Færsluflokkur: Bækur

Sýningin Portraits of the north opnar klukkan 17 í Amtsbókasafninu á Akureyrarvöku


Ykkur er boðið að vera við opnun sýningarinnar Portraits of the north á laugardag klukkan 17 í Amtsbókasafninu en sýningin er hluti af dagskrá Akureyrarvöku. 
Um er að ræða áhrifamiklar blýantsteikningar af fólki úr frumbyggjabyggðum Norður-Kanada og hefur sýning farið víða frá árinu 2006 . 
Myndirnar eru eftir listamanninn Gerald Kuehl og koma frá Listasafni Manitoba en sýningin er í boði Manitobastjórnar.
Peter Bjornsson menntamálaráðherra Manitoba mun opna sýninguna en hann í opinberri heimsókn á Íslandi í boði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra.
Álftagerðisbræður syngja við opnunina og léttar veitingar verða í boði.

Vert er að minnast á meiri menningu tengda Manitoba sem hægt er að njóta á Akureyrarvöku.
Jaxon Haldane og Chris Saywell úr Bluegrass hljómsveitinni DRangers spila á föstudagskvöld í Lystigarðinum við setningu Akureyrarvöku, auk þess sem þeir félagar eru hluti af lokaatriði Akureyrarvöku á laugardagskvöldið
Freya Olafson listakona sýnir video-danslistaverkið New Icelander klukkan 20.30 í Húsinu í Rósenborg og verður einnig þátttakandi í lokaatriði Akureyrarvöku.

Að síðustu er það þing Þjóðræknisfélags Íslendinga sem haldið verður í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju á morgun frá klukkan 13 - 16.  Á dagskrá þingsins verða ávörp ráðherra, bæjarstjórans á Akureyri og aðalræðismanns Íslands í Winnipeg. Flutt verður minni Árna Bjarnarsonar og fjallað um Sigríði móður Nonna auk þess sem sýning henni tileinkuð verður sett upp á fundarstað. Sagt verður frá starfi Vesturfarasetursins á Hofsósi og greint frá 10 ára öflugu starfi Snorraverkefnisins. Það verkefni hefur blásið nýju lífi í samskiptin milli afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi og Íslands og tengt starfið enn betur við byggðir landsins einum á norður- og austurlandi. Hópur úr Snorri Plus verkefninu verður á Akureyri við þetta tækifæri. 

Það eru allir hjartanlega velkomnir á þingið.

(Lára Stefánsdóttir tók myndina af Amtsbókasafninu)


Sýningu Guðmundar Ármanns Sigurjónssonar í Listasafninu á Akureyri lýkur á sunnudag

IMG_1863%20logsuda
Sunnudaginn 24. ágúst lýkur sumarsýningu Listasafnsins á Akureyri er
helguð er yfirliti á verkum Guðmundar Ármanns Sigurjónssonar.
Guðmundur hefur starfað við myndlist og kennslu síðastliðna fjóra
áratugi og verið mikilvirkur í félags- og baráttumálum
myndlistarmanna. Eftir nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands
árið 1967 og Valand-listaháskólann í Gautaborg með MA-gráðu frá
grafíkdeild árið 1972, flutti Guðmundur norður um haustið fyrir
áeggjan Harðar Ágústssonar sem vildi að hann tæki að sér að leiða hið
nýstofnaða Myndlistarfélag Akureyrar til vegs og virðingar, en þá um
mundir skorti sárlega kennara. Guðmundur lét strax að sér kveða sem
einn fyrsti gagnmenntaði myndlistarmaður norðurlands. Jónas Jakobsson
og Haukur Stefánsson höfðu rutt veginn ásamt Kristni G. Jóhannssyni.
Haukur stofnaði Félag frístundamálara árið 1947 sem bauð upp á
kennslu í málun og skúlptúr í höndum Jónasar uns það fjaraði út í
byrjun sjöunda áratugarins.

Það er með stolti og ánægju sem Listasafnið á Akureyri setur upp
þessa sýningu á verkum Guðmundar, sem er aðallega helguð nýlegum
málverkum hans og þrykkimyndum en varpar einnig ljósi á vítt umfang
listamannsferils hans í rúmlega fjörutíu og fimm ár. Enda þótt
lífsstarf hans samanstandi af hlutbundnum teikningum, hlutlægum og
hálf-abstrakt landslagsmálverkum, dúkristum og tréþrykksmyndum, var
það framan af tilgangurinn, fremur en formið, sem var driffjöðrin í
listsköpun hans. Félagsraunsæislegar þrykksmyndir hans og málverk frá
síðari hluta sjöunda áratugarins og þeim áttunda ­ stemmningar úr
Slippnum og vefnaðarverksmiðjum, myndir af verkafólki í vígaham ­
gerðu það að verkum að hann þótti vafasamur meðal rótgróinna borgara
á Akureyri. Slíkum mönnum ætti að halda í hæfilegri fjarlægð frá
nemendum. Guðmundur hvikaði þó hvergi frá því markmiði sínu að færa
alþýðunni listina og var í fylkingarbrjósti vaxandi hreyfingar fólks
sem vildi telja bæjaryfirvöld á það að styrkja og leggja meiri
fjármuni í þetta ólgandi listalíf, ekki síður en listmenntun.

Í tengslum við sýninguna hefur verið gefin út 150 síðna bók um
listferil Guðmundar sem í rita m.a. Kristján Kristjánsson
heimspekingur og listfræðingurinn Shauna Laurel Jones, sem segir að
ígrunduð rannsókn Guðmundar á burðarþoli og takmörkunum hinna ýmsu
miðla hafi gert honum kleift að nýta efniviðinn vel og slípa sínar
ólíku listrænu aðferðir. Á nýliðnum árum hefur Guðmundur tekið að
huga grannt að hinu formfasta hugtaki um rammann; ef hugsað er í
hugtökum er raunar erfitt að ramma inn allt hans starf á sviði
listarinnar með einstökum merkimiðum fyrir stefnur og stíla ­ en
þannig kýs Guðmundur greinilega að hafa það.

Guðmundi er fullljóst að hann hefur oft og iðulega gengið gegn
stefnum og straumum í listaheiminum, bæði á Íslandi og erlendis;
þetta hefur þó ekki verið ætlunarverk hans. Fyrst og fremst hefur
hann staðið vörð um heilindi sín sem einstaklingur og listamaður,
ómetanlegt hlutverk sitt sem kennari og þá trú sína að það sé
nauðsynlegt að næra þann mikla áhuga á listum sem íbúar á Akureyri
hafa ræktað með sér á undanförnum áratugum. Enda þótt Reykjavík hafi
löngum togað til sín listrænt og vitsmunalegt starf, hefur Guðmundur
Ármann Sigurjónsson ötullega lagt krafta sína í að Akureyri þróist á
þá lund að bærinn verði réttnefnd menningarmiðstöð upp á sitt eindæmi.

Þess má að lokum geta að í framhaldi af þessu yfirliti á verkum
Guðmundar í Listasafninu á Akureyri verða settar upp sýningar með
honum í Turpentine galleríinu í Reykjavík í júlí 2008 og í Norræna
húsinu í Færeyjum sama ár um haustið. Það mun því halda áfram að gára
um G.Ármann, eins og hann signerar myndir sínar, um ókomna tíð.

Norðurorka er aðalstyrktaraðili sýningarinnar. Nánari upplýsingar
veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í
síma 899-3386. Netfang: hannes@art.is.

HLYNUR HALLSSON OPNAR SÝNINGU Í NÝLISTASAFNINU LAUGARDAGINN 16.08

HLYNUR HALLSSON
TILLIT – RÜCKSICHT – REGARD
NÝLISTASAFNIÐ, LIVING ART MUSEUM
16.08.2008 – 28.09.2008



LAUGARDAGINN 16.08 KLUKKAN 17 OPNAR HLYNUR HALLSSON EINKASÝNINGU SÍNA: TILLIT – RÜCKSICHT – REGARD Í NÝLISTASAFNINU.

SÝNINGIN ER NOKKURSKONAR YFIRLITSSÝNING
OG SAMANSTENDUR AF ELDRI OG NÝRRI VERKUM. M.A. STÓRRI FJÖLSKYLDUMYND, LÍNUTEIKNINGUM OG PÓSTKORTUM AF GÖTUM ÚR HEIMABÆ HANS; AKUREYRI, SPREYVERKUM OG MYNDBÖNDUM OG VIÐAMIKILLI LITASTÚDÍU Í GLUGGA SAFNSINS. Í TILEFNI SÝNINGARINNAR MUN HLYNUR KYNNA BÓK SEM KEMUR ÚT Í SEPTEMBER UM VERKRÖÐINA "MYNDIR - BILDER -PICTURES". SÝNINGIN STENDUR TIL SUNNUDAGSINS 28. SEPTEMBER 2008. OG NÝLISTASAFNIÐ ER OPIÐ ALLA VIRKA DAGA KLUKKAN 10-17 OG LAUGARDAGA KLUKKAN 12-17.

SÝNINGIN ER UNNIN Í NÁINNI SAMVINNU VIÐ NÝLISTASAFNIÐ OG ER HLUTI AF AFMÆLISDAGSKRÁ SAFNSINS, EN ÞAÐ FAGNAR NÚ 30 ÁRA AFMÆLI SÍNU. Í TILEFNI ÞESS HEFUR NÝLÓ TEKIÐ SAFNEIGN SÍNA FYRIR OG UNNIÐ MARKVISST AÐ GERA SÖGU SÍNA AÐGENGILEGA. MEÐ SÝNINGU SINNI BRÝTUR HLYNUR ÞAÐ FERLI NIÐUR, VELTIR UPP NÝJUM SJÓNARHORNUM Á STARFSEMI SAFNSINS OG HLUTVERK ÞESS.

TILLIT – RÜCKSICHT – REGARD
ER ÞRIÐJA STÓRA SÝNINGIN Í NÝLISTASAFNINU Á ÞESSU AFMÆLISÁRI. HILDIGUNNUR BIRGISDÓTTIR REIÐ Á VAÐIÐ OG NÚ SÍÐAST SÝNDI SÆNSKI LISTAMAÐURINN KARL HOLMQVIST VERK SÍN Á LISTAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK. SÝNINGARNAR HAFA ALLAR FJALLAÐ UM, BEINT SJÓNUM SÍNUM AÐ, BENT Á EÐA TEKIÐ TILLIT TIL MIKILVÆGRAR SÖGU NÝLISTASAFNSINS.

NÁNARI UPPLÝSINGAR UM VERK HLYNS ER AÐ FINNA Á WWW.HALLSSON.DE

HEIMASÍÐA NÝLISTASAFNSINS ER WWW.NYLO.IS


Bók um Margréti Jónsdóttur leirlistakonu

top

Um miðjan janúar 2009 verður opnuð einkasýning í Listasafninu á Akureyri á
verkum Margrétar Jónsdóttur leirlistakonu. Hún hefur starfað óslitið að list
sinni frá árinu 1985 og haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í fjölda
samsýninga bæði á Íslandi og erlendis. Í tilefni opnunarinnar gefur
Listasafnið út bók um Margréti og list hennar. Í hana rita listfræðingarnir
Shauna Laurel Jones og Aðalsteinn Ingólfsson og Sigurður Örn Guðbjörnsson
mannfræðingur. Auk þess prýðir bókina fjöldi ljósmynda.

Þér/ykkur er hér með boðið að kaupa bókina í forsölu og fá þannig nafn
þitt/ykkar á Tabula Gratulatoria á titilsíðu bókarinnar. Verð bókarinnar er
4.500.- og greiða þarf andvirðið inn á reikning 1145-26-11421, kennitala
051061-5279 fyrir 15.september en þá fer bókin í prentun. Við greiðslu er
nauðsynlegt að fram komi nafn, kennitala og heimilisfang greiðanda. Hægt
verður að nálgast bókina á Listasafninu á meðan á sýningu stendur, en þeir
sem þess óska geta fengið bókina senda í pósti á kostnað kaupanda.

Nafn greiðanda mun birtast á Tabula Gratulatoria, en sé óskað eftir að
fleira en eitt nafn komi fram þarf að hafa  samband við verkefnisstýru í
síma 4663365 eða 6632525 og á netfangið signyjons(hjá)internet.is sem mun gefa
allar frekari upplýsingar.


Dúett Ólafar Bjarkar Bragadóttur og Sigurðar Ingólfssonar í Deiglunni

droppedImage Verið velkomin á sýninguna Dúett sem opnar í Deiglunni á listasumri á Akureyri laugardaginn 2. ágúst
klukkan 15:00.
 
Að því tilefni kemur út bókin Dúett sem er samstarfsverkefni Ólafar Bjarkar Bragadóttur og Sigurðar Ingólfssonar. Ólöf Björk Bragadóttir sýnir  myndirnar sem eru í bókinni og Sigurður les upp ljóðin. Þetta er sonnettusveigur, sem samanstendur af fimmtán sonnettum, þar sem hver lokalína er upphafslína næstu sonnettu og síðan síðasta sonnettan búin til úr upphafs/lokalínum allra sonnettanna.
 
Sjá nánar í auglýsingin frá Listasumri:

http://www.listasumar.akureyri.is/Blogg/8486761B-F6E9-4366-8E2C-C72552CC19A4.html


GÁRUR Yfirlitssýning á verkum Guðmundar Ármanns í Listasafninu á Akureyri

laa.jpg

Sumarsýning Listasafnsins á Akureyri er helguð yfirliti á verkum Guðmundar Ármanns Sigurjónssonar. Sýningin verður opnuð laugardaginn 5. júlí og stendur til loka ágústmánaðar. Guðmundur hefur starfað við myndlist og kennslu síðastliðna fjóra áratugi og verið mikilvirkur í félags- og baráttumálum myndlistarmanna. Eftir nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1967 og Valand-listaháskólann í Gautaborg með MA-gráðu frá grafíkdeild árið 1972, flutti Guðmundur norður um haustið fyrir áeggjan Harðar Ágústssonar sem vildi að hann tæki að sér að leiða hið nýstofnaða Myndlistarfélag Akureyrar til vegs og virðingar, en þá um mundir skorti sárlega kennara. Guðmundur lét strax að sér kveða sem einn fyrsti gagnmenntaði myndlistarmaður norðurlands. Jónas Jakobsson og Haukur Stefánsson höfðu rutt veginn ásamt Kristni G. Jóhannssyni. Haukur stofnaði Félag frístundamálara árið 1947 sem bauð upp á kennslu í málun og skúlptúr í höndum Jónasar uns það fjaraði út í byrjun sjöunda áratugarins.

Myndlistafélagið varð vísirinn að Myndlistaskólanum á Akureyri þótt Guðmundur tæki sínar föggur um hríð inn í Slippinn milli þess sem hann boðaði hið Marxíska fagnaðarerindi, sem hann hélt rækilega aðskildu frá almennri fagurfræði sem honum fannst ekkert eiga skylt við bættan hag fjöldans. Fyrir hans tilstuðlan hófust aftur fyrsta maí göngur eftir langt hlé í þessu stóra iðnverkasamfélagi. Hann lagðist einnig hart gegn veru Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli og hernaðarbrölti þeirra í Víetnam. Þá gerðist hann liðhlaupi í hugum þeirra sem vilja hafa hlutina klippa og skorna og stofnaði árið 1975 Teiknihönnun KG (Kristjáns Steingrímssonar myndlistarmanns og Guðmundar Ármanns) sem síðar varð að Teiknistofunni Stíl. Myndlist hans og baráttumál leyna sér ekki fram undir lok áttunda áratugarins þegar hann segir skilið við afdráttarlausa samfélagstúlkun sína og við kveður nýr tónn; náttúra, fagurfræði, skeljar, gárur, tímaleysi. Guðmundur var kennari við Myndlistaskólann á Akureyri frá 1986 til 2000 þegar hann sneri sér að kennslu við listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri. Guðmundur er einn af stofnendum Gilfélagsins og átti ekki hvað minnstan þátt í því að Listagilið og Listasafnið á Akureyri komust á fót árið 1993 og þeim harða straumi frambærilegra myndlistarmanna norðan heiða sem runnið hafa um menningarfarvegi landsins í seinni tíð. Guðmundur er blessunarlega ekki nein opinber brimalda, hvað þá gárungur, en vissulega orsakavaldur margra gára á bakvið öldurót okkar tíma. Aldrei er ein báran stök og safnast þegar saman kemur. Hann er málarinn sem kann þá list að kenna. Áhrifavaldur og spegill hræringanna sem virðist nú alfarið vísa inn á við.

Það er með stolti og ánægju sem Listasafnið á Akureyri setur upp þessa sýningu á verkum Guðmundar, sem er aðallega helguð nýlegum málverkum hans og þrykkmyndum en varpar einnig ljósi á vítt umfang listamannsferils hans í rúmlega fjörutíu og fimm ár. Enda þótt lífsstarf hans samanstandi af hlutbundnum teikningum, hlutlægum og hálf-abstrakt landslagsmálverkum, dúkristum og tréþrykksmyndum, var það framan af tilgangurinn, fremur en formið, sem var driffjöðrin í listsköpun hans. Félagsraunsæislegar þrykksmyndir hans og málverk frá síðari hluta sjöunda áratugarins og þeim áttunda – stemmningar úr Slippnum og vefnaðarverksmiðjum, myndir af verkafólki í vígaham – gerðu það að verkum að hann þótti vafasamur meðal rótgróinna borgara á Akureyri. Slíkum mönnum ætti að halda í hæfilegri fjarlægð frá nemendum. Guðmundur hvikaði þó hvergi frá því markmiði sínu að færa alþýðunni listina og var í fylkingarbrjósti vaxandi hreyfingar fólks sem vildi telja bæjaryfirvöld á það að styrkja og leggja meiri fjármuni í þetta ólgandi listalíf, ekki síður en listmenntun.

En Guðmundur hefur einnig haldið áfram að huga að listamannsferli sínum og sýnt verk sín á Íslandi, í Skandinavíu og á meginlandi Evrópu. Þótt kröfurnar sem kennslan gerir hafi haft áhrif á svigrúm hans til að láta ljós sitt skína, hefur hann engu að síður af ákafri listamannsástríðu framþróað listrænar aðferðir sínar. Á níunda áratugnum dró félagsraunsæið sig í hlé og í stað þess tók hann í verkum sínum að kanna samræmi lita og skynbragð sitt á listrænt og tilfinningaríkt frelsi. Guðmundur hefur aldrei takmarkað sig við einn miðil, heldur málað með olíu á striga, oft með litarefnum sem eiga rætur að rekja til þess landslags sem hann málar; hann hefur líka haldið áfram með hlutlægu dúkristurnar sem hann er kannski hvað þekktastur fyrir. Margbreytileiki þess sem hann tekst á við, hinar mörgu listrænu aðferðir og miðlarnir allir hafa þó engan veginn svipt verk hans dýpt sinni.

Í tengslum við sýninguna hefur verið gefin út 150 síðna bók um listferil Guðmundar sem í rita m.a. Kristján Kristjánsson heimspekingur og listfræðingurinn Shauna Laurel Jones, sem segir að ígrunduð rannsókn Guðmundar á burðarþoli og takmörkunum hinna ýmsu miðla hafi gert honum kleift að nýta efniviðinn vel og slípa sínar ólíku listrænu aðferðir. Á nýliðnum árum hefur Guðmundur tekið að huga grannt að hinu formfasta hugtaki um rammann; ef hugsað er í hugtökum er raunar erfitt að ramma inn allt hans starf á sviði listarinnar með einstökum merkimiðum fyrir stefnur og stíla – en þannig kýs Guðmundur greinilega að hafa það.

Guðmundi er fullljóst að hann hefur oft og iðulega gengið gegn stefnum og straumum í listaheiminum, bæði á Íslandi og erlendis; þetta hefur þó ekki verið ætlunarverk hans. Fyrst og fremst hefur hann staðið vörð um heilindi sín sem einstaklingur og listamaður, ómetanlegt hlutverk sitt sem kennari og þá trú sína að það sé nauðsynlegt að næra þann mikla áhuga á listum sem íbúar á Akureyri hafa ræktað með sér á undanförnum áratugum. Enda þótt Reykjavík hafi löngum togað til sín listrænt og vitsmunalegt starf, hefur Guðmundur Ármann Sigurjónsson ötullega lagt krafta sína í að Akureyri þróist á þá lund að bærinn verði réttnefnd menningarmiðstöð upp á sitt eindæmi.

Þess má að lokum geta að í framhaldi af þessu yfirliti á verkum Guðmundar í Listasafninu á Akureyri verða settar upp sýningar með honum í Turpentine galleríinu í Reykjavík í júlí 2008 og í Norræna húsinu í Færeyjum sama ár um haustið. Það mun því halda áfram að gára um G.Ármann, eins og hann áritar myndir sínar, um ókomna tíð.

Sýningin stendur frá 5. júlí til 24. ágúst. Opið er alla daga nema mánudaga frá 12-18. Aðgangseyrir kr. 400. Ókeypis á fimmtudögum. Norðurorka er aðalstyrktaraðili sýningarinnar. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í síma 899-3386. Netfang: hannes@art.is.


Jóna Hlíf Halldórsdóttir opnar sýningu í 101 Gallery

jona-hlif-net-1.jpg

101 Gallery
Jóna Hlíf Halldórsdóttir
A Ð L Ö G U N
4. júlí - 15. ágúst 2008
Opnun sýningar föstudaginn 4. júlí kl 17.00 -19.00

___________________________________________________________

AÐLÖGUN

JÓNA HLÍF HALLDÓRSDÓTTIR


Jóna Hlíf Halldórsdóttir(1978) er fædd í Reykjavík en býr og starfar á Akureyri. Hún útskrifaðist með Diploma frá Myndlistarskólanum á Akureyri árið 2005 og með Mastersgráðu í myndlist frá Glasgow School of Art árið 2007.
Jóna Hlíf vinnur með ýmsa miðla, s.s. vídeó, skúlptúr, bókverk og ljósmyndir. Stór hluti verka hennar eru svo textaverk, sem eru oftar en ekki nokkuð djarfar yfirlýsingar, setningar sem lýsa tómhyggju og eru einskonar stuðandi lógó, orð sem stinga. Þessar setningar virðast auðmeltar við fyrstu sýn en leita svo á mann, etv. líkt og auglýsinga-lógó, sem hreiðra um sig í undirmeðvitund okkar.
Verk Jónu Hlífar eru persónuleg úrvinnsla hennar á upplifunum úr daglega lífinu, sem hún útfærir gjarnan í formi myndmáls sem tengist götulist. Verkin eru óræð og hafa yfir sér hráan blæ, sum unnin úr fjöldaframleiddum efnum, önnur handgerð af listamanninum. Það sem sameinar þau er tenging við mannslíkamann og sálina, sem talið er að hvíli þar í einhverju hólfi sem sést þó ekki á röntgenmynd. Sum verka Jónu Hlífar eru performans-tengd verk í formi vídeó eða ljósmynda, önnur eru textaverk sem vísa í viðbrögð og breytingar mannslíkamans og í enn öðrum verkum er áhorfandanum boðið að taka þátt í verkinu með því að ganga inn í strúktúra, sem kalla á upplifun á tengslum sálar og líkama; vekja hugsanlega upp spurningar um hvað okkur skortir, hvar í líkamanum við staðsetjum þann skort og hvaða aðferðum við beitum til að fylla upp í tómið.

Verk Jónu Hlífar Halldórsdóttur hafa verið sýnd nokkuð víða, að mestu á Akureyri, s.s. í Listasafnu á Akureyri (2007), Ketilhúsinu á Akureyri (2007), Kunstraum Wohnraum á Akureyri (2006) og en einnig á Kunstvlaai í Amsterdam (2006), í Tramway, Glasgow (2007, útskriftarsýning) og A Cabine do Amador í Lissabon. Framundan á þessu ári eru sýningar Jónu Hlífar í D-sal Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsi og í Listasal Mosfellsbæjar
Auk starfa sinna sem myndlistarmaður rekur Jóna Hlíf, ásamt öðrum, sýningarýmið Gallerí Box á Akureyri og stýrir sýningum á VeggVerki og í Gallerí Ráðhús á Akureyri, auk fleiri myndlistartengdra starfa.


Nánari upplýsingar um Jónu Hlíf Halldórsdóttur:
www.jonahlif.com




AÐLÖGUN

JÓNA HLÍF HALLDÓRSDÓTTIR


Jóna Hlíf Halldórsdóttir(1978) is born in Reykjavík. She lives and works in Akureyri, Iceland, where she earned her Diploma of Fine Art. She then graduated with a MFA-degree in Visual Arts from the Glasgow School of Art in 2007. Halldórsdóttir works with various mediums, such as video, sculpture, book-works and photographs. A large part of her body of works are textworks, many of which are daring statements, words depicting emptiness, vulgar sentences reminding of logos, words that hit you hard. Those texts might at first seem light-hearted but they start to haunt you, similarly to advertisement-logos, which occupy our subconsciousness. Halldórsdóttir´s works are mostly based on elements from everyday life; her personal ways of processing her surroundings, often finding ways through a visual language related to street-art. The works are enigmatic and have a rough ambiance about them. Some of the works are made of mass-produced materials, others are made by the artist´s own hands. What unites the works is the connection to matters of the body and of the soul, which is thought to reside in one of its compartments though undetected by x-rays. Some of Halldórsdóttir´s works are performance-based video works or photographs, others are textworks, which refer to responses and changes of the body, and yet others invite the viewer, to walk into structures, which incorporate questions about the relations between body and soul; perhaps raising questions about what we lack, where in the body we situate this absence and which methods we use to fill up this emptiness.

Halldórsdóttir´s works have been presented quite widely, mostly in Akureyri in art spaces such as The Akureyri Art Museum(2007), Ketilhúsið  in Akureyri(2007) and Kunstraum/Wohnraum in Akureyri(2006). Her works have also been presented at Kunstvlaai in Amsterdam(2006), Tramway in Glasgow(2007, gratuation show) and A Cabine do Amador í Lissabon. Up-coming for Halldórsdóttir this year are her solo exhibitions at D-salur; Reykjavík Art Museum, Hafnarhús, and Listasalur Mosfellsbæjar.
In addition to her activity as an artist, Halldórsdóttir also runs exhibition space Gallerí Box in Akureyri, as well as organising exhibitions of public art space VeggVerk and at the Gallerí Ráðhús in Akureyri and other art-related activity.


Information about Jóna Hlíf Halldórsdóttir:
www.jonahlif.com


Hlynur Hallsson opnar sýningu í bæjarstjórnarsal ráðhúss Akureyrar

Hádegisopnun
Gallerý Ráðhús
Geislagötu 9
600 Akureyri


Hlynur Hallsson
Allskonar kræsingar, fjall án kinda, fleiri myndir og sprey


Hlynur Hallsson opnar sýninguna "Allskonar kræsingar, fjall án kinda, fleiri myndir og sprey" í bæjarstjórnarsal ráðhúss Akureyrar fimmtudaginn 19. júní klukkan 12:15

Þar gefur að líta sex ljósmynda/textaverk úr myndröðinni "MYNDIR - BILDER - PICTURES" ásamt nýju spreyverki sem Hlynur hefur gert sérstaklega fyrir bæjarstjórnarsalinn.
Hlynur vann myndirnar á árunum 2002-2007 og í sumar kemur einmitt út bók með allri myndröðinni "MYNDIR - BILDER - PICTURES" hjá forlagi höfundanna. Hlynur hefur gert spreyverk síðustu ár, það fyrsta í Texas 2002 og nú síðast á sýningunni "Bæ, bæ Ísland" í Listasafninu á Akureyri. Þann 16. ágúst verður opnuð yfirlitssýning á verkum Hlyns í Nýlistasafninu.

Brot úr texta eftir Claudiu Rahn úr bókinni "MYNDIR - BILDER - PICTURES":
"Frásagnir Hlyns, sem eru samsettar úr einföldum aðal- og aukasetningum, ná í einfaldleika sínum samstundis til áhorfandans. Áhrifamáttur frásagnarinnar byggist fyrst og fremst á þeirri miðlunarleið sem listamaðurinn velur. Til dæmis segir Hlynur frá loftbelgsferð sem Hugi sonur hans fékk í tíu ára afmælisgjöf. Sagan byrjar sem saklaus frásögn en breytist fljótt í harmsögu og tapar þar með léttleika sínum þegar listamaðurinn minnist bókarinnar "Eilíf ást" eftir Ian McEwan. En í þeirri bók endar loftbelgsferðin jú ekki vel."

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur á síðustu 10 árum sett upp um 60 einkasýningar og tekið þátt í um 80 samsýningum. Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997, verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2006. Hann hefur fengið 6 mánaða listamannalaun 1997, 2002 og 2003 og tveggja ára starfslaun 2006. Hlynur var útnefndur bæjarlistarmaður Akureyrar árið 2005. Verk Hlyns eru í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafnsins á Akureyri, Listasjóðs Dungals, Listasafns Flugleiða, Samlung Howig í Zürich auk nokkurra einkasafna í Evrópu. Hlynur vinnur með ljósmyndir, texta, innsetningar, sprey, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Nánari upplýsingar um Hlyn og verk hans er að finna á heimsíðunni www.hallsson.de.

Allir velkomnir
Léttar veitingar

Verkefnastjóri Jóna Hlíf Halldórsdóttir
sími 6630545


Aðalsteinn Svanur Sigfússon: Söngvar og bækur í Populus tremula

songvar-asvs-web.jpg

S Ö N G V A R

AÐALSTEINN SVANUR SIGFÚSSON

O P I Ð H Ú S

Laugardaginn 17. maí kl. 14:00-17:00 verður opið hús í Populus tremula. Þar kynna félagsmenn starfsemina, m.a. bókaútgáfu félagsins sem stendur með miklum blóma.

Sama kvöld kl. 21:00 mun söngvaskáldið Aðalsteinn Svanur Sigfússon standa fyrir trúbadúrkvöldi í Populus tremula. Þar flytur Aðalsteinn Svanur eigin lög við kvæði sín og föður síns, Sigfúsar Þorsteinssonar frá Rauðavík. Af þessu tilefni gefur Populus tremula út bókina SÖNGVAR með kvæðum þeirra feðga.

Húsið verður opnað kl. 20:30.

Aðgangur ókeypis – malpokar leyfðir.

http://poptrem.blogspot.com


Helgi og hljóðfæraleikararnir með kvöldskemmtun og bók

H&H-25.4.web

Populus Kynnir:

Helgi og hljóðfæraleikararnir

Föstudaginn 25.apríl kl.21:00

Kvöldskemmtun í tilefni útgáfu bókarinnar Sukkskinnu

Föstudaginn 25. apríl kl. 21:00 mun hljómsveitin góða Helgi og Hljóðfæraleikararnir halda kvöldskemmtun í Populus tremula.

Boðið verður upp á upplestur og tónleika; sérleg vinahljómsveit H&H mun reka inn nefið.

Af þessu tilefni gefur Populus tremula út bókina Sukkskinnu, þar sem skráðar eru sögur úr 20 ára ferli hljómsveitarinnar í máli og myndum. Bókin er gefin út í 100 árituðum og tölusettum eintökum.

Aðgangur ókeypis – malpokar leyfðir.

http://poptrem.blogspot.com


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband