kl. 14 verður frumflutt tónverkið „Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands“ í Ketishúsinu á Akureyri, en verkið var unnið í samstarfi myndlistardúósins Libiu Castro og Ólafs Ólafsson og tónskáldsins Karólínu Eiríksdóttur. Libia og Ólafur fóru þess á leit við Karólínu að hún semdi tónverk þar sem allar 81 greinar stjórnarskrárinnar væru sungnar. Verkið er skrifað fyrir tvo einsöngvara, píanó, kontrabassa og blandaðan kór og flytjendur verksins eru: Ingibjörg Guðjónsdóttir (sópran), Bergþór Pálsson (baritón) Tinna Þorsteinsdóttir (píanóleikari), Gunnlaugur Torfi Stefánsson (kontrabassaleikari) og kammerkórinn Hymnódía frá Akureyri undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar.

Föstudaginn 14. mars kl. 15 verður haldið opið málþing um „konseptið Ísland“ í Ketilhúsinu. Ágúst Þór Árnason, Þorvaldur Þorsteinsson og Ósk Vilhjálmsdóttir halda framsöguerindi, en fundarstjóri er Birgir Guðmundsson lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri.

Unnið er að því að gefa út viðamikla bók síðar á árinu þar sem tugir ef ekki hundruð Íslendinga gera upp við gamla konseptið Ísland og fyrirhugað er að halda ráðstefnu undir sama nafni. Bókin er hugsuð sem safnrit og jafnframt nokkurs konar leiðarvísir. Í henni verður m.a. tekið á bankakerfinu, þjóðarímyndinni, útlendingum á Íslandi, fjölmiðlum, stóriðju- og náttúruverndarsjónarmiðum og siðferði í stjórnmálum, auk þess sem þar verður einnig að finna umfjöllun um framlag listamannanna á sýningunni og myndir af verkum þeirra.

Ítarlegar upplýsingar um listamennina og inntak sýningarinnar er að finna á vefsíðu Listasafnsins: www.listasafn.akureyri.is. Frekari upplýsingar veitir forstöðumaður safnsins, Hannes Sigurðsson, í síma 899-3386 (netfang: hannes@art.is).

Þess má að lokum geta að ekkert fyrirtæki treysti sér til að styrkja verkefnið, sem segir ef til vill sína sögu. Sýningunni lýkur 11. maí og er safnið opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17.


Búdda er á Akureyri: Opnun í Listasafninu á Akureyri

listak_frettir_0108

Búdda er á Akureyri:
Oft var zen en nú er nauðzen


Laugardaginn 19. janúar kl. 15 verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýning sem hefur lífsspeki búddismans að leiðarljósi, en listamennirnir á henni eru Halldór Ásgeirsson, Erla Þórarinsdóttir, Finnbogi Pétursson og hinn heimskunni bandaríski vídeólistamaður Bill Viola, sem hér sýnir í fyrsta sinn á Íslandi.

Listasafnið á Akureyri hefur oft farið ótroðnar slóðir í sýningarhaldi og er þessi sýning engin undantekning frá þeirri reglu. Henni er ætlað að vera fræðandi og til þess fallin að skapa áhugaverða umræðu og jafnvel deildar meiningar. Af þeim sökum fylgir veglegt blað með henni sem hefur að geyma talsverðar upplýsingar um búddisma og þróun hans (rúmlega 26.000 orð). Til er gríðarlegt magn af efni um búddisma á öðrum tungumálum, en því miður mjög lítið á íslensku og ætti því að vera nokkur fengur að blaðinu.

Til að gera sýninguna nærtækari íslenskum áhorfendum var leitað á náðir kunnra íslenskra myndlistarmanna sem hafa tileinkað sér búddisma (Halldór Ásgeirsson), þekkja vel til hans og nota það innsæi í list sinni (Erla Þórarinsdóttir), eða virðast smellpassa í þetta tiltekna samhengi (Finnbogi Pétursson). Á henni er einnig að finna nokkra hefðbundna búddíska hluti. Sérstakur gestur sýningarinnar er Bill Viola, einn virtasti myndlistarmaður heims. Viola hefur lengi verið kenndur við búddisma og setur verk hans á sýningunni, „Lostalotning“ (Observance, 2002), hana í alþjóðlegt samhengi.

Sigurður Skúlason leikari, sem er búddisti, skrifaði fróðlegan pistil um sögu búddismans af þessu tilefni og gerði skrá yfir ýmis hugtök sem þar bregður oft fyrir. Hannes Sigurðsson, sýningarstjóri og höfundur verkefnisins, skrifar einnig ítarlega grein um búddisma og hugmyndafræði hans, einkum og sér í lagi tantrískan búddisma, og kemur víða annars staðar við á yfirreið sinni, auk þess að fjalla um listamennina og setja þá í samhengi við búddisma. Þá er í blaðinu að finna samandregna endursögn hans á tveimur af mörgum bókum indverska ólíkindatólsins Oshos (1931-1990), en þessi andlegi meistari var þyrnir í augum bandarísku alríkislögreglunnar sem vísaði honum úr landi og var honum í framhaldi meinað að stinga niður fæti í tuttugu öðrum þjóðríkjum.

Blaðið setur sýninguna í víðtækt samhengi og opnar fyrir fjölbreytilega túlkun á listaverkunum sem á henni eru. Á sýningunni geta áhorfendum einnig upplifað búddisma á eigin skinni, ef svo má segja. Boðið verður upp á ókeypis Body-Balance æfingar í safninu í samvinnu við heilsuræktina Átak, sem í þessu samhengi alveg eins mætti nefna „Art Movements“ þar sem fólk getur teygt sig og notið listarinnar á sama tíma — og ætti það að vera kjörið tækifæri til að koma stirðum skammdegiskroppum aftur á hreyfingu eftir allar jólakrásirnar. Þeir sem vilja frekar melta inntak sýningarinnar að zenbúddískum sið geta tyllt sér í hugleiðsluhorn sem útbúið hefur verið í miðsal safnsins.

Sýningin stendur frá 19. janúar til 9. mars. Opið alla daga nema mánudaga frá 12-18. Aðgangseyrir kr. 400. Ókeypis á fimmtudögum. Máttarstólpi sýningarinnar er Eymundsson. Aðrir styrktaraðilar eru: Átak, Flugfélag Ísland, Ásprent, KPMG, Securitas, Eimskip, ISS, Sparisjóður Norðlendinga, Flügger litir og Hótel Akureyri.

Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í síma 899-3386. Netfang: hannes(hjá)art.is


Þórunn Elísabet Sveinsdóttir opnar sýninguna BLÍÐLYNDI í galleriBOXi á laugardag

tótu-teppi-02_1

Ný sýning í galleriBOXi á laugardag

ÞÓRUNN E. SVEINSDÓTTIR opnar sýninguna BLÍÐLYNDI

laugardaginn 19.janúar kl.16:00

 

Þórunn Elísabet Sveinsdóttir hefur unnið við leikhús í um tvo áratugi en einnig gert búninga fyrir sjónvarp, tónlistarmyndbönd, auglýsingar og kvikmyndir. Hún  gerði t.d. búninga fyrir kvikmyndirnar 101 Reykjavík, Ikingut og Hafið. Henni voru veitt Grímuverðlaunin 2004 - Íslensku leiklistarverðlaunin fyrir bestu búninga ársins í sýningu Vesturports á Romeó og Júlíu.  Meðal leiksýninga sem Þórunn hefur unnið búninga fyrir við Þjóðleikhúsið eru Gauragangur, Snædrottningin, Taktu lagið Lóa, Sjálfstætt fólk og Krítarhringurinn í Kákasus. Nýleg verkefni Þórunnar við Þjóðleikhúsið eru búningar fyrir Rambó 7 og fyrir Klaufa og kóngsdætur (H.C. Andersen), en fyrir þá búninga var hún tilnefnd til Grímunnar 2005. Nýjustu verk hennar innan Þjóðleikhússins eru Umbreyting, Stórfengleg!, Sitji guðs englar, Leitin að jólunum, Leg og nú er í vinnslu Baðstofan, sem frumsýnd verður í febrúarbyrjun og unnin er af sama hópi og gerði Leg, en fyrir þá sýningu fékk hún Grímuna og kosin Búningahöfundur ársins 2007. Á Listahátíð 2007 var hún einn höfunda leiksýningarinnar Gyðjan í vélinni sem vakti mikla athygli, fékk mjög lofsamlega umfjöllun og var tilnefnd ein besta sýning ársins.

Frá unglingsárum hefur Þórunn fundið útrás listsköpunar í teppasaumi og óhætt að fullyrða að þar hefur hún þróað sérstakan og persónulegan stíl. Eftir hana liggja mörg hundruð teppi hérlendis og erlendis, en hér er eru nú sýnd örfá af nýjustu teppunum hennar.

Sýningin stendur til 3.febrúar.

Opið er laugardaga og sunnudaga frá 14-17.


--
galleriBOX
Kaupvangstræti 10
600 Akureyri
www.galleribox.blogspot.com

Brynhildur 6922959
Gitte 8945431
Jóna Hlíf 6630545
Karen 6699373

JÓL - Norðlensk Hönnun í galleríBOXi

JÓL
Norðlensk Hönnun

galleríBOX
Kaupvangsstræti 10
600 Akureyri.

Laugardaginn 8. desember klukkan 12:00 opnar markaður með norðlenska Hönnun í BOXinu.
Enginn ætti að láta þetta fram hjá sér fara, þarna verður það heitasta sem er að gerast hjá ungum og reyndum hönnuðum.
Meðal þeirra sem sýna eru Brynhildur Þórðardóttir, Guðjón Sigurður Tryggvason, Aðalheiður S. Eystinesdóttir, Jón Laxdal, Frúin í Ham, Gitte Nielsen, Helgi þórsson.......

Einnig stendur yfir sýningin Songs With Dirty Words eftir Niall og Ruth en þau koma frá Glasgow.

Markaðurinn stendur yfir alla laugardaga og sunnudaga fram að jólum. Opið frá 12:00-18:00

NOKKUR SÉRvalin KRISTNESK JÓLATRÉ OG GREINAR VERÐA TIL SÖLU 15.-16. desember & 22.-23. desember. Meðan birgðir endast (skógur endist)

Heitt jólaglögg og piparkökur
Fjölbreyttar vörur í jólapakka

Allir Velkomnir

Jóna Hlíf Halldórsdóttir
6630545


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband