Nautn / Conspiracy of Pleasure, opnun og listamannaspjall í Listasafninu á Akureyri

13339728_1141961475825693_9058573451284603234_n

Laugardaginn 11. júní kl. 15 verður opnuð sýningin Nautn / Conspiracy of Pleasure í Listasafninu á Akureyri. Hin ýmsu lögmál og birtingarmyndir nautnar eru útgangspunktur sýningarinnar. Sex listamenn sýna ný verk þar sem þeir fjalla um hugtakið, hver frá sínu sjónarhorni og forsendum, og efna til orðræðu um hlutverk nautnar í heimspekilegu, listrænu og veraldlegu samhengi. Í verkunum má sjá þráhyggjukenndar birtingarmyndir neysluhyggju og kynlífs í samtímanum, holdið í myndlistinni, mannslíkamann sem táknrænt fyrirbæri og innblástur eða einfaldlega hina frumstæðu nautn sem oft fylgir listsköpun, glímunni við efni og áferð, áráttu og blæti.

Hvar liggja mörkin á milli þess að leggja eðlilega og manneskjulega rækt við unað og ánægju annars vegar og hins vegar þess að gangast þessum eiginleikum hömlulaust á vald? Hvenær verður eitthvað að blæti? Hver er munurinn á munúð og ofgnótt, erótík og klámi, fegurð og kitsch, löngun og fíkn, metnaði og græðgi, háleitum markmiðum og firru? Og hver hefur vald til að setja fram þessar skilgreiningar?

Listamenn: Anna Hallin, Birgir Sigurðsson, Eygló Harðardóttir, Guðný Kristmannsdóttir, Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Jóhann Ludwig Torfason.

Sýningarstjórar: Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, og Inga Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Árnesinga.

Í tilefni sýningarinnar kemur út sýningarskrá með texta eftir Markús Þór Andrésson. Á opnun mun Birgir Sigurðsson flytja dansgjörning kl. 16 og daginn eftir, sunnudaginn 12. júní, kl. 15-16 verður listamannaspjall um sýninguna.

Sýningin stendur til 21. ágúst og verður opin daglega kl. 10-17. Hún verður einnig sett upp í Listasafni Árnesinga í Hveragerði í byrjun árs 2017.

Leiðsögn um sýningar Listasafnsins á Akureyri er alla fimmtudaga kl. 12.15-12.45.

http://www.listak.is

https://www.facebook.com/events/1374289085920752


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband