Færsluflokkur: Menning og listir

Aðalsteinn Þórsson með Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu

large_adalsteinn-thorsson

Þriðjudaginn 7. mars kl. 17-17.40 heldur myndlistarmaðurinn Aðalsteinn Þórsson Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Tvær hliðar: Um Einkasafnið og Mynd dagsins. Þar fjallar Aðalsteinn um tvö verkefni sem hann hefur unnið að undanfarið: annars vegar Einkasafnið, sem verður sýning hans í Listasafninu, Ketilhúsi í maí næstkomandi, og hins vegar Verk dagsins, en það verkefni snérist um að birta daglega eina nýja teikningu á bloggsíðunni teikningadag2016.blogspot.com allt árið 2016. 

Aðalsteinn Þórsson nam við Myndlistaskólann á Akureyri og síðar í Hollandi þar sem hann útskrifaðist með Master of Arts gráðu frá Dutch Art Institute 1998. Hann hefur síðan starfað sem myndlistarmaður, lengst af í Rotterdam, en flutti síðastliðið vor heim í Eyjafjörðinn. Aðalsteinn er þekktur fyrir fjölbreytni í efnisnotkun og vinnubrögðum. 

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Menntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Susan Singer og Ingibjörg Sigurðardóttir.

http://www.listak.is/is/frettir/frettasafn/thridjudagsfyrirlestur-adalsteinn-thorsson


Sigþór Veigar Magnússon sýnir i Listasalnum Braga

17038546_736835436480779_6025478207863226180_o

Sigþór Veigar er við nám við Verkmenntaskólann á Akureyri og er þar á listnámsbraut. Í verkum Sigþórs leitast hann eftir því að blanda saman myndmáli og minnum bæði frá sínum eigin ímyndunarheimi sem og öðru sjónrænu tungumáli úr sjónrænum arfi vítt og breitt á menningarskala annarra þjóða í þeirri viðleitni að mynda sitt eigið sjónræna tungumál í formi teikninga, málverka og skúlptúrs.
Sýningin opnar þann 09-03 2017 klukkan 16:00 og verður opinn út marsmánuð.
Sýningin er staðsett á 4.hæð ungmennahúss Rósenborgar í listasalnum Braga.
Allir velkomnir og frítt inn!

https://www.facebook.com/events/1803666339958086


Hrafnkell Sigurðsson sýnir í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði

17039393_1246342538775682_4794456371749041160_o

Laugardaginn 4. mars 2017 kl.14.00 opnar Hrafnkell Sigurðsson sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði með myndröðina “ Urban mountains “. Sýningin er hluti af listahátíðinni Skafl sem fram fer í og við Alþýðuhúsið 3. til 5. mars.
Sýning Hrafnkels er opin daglega kl. 14.00 – 17.00 þegar skilti er úti og stendur til 19. mars.
www.hrafnkellsigurdsson.com

Hrafnkell Sigurðsson (1963)

Hrafnkell var í gamla mynd- og handskólanum árin 1982 – 86 og þaðan lá leiðin í Jan Van Eyck Akademie, Maastricht, Hollandi. 1990 lauk hann einnig MFA frá Goldsmiths College í London. Fyrsta einkasýning hans var í hinu víðfræga Slúnkaríki á Ísafirði en mikill heiður þótti fyrir ungan listamann að sýna þar á þessum árum. Það var þó ekki í faðmi vestfiskra fjalla sem landslagið varð að leiðarljósi í verkum Hrafnkels.
„Í Hollandi uppgötvaði ég landslagið í póstkortum og fundnum myndum. Kannski hefur það snúist um söknuð að einhverju leyti án þess að ég gerði mér endilega grein fyrir því. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að fara frá litla Íslandi um einhvern tíma, sakna þess og skynja aðeins betur stærð heimsins. Í Hollandi byrjaði ég að leika mér með landslagshefðina og hef gert það síðan. Ég mun líka gera það áfram vegna þess að rætur mínar eru í landslaginu og verkin mín leita þangað.“

Í verkum sínum fjallar Hrafnkell um tengsl náttúru og manns. Þar spinnast saman þættir úr rómantík og módernisma sem á stundum vísa til ritúala. Hið skíra yfirbragð sem virkar í fyrstu fjarlægjandi gefur verkunum nálægð. Yfirborð umhverfist í innri heima og í meðförum listamannsins breytist óreiðan í samhverfu. Hin rómantíska sýn á hið upphafna sem einkennist af samfellu ógnar og heillunar tekst á við hið hversdagslega sem birtist í formi líkamans, en hann er hvorttveggja í senn, fulltrúi óreiðu og jafnvægis. Segja má að líkaminn sé miðpunktur myndbirtinga Hrafnkells, allt frá snjófjöllum og tjöldum til nýbygginga og ruslapoka. Það er þó ekki fyrr en í myndbandsverkunum sem hann kemur fram nakinn og auðsveipur, fulltrúi þeirra ólíku afla sem knýja verk listamannsins áfram.

Í ljósmyndaverkum sínum fjallar Hrafnkell Sigurðsson um ímyndir náttúru og hins manngerða. Ljósmyndir af snjósköflum vísa til rómantískrar landslagsmyndahefðar, utan að þessar fjallamyndir eru til marks um mannleg ummerki innan borgarmarka. Þannig er hefðin útfærð og unnin og heimfærð upp á nútímaveruleika borgarbúans.

https://www.facebook.com/events/142511411085312


Einar Falur Ingólfsson og Sigtryggur Bjarni Baldvinsson í Listasafninu á Akureyri

17097236_1396441473711024_6089876027496331391_o  16998091_1395744800447358_8484987801668277184_n

Laugardaginn 4. mars kl. 15 verða sýningar listamannanna Einars Fals Ingólfssonar, Griðastaðir, og Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar, 360 dagar og málverk, opnaðar í Listasafninu, Ketilhúsi.

Sýningin Griðastaðir er úrval ljósmyndaverka úr fjórum tengdum seríum sem Einar Falur hefur unnið að á undanförnum áratug. Svissneski sýningarstjórinn Christoph Kern valdi verkin á sýninguna úr myndröðunum Griðastaðir, Skjól, Reykjanesbrautin og Sögustaðir. Í verkunum tekst Einar Falur á við manninn og íslenska náttúru; við náttúruöflin, hvernig mennirnir reyna að lifa í og með náttúrunni, laga hana að þörfum sínum, verjast henni á stundum en jafnframt leita í henni skjóls. Verkin eru öll tekin á 4 x 5 tommu blaðfilmu.

Ljósmyndaverk Einars Fals hafa á undanförnum árum verið sýnd á einka- og samsýningum í söfnum og sýningarsölum á Íslandi, meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Hann er með BA-gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og MFA-gráðu í ljósmyndun frá School of Visual Arts í New York. Einar Falur starfar sem myndlistarmaður, rithöfundur og blaðamaður og verður með listamannaspjall á opnun kl. 16.30.

Málverkin á sýningu Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar, 360 dagar og málverk, eru annars vegar „randamyndir“ unnar með endurunnum gvasslitum Karls Kvaran og hins vegar olíulitaverk þar sem myndefnið er sindrandi eða merlandi vatnsfletir.

Ljósmyndaverkið 360 dagar í Grasagarðinum var upphaflega unnið fyrir Listvinafélag Hallgrímskirkju. Kveikjan að verkinu er ævi og örlög Hallgríms Péturssonar, en það hefur þó mun víðtækari skírskotanir. Verkið samanstendur af um 80 ljósmyndum teknum á 360 daga tímabili í litlum skrúðgarði í Brighton á Englandi og fjallar um hringrás efnis í lífríkinu og þá eilífð og endurnýjun sem skynja má í henni.

Sigtryggur Bjarni stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík og Frakklandi. Hann hefur haldið yfir 30 einkasýningar og finna má verk hans í öllum helstu listasöfnum landsins. Hann verður með listamannaspjall á opnun kl. 16.30.

listak.is

https://www.facebook.com/events/415093835518763

https://www.facebook.com/events/901145993360076


Ólafur Sveinsson opnar sýningu í Mjólkurbúðinni

17038890_10154265681337231_7838678552041159298_o

Ólafur Sveinsson opnar málverkasýninguna „Óhlutbundið almætti" í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri laugardaginn 4.mars kl. 14.

Sýningin ber yfirskriftina „Óhlutbundið almætti" og eru verkin á sýningunni unnin á síðastliðnum árum. Hið óhlutbundna almætti er tilvísun í þá óbeisluðu ofurkrafta sem blunda í hinu óhlutbundna, abstrakt listinni. Í málverkunum ræður litagleði og frelsi ríkjum sem reyna að rata hinn vandfarna stíg hins óhlutbundna. Máttur listarinnar og nauðsyn eru ótvíræð, sjón eru sögu ríkari.

Ólafur Sveinsson er fæddur í Reykjavík 1964 og nam hann myndlist við Myndlistaskólann á Akureyri ásamt myndlistanámi í Lathi í Finnlandi. Auk þess fór hann í kennaranám í Háskólanum á Akureyri. Ólafur hefur verið ötull í sýningarhaldi, haldið einkasýningar hér á landi og einnig nokkrar í Kaupmannahöfn og tekið virkan þátt í samsýningum.

Sýningin ,,Óhlutbundið almætti" stendur frá 4.-12. mars og er opin föstudag til sunnudags frá kl. 14-17.


Rebekka Kühnis með Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri

large_rebekka-k-nis

Þriðjudaginn 28. febrúar 2017 kl. 17-17.40 heldur svissneska myndlistarkonan Rebekka Kühnis Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Snoring in the Emptiness – Swiss Artists in Iceland. Þar mun hún fjalla um áhrif Íslands í verkum svissneskra samtímalistamanna, einna helst Roman Signer. Aðgangur er ókeypis. 

Rebekka Kühnis lauk diplómanámi í myndlist og hönnun árið 2002 frá Hochschule der Künste í Bern í Sviss. Undanfarið ár hefur hún kennt myndlist og þýsku við Menntaskólann á Akureyri ásamt því að starfa sem leiðsögumaður hjá SBA Norðurleið. Samhliða kennslustörfum vinnur Rebekka að eigin listsköpun og hefur reglulega tekið þátt í samsýningum og haldið einkasýningar.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Menntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Aðalsteinn Þórsson, Susan Singer og Ingibjörg Sigurðardóttir.

listak.is


Lack of definition, Katinka Theis og Immo Eyser í Deiglunni

16835742_475765492547204_1256388429501968900_o

Katinka Theis og Immo Eyser
Lack of definition
Laugardaginn 25. janúar 2017 kl. 15 – 19

Deiglan, Kaupvangsstræti 23, 600 Akureyri

Verið velkomin á opnun sýningarinnar „Lack of Definition“ eftir myndlistarmennina Katinka Theis og Immo Eyser í Deiglunni, Akureyri á laugardaginn kl. 15 – 19.
Katinka Theis og Immo Eyser eru gestalistamenn Gilfélagsins í febrúar 2017.

Á sýningunni má sjá marglaga myndverk sem takast á við andstæða póla loftkenndra og sniðinna mynda. Immo Eyser sýnir samklippimyndband úr aðstæðum á Íslandi og í Berlín. Myndbandið leggur áherslu á tenginguna á milli náttúrulegra atburða og verkefna á byggingarsvæðum. Katinka Theis mun sýna stór ljósmyndaprent sem hafa teygt sig út með límbandsteikningu.

Katinka Theis og Immo Eyser búa og starfa í Berlín, Þýskalandi. Þau stunduðu listnám við Alanus University for Arts and Social Sciences í Bonn og Katinka Theis útskrifaðist með meistaragráðu við Weissensee listaháskólann í Berlín. Hún vinnur með skúlptúr, innsetningar og list í almannarýmii og hefur kennt í Witten-Herdecke háskólanum síðan 2015. Immo Eyser er vídeolistamaður ásamt því að halda myndlistarnámskeið fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
www.katinkatheis.dewww.immoeyser.de

Deiglan, Kaupvangsstræti 23, Akureyri.
//
Lack of definition
February 25, 2017

You are invited to attend the opening of „Lack of Definition“ by artists Katinka Theis and Immo Eyser in Deiglan Akureyri..
Open: Saturday 4 - 7 pm

Katinka Theis and Immo Eyser are the artists of the Gil Artist Residency in February 2017.

The exhibition presents works with different image layers which are dealing with the contrast of atmospheric and constructive images. Immo Eyser will show a video collage of filmed situations from several stays in Iceland and Berlin. The video focus the connection between sequences of nature events and situations from construction sites. Katinka Theis will show large printed photographs which have been extended by drawings out of tapes. The prints represents spacious icelandic landscapes with a second layer of geometric constructions. Each drawing follow the shape of a landscape and create an architectural situation.

Katinka Theis was born in Freiburg, Germany (1975) and lives and works in Berlin. She studied fine art / sculpture at Alanus University for Arts and Social Sciences in Bonn and graduated with a master`s degree from Weissensee School of Art in Berlin. Her works are characterized by sculpture, installations and art in public spaces. She exhibits in national and international solo and group shows and realized 2014 an art-in-architecture project. Since 2015, she holds a teaching position at University Witten-Herdecke.

www.katinkatheis.de

Immo Eyser was born in Bremen, (Germany) 1969. He is a video artist based since 2002 in Berlin. He studied fine art / sculpture and cultural education at Alanus University for Arts and Social Sciences in Bonn. In addition to his work with video, he gives art seminars for students and manager in different institutions and companies. Since 2012 he is leading an art workshop with handicapped persons in Berlin.

www.immoeyser.de

www.facebook.com/events/276821762748388


Fjölskylduleiðsögn um yfirlitssýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur

16403194_1370496852972153_7800135965131944719_o

Vegna góðra undirtekta endurtekur Listasafnið á Akureyri leikinn og býður aftur upp á sérstaka fjölskylduleiðsögn í Ketilhúsinu, laugardaginn 25. febrúar kl. 11-12. Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, segir börnum og fullorðnum frá yfirlitssýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur, Litir, form og fólk. Munurinn á hlutbundinni og abstrakt list Nínu verður m.a. skoðaður auk þess sem barnabækur hennar verða sérstaklega til umfjöllunar. 

Að lokinni leiðsögn er gestum boðið að búa til sitt eigið listaverk, innblásið af verkum Nínu. Sýningunni lýkur næstkomandi sunnudag, 26. febrúar. 

Skráning á heida@listak.is. Aðgangur er ókeypis.

https://www.facebook.com/events/1868719586706928


Immo Eyser og Katinka Theis með Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu

16715930_1384343821587456_5245361431351777616_o

Þriðjudaginn 21. febrúar kl. 17-17.40 halda þýsku listamennirnir Immo Eyser og Katinka Theis Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Various Forms of Spatial Perception. Aðgangur er ókeypis. 

Í fyrirlestrinum munu þau ræða um listsköpun sína sem m.a. rýnir í stórbrotna eiginleika landslags og arkitektúrs í gegnum collage-myndir, innsetningar og vídeóverk. 

Katinka Theis (f. 1975) stundaði listnám við Alanus lista- og félagsfræðiháskólann í Bonn og kláraði mastersgráðu frá Weissensee listaskólanum.  Immo Eyser (f. 1969) lagði stund á listnám og menningarkennslu við Alanus lista- og félagsfræðiháskólann í Bonn. Auk þess að vera vídeólistamaður kennir hann í listasmiðjum í Berlín. Þau búa bæði og starfa í Berlín. 

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Menntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Rebekka Kuhnis, Aðalsteinn Þórsson, Susan Singer og Ingibjörg Sigurðardóttir.

listak.is


Michael Coppelov opnar sýninguna Little Fictions í Mjólkurbúðinni

16640843_10154228488897231_6888702986901154123_n

Michael Coppelov opnar sýninguna Little Fictions í Mjólkurbúðinni í listagilinu á Akureyri föstudagskvöldið 24.febrúar kl.18-20.

Michael Coppelov hefur dvalist í Nesi Listamiðstöð á Skagaströnd síðan í janúar síðastliðinn. Sýningin hans Little Fictions er fyrsta einkasýning listamannsins á Íslandi og inniheldur málverk sem hann hefur unnið meðan á dvöl hans stendur. Sýningin markar nýtt upphaf í málverkum hans, þar sem hann hefur orðið fyrir áhrifum af dvöl sinni hér á landi. Ólíkt fyrri verkum Michaels, þá bætast við kennileiti frá stöðum eins og Grettislaug, Bifröst og Skagaströnd inn í málverkin, sem hann vinnur út frá ljósmyndum sínum.

Michael Coppelov er breskur myndlistamaður frá norðvestur Englandi. Hann lærði í Ruskin School of Fine art í Oxford University og lauk mastersgráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi. Michael hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga ásamt því að hljóta tveggja ára skólastyrk Leverhulme Trust, verðlaun frá The Egerton-Coghill fyrir landslagsmálverk og The Sir Alan Bullock Price, tvö ár í röð. Hann hefur sýnt á alþjóðavettvangi og vinnur nú á Íslandi í sitt fyrsta sinn.

Sýning Michael Coppelov Little Fictions stendur aðeins þessa einu helgi í Mjólkurbúðinni og er opin sem hér segir:

Föstudag 24.febrúar kl.18-20
Laugardag 25.febrúar kl. 14-17
Sunnudag 26.febrúar kl. 14-17

Allir velkomnir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband