Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015
16.2.2015 | 11:31
Endalaus innblástur, Margeir Dire með Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi
Þriðjudaginn 17. febrúar kl. 17 heldur myndlistarmaðurinn Margeir Dire fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Endalaus innblástur. Á fyrirlestrinum veltir Margeir fyrir sér þeirri áráttu sinni að búa eitthvað til úr öllu því sem hann hefur upplifað. Í kjölfarið fer hann yfir sköpun sína í gegnum tíðina og ástæður hennar.
Margeir Dire nam í Myndlistaskólanum á Akureyri, Lahti Institude of Fine Arts í Finnlandi og Instituto Europeo di Design í Barcelona. Hann er þekktur fyrir myndsköpun í mismunandi miðla svo sem vegglistaverk, strigamálverk, teikningar, video, tónlist, hönnun og listræna stjórnun. Margeir hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í allskyns samsýningum og samstarfsverkefnum.
Þetta er fimmti Þriðjudagsfyrirlestur ársins og sem fyrr fara þeir fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi á hverjum þriðjudegi kl. 17. Aðgangur er ókeypis.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Guðmundur Heiðar Frímannsson, Elísabet Ásgrímsdóttir, Katrín Erna Gunnarsdóttir, María Rut Dýrfjörð, Jón Páll Eyjólfsson og Hildur Friðriksdóttir.
https://www.facebook.com/listasafnid.akureyri
https://twitter.com/AkureyriArt
http://instagram.com/listak.is
https://www.facebook.com/events/414270212068620
13.2.2015 | 19:54
Afmæliskaffi í Listasafninu á Akureyri
Mánudaginn 16. febrúar heldur Listasafnið á Akureyri upp á 100 ára fæðingarafmæli Elísabetar Geirmundsdóttur, listakonunnar í Fjörunni, en þar stendur nú yfirlitssýning á verkum hennar. Ásgrímur Ágústsson, sonur Elísabetar, mun segja frá nokkrum verkum á sýningunni og hefst leiðsögnin kl. 15. Nýja kaffibrennslan býður upp á kaffi og Bakaríið við brúna upp á bollur í tilefni dagsins kl. 15-17. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.
Elísabet Geirmundsdóttir var fjölhæf alþýðulistakona sem ef til vill er þekktust fyrir höggmyndir sínar þó hún gerði einnig málverk, teikningar, myndskreytti bækur, hannaði hús og merki og samdi ljóð og lög. Það er afar viðeigandi að á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi skuli vera sett upp yfirlitssýning á verkum Elísabetar Geirmundsdóttur. Sýningin er unnin í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri og fjölskyldu Elísabetar.
Í tengslum við sýninguna var í janúar efnt til smiðju fyrir börn og fullorðna við gerð snjóskúlptúra. Einnig hefur öllum leikskólabörnum á Akureyri verið boðið í sérstaka heimsókn á Listasafnið til að sjá sýninguna og vinna myndverk út frá henni sem tengjast fjörunni. Sýningin stendur til 8. mars en laugardaginn 7. mars kl. 14 mun Kór Akureyrarkirkju og nemendur úr Tónlistarskólanum flytja söngdagskrá með lögum og ljóðum eftir Elísabetu í austursal Listasafnsins.
Opnunartími Listasafnsins á afmælisdaginn, mánudaginn 16. febrúar, er kl. 12-17.
https://www.facebook.com/listasafnid.akureyri
https://twitter.com/AkureyriArt
http://instagram.com/listak.is
11.2.2015 | 14:25
Joris Rademaker sýnir í vestursal Listasafnsins á Akureyri
Laugardaginn 14. febrúar kl. 15 verður opnuð í vestursal Listasafnsins á Akureyri sýning Jorisar Rademaker Hreyfing. Á sýningunni veltir listamaðurinn fyrir sér spurningum um eðli mismunandi hreyfinga. Hvert verk á sýningunni má túlka sem táknræna fullyrðingu um ólíkar hreyfingar í þrívídd.
Joris Rademaker lauk námi frá AKI í Enchede í Hollandi 1986 og hefur búið á Íslandi síðan 1991. Meginviðfangsefni Jorisar hefur löngum verið rými, hreyfing og orkuútgeislun. Á síðustu árum hefur áherslan einnig verið á samspil lífrænna efna sem byggingarefni fyrir þrívíð verk. Þrjátíu árum eftir útskrift úr listaakademíu er efnisvalið orðið ansi frjálslegt. Listaverkin kalla fram spurningar í samhengi við tilvist okkar, rými og náttúruna. Að baki hverju einasta verki liggja margvíslegar tilraunir og nákvæmar útfærslur sem skila sér svo áfram í næstu verkefni. Verkin hafa oftast táknrænt gildi sem tengist mannlegu eðli.
Sýningin verður opin sunnudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag kl. 12-17. Henni lýkur formlega fimmtudaginn 19. febrúar kl. 15 með lokunarteiti.
Sýningin er hluti af sýningaröð sem hófst 10. janúar og mun standa til 8. mars og inniheldur 8 vikulangar sýningar. Habby Osk, Brenton Alexander Smith, Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Kristján Pétur Sigurðsson hafa þegar sýnt og nú stendur yfir sýning Thoru Karlsdottur, Skilyrði: Frost. Þeir listamenn sem eiga eftir að sýna eru Lárus H. List og Arnar Ómarsson.
http://www.listak.is
https://www.facebook.com/events/633641560096901
11.2.2015 | 09:18
SALT VATN SKÆRI annar kafli fyrsta hluta
SALT VATN SKÆRI
er heiti á óútgefinni nóvellu og víðþættu samstarfsverkefni Freyju Reynisdóttur og Heklu Bjartar Helgadóttur en bókin er áætluð til útgáfu síðar á árinu 2015, ásamt stuttmynd. SALT VATN SKÆRI á upphaf sitt að rekja aftur til bernsku og hófst sem lítil saga sem Hekla sagði sjálfri sér frá fimm ára aldri. Hún byggðist upp og hélt áfram að auðgast eftir því sem árin liðu og beinin uxu og í dag er hún orðin að sviðssetningu.
Verkefnið fer fram í íbúð í listagilinu á Akureyri að Kaupvangstræti 23, andspænis Listasafni Akureyrar. Íbúðin er að tveimur þriðju hlutum síbreytilegt sýningarrými og viðburðarstaður þar sem Freyja og Hekla búa tímabundið saman og starfa fullu starfi, gagngert fyrir verkefnið. Á þessu tímabili halda þær sex reglulegar opnanir annað hvert föstudagskvöld með lifandi viðburðum og frumsýningum á túlkun textans en aðrir minni viðburðir gætu átt sér stað, ef svo hentar verkefninu.
Samstarfið er í raun yfirstandandi 14 vikna gjörningur sem felur í sér að lifa sig í gegnum og að túlka texta nóvellunnar í myndlistarverkum en verkefnið snýr fyrst og fremst að listrænni túlkun og þróun sögunnar. Nóvellan er þrískipt og heita hlutar hennar eftir megin táknum sögunnar: Salt, vatn og skæri. Þessi tákn eru síendurtekin og gegnumgangandi í atburðarásinni og marka andvara og ástand söguheimsins og persónanna sjálfra. Samstarfið hefur hingað til reynst mjög krefjandi og persónulegt viðfangsefni en Freyja og Hekla vinna meðal annars að því að kynnast og komast inn í hugarheim hvor annarrar þar sem mörkin milli þeirra eigin hversdagsleika og söguheims bókarinnar eru óskýr.
Fyrir samstarfið hefur nóvellunni verið skipt niður í sex parta, einn fyrir hverja opnun og á föstudagskvöldið 30. janúar átti fyrsta opnun sér stað: SALT: pappírsdagar, með upplestri Heklu úr kaflanum pappírsdagar, og frumsýningu myndbandsverks Freyju fyrir fullu húsi.
Nú næstkomandi föstudagskvöld verður seinni partur fyrsta hluta nóvellunnar frumsýndur: SALT: cul de sac.
Húsið opnar klukkan 20:00 og viðburðurinn hefst á slaginu 20:30
Allir eru hjartanlega velkomnir.
Laugardaginn 14. febrúar verður húsið svo opið frá 14:00 - 16:30 fyrir þá sem ekki gátu komist daginn áður. Það verður þó aldrei eins og á opnun.
Freyja Reynisdóttir, f.1989 í Reykjavík, býr og starfar á Akureyri. Hún útskrifaðist vorið 2014 frá Myndlistaskólanum á Akureyri með hæstu einkunn og hefur síðan starfað sem myndlistarmaður hér á Íslandi, Þýskalandi, Danmörku og í Bandaríkjunum ásamt því að hafa stofnað sýningarrými, séð um sýningar- og verkefnastjórnun og unnið að fjölbreyttum samstarfsverkefnum og einkasýningum. Verk hennar lýsa oft óvenjulegum fantasíum eða súrrealískum aðstæðum og persónum sem fjalla um tilfinningalegu hliðar okkar sameiginlega hversdagsleika sem við öll deilum í gegnum reynslu okkar, minningar og samskipti. Hún hefur óbilandi áhuga á hugmyndum mannkyns um himingeiminn og stöðu okkar innan þess óendanlega og óskiljanlega, og því tungumáli sem við temjum okkur varðandi svör stærstu spurninganna, meðal annars í gegnum heimspeki og trúfræði. Hún vinnur innsetningar, videoverk, olíu og akrílmálverk, skúlptúra, hljóðverk og gjörninga en einnig skrifar hún texta. Undanfarið hefur hún unnið mikið í samstarfi við aðra listamenn í listsköpun og þróun hugmynda í rannsókn sinni á samfélaginu.
Hekla Björt Helgadóttir er fædd 1985 á Akureyri og býr þar og starfar sem myndlistamaður, ljóðskáld og rithöfundur. Hekla hefur einnig starfað og sýnt myndlist og flutt texta í Reykjavík, Þýskalandi og Danmörku og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum ásamt einkasýningum. Hekla hefur unnið sem listrænn stjórnandi í grasrótargallerí sínu Geimdósinni á Akureyrir, og tekið að sér sýningarstjórn og umsjón með bókun listamanna hjá Listasafninu á Akureyri. Hún hefur einnig starfað sem listrænn hönnuður á kynningarefni og myndefni fyrir Leikhúsið á Akureyri, og hannað sviðsmynd fyrir Fuglasafnið í Svarfaðardal. Leikræn túlkun og sviðssetning spilar stóran þátt í verkum hennar og árið 2013 setti hún upp eigið sviðslistaverk hjá Leikfélagi Akureyrar. Hekla vinnur ljóð og textaverk og hefur tekið víðþættan þátt í ýmiskonar ljóðastarfssemi og skipulagt viðburði á því sviði. Hún vinnur meðal annars skúlptúra, innsetningar og málverk þar sem verkin eru iðulega innblásin af textum hennar, og endanleg birtingarmynd er oftar en ekki í formi gjörninga og leikinna myndbandsverka. Verk Heklu einkennast af töfraraunsæi og súrrealískum blæbrigðum undirmeðvitundar með persónulegri nálgun. Hún leitar í heimspeki, táknfræði og listasögu, auk þess að vinna alveg abstrakt út úr mannlegu kerfi.
www.salt-water-scissors.com
http://salt-water-scissors.com/freyja
http://salt-water-scissors.com/hekla
https://www.facebook.com/events/1586996484868947
______________________________________________
Reyndar... á ég köku handa þér.
-Hvernig kaka er það?
Hún heitir cul de sac.
-Hvað þýðir cul de sac?
cul de sac? Það þýðir eiginlega...blindgata. Eins og vegur sem skyndilega endar og þú kemst ekki áfram.
-Er þessi kaka þá blindkaka?
Já...ég held það...hún er allavegana algerlega tilgangslaus.
______________________________________________
Actually...I have a cake for you.
-What kind of cake?
It's name is cul de sac.
-What does cul de sac mean?
cul de sac? That kind of means...a dead end street. Like a road that suddenly ends and you cant go any further.
-Then is it a dead end cake?
Yes...I think so...at least it is completely pointless.
______________________________________________
First Part
SALT: cul de sac
Second opening of the SALT WATER SCISSORS manuscript and collaboration will be held this Friday evening. The second part of the story goes by the name of "cul de sac" and with this event people are invited to witness its premiere.
The story is split into three parts and each part is named after its main symbol: SALT, WATER and SCISSORS. These symbols are recurrent throughout the story and its events and give a tone to the attitude and mood of the world and the characters of the manuscript.
Freyja Reynisdóttir and Hekla Björt Helgadóttir are the people behind this collaboration. They live and work together during its realisation at Kaupvangsstræti 23, Akureyri.
The house opens at 20:00 and the show starts at the minute 20:30.
Everybody is invited.
Saturday 14. februar, the house will be open from 15:00-17:00 where remnants of the event will be up for display for people who did not make it the day before.
www.salt-water-scissors.com
http://salt-water-scissors.com/freyja
http://salt-water-scissors.com/hekla
Menning og listir | Breytt 12.2.2015 kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudaginn 10. febrúar kl. 17 heldur danski listljósmyndarinn Pi Bartholdy fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Listljósmyndir Pi. Þar mun hún ræða fyrri verk sín en einnig þau sem hún er að vinna að þessi misserin. Pi er útskrifuð frá danska listljósmyndaskólanum Fatamorgana 2011 og úr mastersnámi frá Escuela de Fotografia Y Centro de Imagen í Madrid 2012.
Þetta er fjórði Þriðjudagsfyrirlestur ársins og sem fyrr fara þeir fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi á hverjum þriðjudegi kl. 17. Aðgangur er ókeypis.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru Margeir Dire Sigurðsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson, Elísabet Ásgrímsdóttir, Katrín Erna Gunnarsdóttir, María Rut Dýrfjörð, Jón Páll Eyjólfsson og Hildur Friðriksdóttir.
https://www.facebook.com/events/414270212068620
5.2.2015 | 12:29
SAMANSAFN / ASSEMBLE Í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði
Laugardaginn 7. feb. kl. 15.00 opna Írsku listamennirnir Joe Scullion og Sinéad Onóra Kennedy sýninguna SAMANSAFN / ASSEMBLE Í kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Þau hafa dvalið í Listhúsinu á Ólafsfirði undanfarna 2. mánuði og unnið að list sinni. Sinéad og Joe vinna alla jafna málverk og skúlptúra en hafa tileinkað teikningunni tímann í Listhúsinu. Heitt á könnunni og allir velkomnir.
ASSEMBLE/SAMANSAFN
Enska orðið assemble lýsir samkomu fólks í sameiginlegum tilgangi, hvort sem hann er trúarlegur, stjórnmálalegur, fræðilegur eða félagslegur. Fólk hittist í gallerýi til að ræða hugmyndir, hitta vini eða jafningja sína, eða jafnvel borða saman. Þessi sýning skilgreinir Alþýðuhúsið sem kraftmikinn stað til samkomu fólks allstaðar að úr heiminum. Assemble þýðir einnig samsetning einhvers eftir skýrum leiðbeiningum með tiltekið markmið að leiðarljósi. Listamennirnir gera teikningar sem minna á slíkar leiðbeiningar, arkitektúr og gröf. Þær virðast við fyrstu sýn gefa til kynna stíft, vélrænt ferli, en þegar betur er að gáð kemur í ljós að þær eru tiltölulega frjálslega uppbyggðar.
Joe Scullion og Sinéad Onóra Kennedy útskrifuðust frá National College of Art and Design í Dublin á Írlandi árið 2013. Þau dvelja nú sem gestalistamenn í Listhúsinu á Ólafsfirði. Vinna þeirra er venjulega málverk og skúlptúr, en meðan á dvöl þeirra á Ólafsfirði hefur staðið hafa þau einbeitt sér að teikningum.
Joe Scullion
Teikningarnar, sem kvikna útfrá dystópískum1 söguþráðum og sögufræðilegu myndefni, virðast veita innsýn í aðra veröld uppfulla einhverju sem minnir lítillega á brot af byggingum og furðulega skúlptúra. Vitnað er í arkitektúr eins og hann birtist í sögu myndlistar og ljósmyndunar, en ekki er hægt að bera kennsl á nein ákveðin mannvirki. Það er líkt og við horfum inn í landslag framtíðar eftir að tilvist mannkyns lýkur, en þó er undirliggjandi spenna milli myndefnis og hvernig það er teiknað. Þessi margræðu form virðast ókláruð, og við nánari skoðun má sjá að samsetning þeirra af táknum og línum birtist þannig að teikningarnar kalla ekki fram hugmyndir um skáldaða veröld heldur lýsingu á hugmyndaferli. Þær eru rými þar sem eitthvað er unnið án þess að um nokkra algera niðurstöðu sé að ræða.
Sinéad Onóra Kennedy
Áherslan á framsögu sem miðpunkt í tilveru konu gerir hana afar meðvitaða um sjálfa sig. Hún krefst þess að kona búi sig sjálfsmynd sem öðrum finnst ánægjuleg og aðlaðandi, þar sem litið er á líkama okkar sem tjáningu á innra sjálfi. Hún verður að fylgjast með og meta sjálfa sig samkvæmt fjölda mælikerfa, og gera sig með því að röð talna og flokka. Afleiðingin er vaxandi vandamál varðandi sjálfhverfu um leið og #selfie menningin mettar samfélagið. Í verkum Sinéad er hinu gervi-uppstillta sjálfi raðað samhliða einföldum geómetrískum formum og gröfum, og bendir með því til ómælanleika. Hún rannsakar tómleika og fáránleika sjálfsþóknunar, og löngunina að falla að samfélagslegum stöðlum um fegurð.
4.2.2015 | 20:35
Thora Karlsdottir sýnir í vestursal Listasafnsins á Akureyri
Laugardaginn 7. febrúar kl. 15 verður opnuð í vestursal Listasafnsins á Akureyri sýning Thoru Karlsdottur Skilyrði: Frost. Á sýningunni er snjórinn í aðalhlutverki. Hann er óútreiknanlegur og breytir landslaginu; skapar nýja fleti, veitir birtu og býr til skugga. Nýjar myndir birtast á meðan þær gömlu leggjast í dvala enda er freistandi að nýta snjóinn í listsköpun og þau ótal tækifæri og möguleika sem hann skapar. Lifandi listaverk sem er síbreytilegt tilvist með skilyrði um frost.
Thora Karlsdottir er útskrifuð frá Ecole dArt Izabela B. Sandweiler í Lúxemborg 2008 og Europäische Kunstakademie Trier í Þýskalandi 2013. Hún hefur haldið átta einkasýningar á Íslandi og erlendis og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum um allan heim. Thora rekur vinnustofuna Lifandi vinnustofa í Listagilinu.
Sýningin verður opin sunnudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag kl. 12-17. Henni lýkur formlega fimmtudaginn 12. febrúar kl. 15 með lokunarteiti.
Sýningin er hluti af sýningaröð sem hófst 10. janúar og mun standa til 8. mars og inniheldur 8 vikulangar sýningar. Habby Osk, Brenton Alexander Smith og Jóna Hlíf Halldórsdóttir hafa þegar sýnt og nú stendur yfir sýning Kristjáns Péturs Sigurðssonar, Þriggja radda þögn og Rauða. Aðrir sýnendur eru í tímaröð: Joris Rademaker, Lárus H. List og Arnar Ómarsson.
https://www.facebook.com/events/612832722182593
3.2.2015 | 21:47
Sex ungir listamenn sýna í Mjólkurbúðinni og á Langa gangi
Núvitund er samsýning ungra listamanna í Mjólkurbúðinni og á Langa gangi í Listagilinu sem opnar föstudaginn 6.febrúar kl. 13-17.
Á samsýningunni Núvitund sýna:
Vikar Mar
Dagný Lilja Arnarsdóttir
Lena Birgisdóttir
Karólína Rós Ólafsdóttir
Stefán Bessason
Úlfur Logason
Á sýningunni Núvitund velta listamennirnir fyrir sér hinum ýmsu þáttum nútímans s.s. samskiptum, neysluhyggju, staðalímyndum og spillingu og áhrifum þess á nútímasamfélög. Þau túlka áhrif þess í verkum sínum bæði í málverkum og skúlptúr.
Vikar Mar er fæddur árið 1999 og er yngstur í hópnum. Vikar hefur starfað við að sitja yfir sýningum í Versmiðjunni á Hjalteyri, og hefur það starf veitt honum vissa sýn inn í listaheiminn. Vikar Mar er félagi í Grasrót og starfar þar á vinnustofu. Í dag málar hann í abstrakt expressionisma. Sem innblástur braut hann niður orðið "núið" og vann með flókinn hversdagsleikann og hafði "samskipti" fólks og hlutanna í kringum það mikið í huga við gerð verkanna.
Lena Birgisdóttir er tvítug og útskrifaðist úr Verkmenntaskólanum á Akureyri jólin 2014. Hugmyndina af verkinu fékk hún þegar hún leiddi hugann að því hvað nútíma samfélag sóar miklu rusli og hversu lítið það hugsar um hvert ruslið fer. Öll þessi eyðsla og það hugsunarleysi gagnvart náttúrunni og finnst henni sá hugsunarháttur alltof ríkjandi.
Dagný er fædd árið 1995 og útskrifaðist af myndlistarkjörsviði úr Vermenntaskólanum á Akureyri jólin 2ö14. Hún hefur teiknað, málað og skrifað síðan hún man eftir sér. Innblástur fyrir verkin á sýningunni er netneysla nútímamannsins og hversu stór partur netið er af lífi fólks.
Stefán Bessason er fæddur árið 1992 á Akureyri. Stefán byrjar að mála í janúar 2012. Hann sérhæfir sig í abstrakt expressionisma og innblástur hans fyrir sýninguna er spilling, græðgi, fátækt, ringulreið, reiði og ömurleiki nútímasamfélags.
Karólína Rós er fædd 1997, og er frá Akureyri. Hún hefur teiknað síðan hún var barn og hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum. Innblásturinn fyrir sýninguna eru óraunhæfar staðalímyndir og útlitsdýrkun, sem nær yfir fleira en mannfólkið svo sem dýr og plöntur. Bonsai tréð er vafið vírum til að breyta náttúrulegum vexti þess. Mótun líkamans verður sífellt brenglaðri, vísindi og tækni móta holdið eins og leir til þess að það falli sem best að stöðlum hverju sinni. Ónáttúrulegt og jafnvel óheilbrigt útlit verður oftar en ekki útkoman.
Úlfur er sautján ára og er á listnámsbraut í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Hann hefur málað síðan hann man eftir sér. Hann málaði mynd af hengingu Saddam Hussain. Það sem vakti áhuga hans var að myndin lítur út fyrir að vera mun eldri en hún er, þó hún hafi bara verið tekin fyrir 9 árum.
Sýningin Núvitund í Mjólkurbúðinni og á Langa gangi stendur yfir frá 7.-15.febrúar og er opin á föstudögum k. 14-17 og laugardaga og sunnudaga kl. 13-17.
Allir eru velkomnir.
Sýningarstjóri eru Dagný Lilja s.6960564
Mjólkurbúðin s.8957173
dagrunmatt@hotmail.com
Umfjöllun á heimasíðu Verkmenntaskólans:
http://www.vma.is/is/skolinn/frettir/fint-ad-vera-einn-vid-tronurnar
http://www.vma.is/is/skolinn/frettir/-opnadu-hugann-og-blomstradu-
http://www.vma.is/is/skolinn/frettir/ur-listinni-i-logfraedina
https://www.google.is/?gws_rd=cr,ssl&ei=AIfQVN10gbZQy8iC8AE#q=%C3%BAlfur%20logason
Umfjöllun hjá Vísi:
http://www.visir.is/seldi-oll-sin-verk-a-fyrstu-syningunni/article/2014705219949
Þriðjudaginn 3. febrúar kl. 17 heldur myndlistarmaðurinn Arnar Ómarsson fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Skáldið og staðreyndin. Þar mun Arnar ræða fyrri verk og hugmyndir sem byggja grunninn að næstu sýningu hans, MSSS, sem opnar í vestursal Listasafnsins laugardaginn 28. febrúar næstkomandi. Viðfangsefni sýningarinnar er hlutverk skáldskapar í mótun staðreynda með áherslu á tækni og geimrannsóknir.
Þetta er þriðji Þriðjudagsfyrirlestur ársins og sem fyrr fara þeir fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi á hverjum þriðjudegi kl. 17. Aðgangur er ókeypis.
Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri.
Dagskrá vetrarins:
10. febrúar
Pi Bartholdy, ljósmyndari
17. febrúar
Margeir Dire Sigurðsson, myndlistarmaður
24. febrúar
Guðmundur Heiðar Frímannsson, heimspekiprófessor
3. mars
Elísabet Ásgrímsdóttir, myndlistarkona
10. mars
Katrín Erna Gunnarsdóttir, myndlistarkona
17. mars
María Rut Dýrfjörð, grafískur hönnuður
24. mars
Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar
31. mars
Hildur Friðriksdóttir, meistaranemi við Háskólann á Akureyri
https://www.facebook.com/events/414270212068620
2.2.2015 | 09:26
Súpufundur í Gilinu
Halló, það er kominn febrúar og það þýðir aðeins eitt: súpufundur fyrsta þriðjudag í mánuði er þá þriðjudaginn 3. febrúar kl. 12-13 á RUB23. Allir eru velkomnir og tilvalið að taka með sér gesti. Þetta er afar óformlegt en tilvalið að skiptast á hugmyndum, upplýsingum og setja hluti á dagskrá eins og næsta Gildag sem er fyrirhugaður 14. mars og einnig Listasumar og Gjörningahátíðina A!, Hjóladaga, næstu opnanir og fleira og fleira. Sjáumst!
https://www.facebook.com/events/768334243252752