Gjörningaklúbburinn opnar sýningu í Safnasafninu

ilc2 Laugardaginn 12. júlí kl. 16.00 verður opnuð sýning á verkum Gjörningaklúbbsins í Safnasafninu á Svalbarðsströnd í Eyjafirði og um kvöldið haldin grillveisla með gítarspili, sögn og gleði í garðinum norðan við lækinn.

Gjörningaklúbburinn er hópur þriggja listakvenna sem samanstendur af þeim Sigrúnu Hrólfsdóttur, Jóní Jónsdóttur og Eirúnu Sigurðardóttur. Samstarf þeirra hófst í Myndlista- og handíðaskóla Íslands, þaðan sem þær útskrifuðust 1996. Á árunum 1996 - 1999 lögðu þær stund á framhaldsnám við eftirfarandi háskólum: Eirún í Hochschule der Künste í Berlin, Jóní í det Kongelige danske kunstakademi í Kaupmannahöfn og Sigrún í Pratt Institute í New York.

Verkin á sýningunni í Safnasafninu eru sprottin frá hugmyndinni um hlutverk konunnar sem gestgjafa í gegnum aldirnar; að veita skjól og skapa rými fyrir hugmyndir að vaxa, rými þar sem samskipti manna í millum eiga sér stað. Þau fjalla líka um kynferði, kvenlíkamann, hugmyndir um undirgefni, sjálfstæði, sjálfsímynd, fjötra og frelsi, einnig um mikilvægi þess að taka gestum fagnandi sem bera með sér nýjar hugmyndir og nýja siði. Eina leiðin til þess að lifa af er að hafa fúsleika til þess að þiggja það sem manni er gefið og gefa á móti. Samskipti manna verða að byggjast á gagnkvæmri virðingu. Verkin tengja sig einnig sterklega við hina einu sönnu gestrisni sem ríkir á hverju sveitaheimili, rómantík og gleði.
 
Gjörningaklúbburinn á glæsilegan sýningarferil að baki og hefur sýnt verk sín á yfir 200 sýningum bæði hér heima og erlendis. Undir nafninu The Icelandic Love Corporation hafa þær flutt gjörninga og tekið þátt í sýningum meðal annars í New York, Berlín, London, Kaupmannahöfn, Ósló, San Fransisco, Helsinki, Varsjá og Tókýó. Gjörningaklúbburinn hefur vakið verðskuldaða athygli og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir framsækin og margræð verk sín. Verkin hafa oft yfir sér glaðværð og glæsileika sem er ofinn saman við þyngri undirtón. Þær sækja gjarnan í brunn alþýðulistar og handverks og trúa því að ástin muni á endanum sigra, enda tengjast hugmyndir þeirra gjarnan samskiptum kynja, manna og náttúru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband