19.6.2008 | 11:06
Huginn Arason og Jóna Hlíf Halldórsdóttir opna sýninguna G L O R Í A í DaLí gallerý
DaLí gallerý
Brekkugötu 9
600 Akureyri
Laugardaginn 21. júní klukkan 17:00 opna Huginn Arason og Jóna Hlíf Halldórsdóttir sýninguna G L O R Í A.
SÝNINGIN SAMANSTENDUR AF textaverkUM sem hafa birst í SMÁAUGLÝSINGUM FRÉTTABLAÐSINS síðan 11. júní OG HEFUR Dominos Á AKUREYRI AÐSTOÐAÐ listamennina VIÐ AÐ baka HUGSANLEGA stærsta baquette á Íslandi og kannski víðar. BRAUÐIÐ SKÍRSKOTAR TIL BAGUETTE BRAUÐS SEM SALVADOR DALÍ BAKAÐI VIÐ KOMU SÍNA TIL NEW YORK BORGAR. SAGAN SEGIR AÐ DALÍ HAFI BAKAÐ RISAVAXIÐ BAGUETTE Í TILEFNI SÝNINGAR Á VERKUM SÍNUM Í BORGINNI ÁRIÐ 1936.
SÝNINGARGESTUM Á AKUREYRI VERÐUR BOÐIÐ upp á ÝMSAR GERÐIR AF YFIRVARASKEGGJUM og heitt SÝSLUMANNSkakó.
GLORÍA VERÐUR SANNKÖLLUÐ ANDANS ORGÍA OG ERU allir HJARTANLEGA velkomnir
lengi lifi Dalí, Dalí lifir
Huginn Þór Arason (1976) býr og starfar í Reykjavík.
Í myndlist sinni fæst hann við afar fjölbreytta efnisnotkun og ýmsa miðla. Sem dæmi hefur hann gert gjörninga, málverk, teikningar og skúlptúra t.d. úr pizzum, barnaleir og bómull. Í verkum sínum hefur Huginn skapað eigin heim, þar sem fléttast saman barnsleg form, sem líkjast hlutum úr daglega lífinu, skærir litir og gjörningar, sem varpa ljósi á atferli fólks, persónulegan smekk og -ákvarðanir.
Verk Hugins Þórs eru einföld í framsetningu en dansa sífellt á mörkum þess að vera gjörningar, skúlptúr og málverk. Verkin má einnig lesa sem sjálfsmyndir en í þeim er nærvera listamannsins sterk í sumum verkum en fjarvera hans tilfinnanleg í öðrum en vísa í öllum tilfellum til persónu listamannsins. Nærvera/fjarvera listamannsins í sumum verka hans fær áhorfandann til umhugsunar um mörkin milli þess sem tilheyrir hinu persónulega(private) og hins, sem er opið almenningi(public). Í verkum Hugins Þórs koma þessir tveir þættir saman á sjónrænu yfirborði hlutanna; þess sem áhorfandinn mætir og les sig í gegnum þegar hann nálgast verkin.
Huginn Þór Arason útskrifaðist með BA-gráðu frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002 og með MA-gráðu á árinu 2007 frá Akademie der Bildenden Künste í Vínarborg, hjá austurríska listamanninum Franz Graf. Verk Hugins Þórs hafa ma. verið sýnd í Nýlistasafninu og Safni í Reykjavík, Listasafni Akureyrar, sýningarýminu Suðsuðvestur í Reykjanesbæ, Listasafni Alþýðu-ASÍ í Reykjavík, sýningarýminu Transporter í Vínarborg, Austurríki, Kling & Bang Gallerí í Reykjavík og Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Huginn Þór situr í stjórn Nýlistasafnsins og hefur verið sýningarstjóri ásamt öðrum; s.s. að sýningunni Pakkhúsi postulanna í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi og sýningaröðinni Signals in the Heavens í Berlín og New York.
Jóna Hlíf Halldórsdóttir (1978) býr og starfar á Akureyri..
Jóna Hlíf rásar um fortíð, nútíð og framtíð. Mótífin sem endurtaka sig í innsetningunum hennar, skúlptúrum, ljósmyndum og málverkum koma úr djúpum sálarinnar. Galopnir kjaftir og glenntir reðir, keilulaga nef eða gogglaga munnar, lóðréttir plastrimlar úr verksmiðjum eða vöruhúsum, blómstrandi málningarslettur eða sprey, hvíta og hið sínálæga myrkur. Verk Jónu draga mann með spörkum og látum að þessum erfiðu tilfinningum sem sameina okkur. Því þau síast gegnum baðm þess sem við óttumst og þráum meðvitað eða ómeðvitað og minna okkur á að við erum mannleg eða réttara sagt líkamleg". Orð og setningar í verkum hennar líkjast trúarlegum möntrum, eins og Guð, æla, eldur", Hafðu það stórt eða haltu því einföldu", Ekkert er allsstaðar og ég er ekkert", sem stjórna því sjáanlega (líkt og um hugarstjórnun sé að ræða), og verða að endingu það sem maður sér. Setningarnar eru leikandi léttar en jafnframt íhugular, einlægar en fyndnar, og búa yfir ruglandi mætti þar sem þær svífa fram og til baka í hausnum á manni. Verkin fást við hinar sígildu sögur sem búa yfir táknum, frásögn og einfaldleika, sjónrænt séð og bókstaflega. Maður er aldrei alveg viss hvaða tímabili þessi verk tilheyra. Þau virka frumstæð og tilheyra þjóðsagnahefð, líkt og mótuð úr jörðinni, en á sama tíma eru þau glansandi og hjúpuð eins og fjöldaframleiddir hlutir úr iðnaðarsamfélagi nútímans. Myndin sem þau greipa í huga manns og skilaboðin sem þau færa, skýra frá því sem við gætum orðið síðarmeir. Líkt og með spádóm sem inniheldur óljósar meiningar um framtíðina, látum við sannfærast vegna þess að við hrífumst af ljósinu, litunum og sjónarspilinu.
Jóna Hlíf útskrifaðist með Diploma frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2005 og Mastersgráðu úr Glasgow School of Art vorið 2007. Hún hefur rekið galleriBOX ásamt fleirum, og er sýningarstjóri fyrir VeggVerk og Ráðhús gallerí á Akureyri. Hún er umsjónarmaður Gestavinnustofu Gilfélagsins, einn aðstandenda Verksmiðjunnar á Hjalteyri og varamaður í stjórn Myndlistarfélagsins á Akureyri. Jóna hefur sýnt í Listasafni Akureyrar, Nýlistasafninu og í Tramway í Glasgow. Komandi sýningar eru í 101 Gallerý, í D-sal Listasafns Reykjavíkur og Listasafni Mosfellsbæjar.
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Breytt 20.6.2008 kl. 08:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.