Færsluflokkur: Menning og listir
13.8.2014 | 14:55
Seinni úthlutun styrkja KÍM 2014

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar styrkir myndlistarmenn til starfa, ferða og sýningahalds erlendis. Verkefnastyrkir eru veittir til framleiðslu verka, sýninga og útgáfu en ferðastyrkir fyrir ferðum, gistingu og/eða uppihaldi á ferðalögum. Úthlutað verður tvisvar sinnum á árinu 2014.
Tekið verður við umsóknum frá 1. mars en umsóknarfrestir á árinu 2014 eru eftirfarandi:
01.04.2014 Verkefna- og ferðastyrkir fyrir tímabilið 1.jan. 1.júlí 2014
01.09.2014 - Verkefna- og ferðastyrkir fyrir tímabilið 1.júlí - 31.des 2014
Frekari upplýsingar og umsóknareyðublöð er að finna hér.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framundan eru síðustu dagar sumarsýningar Listasafnsins á Akureyri, Íslensk samtíðarportrett mannlýsingar á 21. öld, en henni lýkur sunnudaginn 17. ágúst. Á sýningunni gefur að líta hvernig 70 listamenn hafa glímt við hugmyndina um portrett frá síðustu aldamótum til dagsins í dag.
Heiti sýningarinnar felur í sér margar vísanir sem birtast í fjölbreyttri flóru listaverkanna. Um er að ræða áhugaverða blöndu og samspil hugmynda um það sem er íslenskt, um hvað felst í hugmyndinni um samtíð og um það sem orðið portrett stendur fyrir. Allar þessar hugmyndir og oft á tíðum óvænt samspil þeirra eiga sinn þátt í mótun og samsetningu sýningarinnar. Þungamiðja sýningarinnar er hugmyndin um portrettið og það sem það getur leitt í ljós. Það er kjarninn í því sem er önnur ætlun hennar: að birta áhorfendum íslenska samtíð í samspili ólíkra portrettmynda og að draga fram einskonar mósaíkmynd sem segir meira en orð fá mælt og mun meira en hver einstök mynd getur sýnt. Á sýningunni er því leitast við að sýna portrett í víðum skilningi þar sem fjölbreytni í aðferðum, myndhugsun og afstöðu til listsköpunar kemur skýrt fram í margbreytileika verkanna.
Verkin á sýningunni er öll einhvers konar portrett, þau eru tjáning listamanna þar sem reynt er að draga hið einstaka fram í persónunni á mismunandi máta. Sumir þeirra einbeita sér að mannverunni sjálfri, að því að sýna útlit hennar og afstöðu á einfaldan hátt í mynd og draga fram sérstöðu hennar. Aðrir nýta sér hið einstaka á ákveðinn hátt til að draga fram áherslur samfélagsins, þeirrar samtíðar sem við búum við. Þar eru einstök einkenni einstaklingsins í meira mæli falin í þeirri persónu sem verið er að túlka og þar verður umgjörðin sterkari. Hér er það fremur hin almenna ímynd samfélagsins sem listamaðurinn vill draga fram. Heildarmynd sýningarinnar er hugsuð sem sambland þessara þátta sem birtast í mismiklum mæli í sérhverri mynd. Í fjölbreytni sýningarinnar er því falin sú von að hún birti bæði fjölbreytileika hins einstaka í íslenskri samtíð hvernig bæði fyrirmyndir og listamenn eru einstakir í hugsun sinni og ímyndun og hina almennu sýn sem samansafn verkanna dregur fram af íslenskri samtíð. Sýningin í heild er því einskonar samsett portrett af því sem gæti talist íslenskt í núinu sem við búum við.
Listamenn:
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Anna Eyjólfsdóttir
Ásta R. Ólafsdóttir
Baltasar Samper
Benni Valsson
Bergþór Morthens
Birgir Andrésson
Birgir Snæbjörn Birgisson
Bragi Ásgeirsson
D. Írís Sigmundsdóttir
Einar Falur Ingólfsson
Erla Sylvía Haraldsdóttir & Craniv A. Boyd
Erling T.V. Klingenberg
Erró
Gjörningaklúbburinn
Guðmundur Bjarnason
Guðrún Vera Hjartardóttir
Gunnar Árnason
Gunnar Karlsson
Halldór Baldursson
Hallgrímur Helgason
Harpa Rún Ólafsdóttir
Helgi Þorgils Friðjónsson
Hertha M. Richardt Úlfarsdóttir
Hjalti Parelius
Hlaðgerður Íris Björnsdóttir
Hrafnhildur Arnardóttir
Hugleikur Dagsson
Hulda Hákon
Hulda Vilhjálmsdóttir
Hörður Sveinsson
Inga Svala Þórsdóttir & Wu Shanzhuan
Jóhann Ludwig Torfasson
Jón Axel Björnsson
Jón Óskar
Jónatan Grétarsson
Karl Jóhann Jónsson
Katrín Elvarsdóttir
Katrín Matthíasdóttir
Kjartan Sigtryggsson
Kristinn Ingvarsson
Kristín Gunnlaugsdóttir
Libia Castro & Ólafur Ólafsson
Magnús Sigurðsson
Margeir Dire
Ólöf Björg Björnsdóttir
Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir
Ólöf Nordal
Pálína Guðmundsdóttir
Ragnar Kjartansson
Ragnar Þórissonar
Ragnhildur Stefánsdóttir
Sara og Svanhildur Vilbergsdætur
Sesselja Tómasdóttir
Sigga Björg Sigurðardóttir
Sigurður Árni Sigurðsson
Sigurður Guðmundsson
Snorri Ásmundsson
Spessi
Stefán Boulter
Steinunn Þórarinsdóttir
Stephen Lárus Stephen
Sylvía Dögg Halldórsdóttir
Tómas A. Ponzi
Valdís Thor
Vytautas Narbutas
Þórdís Aðalsteinsdóttir
Þórdís A. Sigurðardóttir
Þrándur Þórarinsson
12.8.2014 | 19:56
Opnun í Ketilhúsinu á laugardaginn kl. 15: Skapandi greinar í átt að heilbrigðara efnahagskerfi
Næstkomandi laugardag, 16. ágúst, kl. 15 opnar í Ketilhúsinu sýning Urta Islandica ehf., Skapandi greinar í átt að heilbrigðara efnahagskerfi, sem samanstendur af myndlist, gjörningum, vöruhönnun, matvælaiðnaði og verslun. Tilgangurinn er að skoða samlegðaráhrif þessara ólíku sviða og þá orku sem losnar úr læðingi þegar skapandi greinar á borð við myndlist komast í tæri við fjármagn sem tengist viðskiptalífinu og öfugt.
Spjótum verður beint að ríkjandi stigveldishugsun innan listgreina og því viðhorfi að listirnar séu í eðli sínu hreinar, frjálsar og óháðar markaðnum. Á sama tíma verður þeirri hugmynd andmælt að listirnar séu byrði á samfélaginu, listamenn afætur og að leggja eigi niður opinbera styrki á þessu sviði. Viðburðurinn er hugsaður sem samræðugrundvöllur og vettvangur fyrir nýja hugmyndafræði þar sem siðfræði, samfélagsábyrgð og sjálfbærni gegna lykilhlutverki.
Sýningarstjóri er Þóra Þórisdóttir myndlistar- og athafnakona.
Sýningin stendur til 21. september og er opin alla daga nema mánudaga kl. 10-17 en kl. 12-17 frá og með 2. september.
12.8.2014 | 19:36
FUKL Í VERKSMIÐJUNNI Á HJALTEYRI

ANGELA RAWLINGS, GESTUR GUÐNASON, KARI ÓSK GRÉTUDÓTTIR, KRISTÍN EIRÍKSDÓTTIR
Verksmiðjan á Hjalteyri / 16.08. 02.09. 2014 / Neðst á Hjalteyri við Eyjafjörð / 601 Akureyri http://www.verksmidjan.blogspot.com
Kukl. Háls, fugl, rödd, kok. Herping, höft. Cervix. Corvus corax.
Cervix er latneskt orð, notað á ensku til að lýsa aðþrengjandi svæði líkamans. Cervix (legháls) er hluti af æxlunarfærum kvenna, en allir hafa cervix þar sem það er líka annað orð yfir háls. Cervix er þröng rás.
Corvus Corax (Latína) er flokkunarfræðilegt heiti yfir hrafninn.
Fukl, er innsetning og gjörningar eftir myndlistarmenn, rithöfunda og tónlistarfólk.
Magic, a neck, a bird. Voice, throat. Constriction, restriction. Cervix. Corvus corax.
Corvus corax is the taxonomic name (of Latin root) for the raven.
Fukl is an installation and performance by artists, writers, and musicians.
Koma listamannanna og viðburðurinn eru styrkt af, Myndlistarsjóði og Menningarráði Eyþings.
11.8.2014 | 20:18
Sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur í Flóru að ljúka
Kristín Gunnlaugsdóttir
14. júní - 17. ágúst 2014
Sýningarlok sunnudaginn 17. ágúst
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168
http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri
https://www.facebook.com/events/477137992432792
Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur í Flóru en henni lýkur sunnudaginn 17. ágúst 2014.
Kristín er fædd á Akureyri og stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, MHÍ í Reykjavík og Accademia delle Belle Arti í Florence á Ítalíu. Hún er ein af okkar fremstu myndlistarmönnum og einkasýning hennar í Listasafni Íslands á síðasta ári hlaut verðskuldaða athygli. Fyrir þá sýningu fékk Kristín menningarverðlaun DV fyrr á þessu ári. Á sýningunni í Flóru eru fimm verk af þeirri sýningu ásamt nýjum teikningum.
Í bókinni Sköpunarverk sem kom út í tilefni sýningarinnar í Listasafni Íslands skrifar Halldór Björn Runólfsson:
Styrkur Kristínar sem myndlistarmanns er endurnýjunarkrafturinn, hversu rækilega hún er tilbúin að taka sjálfa sig í gegn og koma þannig sér og öðrum á óvart án þess að slá af þeirri kröfu að nota sama efniviðinn og sömu aðferðirnar og áður; fást með öðrum orðum við þá tegund myndgerðar sem á rætur að rekja til kvennadyngjunnar og klausturlifnaðarins á miðöldum. Ekkert er eins djarft og afgerandi og það að brjóta gegn bannhelgi þessara luktu verkstæða þaðan sem ekkert kom sem ekki naut fullkominnar handleiðslu og blessunar andlegra eftirlitsafla, þeirra sjálfskipuðu siðavarða sem enn vaka yfir stórum hluta kvenna þessa heims, af því að þær eru svo útsettar fyrir óheppilegum refilstigum tilverunnar.
Kristín Gunnlaugsdóttir er með öðrum orðum ein þeirra örfáu listamanna okkar sem tilbúnir eru að hafa endaskipti á sjálfu sér svo þeir megi hitta okkur varnarlausa þegar minnst varir og við þörfnumst þess sem mest að vera slegin út af laginu.
Nánari upplýsingar um verk Kristínar má finna á http://kristing.is
Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru alla daga kl. 10-18.
Næsta sýning í Flóru verður sýning Maríu Rutar Dýrfjörð Eitthvað fallegt sem opnar á Akureyrarvöku, laugardaginn 30. ágúst.
Flóra er verslun og viðburðastaður með vinnustofum sem Kristín Þóra Kjartansdóttur félagsfræðingur rekur. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Menningardagskrá Flóru hlaut styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.
11.8.2014 | 20:00
Valgerður Sólrún Sigfúsdóttir sýnir í Populus tremula
Laugardaginn 16. ágúst kl. 12.00 opnar Valgerður Sólrún Sigfúsdóttir sýningu á handmáluðu postulíni í Populus tremula. Valgerður hefur lengi fengist við postulínsmálun og haldið fjölmörg námskeið og sölusýningar. Sjón er sögu ríkari. Athugið: lengri opnunartímar en venjulega.
Sýningin er einnig opin sunnudaginn 17. ágúst kl. 12.00-18.00. Aðeins þessi eina helgi.
https://www.facebook.com/events/1541935306030503
11.8.2014 | 19:42
ANÍTA HIRLEKAR SÝNIR Í HVÍTSPÓA ART GALLERÝ
VERIÐ VELKOMIN Á OPNUN SÝNINGU ANÍTU HIRLEKAR Í HVÍTSPÓA ART GALLERÝ Á AKUREYRI
FIMMTUDAGINN 14. ÁGÚST KL. 20:00
Á sýningunni sýnir Aníta masterslínu sína úr Central Saint Martins í London.
Í línunni leikur Aníta sér að því að nota hefðbundnar handversk aðferðir á nútímalegan hátt
og er útkoman listrænn glamúr með áherslu á óvenjulegar litasamsetningar, sterkan persónuleika og hreinar, kvenlegar línur. Á sýningunni má sjá átta alklæðnaði og eru allar flíkurnar handsaumaðar.
Aníta flutti frá Akureyri til London árið 2006 til að hefja nám í Central Saint Martins í London. Hún lauk BA gráðu árið 2012 í fatahönnun með áherslu á print og útskrifaðist með mastersgráðu árið 2014 með sérhæfingu í textíl.
Masterslína hennar var valin til sýninga á London Fashion Week fyrir Haust/Vetur 2014.
Anita vann nýlega til virtra verðlauna fyrir línuna á International Talent Support á Italíu, sem er alþjóðleg keppni sem styður við unga hönnuði.
Aníta hefur víðtæka reynslu á sviði hönnunar og hefur m.a. starfað hja Diane Von Furstenberg og J Crew í New York, Christian Dior í París, Ashish Gupta í London og Diesel á Ítalíu. Einnig vinnur hún sjálfstætt fyrir ítalskt tískuhús sem listrænn ráðgjafi.
Fjallað hefur verið um hönnun Anítu m.a. á Vogue UK, Style.com, Vogue Italia, I D magazine, Anothermag.com, Stylebubble, Showstudio.com og Elle UK.
https://www.facebook.com/events/1465495657041048
7.8.2014 | 20:12
Hekla Björt Helgadóttir opnar sýninguna Kyrrhuga í Populus Tremula
Stundum hef ég ekkert nema fallvalta trú á eigin bein....
að þau standi, að þau haldi...
á meðan brotsjórinn dynur...
hvar ertu til að segja mér að ég hafi það af?
svo oft sem ég óska að þú yrðir tjald...
vildirðu vera tjald?
í þetta eina sinn?
vildirðu breiða úr þér yfir mig...
og lofa mér að róa undir stilltum himni þínum?
reiðin er ekki verst...
reiðina má setja í glas og skála, fyrir styrjöld
þá er henni fagnað með reisn...
og reiðina má svæfa með perlum, fullum af doða...
svo stefnulaust reki dagarnir áfram...
án minnis um hnífsblöð...
hvar ertu þegar ég þarfnast þín?
ég þrauka... ég hef alltaf þraukað...
á meðan allir brostu yfir nekt minni...
brostu og eignuðust börn í brotsjó...
vildi ég þrauka...
því ég trúði að þú kæmir og leiddir mig í hvarf....
og ég stend... þú veist ég stend...
ég stend og ég skelf
á meðan ég brosi og spyr þau um öll þessi börn
sem þau ólu í brotsjó...
þessi börn verða hryðjuverkamenn og kónar...
þau munu særa, serða og sýkja...
en við brosum yfir því...
og lofum þessa brjálæðinga framtíðarinnar...
svikarar! með sýkt blóð
gefa aldrei með sér... þau komu í heiminn til að taka, sýkja
og geta af sér önnur börn í brotsjóinn
en já... ég veit...
ég lýg og sýki líka...
ég er hryðjuverkamaður og kóni...
ég er brjálæðingur sem lætur sig dreyma um byltingu,
til að fella stoðir sem jafnóðum rísa...
hef ég ekki löngu lært hvernig heimurinn baðar sig
í brotsjó?
hvernig heimurinn baðar börnin sín?
hin eilífa endurtekning...
hví ætti ég að þykjast betri... eða verri...?
það er enginn að leita að píslarvætti
í öðrum en sjálfum sér...
því allt snýst um að hafa það af
í þessum vægðarlausa öldugangi...
undir salthnefum og stáli...
og ég stend... þú veist ég stend...
kyrrhuga í brotsjó...
og brosi á meðan ég skelf.
-hekill 2014
Hekla Björt hefur lengi fengist við myndlist og ljóð og sameiningu miðlanna tveggja. Hún starfrækir Gallerí Geimdós á vinnustofu sinni í Gilinu og þar hefur hún boðið fjölda listamanna að sýna við ljóð sem hún sjálf hefur skrifað. Hún hefur tekið þátt í hinum ýmsu samsýningum en einnig staðið að einkasýningum, nú síðast í Mjólkurbúðinni í Listagilinu þar sem hún sýndi þrívíða skúlptúra í gömlum skúffum. Hún hefur einnig starfað sem listrænn hönnuður fyrir Leikfélagið á Akureyri, Listasafnið á Akureyri og á fuglasafninu á Húsabakka. Í vor setti Hekla svo upp sviðslistaverkið Herba Humana í Samkomuhúsi Leikfélags Akureyrar.
Laugardaginn 9. ágúst opnar Hekla sýninguna Kyrrhuga í Populus Tremula klukkan 14:00. Einnig verður opið sunnudaginn 10. ágúst.
Sýningin verður óhefðbundin og miðar fyrst og fremst að upplifun áhorfenda.
Allir eru hjartanlega velkomnir í Kyrrhuga Kapellu
https://www.facebook.com/events/697332977020098
Næstkomandi sunnudag, 10. ágúst, kl. 15-16 mun Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) halda fyrirlestur í Ketilhúsinu um starfsferil Gísla B. Björnssonar í grafískri hönnun síðastliðna fimm áratugi. Goddur er prófessor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og hefur um árabil stundað rannsóknir á íslensku myndmáli og táknmyndum í auglýsingum.
Fyrirlesturinn er haldinn í tilefni af síðustu dögum yfirlitssýningar Gísla B. í Ketilhúsinu, Fimm áratugir í grafískri hönnun, sem lýkur 10. ágúst.
Gísli B. er einn atkvæðamesti grafíker íslenskrar hönnunarsögu. Hann hefur komið að markaðs- og ímyndarmálum fjölda fyrirtækja og stofnana á Íslandi og er höfundur margra þekktustu vörumerkja landsins. Hann setti á fót auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar eftir nám í Þýskalandi 1961 og ári síðar stofnaði Gísli sérdeild í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskólann sem í dag er braut grafískrar hönnunar í Listaháskóla Íslands þar sem hann kenndi óslitið í fimm áratugi.
Aðgangur er ókeypis.
https://www.facebook.com/events/354989564650236
31.7.2014 | 20:04
Aðalsteinn Vestmann opnar málverkasýningu í Mjólkurbúðinni
Aðalsteinn Vestmann opnar málverkasýningu í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri, laugardaginn 2. ágúst kl. 14.
Á sýningunni sýnir Aðalsteinn akrýlmálverk sem hann hefur nýlega málað og auk þeirra verður hann með eina eldri teikningu og eitt olíumálverk frá námsárunum sínum í Mynd og handíðaskóla íslands. Olíumálverkið er módelmynd sem Aðalsteinn hefur aldrei sýnt áður og sýnir myndin samnemendur hans og kennara Björn Th. Björnsson listfræðing og skáld. Aðrir á myndinni eru Sverrir Haraldsson, Hringur Jóhannesson og Ásta Sigurðardóttir rithöfundur sem skrifaði og myndskreytti æviminningar sínar Líf og List.
Aðalsteinn Vestmann er fæddur á Akureyri 1932. Hann lauk námi við teiknikennaradeild Mynd og handíðaskóla Íslands árið 1951 og starfa'i sem teiknikennari við Barnaskólann á Akureyri í nær 40 ár. Aðalsteinn hefur tekið þátt í mörgum samsýningum og auk þess haldið einkasýningar bæði á Akureyri og Reykjavík.
Málverkasýning Aðalsteins Vestmanns stendur til 10. ágúst og eru allir velkomnir.
Opið laugardaga og sunnudaga kl. 14-17 og eftir frekara samkomulagi.