MÓBERGUR, RAFSTEINN OG SÆMUNKUR Í KETILHÚSINU

ketilhu_769_s.jpg

Laugardaginn 11. febrúar kl. 15 opnar ný sýning í Ketilhúsinu. Um er að ræða fyrstu sýningu á vegum Sjónlistamiðstöðvarinnar í þessum sal. Sýningin kallast Móbergur – Rafsteinn – Sæmunkur en það eru gamlar persónulegar nafngiftir sem listamennirnir Árni Valur Axfjörð, Hafsteinn Michael Guðmundsson og Jón Sæmundur Auðarson hafa dustað rykið af í tilefni sýningarinnar.

Listamennirnir þrír eiga það sameiginlegt að sækja innblástur til annars veruleika, hugar og sálar mannsins, andlegra heima, fornra leyndardóma og trúarbragða. Hver um sig hefur skapað sinn eigin hugmyndaheim sem fullur er af táknum og vísunum sem sótt eru til hinna fjölbreytilegustu hugmynda úr liðinni tíð en byggður er upp í sköpun og kyngimögnuðu andrúmslofti fortíðar, nútíðar og framtíðar.

Árni Valur Axfjörð – Mórbergur – er fæddur á Akureyri 14. maí 1970. Hann er sjálfmenntaður listamaður sem hefur þróað með sér sérstakan stíl allt frá því hann byrjaði fyrst að mála olíu á striga þegar hann var búsettur í Hollandi árið 1999. Næstu ár einbeitti hann sér að því að þróa þá leið sem hann vildi fara í listinni, læra á mismunandi miðla og tækni ásamt miklum lestri á heimspeki og andlegum fræðum. „Á meðan þjóðir heimsins keppast við að tortíma sjálfum sér, og jörðinni, finnst mér ég knúinn til þess að veita fólki innsýn inn í þann veruleika sem við mér blasir. Sú hugsun að endir sé byrjun er allsráðandi. Þegar þessarri jarðvist lýkur vaknar maður upp af draumi og byrjar hið raunverulega líf,“ útskýrir Árni Valur, sem hélt sýna fyrstu sýningu í Dauða galleríinu sumarið 2010.

Hafsteinn Michael Guðmundsson – Rafsteinn – er fæddur í Reykjavík 17. nóvember 1976. Hann útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista- og handíðaskólans árið 1999. Lífið er Hafsteini hugleikið og dregur hann fram firrta eftirmynd af okkar heimi, Dystópíu með allri sinni undirliggjandi ógn og valdboði, skreyttan ljóðrænni grafík. Persónur myndverka Hafsteins eru erkitýpur sem hafa fengið að þróast í gegnum árin og ganga stundum aftur eða breyta um ham, þannig vísar ein mynd oft í aðra svo bæði verkin öðlast nýja merkingu. Hafsteinn hefur haldið níu einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga.

Jón Sæmundur Auðarson – Sæmunkur – er fæddur í Reykjavík 16. júní 1968. Hann útskrifaðist úr fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1999 og öðlaðist svo meistaragráðu í myndlist úr Glasgow School of Art árið 2001. Jón Sæmundur hefur unnið aðallega við innsetningar þar sem blönduð tækni – málverk, skúlptúr, myndbandsverk og tónlist – skapa ákveðið mynstur hugmyndalistar. Líf og dauði er mikilvægt viðfangsefni í list Jóns en hann greindist jákvæður af HIV smiti árið 1994. Á þeim tímapunkti upplifði hann kröfuna um að yfirstíga ótta sinn við dauðann. Þessi hugmynd varð upphafið að Dead sem er marglaga konsept en þar vinnur hann með myndlist, tónlist, netsjónvarp og fatnað undir merkinu Dead.
 
Sýningin stendur til 11. mars og er opin alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17.
Aðgangur er ókeypis í boði Akureyrarbæjar
 

Sjónlistamiðstöðin - Ketilhús
www.sjonlist.is
S: 461 2610
sjonlist@sjonlist.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband