Ragna Hermannsdóttir - Grafík og Bókverk í Listasafninu á Akureyri

ragna_web.jpg

Í Listasafninu á Akureyri opnar Sjónlistamiðstöðin sýningu á verkum listakonunnar Rögnu Hermannsdóttur laugardaginn 10. nóvember, kl. 15.  Verkin á sýningunni eru valin úr rausnarlegri dánargjöf Rögnu til Safnahússins á Húsavík.
Ragna var fjölhæf listakona og vann í marga miðla en á þessari sýningu er lögð áhersla á grafíkverk hennar einkanlega tréristur og bókverk en á því sviði náði hún sérstökum árangri.  Sköpun hennar er  dularfull og óræð í senn en samt er eins og að baki búi óþreyjufull löngun til að miðla, segja frá og koma ákveðnum boðskap á framfæri.  Heildaráhrifin eru afar sterk  en þó þægileg og hlý eins og Ragna var sjálf. Eftir nám í ljósmyndun á árunum 1972-1975 hóf Ragna, 55 ára að aldri, listnám sitt við Myndlista og handíðaskóla Íslands. Leið hennar lá síðan til Hollands, í Rijks-Akademie í Amsterdam og til Rochester, New York, í áframhaldandi nám.  Þegar heim var komið hóf hún heimspekinám við Háskóla Íslands þar sem hún lauk BA námi 1997, þá 73 ára að aldri. Páll Skúlason var leiðbeinandi hennar í lokaverkefninu sem fjallaði um heimskuna. Þess má einnig geta að árið 1990 dvaldi hún í Marfa, listamiðstöð Donald Judd í Texas.
Allan þennan tíma var hugur Rögnu opinn og leitandi og í verkum sínum sameinar hún þroska fullorðinnar manneskju og leitandi lærdómsþrá æskuáranna.
Á tímabilinu 1976-2003 hélt Ragna 22 einkasýningar á Íslandi og í Hollandi, og tók einnig þátt í fjölda samsýninga.
Ragna Hermannsdóttir fæddist í Bárðardal 1924 og var 87 ára að aldri er hún lést, á síðasta ári.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband