Bæ bæ Ísland opnar í Listasafninu á Akureyri á laugardag

listak_frettir_0208

LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI KYNNIR

Bæ bæ Ísland

Uppgjör við gamalt konsept
Laugardaginn 15. mars nk. verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýningin „BÆ BÆ ÍSLAND” sem er átaksverkefni tuttugu og þriggja myndlistamanna og fjölmargra annarra sem vilja ræða landsins gagn og nauðsynjar með einum eða öðrum hætti. Höfundur verkefnisins og sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni í Listasafninu eru Ásmundur Ásmundsson, Berglind Jóna Hlynsdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson, Erling Þ. V. Klingenberg, Hallgrímur Helgason, Hannes Lárusson, Hlynur Hallsson, Inga Svala Þórðardóttir & Wu Shan Zhuan, Kolbeinn Hugi Höskuldsson, Libia Pérez de Siles de Castro & Ólafur Árni Ólafsson, Magnús Sigurðarson, Ólafur Sveinn Gíslason, Ólöf Nordal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Rúrí, Steingrímur Eyfjörð, Unnar Örn Auðarson & Huginn Þór Arason, Þorvaldur Þorsteinsson og Þórdís Alda Sigurðardóttir.

Sem sjá má er hér smalað saman í öflugan her fólks sem er allt annað en skoðanalaust um „verkefnið Ísland” og hvernig því hefur verið umturnað á síðustu tveimur áratugum. Því Íslandi hefur verið umbylt og í þeirri byltingu eru lykilorðin einkavæðing, kvótakerfi, misskipting, útrás, græðgi, þrælsótti, innflytjendur og stóriðja. Allt gott og blessað en afleiðingin er að nú má segja að landið byggi þrjár þjóðir, þ.e. milljarðamæringar, íslenskt alþýðufólk og innflytjendur.

Heiti verkefnisins, „Bæ bæ Ísland”, vísar í fyrsta lagi til kveðjuhófs eða útfarar um 19. og 20. aldar hugmyndarinnar um Ísland. Það sem í gær var unga Ísland er nú tákn hins liðna. Bless bless (hin kristilega blessun) víkur fyrir hinu ennþá óformlegra bæ bæ og vitnar um leið um það hvernig íslenskan er farin á límingunum. Í öðru lagi hljómar bæ eins og sögnin að kaupa (buy) á ensku og verður því til eins konar undiráróður: „Kaupum kaupum Ísland!” „Bæ bæ Ísland” er þannig uppgjör við hugmyndina um tunguna sem upphaf og endi sögulegrar tilvistar þjóðarinnar, sem og möguleika hennar til að lifa af menningarlega útjöfnun hnattvæðingarinnar.

DSCF0012Verkefninu „Bæ bæ Ísland” tengist fólk sem er óhrætt við að segja meiningu sína í salarkynnum tjáningarfrelsisins. Þetta er fólk sem getur skilgreint sig á báðum vígstöðvum, í hinu gamla sem og hinu nýja, staðbundið og heimsvætt, hvort heldur sem er á sjó eða landi, á leikskólum eða í bönkum. Alvarleiki, sem dottinn er úr tísku, er hér settur á oddinn.

„Bæ bæ Ísland” er einnig uppgjör við atlögu auðmagnsins að landi þjóðarinnar. Ýmsir nútímavæddir „víkingahöfðingjar“ virðast hafa sagt bæ bæ við landið í áþreifanlegri merkingu og fjarstýra nú að miklu leyti efnahagsmálum þjóðarskútunnar utan úr heimi líkt og Danakonungur gerði á sínum tíma. En þegar öllu er á botninn hvolft var það samt ekki kana- eða kommagull sem asninn bar yfir borgarmúrana. Gullið kom úr hirslum okkar sjálfra. Sýningin er eins konar hugmyndafræðileg úför og kveðjuhóf í formi myndlistarsýningar.
Á opnunardegi sýningarinnar kl. 14 verður frumflutt tónverkið „Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands“ í Ketishúsinu á Akureyri, en verkið var unnið í samstarfi myndlistardúósins Libiu Castro og Ólafs Ólafsson og tónskáldsins Karólínu Eiríksdóttur. Libia og Ólafur fóru þess á leit við Karólínu að hún semdi tónverk þar sem allar 81 greinar stjórnarskrárinnar væru sungnar. Verkið er skrifað fyrir tvo einsöngvara, píanó, kontrabassa og blandaðan kór og flytjendur verksins eru: Ingibjörg Guðjónsdóttir (sópran), Bergþór Pálsson (baritón) Tinna Þorsteinsdóttir (píanóleikari), Gunnlaugur Torfi Stefánsson (kontrabassaleikari) og kammerkórinn Hymnódía frá Akureyri undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar.

Föstudaginn 14. mars kl. 15 verður haldið opið málþing um „konseptið Ísland“ í Ketilhúsinu. Ágúst Þór Árnason, Þorvaldur Þorsteinsson og Ósk Vilhjálmsdóttir halda framsöguerindi, en fundarstjóri er Birgir Guðmundsson lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri.

Unnið er að því að gefa út viðamikla bók síðar á árinu þar sem tugir ef ekki hundruð Íslendinga gera upp við gamla konseptið Ísland og fyrirhugað er að halda ráðstefnu undir sama nafni. Bókin er hugsuð sem safnrit og jafnframt nokkurs konar leiðarvísir. Í henni verður m.a. tekið á bankakerfinu, þjóðarímyndinni, útlendingum á Íslandi, fjölmiðlum, stóriðju- og náttúruverndarsjónarmiðum og siðferði í stjórnmálum, auk þess sem þar verður einnig að finna umfjöllun um framlag listamannanna á sýningunni og myndir af verkum þeirra.

Ítarlegar upplýsingar um listamennina og inntak sýningarinnar er að finna á vefsíðu Listasafnsins: www.listasafn.akureyri.is. Frekari upplýsingar veitir forstöðumaður safnsins, Hannes Sigurðsson, í síma 899-3386 (netfang: hannes@art.is).

Þess má að lokum geta að ekkert fyrirtæki treysti sér til að styrkja verkefnið, sem segir ef til vill sína sögu. Sýningunni lýkur 11. maí og er safnið opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband