18.6.2008 | 13:28
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sýnir skúlptúra og lágmyndir í réttinni við Freyjulund
Helgina 21.- 22. Júní 2008 verður Réttardagur í Reistarárrétt við Freyjulund, Arnarneshreppi.
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sýnir skúlptúra og lágmyndir í réttinni við Freyjulund undir yfirskriftinni Réttardagur 50 sýninga röð.
Sýningin er sú fyrsta í röð 50 sýninga sem settar verða upp víða um heim á næstu fimm árum og fjalla um íslenska menningu.
Laugardaginn 21 júní kl 14.00 er opnum með léttum veitingum, kl.15.00 munu gestalistamennirnir á Réttardeginum Anna Gunnarsdóttir, Jónína Sverrisdóttir, Jan Voss og Hanna Hlíf Bjarnadóttir sýna túlkun sína á sauðkindinni. Einnig verður myndbandsverk DRA. sýnt, og hljóðupptaka Mirjam Blekkenhorst.
Sunnudaginn 22. Júní er opið frá kl 14.00 18.00. Sýningin mun standa fram yfir Jónsmessu eða næstu tvo daga ef veður leifir.
Undanfarin ár hef ég verið að undirbúa sýningu eða uppákomu sem ber yfirskriftina Réttardagur. Þessi töfrum líki dagur þegar fé er safnað af fjalli og rekið í réttir. Upphaf nýs tímabils, menning og allsnægtir.
Verkefnið á uppruna í mínu nánasta umhverfi þar sem ég bý 20 metra frá Reistarárrétt í Arnarneshreppi, Eyjafirði. Ég er alin upp á Siglufirði þar sem afasystir mín og maðurinn hennar stunduðu fjárbúskap á túninu heima. Við áttum heima ofarlega í bænum, fyrir ofan kirkjuna alveg við fjallsrætur. Sem barn fékk ég að hjálpa til við þau störf sem fylgja búskapnum ýmist úti eða inni.
Síðan þá hafði ég hvorki hugsað sérstaklega um kindur né búskap fyrr en ég flutti nánast í réttina. Þá fann ég hvað æskuminningarnar sóttu á mig og ég upplifði réttirnar og sveitalífið á alveg nýjan máta. Merkilegt hvað fjárbúskapurinn á sér sterkar rætur í þjóðarsál Íslendinga. Innan um alla nýsköpun heldur sauðkindin velli.
Í dag er ég áhugamanneskja um náttúruvæna og þjóðlega atvinnuvegi eins og búskap. Sjálf hef ég hagað lífi mínu þannig að ég lifi í sátt við náttúruverndarsamvisku mína. Ég flokka sorpið mitt og nýti til listsköpunar margt af því sem fellur til á heimilinu. Ég nota hvorki eiturefni í listsköpun né þrifum. Þegar ég hóf að vinna þrívíð verk lagði ég leið mína á gámasvæðið á Akureyri til að leita að hráefni. Það kom til af peningaleysi en ekki síður endurvinnsluhugmyndum. (Það er umhugsunarefni að í fimmtánþúsund manna samfélagi fyllast margir gámar af húsgögnum, heimilistækjum og timbri á hverjum degi. )
Mér líkar tilhugsunin um að vera hluti af heild. Að setja saman skúlptúra úr timbri sem smiðir hafa sagað niður og jafnvel málað er skemmtilegur leikur, og gefur verkunum að mínu mati aukna vídd.
Ýmsar myndir mannlífs hafa verið viðfangsefni mitt alla tíð. Fyrst á tvívíðan flöt, en nú í seinni tíð þrívíðan. Þegar ég hef sett upp sýningar, hef ég gjarnan fengið allskyns fólk til liðs við mig. Fyrirlesara, tónlistarfólk, börn og unglinga, leikara, ljóðskáld og aðra myndlistamenn. Þannig fæ ég breiðara sjónarhorn á það sem ég er að gera og óvæntir hlutir gerast, eins og fyrir töfra.
Á réttardaginn stefni ég einmitt saman skapandi fólki úr ýmsum greinum sem sameinast undir þessu þjóðlega merki.
Á Réttardeginum verða til sýnis yfir 100 skúlptúrar og lágmyndir unnar á undanförnum árum.
Næstu sýningar eru í Safnasafninu á Svalbarðsströnd,
12. Júlí kl: 14.00.
Boekie Woekie, Amsterdam, Holland, í September.
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Sími: 865-5091 / 462-4981
adalheidur@freyjulundur.is
freyjulundur.is
Menningarráð Eyþings styrkir sýningarnar, Menntamálaráðuneytið, Húsasmiðjan og Ásprent/Stíll.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.