Gjörningadagskrá og opnun á föstudaginn langa í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

29496877_10211045414588069_4756024368708976640_n


Alþýðuhúsið á Siglufirði,
Föstudaginn langa 2018
30. mars kl. 14.00 – 17.00.

Árlega er efnt til gjörningahátíðar á Föstudaginn langa í Alþýðuhúsinu á Siglufirði við mikinn fögnuð gesta.  Þar hafa bæði ungir og eldri listamenn stigið á stokk, og alltaf mikið lagt í. Þar má nefna listamenn eins og Magnús Pálsson, Örnu Guðný Valsdóttir, Arnljót Sigurðsson og Gjörningaklúbbinn.  Hátíðin hefur alltaf verið einstaklega vel sótt og færri komist að en vildu.  Samhliða gjörningahátíðinni er ávallt opnuð sýning í Kompunni sem stendur svo næstu vikur. Í ár er það Karlotta Blöndal sem sýnir Nýjar teikningar fyrir Alþýðuhúsið.
Gjörningarnir sem fluttir verða nú eru Homage to 7 Masters, höfundur og flytjandi er Magnús Logi Kristinsson.  REM, höfundar og flytjendur eru Mads Hvidkjær Binderup, Sonja Ferdinand og Anna Oline Frieboe Laumark.  Og BLÓÐSÓL,
höfundar og flytjendur eru Haraldur Jónsson og Ásta Fanney Sigurðardóttir.Kompan
kl. 14.00.

Nýjar teikningar fyrir Alþýðuhúsið
Karlotta Blöndal.
Karlotta Blöndal útskrifaðist úr mastersnámi í myndlist úr Listaháskólanum í Malmö 2002 og hefur verið starfandi síðan. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum og listahátíðum hér á landi og erlendis. Hún hefur dvalið í ýmsum löndum í vinnustofu, staðið fyrir listamannareknum sýningarrýmum og útgáfu. Hún býr og starfar í Reykjavík. Verk hennar spannar ýmsa miðla, allt frá teikningum, umhversfislistar og gjörninga til samstarfsmyndlistar og bókverka.
Fyrst og fremst ríkir hamingja og lífsgleði í stað taugaveiklunar, þreytu og meltingartruflana. Sú vinna, sem leyst yrði af hendi, nægði til að gera frístundir yndislegar en ylli ekki ofþreytu. Þar sem fólk yrði ekki þreytt í frístundum sínum færi það ekki aðeins fram á óvirkar og innantómar skemmtanir. Að minnsta kosti eitt prósent fólks myndi líklega nota tímann til að sinna verkefnum í almannaþágu og þar sem það þyrfti ekki að reiða sig á að vinna sér til viðurværis, þá væri frumleika þess ekki settar neinar hömlur og það væri ekki nauðsynlegt að laga sig að viðmiðum eldri beturvita. En það er ekki aðeins í þessum undantekningartilvikum að kostir frístunda koma í ljós. Þegar venjulegt fólk, karlar og konur, fær tækifæri til að njóta hamingjuríks lífs, þá verður það vingjarnlegra og ólíklegra til að ofsækja aðra eða tortryggja. Lystin á stríðsrekstri dæi út, að hluta til af þessum sökum, og að hluta til vegna þess að það kallar á mikla og erfiða vinnu frá öllum. Af öllum siðferðilegum eiginleikum er góðlyndi sá sem heimurinn þarfnast mest, og góðlyndi er afleiðing vellíðunar og öryggis, ekki erfiðrar lífsbaráttu. Framleiðsluaðferðir nútímans hafa gefið okkur möguleika á vellíðan og öryggi fyrir alla; við höfum valið, þess í stað, að hafa of mikla vinnu fyrir suma á meðan aðrir svelta. Hingað til höfum við haldið áfram af sama krafti eins og við gerðum þegar það voru engar vélar; að þessu leyti höfum við verið kjánar, en það er engin ástæða til að vera kjáni að eilífu.
Brot úr ritgerðinni Lof iðjuleysisins eftir Bertrand Russell, 1932.
Gauti Kristmannsson þýddi.Gjörningar


kl. 15.00.

Homage to 7 Masters

Magnús Logi Kristinsson.

Magnús Logi flytur verkið Homage to 7 Masters, en verkið var fyrst sýnt á Reina Sofia safninu í Madrid.

Líkami og orð umbreytast í hlutgerð form í gjörningi Magnúsar Loga. Reglulegur hrynjandi í upplestri margbreytilegra lista gerir textann bæði að concrete ljóði og tónlist, en á meðan er hugmynd um líkamlega nærveru ögrað með nánast algerri kyrrstöðu.kl. 15.40

REM

Mads Hvidkjær Binderup, Sonja Ferdinand og Anna Oline Frieboe Laumark.

Í hljóðmyndinni REM er myndmál drauma útgangspunktur skoðunar á ástandinu "draumur" sem svörun við umheiminum. Áhorfendum er boðið í umvefjandi ferðalag þar sem brot úr persónulegum draumum umbreytast í sameiginlega upplifun.kl. 16.00 – 16.20
Kaffihlé


Kl. 16.20

BLÓÐSÓL.

Haraldur Jónsson og Ásta Fanney Sigurðardóttir.

BLÓÐSÓL er tilraun til að varpa ljósi á róf athafna, orða og mynda í tilbúnum aðstæðum. BLÓÐSÓL lýsir upp síkvikar væntingar mannsins þar sem þátttakendur eru í senn áhorfendur, viðfangsefni og hvorugt.                
Höfundar verksins eru listamennirnir Haraldur Jónsson og Ásta Fanney Sigurðardóttir. Þau beita ýmsum miðlum í listsköpun sinni og eiga það sameiginlegt að vinna á mörkum myndar og tungu þar sem þau vefa oftar en ekki verk sín úr andrúmslofti staðhátta (genius loci).« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband