8.7.2009 | 23:43
Sýningin „Kreppumálararnir” opnuð í Listasafninu á Akureyri
KREPPUMÁLARARNIR
Manneskjan í forgrunni
Laugardaginn 11. júlí kl. 15 verður sýningin Kreppumálararnir opnuð í Listasafninu á Akureyri, en þar verður dregin upp mynd af lífi og listum þjóðarinnar á fjórða áratug síðustu aldar. Ísland hóf göngu sína sem þátttakandi í alþjóðasamfélaginu með nýju sniði í upphafi 20. aldar með heimastjórn 1904 og síðan fullveldi 1918. Umráð yfir atvinnu- og efnahagsmálum færðu mönnum aukna möguleika til viðskipta við önnur lönd, eflingu útflutnings og uppbyggingu innanlands. Allan þriðja áratug 20. aldarinnar ríkti mikil bjartsýni í atvinnulífi, sveitir tóku stakkaskiptum og íbúum kaupstaða fjölgaði. Þessi þróun stöðvaðist skyndilega með hruni verðbréfamarkaðarins í New York í árslok 1929. Íslandsbanki, sem stofnaður var í upphafi aldarinnar og hafði lánað ótæpilega fé til atvinnustarfsemi og uppbyggingar, varð gjaldþrota í febrúar 1930. Ríkið yfirtók bankann og breytti honum sama ár í tvo banka, Útvegsbanka og Búnaðarbanka. Við tóku erfiðir tímar sem ekki lauk fyrr en með hernámi Íslands árið 1940. En þrátt fyrir bágan efnahag áttu sér samt stað ýmsar merkar framfarir í atvinnulífi landsmanna og á menningarsviðinu komu fram listamenn sem síðar áttu eftir að láta meira að sér kveða.
Frá aldamótunum 1900 hafði landslagið verið ráðandi viðfangsefni myndlistarmanna og varð svo áfram en upp úr 1930 kom fram ný kynslóð ungra listamanna sem leit svo á að með efnahagskreppunni og þeim þjóðfélagsátökum sem henni fylgdu hefði hugmyndagrundvelli landslagsmálverksins verið svipt burt. Þegar svo mikið hafði breyst var ekki hægt að halda áfram sem fyrr. Þeir fundu knýjandi þörf fyrir túlkun nýrra tíma í breyttu þjóðfélagi og litu til manneskjunnar í umhverfi sínu sem fram að þeim tíma hafði verið svo til fjarverandi í íslenskri myndlist. Með vaxandi þéttbýlismyndun fluttu listamennirnir á mölina, eins og svo margir og fóru að yrkja um sinn nýja veruleika. Málararnir munduðu pensla sína við myndríkan heim Reykjavíkurhafnar, hugtökin kreppumálari og kreppuskáld urðu til og vísir að borgarvitund tók að myndast.
Kreppumálararnir sem hér eru kynntir, þeir Snorri Arinbjarnar (1901-1958), Gunnlaugur Scheving (1904-1972), Þorvaldur Skúlason (1906-1984) og Jón Engilberts ( 1908-1972), beindu sjónum sínum að hinum vinnandi manni og sögusviðið er oft þorpið eða bærinn sem einnig verða rithöfundum og skáldum að yrkisefni á þessum áratug.
Minjasafnið á Akureyri hefur lagt til menningarsögulega muni ásamt ljósmyndum sem ætlað er að ríma við myndlistarverkin og beina sjónum sýningargesta að umhverfi og kjörum norðlenskrar alþýðu á þessum tíma. Auk einstaklinga lánuðu einnig Listasafn Íslands, Listasafn ASÍ, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Menntaskólinn á Akureyri, NBI h.f., Efling stéttarfélag, Stúdíó Stafn ehf, Borgarskjalasafn Reykjavíkur, Síldarminjasafnið á Siglufirði, verk og muni til sýningarinnar.
Sýningarstjóri er Hrafnhildur Schram listfræðingur, en nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson forstöðumaður í síma: 462-2610 / 899-3386 Netfang: hannes@art.is.
Sýningin stendur til sunnudagsins 23. ágúst. Listasafnið er opið alla daga frá kl. 12-17 og er aðgangur ókeypis í boði Akureyrarbæjar.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Dægurmál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.