Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Ólafur Sveinsson sýnir í Populus tremula

O%CC%81lafur-Sveinsson-22.2-web

Laugardaginn 22. febrúar kl. 14.00 opnar Ólafur Sveinsson sýninguna Tímamót í Populus tremula. Heiti sýningarinnar vísar til þess að 30 ár eru nú liðin frá fyrstu sýningu listamannsins, sem jafnframt verður fimmtugur í næsta mánuði. Málverk, myndir og minningar.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 23. febrúar kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.


Síðasta sýningarvika raunveruleikagjörnings Curvers Thoroddsen í Ketilhúsinu

CurverThoroddsen_Sjonlista

Curver Thoroddsen
Verk að vinna/Paper Work
Síðasta sýningarvika
 
Komið er að síðustu sýningarviku raunveruleikagjörnings Curvers Thoroddsen, Verk að vinna/Paperwork, sem staðið hefur í Ketilhúsinu á Akureyri síðan um miðjan janúar. Þar hefur listamaðurinn lokað sig af frá umheiminum og farið allsnakinn í gegnum og grisjað tugi ára af uppsöfnuðum blöðum, pappír og bréfsefni. Þessi persónulega flokkun og endurskoðun helst í hendur við eldri verk Curvers.
 
Sýningin hefur verið afburða vel sótt og hlotið mikla og verðskuldaða athygli.
 
Gjörningnum lýkur sunnudaginn 16. febrúar og þá hefur listamaðurinn verið við iðju sína í 30 daga samfleytt. Árangurinn er sannarlega sýnilegur enda hafa safnast upp stórir haugar af pappírskurli.
 
Ketilhúsið er opið alla daga nema mánudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.


Thora Karlsdóttir sýnir í Mjólkurbúðinni

1662646_504171206367333_1587008175_n

 

Thora Karlsdóttir myndlistamaður opnar sýninguna ‘’Hver er lykillinn’’  í  Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri, laugardaginn 15. febrúar kl. 15:00.

Sýningin er  innsetning sem er sköpuð inn í rými Mjólkurbúðarinnar og  fjallar um lífið sjálft og leitina að lífshamingjunni. Myndlistamaðurinn  notar  lykla  í ýmsum formum og leikur sér með  efni og ímyndir  margræð tákn, bæði á huglægan og hlutlægan hátt.

Thora Karlsdóttir útskrifaðist frá Europaische Kunst Akademi of fine arts 2013. ‘’Lifandi Vinnustofa’’  er í Listagilinu á Akureyri.  Það er bæði vinnustofa, sýningarými og heimili Thoru. Þetta er önnur einkasýning Thoru á Íslandi en áður hefur hún sýnt víða erlendis. Þóra tekur þátt í tveim sýningum erlendis á þessu ári. Hin fyrri er 9. mars í Trier, Þýskalandi. Hin seinni verður 15. september í Chateau de Bourglingster í Luxembourg.

Sýning Thoru Karlsdóttur ‘’Hver er lykillinn’’  stendur til 23. febrúar.
Thora Karlsdóttir  s.6914839
thorakarlsdottir@gmail.com www.karlsdottir.com

Mjólkurbúðin Listagili er á facebook - Vertu vinur!
https://www.facebook.com/groups/289504904444621/


Ályktun stjórnar Myndlistarfélagsins: Stjórnvöld á Akureyri vilja höggva skarð í Listagilið á Akureyri.

mynd_logo_1036390


Ályktun stjórnar Myndlistarfélagsins 7. febrúar 2014.


Stjórnvöld á Akureyri vilja höggva skarð í Listagilið á Akureyri.


Það er dapurlegt til þess að hugsa að stjórn Akureyrarstofu, sem fer með stjórn menningar-, ferða-, markaðs- og atvinnumála Akureyrarbæjar í umboði bæjarstjórnar, skuli hafa ákveðið að selja Deigluna og gestavinnustofuna. Gestavinnustofan er gluggi Akureyrar út í heim. Erlendir og innlendir listamenn koma til bæjarins og greiða leigu fyrir dvöl sína í Listagilinu. Af hverju á að loka fyrir þessi mikilvægu tengsl núna? Þrátt fyrir varnaðarorð stjórnar Myndlistarfélagsins kaus stjórn Akureyrarstofu að fela Fasteignum Akureyrar að selja húsnæðið í sparnaðarskyni.

Það var meiri reisn yfir forsvarsmönnum Akureyrarbæjar í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Þá sameinuðust stjórnmálamenn, listafólk og áhugasamir listunnendur um að blása lífi í þau reisuleg og fögru hús í Grófargili, sem lokið höfðu hlutverki sínu þegar iðnaðarstarfsemi SÍS og KEA var færð í hentugra húsnæði í jaðri bæjarins. Þá hófst endurreisn Gilsins - Listagilið varð til; myndlistarskóli, listasafn, gestavinnustofa, fjölmörg gallerý og margvísleg rými mynduðu sterka heild. Öflug starfsemi sem auðgað hefur lista- og menningarlífið í bænum. Þessu megum við ekki glutra niður vegna skammsýni þeirra sem ráða ferðinni.

Akureyrarbær á fjórðungshlut í Kaupvangsstræti 23. Þann 24. mars 1992 var undirritaður samningur Akureyrabæjar og Gilfélagsins. Þá fékk félagið umráðarétt yfir eignarhlut bæjarins. Akureyrarbær og menntamálaráðuneytið veittu styrki til uppbyggingarinnar auk þess sem íslenskir listamenn sýndu hug sinn í verki með því að gefa listaverk sem seld voru til styrktar málefninu. Gilfélagar hófu uppbyggingu og endurgerð húsnæðisins. Hugmyndin var að nýta húsnæðið fyrir fjölþætta listastarfsemi og innrétta gestavinnustofu fyrir innlenda og erlenda listamenn til styttri dvalar. Frá upphafi var tilgreint í ársreikningi, framlag félagsmanna og sjálfboðavinna annars vegar og rekstrarstyrkur Akureyrarbæjar hins vegar.

Listamenn hafa lagt mikið að mörkum í gegnum tíðina. Starf þeirra í þágu samfélagsins í Listagilinu er því miður vanmetið og nú er svo komið að skilningsleysi yfirvalda hamlar eðlilegri þróun hér á Akureyri og þolinmæði margra á þrotum. Það er áhyggjuefni hversu óbilgjörn Akureyrarstofa er í afstöðu sinni varðandi Listagilið, sem er verðmætt vörumerki fyrir Akureyri. Það tjón sem eignasalan mun hafa í för með sér er óafturkræft.

Stjórn Myndlistafélagsins skorar á bæjaryfirvöld að falla frá fyrirhugaðri sölu og hvetur Íslendinga til að standa vörð um Listagilið.




Guðrún Harpa Örvarsdóttir, formaður


Myndlistarfélagið - Kaupvangsstræti 10 - Pósthólf 235 - 602 Akureyri - mynd.blog.is


Georg Óskar sýnir í Reykjavík Art Gallery

1010215_10202845580448221_582111841_n

Laugardagaginn 8. febrúar kl. 16:00 opnar Georg Óskar sýninguna "7 mánuðir í ágúst"
í Reykjavík Art Gallery.

Georg Óskar er skreytihundur með áherslu á málverkið,
hvert verk er sjónræn dagbók af björtum dögum og andvaka nóttum.

Verður þetta sjöunda einkasýning Georg Óskars en sú fyrsta sem hann opnar í Reykjavík.

Léttar veitingar verða á opnun og eru allir hjartanlega velkomnir.

Reykjavík Art Gallery
Skúlagata 30
101 Reykjavík

https://www.facebook.com/events/1453928404830420/


LJÓSMYNDASÝNING Á BÓKASAFNI HÁSKÓLANS Á AKUREYRI, MARGRÉT ELFA JÓNSDÓTTIR "NÆRMYNDIR"

Fimmtudaginn 6. febrúar kl. 16:00 – 18:00 opnar Margrét Elfa Jónsdóttir fyrstu einkasýningu sína á Bókasafni Háskólans á Akureyri.

Margrét Elfa Jónsdóttir er fædd  á Akureyri árið 1961.
Hún hef alltaf haft gaman að því að taka myndir, en byrjaði fyrir alvöru árið 2011 eftir að hafa eignaðist fyrstu EOS myndavélina.  
Hún er meðlimur í ÁLFkonum og hefur það reynst mikil hvatning en hópurinn hittist vikulega og fara t.d. ljósmyndaferðir saman.
Macromyndataka hefur alltaf heillað Elfu og eru þannig myndir meginþemað á þessari sýningu, sem hún kallar Nærmyndir.
Þetta er fyrsta einkasýning Margrétar Elfu en hún hefur unnið til margra viðurkenninga á ýmsum vefmiðlum en einnig verið með í samsýningum bæði með ÁLFkonum og ÁLKA.

Opnunartími er:  mán., mið. og fös.: kl. 8:00 - 16:00 og þri. og fim.: kl. 8:00 - 18:00. Lokað um helgar. Allir eru velkomnir!

https://www.facebook.com/events/576176105806155/?previousaction=join&source=1

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband