20.12.2007 | 09:10
Sæunn Þorsteinsdóttir sýnir málverk á Bókasafni Háskólans á Akureyri
Sæunn Þorsteinsdóttir opnaði málverkasýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri laugardaginn 15. desember. Sýningin mun standa til 19. janúar.
Sæunn er fædd 15. mars 1967. Hún stundaði nám í pappírsgerð og vinnu með pappír sem listform við Penland school of arts í Bandaríkjunum árin 1987 og 1988 og sömu ár stundaði hún nám í módelteikningu við Myndlistaskólann í Reykjavík. 1988-1993 var Sæunn við nám í textíldeild Myndlista - og handíðaskóla Íslands. Kennaraprófi lauk hún frá Háskólanum á Akureyri árið 2005 og fór á námskeið í sýningarhönnun og safnagerð á Háskólasetri Vestfjarða árið 2006.
Sæunn hefur tekið þátt í ýmsum samsýningum í Reykjavík og einnig textílsýningu í Bergen í Noregi.
Auk þess að starfa við eigin listsköpun hefur hún m.a. kennt mynd- , hand- og tónmennt á Akureyri, Vogunum og í Bandaríkjunum, unnið á Minjasafninu á Akureyri og rekið listmunagallerýið Gallerý Listakot í Reykjavík.
Á sýningu Sæunnar eru myndir málaðar á árunum 2006 - 2007. Þetta eru akrílmyndir málaðar á striga og tré, svo og smámyndir unnar með blandaðri tækni. Myndirnar eru unnar útfrá hringformum sem sjást gjarnan í gömlum útskurði.
Bókasafn Háskólans á Akureyri er opið alla virka daga frá 8:00 - 18:00 og á laugardögum frá 12:00 - 15:00. Á milli jóla - og nýárs er safnið opið frá kl. 8-16
Meginflokkur: Menning og listir | Aukaflokkur: Menntun og skóli | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.