Ályktun stjórnar Myndlistarfélagsins: Stjórnvöld á Akureyri vilja höggva skarð í Listagilið á Akureyri.

mynd_logo_1036390


Ályktun stjórnar Myndlistarfélagsins 7. febrúar 2014.


Stjórnvöld á Akureyri vilja höggva skarð í Listagilið á Akureyri.


Það er dapurlegt til þess að hugsa að stjórn Akureyrarstofu, sem fer með stjórn menningar-, ferða-, markaðs- og atvinnumála Akureyrarbæjar í umboði bæjarstjórnar, skuli hafa ákveðið að selja Deigluna og gestavinnustofuna. Gestavinnustofan er gluggi Akureyrar út í heim. Erlendir og innlendir listamenn koma til bæjarins og greiða leigu fyrir dvöl sína í Listagilinu. Af hverju á að loka fyrir þessi mikilvægu tengsl núna? Þrátt fyrir varnaðarorð stjórnar Myndlistarfélagsins kaus stjórn Akureyrarstofu að fela Fasteignum Akureyrar að selja húsnæðið í sparnaðarskyni.

Það var meiri reisn yfir forsvarsmönnum Akureyrarbæjar í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Þá sameinuðust stjórnmálamenn, listafólk og áhugasamir listunnendur um að blása lífi í þau reisuleg og fögru hús í Grófargili, sem lokið höfðu hlutverki sínu þegar iðnaðarstarfsemi SÍS og KEA var færð í hentugra húsnæði í jaðri bæjarins. Þá hófst endurreisn Gilsins - Listagilið varð til; myndlistarskóli, listasafn, gestavinnustofa, fjölmörg gallerý og margvísleg rými mynduðu sterka heild. Öflug starfsemi sem auðgað hefur lista- og menningarlífið í bænum. Þessu megum við ekki glutra niður vegna skammsýni þeirra sem ráða ferðinni.

Akureyrarbær á fjórðungshlut í Kaupvangsstræti 23. Þann 24. mars 1992 var undirritaður samningur Akureyrabæjar og Gilfélagsins. Þá fékk félagið umráðarétt yfir eignarhlut bæjarins. Akureyrarbær og menntamálaráðuneytið veittu styrki til uppbyggingarinnar auk þess sem íslenskir listamenn sýndu hug sinn í verki með því að gefa listaverk sem seld voru til styrktar málefninu. Gilfélagar hófu uppbyggingu og endurgerð húsnæðisins. Hugmyndin var að nýta húsnæðið fyrir fjölþætta listastarfsemi og innrétta gestavinnustofu fyrir innlenda og erlenda listamenn til styttri dvalar. Frá upphafi var tilgreint í ársreikningi, framlag félagsmanna og sjálfboðavinna annars vegar og rekstrarstyrkur Akureyrarbæjar hins vegar.

Listamenn hafa lagt mikið að mörkum í gegnum tíðina. Starf þeirra í þágu samfélagsins í Listagilinu er því miður vanmetið og nú er svo komið að skilningsleysi yfirvalda hamlar eðlilegri þróun hér á Akureyri og þolinmæði margra á þrotum. Það er áhyggjuefni hversu óbilgjörn Akureyrarstofa er í afstöðu sinni varðandi Listagilið, sem er verðmætt vörumerki fyrir Akureyri. Það tjón sem eignasalan mun hafa í för með sér er óafturkræft.

Stjórn Myndlistafélagsins skorar á bæjaryfirvöld að falla frá fyrirhugaðri sölu og hvetur Íslendinga til að standa vörð um Listagilið.




Guðrún Harpa Örvarsdóttir, formaður


Myndlistarfélagið - Kaupvangsstræti 10 - Pósthólf 235 - 602 Akureyri - mynd.blog.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband